Hvernig varð þrenningarkenningin til?
Hvernig varð þrenningarkenningin til?
ÞEGAR hér er komið sögu er eðlilegt að spyrja hvernig þrenningarkenningin hafi orðið viðurkennd trúarsetning í kristna heiminum ef hún er ekki sótt í Biblíuna. Margir telja að hún hafi verið samin á kirkjuþinginu í Níkeu árið 325.
Það er þó ekki alls kostar rétt. Níkeuþingið hélt því að vísu fram að Kristur væri af sömu veru og Guð sem lagði grundvöllinn að þrenningarguðfræðinni sem síðar varð til, en þrenningarkenningin varð ekki fullmótuð þar því að heilagur andi var ekki nefndur sem þriðja persóna þríeins guðs.
Áhrif Konstantínusar í Níkeu
Um árabil hafði sú hugmynd átt vaxandi fylgi að fagna að Jesús væri Guð, en hún hafði einnig mætt harðri andstöðu. Konstantínus keisari í Róm kallaði alla biskupa saman til þings í Níkeu í því skyni að leysa deiluna. Aðeins um 300 biskupar komu til fundarins, en flestir sátu heima.
Konstantínus var ekki kristinn. Svo er sagt að hann hafi snúist til trúar síðar á ævinni en hann var ekki skírður fyrr en á banabeðinu. Henry Chadwick segir um hann í bókinni The Early Church: „Konstantínus tilbað hina ósigruðu sól, líkt og faðir hans. . . . Ekki má túlka trúhvarf hans sem innri reynslu náðarinnar . . . Hún var herbragð. Skilningur hans á kristinni kenningu var aldrei sérlega skýr, en hann var viss um að sigur í hernaði væri gjöf frá Guði kristinna manna.“
Hvaða hlutverki gegndi þessi óskírði keisari á kirkjuþinginu í Níkeu? Encyclopædia Britannica segir svo frá: „Sjálfur var Konstantínus forseti þingsins, stýrði umræðum og lagði persónulega fram . . . hina örlagaríku tillögu um samband Krists við Guð er þingið gaf síðan út sem trúarsetningu, þess efnis að hann væri ‚af sömu veru og faðirinn.‘ . . . Sökum ægivalds keisarans undirrituðu biskuparnir, aðeins að tveim undanskildum, hina nýju kennisetningu, margir mjög gegn vilja sínum.“
Konstantínus hafði því úrslitaáhrif á afstöðu þingsins. Eftir tveggja mánaða harðvítugar deilur skarst þessi heiðni stjórnmálamaður í leikinn og úrskurðaði þeim í vil sem sögðu að Jesús væri Guð. En hvers vegna? Ekki var það vegna nokkurrar biblíulegrar sannfæringar. Í reynd hafði „Konstantínus alls engan skilning á þeim spurningum sem verið var að spyrja í grískri guðfræði,“ segir bókin A Short History of Christian Doctrine. Það sem hann skildi var að trúarsundrung ógnaði ríki hans og hann vildi treysta völd sín.
Enginn af biskupunum hélt þó fram þrenningarkenningu. Þeir skilgreindu einungis eðli Jesú en ekki hlutverk heilags anda. Hefðu þeir ekki átt að leggja fram þrenningarkenninguna á þeim tíma ef hún hefði verið skýr kenning Biblíunnar?
Frekari þróun
Deilurnar héldu áfram um áratuga skeið eftir þingið í Níkeu. Þeir sem álitu að Jesús væri ekki jafn Guði voru jafnvel í náðinni hjá keisaranum um hríð. En síðar tók Þeódósíus keisari afstöðu gegn þeim. Hann ákvað að trúarsetning Níkeuþingsins væri gildandi staðall í öllu ríki sínu og kallaði saman kirkjuþing í Konstantínópel árið 381 til að koma trúarsetningunni skýrar á framfæri.
Þetta kirkjuþing féllst á að gera heilögum anda jafnhátt undir höfði og Guði og Kristi. Núna var þrenningarkenning kristna heimsins fyrst farin að taka á sig mynd.
