Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hlutdeild í fögnuði Friðarhöfðingjans

Hlutdeild í fögnuði Friðarhöfðingjans

8. kafli

Hlutdeild í fögnuði Friðarhöfðingjans

1. (a) Af hvaða ástæðu fór maðurinn í dæmisögunni úr landi? (b) Hvað er gefið í skyn í dæmisögu Jesú þótt það sé ekki sagt berum orðum?

 Í DÆMISÖGU Jesú um talenturnar fór maðurinn, sem átti silfurtalenturnar átta, ekki til útlanda einungis í skemmtiferð eins og hann væri að skoða nýja staði. Utanför hans átti sér alvarlegt tilefni; hann ætlaði að tryggja sér viss verðmæti. Eins og dæmisagan sýnir fór hann utan til að afla sér ákveðins ‚fagnaðar‘ ásamt einhverju ‚miklu.‘ (Matteus 25:21) Hann þurfti að fara í langt ferðalag, sem tók langan tíma, til fundar við þann sem gat veitt honum þennan sérstaka fögnuð.

2. (a) Hvað táknaði ferð ríka mannsins úr landi og hvert lá leið hans? (b) Hvað kom herrann með þegar hann sneri aftur?

2 Ríki maðurinn í dæmisögunni táknar Jesú Krist, og hin langa utanför hans táknar för hans til uppsprettu þeirrar gleði sem hann átti í vændum. Til fundar við hvern fór hann? Hebreabréfið 12:2 segir okkur: „Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú sest til hægri handar hásæti Guðs.“ Já, Jehóva Guð er uppspretta þessarar gleði. Það var hann sem Jesús fór til fundar við og á meðan trúði hann trúum lærisveinum sínum fyrir ‚talentunum.‘ Húsbóndinn sneri aftur með ‚mikið‘ sem hann hafði ekki haft þegar hann fól þjónum sínum þrem talenturnar átta til ávöxtunar. Í annarri dæmisögu, sem Jesús hafði sagt áður, dæmisögunni um hin „tíu pund,“ segir hann að það hafi verið ‚konungdómur‘ sem hann kom með til baka. — Lúkas 19:12-15.

3. Hvernig var andrúmsloftið þegar Sakaría 9:9 byrjaði að uppfyllast á fyrstu öld?

3 Bæði konungur og drottinhollir þegnar hans hafa tilefni til að fagna þegar konungur er nýtekinn við völdum. Við minnumst þess þegar sonur Guðs reið inn í Jerúsalem til að uppfylla spádóm Sakaría 9:9. Um uppfyllingu þessa spádóms er ritað: „Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn. Og múgur sá, sem á undan fór og eftir fylgdi, hrópaði: ‚Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni [Jehóva]! Hósanna í hæstum hæðum!‘ Þegar hann kom inn í Jerúsalem, varð öll borgin í uppnámi, og menn spurðu ‚Hver er hann?‘“ — Matteus 21:4-10; sjá einnig Lúkas 19:36-38.

4. Hvers vegna hafði Jesús sérstakt tilefni til að bjóða trúföstum ‚þjónum‘ sínum inn til fagnaðar síns, eftir að hann var orðinn konungur?

4 Úr því það var fagnaðarefni þegar hann bauð sig Jerúsalembúum sem konungur smurður með anda Jehóva, hlýtur það að hafa verið mun meira gleðiefni þegar hann var krýndur sem konungur við lok heiðingjatímanna árið 1914. Það var mjög gleðiríkur viðburður fyrir hann. Þá naut hann gleði sem hann hafði ekki notið fyrr. Þegar hann því gerði upp reikninga við þjóna sína gat hann sagt við þá lærisveina sem hann dæmdi ‚góða og trúa‘: „Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.“ (Matteus 25:21) Núna gátu þeir sem hann viðurkenndi þjóna sína öðlast nýjan fögnuð. Hvílík umbun!

5. (a) Hver var staða Krists þegar Páll postuli var ‚erindreki‘ hans? (b) Hvaða stöðu hefur Kristur núna þegar ‚leifarnar‘ eru „erindrekar“ hans?

5 Árið 1919 fengu smurðir lærisveinar hins ríkjandi konungs, Jesú Krists, að ganga inn til viðurkenndrar stöðu frammi fyrir honum, og það veitti þeim ómælda gleði. Nítján öldum fyrr hafði Páll postuli skrifað trúbræðrum sínum um hina miklu upphefð þeirra: „Vér erum því erindrekar Krists.“ (2. Korintubréf 5:20) Þetta var skrifað þegar Jesús var einungis ríkiserfingi ‚himnaríkis.‘ (Matteus 25:1) Hann þurfti því að sitja við hægri hönd Guðs og bíða krýningardagsins. En núna, frá 1919, hafa leifarnar verið „erindrekar“ og sendiherrar ríkjandi konungs. (Hebreabréfið 10:12, 13) Athygli Alþjóðlegra biblíunemenda var sérstaklega vakin á því á mótinu í Cedar Point í Ohio árið 1922.

