Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Edengarður endurreistur — um allan heim

Edengarður endurreistur — um allan heim

21. kafli

Edengarður endurreistur — um allan heim

1. (a) Sem hvað verður Edengarður endurreistur og hvers vegna mun hann ekki ná einungis yfir takmarkaðan hluta jarðar? (b) Hvað gefa orð Jesú við illvirkjann til kynna?

 EDENGARÐUR var „paradís unaðarins“ og verður endurreistur sem slíkur. (1. Mósebók 2:8, Douay-þýðingin) Hin upphaflega paradís náði yfir takmarkað svæði, en Jehóva ætlaðist til að vaxandi mannkyn stækkaði hana í allar áttir þar til paradís næði um allan hnöttinn með sinni unaðslegu náttúrufegurð. (1. Mósebók 1:26-28; 2:8, 9, 15) Orð Jesú við hinn samúðarfulla illvirkja, sem dó við hlið hans á Hauskúpuhæð, fullvissuðu manninn um að hann fengi upprisu þegar endurreisn paradísar væri komin vel á veg, og þá mun hann sjá hvílíkri breytingu jörðin hefur tekið. (Lúkas 23:43) Hvernig verður endurreist paradís? Að hvaða leyti verður hún ólík hinum upprunalega Edengarði?

2. (a) Hvað var í hinum upphaflega Edengarði sem ekki verður í heimsparadísinni? (b) Hvers vegna er óhugsandi að Guð muni nota einstakt tré til að reyna hlýðni manna?

2 Í hinum hrífandi spádómum um þær dásemdir, sem framundan eru, sjáum við vanta eitthvað sem var í paradís fortíðar. Hvað er það? Það er ‚skilningstréðs góðs og ills‘ sem stóð „í miðjum aldingarðinum.“ (1. Mósebók 2:17; 3:3) Hér var greinilega um eitt tré að ræða. Óhugsandi er að í Miðausturlöndum, mitt í hinni endurreistu paradís um allan hnöttinn, muni standa eitt tré sem Guð bannar mönnum að snerta. Það myndi kosta fólk óralanga ferð frá fjarlægum heimshornum að nálgast tréð til að hafa möguleika á að eta ávöxtinn og óhlýðnast hinum hæsta Guði.

3. Hvað verður ekki heldur í endurreistri paradís?

3 Þar verður ekki heldur talandi höggormur er býður þeim sem nálgast tréð að bragða á girnilegum ávexti þess, vegna einskærrar andstöðu við boð Guðs. Þar verður enginn ósýnilegur, illur andi til að stýra höggormi líkt og hann sé að tala, og bjóða hverjum sem sér tréð að gera uppreisn gegn skaparanum og óhlýðnast honum með hörmulegum afleiðingum.

4. Hvers vegna mun Satan djöfullinn ekki leika lausum hala í þúsundáraríki Friðarhöfðingjans?

4 Nei, hin ósýnilega andavera, sem var að baki höggorminum „talandi“ í Edengarðinum, leikur ekki lausum hala í þúsundáraríki Friðarhöfðingjans, Krists Jesú. Þessi vondi engill, Satan djöfullinn, verður sviptur frelsi sínu eftir Harmagedón. Opinberunarbókin 20:2, 3 segir að Friðarhöfðinginn muni grípa „þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan,“ fjötra hann og kasta í undirdjúp í þúsund ár.

Sannur friður og öryggi í endurreistri paradís

5. Hvers vegna mun ríkja sannur friður og öryggi um alla jörðina í endurreistri paradís?

5 Þetta mun hafa í för með sér frið og öryggi sem er engu öðru líkt. Satan mun ekki lengur hafa áhrif á og drottna yfir mannkyninu eins og „höfðingi heimsins.“ (Jóhannes 14:30) Með því að djöflasveitum Satans er líka kastað í undirdjúp verður jörðin loks laus við spíritisma, dulspeki og svartagaldur — já, hverja einustu mynd djöfladýrkunar sem Jehóva fyrirlítur. — 5. Mósebók 18:10-12.

6, 7. (a) Hvers vegna munu dýrin ekki ógna mönnum? (b) Hvaða spádómur um þetta mun rætast bókstaflega?

