Eftir nýja sáttmálann kemur þúsundáraríkið
14. kafli
Eftir nýja sáttmálann kemur þúsundáraríkið
1, 2. (a) Við hverja má líkja þeim milljónum sem njóta góðs af starfsemi nýja sáttmálans? (b) Hvað segir í ákvæðum nýja sáttmálans?
MILLJÓNIR manna um allan hnöttinn hafa þegar notið mikils góðs af nýja sáttmálanum, enda þótt þeir eigi ekki aðild að honum. Þeir eru eins og fólk af öðrum þjóðum sem bjó í Ísrael meðan lagasáttmáli Móse var enn í gildi. (2. Mósebók 20:10) Hvernig hafa vaxandi milljónir félaga andlegra Ísraelsmanna nútímans notið góðs af?
2 Í spádóminum í Jeremía 31:31-34 sagði hann sem setti ákvæði nýja sáttmálans: „Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.“
3. (a) Í hvaða mynd var lagasáttmáli Móse? (b) Hvar ritaði Guð lög nýja sáttmálans áður en byrjað var að skrifa kristnu Grísku ritningarnar?
3 Fyrir milligöngu spámannsins Móse gaf Jehóva Guð Ísrael að holdinu lagasáttmálann, „skuldabréfið . . . með ákvæðum sínum.“ (Kólossubréfið 2:14) En hvað um lög nýja sáttmálans? Meðalgangari hans klappaði þau hvorki á stein né letraði á blað. Sjálfur lét hann engin rit eftir sig. Við göngum úr skugga um með hjálp hinna innblásnu kristnu Grísku ritninga hver lög nýja sáttmálans eru. (2. Tímóteusarbréf 3:16) En jafnvel áður en farið var að skrifa þessar Grísku ritningar árið 41 var Jehóva Guð byrjaður að skrifa niður lög nýja sáttmálans. Hvenær? Á hvítasunnudeginum árið 33. Hvar? Þar sem hann hafði endur fyrir löngu heitið að skrifa þau: „Ég mun leggja lög mín í hugskot þeirra og rita þau á hjörtu þeirra.“ — Hebreabréfið 8:10.
4. Hvaða góð áhrif hafði það að Guð ritaði lög sín á hjörtu og lagði þau í huga þjóna sinna?
4 Þar eð lögin eru rituð á hjörtun eru minni líkur á að þeir sem fylgja þeim hætti að elska þau. Ef þau eru lögð „í hugskot“ þeirra eru minni líkur á að þeir gleymi þeim. Því segja þeir sem halda lögin með orðum Sálms 119:97: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.“ Allt frá innstu fylgsnum hjartans elska þeir lög Jehóva sem gefin eru fyrir meðalgangarann Jesú Krist. Því einsetja þeir sér með rétt tilefni í huga að halda þessi dýrmætu lög. Það á bæði við um ‚litlu hjörðina,‘ sem á aðild að nýja sáttmálanum, og ‚mikinn múg‘ ‚annarra sauða‘ sem eru undir honum þótt þeir eigi ekki aðild að honum. — Samanber 1. Jóhannesarbréf 5:3; Jóhannes 14:15.
Deilan um Guðsríki í brennidepli!
5. Hvað sagði meðalgangari nýja sáttmálans fyrir í Matteusi 24:12-14?
5 Þeir sem halda lög nýja sáttmálans voga sér ekki að láta undan því sem meðalgangarinn, Jesús Kristur, sagði verða „tákn . . . endaloka veraldar“: „Vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða. Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ — Matteus 24:3, 12-14.
6. (a) Var Matteus 24:14 aðeins spádómur? (b) Hverjir hafa tekið þau orð sem meira en spádóm og hvað má segja um þolgæði þeirra?
6 Þessi síðustu orð um að borið yrði vitni um Guðsríki um allan heim var meira en aðeins forspá. Þau voru fyrirmæli til lærisveina hans sem uppi yrðu við ‚endalok veraldar.‘ Þau áttu að ráða stefnu þeirra allt fram að algjörum endalokum heimskerfis sem sýnir ekki aðeins lögum Guðs óvirðingu heldur er almennt séð bæði kærleikslaust og löglaust. Hverjir eru nú á tímum þeir sannkristnu menn sem taka þessi orð Jesú sem fyrirmæli til sín? Þær sögulegu staðreyndir, sem margfaldast hafa síðan árið 1919, svara svo ekki verður um villst að það séu vottar Jehóva. Biblíufræðsla þeirra um Guðsríki er sú mesta sem sögur fara af, og þeir hafa stundað hana með þolgæði síðastliðin 69 ár. Ár hvert bæði eykst hún og eflist.
