Friðarhöfðinginn stendur frammi fyrir Harmagedón
2. kafli
Friðarhöfðinginn stendur frammi fyrir Harmagedón
1, 2. (a) Hvaða hrífandi orð innblés Guð spámanninum Jesaja að flytja? (b) Hvenær byrjuðu þessi orð að rætast?
Á ÁTTUNDU öld fyrir okkar tímatal var Jesaja spámanni innblásið að segja fólki Guðs: „Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti héðan í frá og að eilífu.“ — Jesaja 9:6, 7.
2 Þessi hrífandi orð byrjuðu að rætast á síðari hluta ársins 2 f.o.t. er Jesús fæddist sem niðji Davíðs konungs, en hann hafði ríkt í Jerúsalem yfir hinum 12 ættkvíslum Ísraels.
Sáttmáli um ríki þar sem friðurinn tekur aldrei enda
3. (a) Hvaða sáttmála gerði Guð við Davíð konung? (b) Hvaða afkomanda Davíðs konungs gaf Jehóva titilinn „Friðarhöfðingi“?
3 Kostgæfni Davíðs vegna tilbeiðslunnar á Guði Ísraels varð til þess að Jehóva gerði við hann sáttmála um eilíft ríki í ætt hans. (2. Samúelsbók 7:1-16) Sáttmálinn var staðfestur með eiði Guðs. (Sálmur 132:11, 12) Samkvæmt þeim sáttmála skyldi ríki Davíðs verða grundvöllur hins komandi ríkis Friðarhöfðingjans. Jehóva gaf ‚Jesú Kristi, syni Davíðs,‘ titilinn „Friðarhöfðingi.“ — Matteus 1:1.
4. (a) Hver varð jarðnesk móðir Jesú? (b) Hvað sagði engillinn Gabríel við hana um það?
4 Móðir Jesú var af konungsætt Davíðs. Hún var mey þegar hún varð þunguð af fyrirheitnum syni sínum sem átti að verða varanlegur erfingi hásætis Davíðs. Getnaðurinn átti sér stað áður en Jósef tók sér hana fyrir konu. (Matteus 1:18-25) Engillinn Gabríel hafði sagt Maríu: „Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. [Jehóva] Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða.“ — Lúkas 1:31-33.
5. Hvað hafði Jesaja spámaður sagt fyrir um stjórn Friðarhöfðingjans?
5 Þess vegna sagði spámaðurinn Jesaja fyrir um Friðarhöfðingjann að ‚höfðingjadómurinn skyldi verða mikill og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans.‘ (Jesaja 9:6, 7) Samkvæmt sáttmálanum við Davíð átti þetta að verða eilíft ríki og friðurinn ævarandi. Hásæti hans skyldi standa „að eilífu“!
6. (a) Hvað gerði Guð á þriðja degi eftir dauða Jesú, til að uppfylla sáttmálann um ríkið? (b) Hvenær hóf Jesús að ríkja sem Friðarhöfðingi?
6 Til að standa við þennan sáttmála um ríki reisti alvaldur Guð Jesú upp frá dauðum á þriðja degi eftir píslarvættisdauða hans. Það var 16. dag mánaðarins nísan eftir almanaki Gyðinga, árið 33 að okkar tímatali. Pétur postuli var sjónarvottur að því að sonur Guðs hefði risið upp frá dauðum og sagði að Jesús hefði verið „deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður sem andi.“ (1. Pétursbréf 3:18, Ísl. bi. 1912) Hinn hæsti Guð upphóf hann sér til hægri handar. Þaðan hefur hann ríkt sem Friðarhöfðingi síðan tímar heiðingjanna eða ‚tilteknar tíðir þjóðanna‘ tóku enda í októberbyrjun árið 1914. — Lúkas 21:24, NW.
7. (a) Hverju hefur Jesús staðið frammi fyrir síðan hann tók völd? (b) Hverjir boða öllum þjóðum að Jesús sé konungur og hvaða spádóm uppfylla þeir með því?
7 Frá því að herradómur hans hófst á himnum hefur hann staðið frammi fyrir fjandsamlegum heimi, svo sem glöggt má sjá af tveim heimsstyrjöldum um það hver skuli ráða yfir jörðinni. Núna er Sameinuðu þjóðunum teflt fram gegn honum. Með því að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki í meira en 200 löndum vekja vottar Jehóva athygli allra þjóða á því að Friðarhöfðinginn ríkir á himnum. Það er uppfylling þess sem hann sjálfur sagði fyrir í Matteusi 24:14: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“
8. Hvers vegna má segja að langt sé liðið á ‚endalok veraldar‘?
8 Mjög bráðlega þarf að útkljá deiluna um heimsyfirráðin. Nú eru liðin yfir 70 ár síðan ‚tilteknum tíðum þjóðanna‘ lauk árið 1914 og langt liðið á ‚endalok veraldar.‘ Kynslóðin frá 1914 sá upphaf þeirra þýðingarmiklu heimsviðburða sem Jesús sagði fyrir. (Matteus 24:3-14) Hann sagði að sú kynslóð ætti ekki að líða undir lok uns þetta allt hefði ræst. Sú kynslóð er nú á fallanda fæti. — Matteus 24:34.