En jafnvel eftir kirkjuþingið í Konstantínópel naut þrenningarkenningin ekki almennrar viðurkenningar. Margir voru henni andvígir og
kölluðu með því yfir sig grimmilegar ofsóknir. Ekki fyrr en öldum síðar var þrenningarkenningin sett fram í fastmótuðum trúarsetningum. The Encyclopedia Americana segir: „Þrenningarkenningin fullmótaðist í vestri, í skólaspeki miðalda þegar reynt var að skýra hana heimspekilega og sálfræðilega.“Aþanasíusarjátningin
Þrenningin var skilgreind nánar í Aþanasíusarjátningunni. Aþanasíus var biskup sem studdi Konstantínus í Níkeu. Trúarjátningin, sem ber nafn hans, hljóðar að hluta til svo: „Vér heiðrum einn Guð í þrenningu . . . faðirinn [er] Guð, sonurinn Guð, heilagur andi Guð, og samt eru ekki þrír guðir, heldur einn Guð.“
Upplýstir fræðimenn viðurkenna þó að Aþanasíus hafi ekki samið þessa trúarjátningu. The New Encyclopædia Britannica segir: „Trúarjátningin var óþekkt í austurkirkjunni fram á 12. öld. Frá 17. öld hafa fræðimenn almennt verið sammála um að Aþanasíus (dáinn 373) hafi ekki samið Aþanasíusarjátninguna, heldur hafi hún sennilega verið samin í Suður-Frakklandi á 5. öld. . . . Áhrifa trúarjátningarinnar virðist hafa gætt sérstaklega í suðurhluta Frakklands og á Spáni á 6. og 7. öld. Hún var notuð í messuformi kirkjunnar í Þýskalandi á 9. öld og nokkru síðar í Róm.“
Þrenningarkenningin öðlaðist þannig ekki almenna viðurkenningu innan kristna heimsins fyrr en mörgum öldum eftir daga Krists. Og hvað réði þeim ákvörðunum sem teknar voru? Var það orð Guðs eða voru það skoðanir presta og stjórnmálamanna? E. W. Hopkins svarar í bók sinni Origin and Evolution of Religion: „Hin endanlega, hefðbundna skilgreining þrenningarkenningarinnar réðist fyrst og fremst af kirkjupólitík.“
Fráhvarfið sagt fyrir
Þessi miður fagra saga þrenningarkenningarinnar kemur vel heim og saman við það sem Jesús og postular hans sögðu myndu gerast eftir sinn dag. Þeir sögðu að verða myndi mikið fráhvarf frá sannri guðsdýrkun uns Kristur sneri aftur, en þá yrði sönn tilbeiðsla endurvakin áður en Guð myndi tortíma þessu heimskerfi. Um þann tíma sagði Páll postuli: „Ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst og maður syndarinnar birtist.“ (2. Þessaloníkubréf 2:3, 7) Síðar sagði hann fyrir: „Ég veit, að skæðir vargar munu koma inn á yður, þegar ég er farinn, og eigi þyrma hjörðinni. Og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“ (Postulasagan 20:29, 30) Aðrir lærisveinar Jesú skrifuðu einnig um þetta fráhvarf með sinni ‚löglausu‘ klerkastétt. — Sjá til dæmis 2. Pétursbréf 2:1; 1. Jóhannesarbréf 4:1-3; Júdasarbréfið 3, 4.
Páll skrifaði enn fremur: „Þann tíma mun að bera, er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur hópa þeir að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það, sem kitlar eyrun. Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að ævintýrum.“ — 2. Tímóteusarbréf 4:3, 4.
Jesús útskýrði hvað liggja myndi að baki þessu fráhvarfi frá sannri guðsdýrkun. Hann sagðist hafa sáð góðu sæði en óvinur hans, Satan, myndi sá illgresi í sama akur. Þannig myndi spretta upp illgresi um leið og fyrstu hveitigrösin skytu upp kollinum. Því mátti reikna með fráhvarfi frá hreinni kristni allt fram til uppskerutímans er Kristur myndi færa hlutina aftur í rétt horf. (Matteus 13:24-43) The Encyclopedia Americana segir: „Þrenningartrú fjórðu aldar endurspeglaði ekki nákvæmlega kenningu frumkristinna manna um eðli Guðs; hún var þvert á móti frávik frá þeirri kenningu.“ Hver var þá kveikja þessa fráviks? — 1. Tímóteusarbréf 1:6.
Þaðan komu áhrifin
Í heimi fornaldar höfðu menn vanist því, allt frá dögum Forn-Babýlonar, að dýrka guði sína þrjá og þrjá saman. Þeirra áhrifa gætti einnig mjög í Egyptalandi, Grikklandi og Róm á öldunum fyrir og eftir fæðingu Krists. Eftir dauða postulanna byrjuðu slíkar heiðnar hugmyndir að þrengja sér inn í kristnina.