7, 8. (a) Hvað reyndi Satan að gera við aðila nýja sáttmálans á dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar? (b) Hvernig komst deilan um Guðsríki í brennidepil að stríðinu loknu?
7 Satan djöfullinn reyndi í fyrri heimsstyrjöldinni að þurrka út hinar litlu leifar andlegu Ísraelsmannanna, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir þessa miklu biblíufræðslu. Honum mistókst! Eftir að þeir höfðu verið lífgaðir úr eins konar dái sumarið 1919 héldu þeir í septembermánuði sitt fyrsta mót eftir stríðið í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum. Á öðru mótinu í Cedar Point í september 1922 var deilan um Guðsríki í brennidepli. Á fjórða degi mótsins, nefndur „dagurinn,“ lauk forseti Varðturnsfélagsins ræðu sinni með þessum orðum:
8 „Farið aftur út á akurinn, þið synir hins hæsta Guðs! Klæðist herklæðum! Verið yfirvegaðir, árvakrir, ötulir og hugrakkir! Verið trúfastir og sannir vottar Drottins. Sækið fram í bardaganum þar til síðustu menjar Babýlonar liggja í rústum. Boðið boðskapinn vítt og breitt. Heimurinn verður að vita að Jehóva er Guð og að Jesús Kristur er konungur konunga og Drottinn drottna. Þetta er dagur daganna. Sjáið, konungurinn ríkir! Þið eruð auglýsingafulltrúar hans. Þess vegna kunngerið, kunngerið, kunngerið konunginn og ríki hans.“
Nánari kynni af Jehóva
9. (a) Hvaða afstöðu hafa menn tekið vegna þess að verksummerki hinnar réttlátu stjórnar hafa orðið auðsærri? (b) Hvaða þekking er þeim veitt sem taka afstöðu með Guðsríki?
9 Nú eru liðnir meira en sjö áratugir síðan Kristur var krýndur sem konungur árið 1914. Síðan hafa verksummerki réttlátrar stjórnar Guðs vaxið mjög. Mannheimurinn verður að taka afstöðu í deilunni um Guðsríki, annað hvort með því eða á móti. Og þeir sem taka afstöðu með stjórn Guðs sjá rætast á sér orð nýja sáttmálans: „Þeir skulu ekki framar kenna hver öðrum, né einn bróðirinn öðrum, og segja: ‚Lærið að þekkja [Jehóva],‘ því að þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir.“ — Jeremía 31:34.
10. (a) Undir hvaða nafngift tóku leifar andlegu Ísraelsþjóðarinnar að bjóða hina ‚aðra sauði‘ velkomna? (b) Hvaða þekkingu fengu hinir ‚aðrir sauðir‘?
10 Árið 1935 fóru leifar andlegu Ísraelsþjóðarinnar að bjóða velkomna ‚aðra sauði‘ góða hirðisins í samfélag við sig. Þeir voru „ein hjörð“ í umsjá Jesú Krists og allir vottar Jehóva. Þessir ‚aðrir sauðir,‘ sem tók að fjölga upp í ótiltekinn ‚mikinn múg,‘ tókust síðan á hendur, ásamt leifunum andagetnu, að „varðveita boð Guðs“ og bera „vitnisburð Jesú.“ (Opinberunarbókin 7:9-17; 12:17) Frá 1935 lærðu þessir ‚aðrir sauðir‘ að þekkja Jehóva, „bæði smáir og stórir.“
11. Hvernig er kristin þekking á Jehóva ólík og betri því sem var undir lagasáttmála Móse?
11 En á hvaða hátt er kristin þekking á Jehóva ólík og betri en þekking Gyðinganna undir lagasáttmálanum? Himneskur höfundur nýja sáttmálans heldur áfram: „Því að ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra.“ (Jeremía 31:34; Hebreabréfið 8:12) Það stafar af því að nýi sáttmálinn byggist á betri fórn og á sér betri meðalgangara. (Hebreabréfið 8:6; 9:11, 12, 22, 23) Ekki þarf að endurtaka hina betri fórn hins betri meðalgangara, ólíkt því sem var á hinum árlega friðþægingardegi undir lagasáttmála Móse. (Hebreabréfið 10:15-18) Í ljósi alls þessa er þekking þeirra á Jehóva, sem eru undir nýja sáttmálanum, betri, meira auðgandi, skýrari og heilsteyptari en þekking Gyðinganna undir lagasáttmálanum.