9, 10. (a) Hvernig var spádómum Opinberunarbókarinnar komið til okkar? (b) Hvað segir Opinberunarbókin 16:13, 14, 16 fyrir um Harmagedón?
9 Hvað blasir því við í nánustu framtíð og hverju stendur Friðarhöfðinginn frammi fyrir? Hann var látinn segja það fyrir í síðustu bók Biblíunnar, Opinberunarbókinni, sem Guð gaf honum og hann miðlaði til hins aldurhnigna Jóhannesar postula í gegnum engil. (Opinberunarbókin 1:1, 2) Það gerðist undir lok fyrstu aldar okkar tímatals. Í Opinberunarbókinni 16:13, 14, 16 lét Jesús Jóhannes postula segja þessi þýðingarmiklu orð um Harmagedón:
10 „Og ég sá koma út af munni drekans og munni dýrsins og munni falsspámannsins þrjá óhreina anda, sem froskar væru, því að þeir eru djöfla andar, sem gjöra tákn. Þeir ganga út til konunga allrar heimsbyggðarinnar til að safna þeim saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda. Og þeir söfnuðu þeim saman á þann stað, sem á hebresku kallast Harmagedón.“
Hið táknræna „Megiddófjall“
11. (a) Hvað merkir nafnið Harmagedón, og hefur einhvern tíma verið til staður með því nafni? (b) Hvers vegna hafði Megiddóborg fortíðar mikla sögulega þýðingu? (c) Hvaða tvíþætta merkingu fékk nafnið Megiddó?
11 Hebreska orðið Harmagedón merkir „Megiddófjall.“ Enginn staður er til sem fyrr eða síðar hefur verið nefndur Megiddófjall. Orðið hefur því táknræna merkingu í bók eins og Opinberunarbókinni sem er að miklu leyti skrifuð á táknmáli. Hver mun sú merking vera? Borgin Megiddó til forna hafði mikla sögulega þýðingu. Hún stóð hátt og nafnið merkir „staður þar sem hersveitir safnast saman.“ Bæði í veraldlegri og biblíulegri sögu vakti nafnið minningar um úrslitaorustur. Hvers vegna? Vegna þess að borgin réði mikilvægri samgönguleið milli Evrópu, Asíu og Afríku, sem hafði hernaðarlega þýðingu, og auðveldlega mátti stöðva þar fjandsamlegan her. Nafnið Megiddó tók því á sig tvíþætta merkingu — algeran ósigur annars aðilans en dýrlegan sigur hins.
12, 13. (a) Hvernig tengdist Guð Biblíunnar Megiddó og ánni, sem rann þar hjá, á dögum Baraks dómara? (b) Hvernig lýstu Barak og Debóra hlutverki Guðs í sigrinum?
12 Á dómaratímanum í Ísrael tengdist Guð Biblíunnar Megiddó og ánni Kíson sem rann þar skammt frá. Á dögum Baraks dómara og Debóru spákonu veitti Guð útvalinni þjóð sinni markverðan sigur í grennd við Megiddó. Barak dómari réði aðeins yfir 10.000 mönnum, en óvinurinn, undir stjórn Sísera hershöfðingja, yfir 900 stríðsvögnum sem hestar drógu, auk fótgönguliða. Jehóva skarst í leikinn í þágu útvalinna þjóna sinna og lét koma skyndiflóð í Kíson sem gerði hervagnana ógurlegu ónothæfa. Í sigursöng Baraks og Debóru til Guðs, eftir hinn undraverða sigur á her Sísera, vöktu þau athygli á hlutdeild Guðs í sigrinum:
13 „Konungar komu og börðust, þá börðust konungar Kanaans við Taanak hjá Megiddóvötnum. Silfur fengu þeir ekkert að herfangi. Af himni börðust stjörnurnar, af brautum sínum börðust þær við Sísera, Kísonlækur skolaði þeim burt, orustulækurinn, lækurinn Kíson.“ — Dómarabókin 5:12, 19-21.
