Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Nýr sáttmáli Guðs nær brátt tilgangi sínum

Nýr sáttmáli Guðs nær brátt tilgangi sínum

12. kafli

Nýr sáttmáli Guðs nær brátt tilgangi sínum

1. (a) Hvernig færi fyrir jörðinni ef Guð héldi ekki sáttmála sinn við daginn og nóttina? (b) Hvað megum við vera viss um þar eð Guð heldur sáttmála sína af trúfesti?

 HVAÐ myndum við gera ef Guð héldi ekki sáttmála sinn við daginn og nóttina? Í stað þess að dagur og nótt skiptust á yrði önnur hlið jarðar stöðugt upplýst en hin í stöðugu myrkri. (1. Mósebók 1:1, 2, 14-19) En Guð heldur trúfastur sáttmála sína. Við getum því treyst með öruggri vissu að sólin, tunglið og vetrarbrautirnar muni aldrei tortímast, og heldur ekki reikistjarnan Jörð.

2. Hvað sagði Jehóva Gyðingum í sambandi við sáttmála sinn við daginn og nóttina?

2 Þegar Guð minntist á sáttmála sinn við daginn og nóttina sagði hann Gyðingum sem voru þegnar konungsættar Davíðs: „Svo sannarlega sem þér getið ekki rofið sáttmála minn við daginn og sáttmála minn við nóttina, svo að dagur og nótt komi ekki á sínum tíma, svo sannarlega mun sáttmáli minn við Davíð þjón minn eigi rofinn verða, svo að hann hafi ekki niðja, er ríki í hásæti hans.“ — Jeremía 33:20, 21.

3. Hvað gefa þessi orð í skyn varðandi sáttmála hans við Davíð um eilíft ríki?

3 Í þessum orðum er fólgin óbein sönnun fyrir því að jörðin, sólin og tunglið muni standa að eilífu. (Prédikarinn 1:4) Jörðin okkar verður alltaf byggð mönnum sem munu geta notið fegurðar dags og nætur undir verndarhendi skaparans, þess Guðs sem heldur sáttmála sína. Og jafnörugglega og Jehóva hefur haldið sáttmála sinn við daginn og nóttina, hefur hann verið trúr sáttmála sínum við Davíð konung um eilíft ríki í ætt hans. Það hefur hann gert jafnvel þótt þurft hafi að flytja ríkið frá jörðinni á himneskt tilverusvið. — Sálmur 110:1-3.

4. (a) Hvaða öðrum sáttmála er sáttmáli Guðs við Davíð um eilíft ríki tengdur? (b) Hvað sagði Jesús Kristur um hann og hvenær?

4 Sáttmáli Guðs um eilíft ríki í ætt Davíðs er tengdur öðrum sáttmála, ‚nýja sáttmálanum.‘ Jesús Kristur minntist á þennan sáttmála sem átti að taka við af þeim gamla. Það var eftir að hann hafði haldið páska með trúföstum lærisveinum sínum að kvöldi 14. nísan árið 33. Hann hafði þá stofnað það sem nú er kallað kvöldmáltíð Drottins. Hann vissi að þennan sama páskadag myndi hann úthella blóði sínu að fórn. Með það í huga tók hann bikar af rauðu víni og sagði, áður en hann lét hann ganga til postula sinna: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði.“ — Lúkas 22:20, Ísl. bi. 1912; 1. Korintubréf 11:20, 23-26.

5. Hverjum gaf Guð fyrirheit um nýjan sáttmála og gerir lýðveldið Ísrael tilkall til að eiga aðild að honum?

5 Nýi sáttmálinn er, eins og sá gamli, gerður við þjóð, þó ekki neina af þjóðum kristna heimsins. Þótt spámaðurinn Jeremía hafi verið notaður til að færa í letur loforð Guðs við Ísraelsþjóðina fyrir meira en 2500 árum, gerir lýðveldið Ísrael ekki kröfu til að eiga aðild að nýja sáttmálanum. Það er aðili að öðrum sáttmála, sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