12. Hver er staða Jehóva gagnvart þeim sem eiga aðild að nýja sáttmálanum og eru háðir ákvæðum hans?
12 Framar öllu er Jehóva Guð, sáttmálahöfundurinn, konungur yfir þeim sem hann gefur aðild að nýja sáttmálanum og einnig yfir þeim sem hann setur undir þann sáttmála. (Matteus 5:34, 35; Jeremía 10:7) Páll postuli benti, 1850 árum áður en Jesús var settur í hásæti sem konungur á himnum árið 1914, til konungdóms Jehóva yfir þeim sem hlýða lögum nýja sáttmálans. Hann sagði: „Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.“ — 1. Tímóteusarbréf 1:17.
Þúsundáraríkið eftir ‚þrenginguna miklu‘
13. (a) Hvenær og undir hvaða kringumstæðum fær ‚múgurinn mikli‘ að njóta í enn ríkari mæli þeirrar blessunar sem streymir frá nýja sáttmálanum? (b) Hvaða tilgangi mun nýi sáttmálinn þá hafa náð?
13 Hinn mikli múgur ‚annarra sauða,‘ sem ekki á aðild að nýja sáttmálanum en er háður ákvæðum hans, hlakkar til þess að ganga lifandi út úr „þrengingunni miklu.“ Eftir að þetta dæmda heimskerfi er þurrkað út munu þeir um þúsund ár njóta yfirráða Jesú Krists og samerfingja hans yfir hreinsaðri jörð. (Opinberunarbókin 7:9-14) Þá hefur nýi sáttmálinn þjónað hlutverki sínu að leiða fram ‚eignarlýð‘ til að erfa himneskt ríki Guðs. (1. Pétursbréf 2:9; Postulasagan 15:14) Fyrir tilstilli Guðsríkis mun blessun streyma í ríkum mæli til mikils múgs annarra sauða sem lifir af. Satan djöfullinn og ósýnilegt andaskipulag hans hefur verið fjötrað í undirdjúpi og er ófært um að gera nokkurn óskunda. — Opinberunarbókin 21:1-4; 20:1-3.
14. Hvaða góðan undirbúning hefur ‚múgurinn mikli‘ fengið?
14 Hinn eftirlifandi mikli múgur annarra sauða er vel undir það búinn að lifa í nýrri heimsskipan. Eins og leifar andlegu Ísraelsþjóðarinnar hafa þeir kynnst Guði „bæði smáir og stórir.“ (Jeremía 31:34) Í bæn til Guðs sagði konungurinn einu sinni: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Þessi almenna þekking á Jehóva Guði verður til eilífs hjálpræðis, ekki aðeins þeim ‚mönnum,‘ sem bjargað verður úr ‚þrengingunni miklu,‘ heldur líka þeim milljörðum látinna manna sem munu heyra rödd konungsins og ganga fram úr gröfum sínum. Þeim sem fá upprisu verður veitt öll sú þekking á Jehóva sem þeir þurfa. — Matteus 24:21, 22; Jóhannes 5:28, 29; Opinberunarbókin 20:11-15.
15. Hvers vegna verður það hinum ‚öðrum sauðum‘ ekki til tjóns að nýi sáttmálinn lýkur hlutverki sínu?
15 Það að nýr sáttmáli Guðs lýkur hlutverki sínu verður ekki til tjóns ‚miklum múgi‘ sauðumlíkra manna sem lifa af eyðingu þessa dæmda heimskerfis. Þess í stað mun þeim opnast enn stórkostlegri blessun hér á hreinsaðri jörð. Þeir munu erfa hana og eiga þátt í að byrja að breyta henni í paradís sem nær um allan hnöttinn. (Matteus 25:34; Lúkas 23:43) Innan skamms verða horfnir þeir sem eru að eyða jörðina „en þeir er vona á [Jehóva], fá landið til eignar. . . . Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ (Sálmur 37:9-11) Allir hylla þúsundáraríki Jehóva Guðs í höndum Friðarhöfðingjans sem fylgir í kjölfar þess að nýi sáttmálinn hefur gegnt hlutverki sínu!
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 119]
Fagnaðarerindið um Guðsríki verður prédikað um alla jörðina áður en þetta heimskerfi tekur enda.