6. Að hvaða starfi einbeittu þeir sem höfðu fengið „talenturnar“ sér fyrst eftir lok stríðsins?

6 Þegar árið 1919 hafði þeim verið fengið í hendur það sem samsvaraði „talentum“ konungsins Jesú Krists. Það hafði aukið enn ábyrgð þeirra gagnvart honum. Eftir stríðið beindu þeir kröftum sínum strax að ‚uppskerustarfi,‘ því að safna þeim saman sem svöruðu til ‚hveitisins.‘ (Matteus 13:24-30) Með því að uppskerutíminn er „endir veraldar,“ eins og Jesús sagði, átti uppskera ‚barna ríkisins,‘ líkt við hveiti, það er að segja hinna trúföstu smurðu leifa, að hefjast árið 1919. — Matteus 13:37-39.

7. (a) Hvers konar andrúmsloft ríkti meðal uppskerumannanna og herra þeirra? (b) Hvað hefur Jehóva veitt uppskerumönnunum og hvaða spádómsorð tileinka þeir sér?

7 Uppskerutími er mikill gleðitími fyrir kornskurðarmennina því að herra uppskerunnar fagnar með þeim. (Sálmur 126:6) Þessi uppskerutími hefur auðgast að mun við hin vaxandi sönnunargögn fyrir því að Guðsríki í höndum Jesú Krists hafi verið stofnsett á himnum árið 1914, og að Jehóva hafi hjálpað vígðum þjónum sínum á jörðinni að standa á ný réttlátir frammi fyrir honum. Sem hópur taka þeir sér í munn orðin í Jesaja 61:10: „Ég gleðst yfir [Jehóva], sál mín fagnar yfir Guði mínum, því að hann hefir klætt mig klæðum hjálpræðisins, hann hefir sveipað mig í skikkju réttlætisins.“

Safnað ‚miklum múgi‘ sem fær hlutdeild í fögnuðinum

8. Hvers konar óvænta gleði hlutu hinar smurðu leifar þegar söfnun ríkiserfingjanna var að ljúka?

8 Hinar smurðu leifar, sem gengu inn í „fögnuð“ herra síns, gerðu sér litla grein fyrir að þegar söfnun síðustu erfingja himnaríkis væri að ljúka myndi þeim veitast önnur gleði. Þessi óvænta gleði fólst í samansöfnun hóps sem á að lifa í paradís á jörð undir þúsundáraríki Jesú Krists. Hverjum væri sjálfsagðara að bjóða til þess móts, þegar fyrst yrðu veittar upplýsingar um þennan hóp, en einmitt þeim sem tilheyrðu honum?

9. Hverjum var sérstaklega boðið að sækja mótið í Washington D.C. árið 1935, og hvað heyrðu þeir þar?

9 Þetta boð birtist í Varðturninum * og hundruð manna, sem sóttust eftir góðu sambandi við Jehóva ásamt því fólki er bar nafn hans, sóttu almennt mót votta Jehóva í Washington D.C. þann 30. maí til 2. júní 1935. Það hreif þá mjög að læra á þessu móti að ‚múgurinn mikli,‘ lýst í Opinberunarbókinni 7:9-17, væri jarðneskur hópur.

10, 11. Hverjir hljóta að hafa glaðst mjög á himnum við það tækifæri?

10 Þetta mót í Washington D.C. hlýtur að hafa veitt hinum hæsta Guði, Jehóva, mikla gleði! Og sonur hans, góði hirðirinn, sem nú skyldi byrja að safna þessum ‚öðrum sauðum‘ inn í sína ‚einu hjörð,‘ hlýtur að hafa fagnað mjög! — Jóhannes 10:16.

11 ‚Leifarnar‘ og vaxandi hjörð ‚annarra sauða‘ ganga saman í friði og einingu um andleg haglendi í umsjá ‚góða hirðisins.‘ Hjarta hans hlýtur að svella af fögnuði yfir því að eiga svona stóra „hjörð“ nú við endalok veraldar.

Erindrekar Friðarhöfðingjans

12, 13. (a) Hverjum er boðið að eiga hlut í fögnuði húsbóndans ásamt ‚leifunum‘ og af hvaða ástæðu? (b) Með hvaða hætti þjónar mikill múgur ‚annarra sauða‘ hagsmunum Friðarhöfðingjans?