6. Hvers vegna sá Guð þörf á að gera nýjan sáttmála, samkvæmt Jeremía 31. kafla, og hvaða afleiðingar myndi það hafa?

6 Hvers vegna vildi Guð gera nýjan sáttmála? Jeremía 31:31-34 svarar: „Sjá, þeir dagar munu koma — segir [Jehóva] — að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús, ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra, þá er ég tók í hönd þeirra til þess að leiða þá út af Egyptalandi, sáttmálann sem þeir hafa rofið, þótt ég væri herra þeirra — segir [Jehóva]. En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta — segir [Jehóva]: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð. Og þeir skulu ekki framar kenna hver öðrum, né einn bróðirinn öðrum, og segja: ‚Lærið að þekkja [Jehóva],‘ því að þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir — segir [Jehóva]. Því að ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra.“

Betri sáttmáli með betri meðalgangara

7. Er nýi sáttmálinn endurnýjun lagasáttmálans, sem Ísraelsmenn rufu, og hvers vegna er hann betri en lagasáttmálinn?

7 Nýi sáttmálinn er ekki bara endurnýjun fyrri sáttmálans sem Ísraelsmenn rufu. Nei, Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Róm svo: „Ekki eruð þér undir lögmáli, heldur undir náð.“ (Rómverjabréfið 6:14) Hér er um að ræða algerlega nýjan sáttmála, og þess vegna var við því að búast að hann væri betri, því að alvaldur Guð, Jehóva, er fær um að bæta stöðu mála gagnvart þeim sem hann veitir aðild að honum. Svo eitt sé nefnt vakti hann upp betri meðalgangara eða millilið við gerð nýja sáttmálans. Þessi meðalgangari var ekki ófullkominn, syndugur maður eins og spámaðurinn Móse.

8. (a) Hvað hefur nýi sáttmálinn sem gerir hann betri en lagasáttmálann? (b) Hver er meðalgangari hins betri, nýja sáttmála? (c) Hvað segir Hebreabréfið 8:6, 13 um nýja sáttmálann og yfirburði meðalgangarans, og hvaða áhrif hefur það á fyrri sáttmálann?

8 Lagasáttmálinn, sem spámaðurinn Móse miðlaði, var í sjálfu sér góður. Hins vegar kvað hann á um dýrafórnir sem gátu aldrei með blóði sínu þvegið burt syndir manna. Til að Jehóva Guð gerði betri sáttmála þurfti betri meðalgangara og betri fórn. Þessi meðalgangari var Jesús Kristur. Biblían bendir okkur á yfirburði hans sem meðalgangara yfir spámanninn Móse og segir: „Nú hefur Jesús fengið þeim mun ágætari helgiþjónustu sem hann er meðalgangari betri sáttmála, sem byggist á betri fyrirheitum. . . . Þar sem hann nú kallar þetta nýjan sáttmála, þá hefur hann lýst hinn fyrri úreltan.“ — Hebreabréfið 8:6, 13.

‚Úreltur‘ gamall sáttmáli víkur

9. (a) Hvaða dag leið gamli sáttmálinn undir lok? (b) Hvað gerðist þann morgun og hvað staðfesti það?

9 Þessi ‚úrelti‘ sáttmáli leið undir lok 50 dögum eftir upprisu meðalgangara nýja sáttmálans. Það átti sér stað á hvítasunnudeginum. Að morgni þess dags byrjaði það sem uppskeruhátíð Gyðinganna var tákn um að uppfyllast. Hvernig? Með þeim hætti að 120 trúfastir lærisveinar meðalgangara nýja sáttmálans söfnuðust saman í loftstofu í Jerúsalem, og fengu hinn fyrirheitna heilaga anda til uppfyllingar spádómsins í Jóel 3:1-5. Þar með var staðfest með sýnilegum og heyranlegum sönnunargögnum að nýi sáttmálinn væri genginn í gildi.

10. Hvernig kom í ljós á hvítasunnudeginum að lærisveinar Jesú hefðu verið smurðir heilögum anda?

10 Þegar Jesús steig upp úr skírnarvatninu og heilögum anda var úthellt yfir hann birtist þessi andi á undraverðan hátt í dúfulíki yfir höfði honum. Hjá lærisveinunum 120 var sýnt með öðrum hætti að þeir væru smurðir heilögum anda. Þeim birtust tungur sem af eldi væru er settust á höfuð þeim, og þeir fengu hæfileika til að boða orð Guðs á erlendum tungumálum sem þeir höfðu aldrei lært. — Matteus 3:16; Postulasagan 2:1-36.