14. Hvaða lokaorð hins innblásna sigursöngs eru vafalaust bæn um hið komandi Harmagedónstríð?
14 Án efa ber okkur að skilja hin innblásnu lokaorð í söng Baraks og Debóru, eftir sigurinn við Megiddó til forna, sem bæn um hið komandi stríð við Harmagedón. Þau sungu: „Svo farist allir óvinir þínir, [Jehóva]! En þeir, sem hann elska, eru sem sólaruppkoman í ljóma sínum.“ — Dómarabókin 5:31. *
Þjóðum safnað til Harmagedón
15. (a) Hvers konar staður er þá Harmagedón? (b) Hvaðan er kominn hinn óhreini áróður sem safnar öllum þjóðum til stríðsins við Harmagedón?
15 Megiddó var sem sagt staður þar sem úrslitaorustur voru háðar. Harmagedón hlýtur því að vera sá orustuvöllur sem allar veraldlegar nútímaþjóðir þramma fram á, hvattar fram af þeim öflum er Opinberunarbókin 16:13, 14 lýsir. Þessir „djöfla andar“ eða „orð innblásin af illum öndum“ (NW) er sá áróður sem nú er kvakaður, óhreinn eins og hinn biblíulega óhreini froskur. Ein af uppsprettum þessa óhreina áróðurs er „mikill dreki rauður“ sem Opinberunarbókin 12:1-9 segir vera Satan djöfulinn.
16. Hvað táknar ‚dýrið‘ í Opinberunarbókinni 16:13?
16 Óhreinn áróður berst einnig frá ‚dýrinu.‘ Opinberunarbókin 16:13 setur þetta táknræna ‚dýr‘ í tengsl við ‚drekann‘ eða djöfulinn. Samkvæmt Opinberunarbókinni 20:10 verður þessu ‚dýri‘ tortímt eilíflega vegna samvinnu þess við ‚drekann‘ táknræna. ‚Dýrið‘ er allt stjórnmálakerfi heimsins sem drekinn er guð yfir. (2. Korintubréf 4:4) Það felur í sér allar hinar margvíslegu, pólitísku stjórnir þessa heims. — Samanber Daníel 7:17; 8:20, 22.
17. Við hvað er áróðri „dýrsins“ líkt og hvaða áhrif hefur hann?
17 Slíkt stjórnmálaheimskerfi hefur sinn sérkennandi áróður. Og ‚froskakvak‘ hans er innblásinn áróður sem, ásamt innblásnum orðum ‚drekans,‘ þjónar því hlutverki að safna saman ‚konungum‘ eða valdhöfum alls heimsins til „stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“ sem verður háð við Harmagedón.
18. (a) Hvað táknar nafnið Harmagedón? (b) Hvað er fólgið í því að Harmagedón skuli vera fjall?
18 Harmagedón merkir því ástand í heiminum sem felur í sér úrslitastríð. Það táknar það lokastig heimsmálanna þegar pólitískir valdhafar snúast sem einn maður gegn vilja Guðs, þannig að Guð þarf að grípa fram fyrir hendurnar á þeim til að tryggja framgang vilja síns. Framtíðin ræðst því af úrslitum þeirra átaka. Við staðinn Megiddó stóð ekkert fjall. Fjall táknar hins vegar áberandi vettvang sem allar hersveitirnar, er þangað söfnuðust, kæmu auðveldlega auga á úr fjarska.
19, 20. Hvernig er hernaðaráætlun foringjans fyrir himneskum hersveitum Jehóva og hverju mun hún skila?
19 Jesús Kristur, yfirhershöfðingi herja Jehóva, hefur um nokkurt árabil fylgst með valdhöfum veraldar og hersveitum þeirra safnast til Harmagedón. Hann hefur þó ekki reynt að króa af einhvern sérstakan konung og hans her til að ráða niðurlögum hans út af fyrir sig, og losa sig þannig við óvinina einn af öðrum. Þess í stað gefur hann þeim nægan tíma til að draga saman í eitt alla sína heri svo að úr verði sem öflugust sveit. Hin hugdjarfa ætlun hans er að ganga fram í bardaga við þá alla í einu!
20 Þar með vinnur hann enn fullkomnari sigur yfir þeim, til heiðurs sínum æðsta yfirboðara, Jehóva Guði, og til staðfestingar því að hann sé óumdeilanlega „Konungur konunga og Drottinn drottna.“ — Opinberunarbókin 19:16.
[Neðanmáls]
^ gr. 14 Megiddó er getið víðar. Sjá til dæmis 2. Konungabók 9:27; 23:29, 30; 2. Kroníkubók 35:22; Sakaría 12:11.
[Spurningar]