Sagnfræðingurinn Will Durant segir: „Kristnin gerði ekki út af við heiðnina; hún innlimaði hana. . . . Hugmyndin um guðlega þrenningu kom frá Egyptalandi.“ Og í bókinni Egyptian Religion segir Siegfried Morenz: „Guðfræðingar Egypta lögðu mikið upp úr þrenningarhugmyndinni . . . Þrír guðir voru sameinaðir og skoðaðir sem einn og ávarpaðir í eintölu. Þannig birtast bein tengsl milli kristinnar guðfræði og hins andlega kraftar í trú Egypta.“
Kirkjuleiðtogar, sem bjuggu í Alexandríu í lok þriðju og byrjun fjórðu aldar, til dæmis Aþanasíus, endurspegluðu þessi áhrif er þeir settu fram hugmyndir sínar sem voru undanfari þrenningarkenningarinnar. Áhrif þeirra urðu slík að Siegfried Morenz telur „guðfræði Alexandríu tengiliðinn milli trúararfleifðar Egypta og kristninnar.“
Í formálsorðum verksins History of Christianity eftir Edward Gibbon lesum við: „Ef kristnin sigraði heiðnina má með jafnmiklum sanni segja að heiðnin hafi spillt kristninni. Kirkjan í Róm breytti hinni hreinu eingyðistrú frumkristinna manna . . . í óskiljanlega þrenningarkenningu. Mörgum af trúarsetningum heiðingja, sem Egyptar fundu upp og Platon færði í heimspekibúning, var haldið eftir sem átrúnaðarverðum.“
A Dictionary of Religious Knowledge lætur þess getið að margir segi þrenningarkenninguna „afbökun sem tekin er að láni frá heiðnum trúarbrögðum og grædd á kristna trú.“ Og The Paganism In Our Christianity lýsir yfir: „Þrenningarkenningin er alheiðin að uppruna.“
Því segir James Hastings í fræðiritinu Encyclopædia of Religion and Ethics: „Í indverskri trú t.d. rekumst við á þrenningu Brahma, Siva og Visnu, og í egypskri trú á þrenningu Ósiris, Ísis og Hórusar . . . En það er ekki aðeins í hefðbundnum trúarbrögðum sögunnar sem Guð er skynjaður sem þrenning. Sérstaklega kemur okkur í hug hið nýplatonska viðhorf á hinum hæsta eða æðsta veruleika“ sem „birtist í mynd þrenningar.“ Hvernig tengist gríski heimspekingurinn Platon þrenningarkenningunni?
Platonisminn
Platon er talinn hafa verið uppi á árabilinu 428 til 347 fyrir Krist. Þótt hann hafi ekki haldið fram þrenningarkenningunni í sinni núverandi mynd greiddi heimspeki hans götu hennar. Eftir hans daga komu fram heimspekihugmyndir sem gerðu ráð fyrir þrenningu, og þær urðu fyrir áhrifum af hugmyndum Platons um Guð og náttúruna.
Franska uppsláttarritið Nouveau Dictionnaire Universel segir um áhrif Platons: „Þrenning Platons, sem var einungis ný uppröðun eldri þrenninga fyrri tíðar manna, virðist vera hin rökrétta, heimspekilega þrenning eiginda sem fæddi hinar þrjár guðlegu persónur sem kristnar kirkjur kenna. . . . Finna má hugmynd þessa gríska heimspekings um guðlega þrenningu . . . í öllum [heiðnum] trúarbrögðum fortíðar.“
The New Schaff-Herzog Encyclopedia of Religious Knowledge bendir á hvílík áhrif þessi gríska heimspeki hefur haft: „Kennisetningarnar um Logos og þrenninguna sóttu form sitt til hinna grísku kirkjufeðra sem . . . voru undir sterkum, beinum eða óbeinum, áhrifum heimspeki Platons . . . Því verður ekki neitað að villur og rangar kenningar komu inn í kirkjuna eftir þeirri leið.“
The Church of the First Three Centuries segir: „Þrenningarkenningin mótaðist hægt og hægt og kom tiltölulega seint fram á sjónarsviðið. . . . Efniviður hennar er sóttur úr allt annarri átt en efniviður ritninga Gyðinga og kristinna manna, . . . hún þroskaðist og var grædd á kristnina fyrir handleiðslu kirkjufeðranna sem voru undir áhrifum platonismans.“
Við lok þriðju aldar okkar tímatals voru „kristnin“ og hin nýplatonska heimspeki orðin bundin órjúfanlegum böndum. Eins og Adolf Harnack kemst að orði í Outlines of the History of Dogma varð kenning kirkjunnar „rótfest í jarðvegi hellenismans [heiðinnar, grískrar heimspeki og viðhorfa]. Þannig varð hún leyndardómur fyrir þorra kristinna manna.“
Kirkjan staðhæfði að hinar nýju kenningar hennar væru byggðar á Biblíunni en Harnack segir: „Í rauninni lögfestu þær hellenskar vangaveltur og hjátrúarhugmyndir og -athafnir heiðinna dultrúarbragða.“
Andrews Norton segir um þrenninguna í bók sinni A Statement of Reasons: „Við getum rakið feril þessarar kennisetningar til uppruna síns sem er ekki kristin opinberun heldur heimspeki Platons . . . Þrenningin er ekki kenning Krists og postula hans heldur hugarfóstur skóla síðplatonista.“
Þannig náði fráhvarfið, sem Jesús og postular hans höfðu sagt fyrir, fullum blóma á fjórðu öld. Tilkoma þrenningarkenningarinnar var aðeins eitt merki þess. Hinar trúvilltu kirkjudeildir fóru að taka upp á arma sína ýmsar aðrar, heiðnar hugmyndir, svo sem kenninguna um brennandi helvíti, ódauðleika sálarinnar og skurðgoðadýrkun. Andlega séð voru runnar upp hinar myrku aldir kristna heimsins, sem spáð hafði verið, undir ægivaldi vaxandi ‚lögleysingja‘ eins og klerkastéttin er nefnd. — 2. Þessaloníkubréf 2:3, 7, neðanmáls.