6 Dýrin munu ekki skaða eða ógna þeim sem búa í endurreistri paradís. Guð mun láta þessa óæðri sköpun fá á ný hvern þann ótta við manninn sem hún hefur misst. Því getum við vænst að sjá rætast bókstaflega í þúsundáraríki Friðarhöfðingjans þá hrífandi lýsingu á dýralífinu sem er að finna í Jesaja 11:6-9:

7 „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli höggormsins. Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er fullt af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“

8. Hvað er átt við með því að „moldin“ verði fæða höggormsins?

8 Guð væri ekki sjálfum sér samkvæmur ef hann innblési mönnum slíkan spádóm sem hefði aðeins andlega þýðingu og ætti ekki að uppfyllast bókstaflega á jörðinni. Í hliðstæðum spádómi í Jesaja 65:25 segir: „Úlfur og lamb munu vera saman á beit, og ljónið mun hey eta sem naut, en moldin skal vera fæða höggormsins.“ Þýðir þetta að snákum, slöngum og höggormum verði útrýmt úr Edengarði jarðarinnar? Nei, þau spádómsorð að „moldin“ skuli verða fæða höggormsins merkja að skriðdýr munu aldrei framar ógna lífi og heilsu manna. Þau verða að lúta mannkyninu sem herra yfir öllu sem hreyfist á jörðinni, alveg eins og Adam var herra Edengarðsins þegar hann gaf dýrunum nöfn án þess að hafa nokkuð að óttast. — 1. Mósebók 2:19, 20; Hósea 2:18.

9, 10. Hvað segja Sálmur 65 og Jesaja 25:6 fyrir um jörðina undir stjórn Friðarhöfðingjans?

9 Fegurð og frjósemi Edengarðsins um allan heim verður meiri en orð fá lýst. Þó gefur Biblían okkur spádómslýsingu á honum í 65. sálminum þar sem Guð er ávarpaður. Þar segir meðal annars: „Þú hefir vitjað landsins og vökvað það, blessað það ríkulega með læk Guðs, fullum af vatni, þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði.“ Þar verða ekki þurrkar heldur ríkulegar ‚regnskúrir.‘ (Sálmur 65:2, 10-14) Gnægð matar verður fyrir alla jarðarbúa.

10 Þessari gnægð er líka lýst í spádómi í Jesaja 25:6: „[Jehóva] allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni.“ Búendur endurreistrar paradísar munu neyta mergjaðra krása sem næra hjartað og gera andlitið gljáandi. Þeir munu drekka vel þroskað vín sem gleður hjartað. (Sálmur 104:14, 15) Í þúsundáraríki Friðarhöfðingjans verður aldrei matvælaskortur heldur „gnóttir“ alls! — Sálmur 72:16.

Breytt tungumál og veðurfar

11. Hvaða breytingu mun tungumál manna taka og hvaða áhrif hefur það á mannkynið?

11 Munu alls kyns, ólík tungumál valda ringulreið í heimsparadísinni? Nei, því að Friðarhöfðinginn er líka nefndur „Guðhetja.“ (Jesaja 9:6) Hann er því fær um að snúa við tungumálaruglingnum sem hófst við Babelturninn. (1. Mósebók 11:6-9) Hvaða tungumál munu öll jarðnesk börn Eilífðarföðurins tala? Verður það frumtungumál hins fyrri Adams, það tungumál sem Jehóva gaf honum? Sennilega. Að minnsta kosti verða allir tungumálamúrar brotnir niður. Þú munt geta farið hvert sem er og talað við fólk hvar sem er. Þú munt skilja það og það mun skilja þig. Allt mannkynið mun tala eitt tungumál, og vel væri við hæfi að öll Biblían yrði fáanleg á því tungumáli. (Samanber Sefanía 3:9.) Á því tungumáli mun öll jörðin fyllast þekkingu á Jehóva „eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ — Jesaja 11:9.

12. Hvernig mun Sakaría 14:9 rætast?

12 Þá munu rætast orð Sakaría 14:9: „Á þeim degi mun [Jehóva] vera einn og nafn hans eitt.“ Jehóva einn verður tilbeðinn sem hinn eini sanni Guð. Á „þeim degi“ ríkis Jehóva í höndum Friðarhöfðingjans mun Guð opinbera nákvæmlega réttan framburð nafns síns. Þá munu allir jarðarbúar bera hið heilaga nafn hans eins fram. Nafn hans verður eitt.

13. Hvers vegna munu veður, vindar og vötn ekki ógna jarðarbúum?

13 Þeir sem bíða heimsparadísar Friðarhöfðingjans með eftirvæntingu eru líka spenntir að vita hvaða breytingum veðurfar og umhverfi munu taka. Eitt er víst: Hvar sem menn búa á jörðinni verður hún unaðslegur dvalarstaður. Fárviðri, fellibylir og flóðbylgjur munu aldrei spilla friði paradísar. Vindar, vötn og veður munu hlýða Friðarhöfðingjanum. (Markús 4:37-41) Um allan hnöttinn verður veðrinu stjórnað svo sem best má verða. Öll jörðin verður fögur paradís unaðarins þar sem allt mannkyn nýtur þeirra sérréttinda að búa öruggt um alla eilífð.