12 Þeir sauðumlíku menn, sem mynda ‚múginn mikla,‘ eiga nú mjög stóran þátt í fögnuði herra síns, Jesú Krists. Það stafar mestan part af því að þeir eiga virkan þátt í að safna saman þeim ‚sauðum‘ sem enn vantar í ‚múginn mikla.‘ Opinberunarbókin 7:9 segir hann svo fjölmennan að ekki verði tölu á komið.

13 Söfnunarstarfið, sem hinir ‚aðrir sauðir‘ eiga þátt í, hefur vaxið svo að það teygir sig til allra heimshorna, og er orðið miklu umfangsmeira en svo að þeir fáu, sem eftir eru af ‚leifunum,‘ ráði við það. Sú ábyrgð að safna saman enn fleiri ‚öðrum sauðum‘ með jarðneska von hefur því meira og meira flust yfir á herðar hinna ‚annarra sauða,‘ enda fer þeim fjölgandi. Hinir ‚aðrir sauðir‘ þjóna því hlutverki trúrra erindreka Friðarhöfðingjans. Orðskviðirnir 25:13 bæta við: „Eins og snjósvali um uppskerutímann, svo er áreiðanlegur sendimaður þeim er sendir hann, því að hann hressir sál húsbónda síns.“

14. (a) Hvað erfa sauðirnir táknrænu í dæmisögu Jesú í Matteusi 25:31-46? (b) Í hvaða skilningi er þeim búið ríkið „frá grundvöllun heims?“

14 Í dæmisögunni um sauðina og hafrana eru það sauðirnir táknrænu sem konungurinn Jesús Kristur segir við: „Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.“ (Matteus 25:31-46) Þeir erfa hið jarðneska svæði sem himnaríki mun fara með völd yfir þau þúsund ár sem Kristur ríkir. Allt frá dögum hins trúfasta Abels hefur Jehóva verið að undirbúa þetta yfirráðasvæði fyrir þann mannheim sem hægt væri að endurleysa. — Lúkas 11:50, 51.

15, 16. (a) Hver er „prýði“ konungs samkvæmt orðum Salómons? (b) Hvaða „prýði“ á konungurinn Jesús Kristur sér núna, þótt hann ríki mitt á meðal óvina sinna? (c) Hvað hafa þeir sem eru „prýði“ hans gert?

15 Hinn vitri Salómon konungur í Forn-Ísrael skrifaði: „Fólksmergðin er prýði konungsins.“ (Orðskviðirnir 14:28) Konungur nútímans, Kristur Jesús, sem er langtum æðri Salómon konungi, á sér slíka ‚fólksmergð‘ fyrir „prýði.“ Þessa „prýði“ á hann nú þegar áður en þúsundárastjórn hans hefst, já, meðan hann ríkir mitt á meðal jarðneskra óvina sinna sem eiga sér Satan djöfulinn að ofurmannlegum, ósýnilegum konungi. — Matteus 4:8, 9; Lúkas 4:5, 6.

16 Hinir ört fjölgandi ‚aðrir sauðir,‘ sem mynda nú ‚mikinn múg,‘ eru slík „prýði“ sem sæmir svona háum konungi. Fagnandi hrópa þeir einum munni: „Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ (Opinberunarbókin 7:9, 10) Þeir hafa þegar bjargast frá dæmdu heimskerfi sem á sér Satan djöfulinn fyrir „guð.“ (2. Korintubréf 4:4) Táknrænt hafa þeir nú þegar „þvegið skikkjur sínar . . . í blóði lambsins“ og gert þær svo skínandi hvítar að á þeim sést hvorki blettur né hrukka frammi fyrir Jehóva Guði, dómaranum. — Opinberunarbókin 7:14.

17. (a) Hvaða frelsun á ‚múgurinn mikli‘ enn í vændum? (b) Hvaða sérréttinda mun hann njóta í þúsundáraríki Friðarhöfðingjans?

17 Enn bíða þeir með tilhlökkun hjálpræðis Guðs sem þeir munu fá að reyna er Jehóva vinnur sigur í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ við Harmagedón. Hinn mikli sigur hans þar mun upphefja drottinvald hans yfir alheimi, og þeir verða jarðneskir sjónarvottar að sigri hans, því að þeir eru varðveittir lífs í gegnum hinn ógurlega endi þessa illa heims. (Opinberunarbókin 16:14; 2. Pétursbréf 3:12) Hvílík sérréttindi! Hvílíkrar gleði mun Friðarhöfðinginn njóta með hinum eftirlifandi ‚mikla múgi‘ sinna trúföstu ‚annarra sauða‘!

[Neðnamáls]

^ gr. 9  Bls. 2 í enskri útgáfu Varðturnsins þann 1. og 15. apríl og 1. og 15. maí 1935.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 71]

Hjarta góða hirðisins hlýtur að svella af gleði yfir því að eiga svona marga „aðra sauði.“