Hvers vegna kenndu spámenn Guðs hana ekki?
Hvers vegna fræddi enginn af spámönnum Guðs þjóð sína um þrenninguna um þúsundir ára? Jesús hefði að minnsta kosti átt að nota hæfileika sína sem kennarinn mikli til að opinbera fylgjendum sínum þrenninguna. Er hægt að ímynda sér að Guð myndi innblása ritun hundruða ritningasíðna án þess að veita nokkurs staðar minnstu innsýn í þrenninguna, ef hún var „höfuðkenning“ trúarinnar?
Eiga kristnir menn að trúa því að Guð hafi, mörgum öldum eftir að Kristur var uppi og ritun Biblíunnar lauk, stutt mótun trúarsetningar sem þjónar hans þekktu ekki um þúsundir ára, trúarsetningar sem er „órannsakanlegur leyndardómur“ og „ofvaxin mannlegum skilningi,“ kenningar sem viðurkennt er að sé af heiðnum uppruna og var tekin upp ‚aðallega vegna kirkjupólitíkur‘?
Vitnisburður sögunnar er skýr og greinilegur: Þrenningarkenningin er frávik frá sannleikanum, fráhvarf frá sannri trú.
[Rammi á blaðsíðu 8]
‚Þrenningartrú fjórðu aldar var frávik frá kenningu frumkristninnar.‘ — The Encyclopedia Americana.
[Rammi á blaðsíðu 9]
‚Þrenning guðanna miklu‘
Mörgum öldum fyrir daga Krists voru tignaðar guðaþrenningar í Babýloníu og Assýríu fortíðar. Franska alfræðibókin „Larousse Encyclopedia of Mythology“ nefnir eina slíka þrenningu sem dýrkuð var í Mesópótamíu: „Alheiminum var skipt í þrjú svæði og réð einn guð yfir hverju þeirra. Anu fékk himininn. Jörðin var gefin Enlil. Ea varð drottnari vatnanna. Samanlagt mynduðu þeir þrenningu guðanna miklu.“
[Rammi á blaðsíðu 12]
Hindúaþrenning
Bókin „The Symbolism of Hindu Gods and Rituals“ segir um þrenningu úr hindúatrú sem til var öldum fyrir daga Krists: „Siva er einn af guðum þrenningarinnar. Hann er sagður vera guð eyðingar. Hinir tveir guðirnir eru Brahma, guð sköpunar, og Visnu, guð varðveislu. . . . Til að lýsa því að þessi þrjú öfl séu einn og sami guðinn eru guðirnir þrír sameinaðir í eitt form.“ — Gefið út af A. Parthasarathy í Bombay.
[Mynd á blaðsíðu 8]
„Í reynd hafði Konstantínus alls engan skilning á þeim spurningum sem verið var að spyrja í grískri guðfræði.“ — A Short History of Christian Doctrine.
[Myndir á blaðsíðu 10]
1. Egyptaland. Þrenningin Hórus, Ósiris og Ísis frá 2. árþúsund f.o.t.
2. Babýlon. Þrenningin Ístar, Sin og Samas, 2. árþúsund f.o.t.
3. Palmýra. Þrenning tunglguðsins, drottins himnanna og sólguðsins frá því um 1. öld okkar tímatals.
4. Indland. Guðaþrenning úr hindúatrú frá um 7. öld okkar tímatals.
5. Kambódía. Guðaþrenning úr búddatrú frá því um 12. öld.
6. Noregur. Þrenning (faðir, sonur og heilagur andi) frá því um 13. öld.
7. Frakkland. Þrenning frá því um 14. öld.
8. Ítalía. Þrenning frá því um 15. öld.
9. Þýskaland. Þrenning frá 19. öld.
10. Þýskaland. Þrenning frá 20. öld.