14, 15. (a) Hvaða fyrirheit skráð í Opinberunarbókinni 21:3, 4 mun uppfyllast? (b) Í hvaða skilningi verður „tjaldbúð“ Guðs meðal manna? (c) Hvers konar tár verða þerruð að eilífu?

14 Enginn mun þá þurfa að tárfella af sorg. Spádómsorð Jehóva fullvissar okkur: „Tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.

15 Himinninn er hásæti Guðs og jörðin fótskör hans. (Jesaja 66:1) Guð getur því ekki búið bókstaflega á jörðinni. Samt sem áður verður tjaldbúð hans meðal mannanna. Í þúsundáraríkinu mun Jehóva búa meðal mannanna í gegnum dýrlega gerðan son sinn, Jesú Krist. Það er vel við hæfi að Friðarhöfðinginn skuli vera fulltrúi nærveru Jehóva! Það leiðir hugann að orðum Jesaja 7:14 um nafnið er Messías skyldi nefndur, Immanúel. Það merkir „Guð með oss.“ (Matteus 1:23) Það er hrífandi að Guð skuli ætla, fyrir milligöngu síns elskaða sonar, að „búa“ hjá mönnunum! Líklega munu máttarverk þessarar Guðhetju koma okkur til að vökna um augu, einkum þegar látnir ástvinir okkar verða lífgaðir á ný þegar paradís verður gengin í garð. (Postulasagan 24:15) Slík kraftaverk verða stórfenglegur vitnisburður þess að Guð sé hjá mannkyninu og sé að þerra sorgartárin af augum okkar að eilífu.

Gimsteinn í ómælivíddum alheimsins

16. Þurfa hinir dánu að bíða upprisu þar til paradís hefur náð um allan hnöttinn? Gefðu skýringu.

16 Hinum fyrri Adam var sagt hvernig hann ætti að stækka paradísina þaðan sem hann var í Edengarðinum. Þessi tilgangur Guðs, að paradís skuli ná hringinn í kringum hnöttinn, verður að veruleika. En þarf upprisa hinna dánu að bíða þangað til paradís nær um allan hnöttinn? Nei. Þeir sem vaktir eru til lífs snemma í upprisunni rísa upp á stöðum sem þeir er björguðust úr Harmagedón eru byrjaðir að breyta í paradís. Eftir því sem upprisu mannkynsins miðar áfram verða paradísarblettirnir stækkaðir þar til þeir renna saman og mynda einn paradísargarð sem nær um allan hnöttinn.

17. Hvernig er heimsparadísinni lýst?

17 Hin komandi paradís verður fremri öllum lystigörðum og unaðsreitum sem nú þekkjast. Öll jörðin mun blómgast sem skínandi, friðsæl paradís og verða augnayndi ekki aðeins manna heldur líka skaparans. Þessi Edengarður mun ná um allan hnöttinn skreyttur gróðri og trjám sem bæði eru fögur á að líta og næring fullkomnum lífverum. Jörðin mun um alla eilífð vera gimsteinn í óendanlegum alheimi Jehóva. Og allt sameinað mannkyn mun að eilífu axla þá ábyrgð og sérréttindi að varðveita fegurð jarðarinnar.

18. Hvernig vitum við að allir, bæði karlar og konur, munu búa saman í friði sem bræður og systur?

18 Allir í þessari guðhræddu fjölskyldu munu búa saman í friði sem bræður og systur í öllum hreinleika, því að þeir verða í reynd börn Eilífðarföðurins, Friðarhöfðingjans. Maðurinn mun því ekki með hroka og stærilæti drottna yfir konunni, systur sinni, og hin fullkomna kona verður það sem Jehóva Guð ætlaði henni, „meðhjálp“ eða fylling mannsins eins og Guð ætlaði Evu að vera manni sínum. — 1. Mósebók 2:18; sjá einnig 1. Pétursbréf 3:7.

19. Hvernig mun paradísarjörðin taka sig út í augum þeirra sem á himnum búa?

19 Þegar jörðin var sköpuð á sínum tíma ‚sungu morgunstjörnurnar gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu.‘ (Jobsbók 38:7) Paradísarjörðin byggð fullkomnum körlum og konum verður enn fegurri og stórkostlegri sýn þeim sem á himnum búa. Þá verður hinn hæsti Guð, Jehóva, fullkomlega upphafinn. Tilgangur hans bregst aldrei. Honum sé heiður og lof!

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 172, 173]

Öll fótskör Guðs, jörðin, verður prýdd bókstaflegri paradís.