11. (a) Hvað ætti Gyðingum að vera ljóst og hvers vegna? (b) Hvernig vitum við að Gyðingar segja ekki hver við annan: ‚Þekktu Jehóva,‘ og hvaða hamingju njóta þeir ekki?

11 Gyðingum og rabbínum þeirra ætti að vera ljóst að Móselögin eru úr gildi fallin. Frá því að rómverskur her eyddi Jerúsalem árið 70 hafa þeir ekkert musteri haft. Þá týndust eða eyðilögðust ættarskrár þeirra. Núna geta þeir því með engu móti vitað hver er af ætt Leví og hverjir afkomendur Arons, það er hver ætti að þjóna hlutverki æðsta prests Gyðinga. Í stað þess að segja hver öðrum: ‚Þekktu Jehóva,‘ álíta þeir helgispjöll að nefna nafn Guðs upphátt. Þeir eiga því ekki hlutdeild í hamingju votta Jehóva sem kemur til af því að nýr sáttmáli er kominn í stað hins gamla og ‚úrelta.‘

‚Eilífur sáttmáli‘

12. (a) Hvaða bæn geta vottar Jehóva tekið undir af heilu hjarta? (b) Hvað hafði Jesús með sér þegar hann var reistur upp frá dauðum?

12 Gerólíkt Gyðingum eiga vottar Jehóva starfandi æðsta prest í embætti við hægri hönd Guðs á himnum. Hann er meðalgangari nýja sáttmálans, meðalgangari meiri en Móse. Af heilu hjarta geta þessir vottar Jehóva tekið undir bæn biblíuritarans í Hebreabréfinu 13:20, 21: „En Guð friðarins, er leiddi hinn mikla hirði sauðanna, Drottin vorn Jesú, upp frá dauðum með blóði eilífs sáttmála, hann fullkomni yður í öllu góðu til að gjöra vilja hans.“ Úr því að ‚hirðirinn mikli‘ lagði mannslíf sitt í sölurnar fyrir ‚sauðina‘ var hægt að reisa hann upp í ódauðlegum, blóðlausum andalíkama, og þannig gat hann borið fram verðgildi blóðs nýja sáttmálans sem er haldinn af trúfesti og eilífur að því er áhrif varðar.

13. (a) Hvernig minnast vottar Jehóva dauða meðalgangarans ár hvert? (b) Hvað táknar brauðið og vínið?

13 Vottar Jehóva minnast ár hvert fórnardauða meðalgangara nýja sáttmálans, Jesú Krists. Við kvöldmáltíðina taka aðilar að nýja sáttmálanum af ósýrðu brauði, sem táknar fullkomið hold meðalgangarans, og víni sem táknar hreint, ómengað blóð hans. Að sögn Ritningarinnar geymdi það líf meðalgangarans. — 1. Korintubréf 11:20-26; 3. Mósebók 17:11.

14. Hvað gera aðilar að nýja sáttmálanum táknrænt þegar þeir taka af brauðinu og víninu?

14 Þegar aðilar að nýja sáttmálanum drekka af bikar minningarhátíðarinnar við kvöldmáltíð Drottins eru þeir aðeins í táknrænum skilningi að drekka blóð hans. Það er líka í táknrænni merkingu sem þeir eta hold hans þegar þeir taka af brauði minningarhátíðarinnar. Með því eru þeir að tjá trú sína á lausnarfórn sonar Guðs, lausnara alls mannkyns.

15. (a) Hve lengi hefur nýi sáttmálinn staðið og hvernig hefur hann reynst betri sáttmáli? (b) Hvers vegna er hægt að kalla nýja sáttmálann ‚eilífan sáttmála‘?

15 Nýi sáttmálinn, sem nú er yfir 1950 ára gamall, er við það að fullna tilgang sinn. Nú þegar hefur hann staðið nokkrum öldum lengur en lagasáttmáli Móse. Hann er byggður á betri fyrirheitum og betri fórn og á sér betri meðalgangara. Hann er því betri sáttmáli. Hann þarf ekki að víkja fyrir öðrum nýjum og betri. Nýi sáttmálinn er því réttilega nefndur ‚eilífur sáttmáli.‘ — Hebreabréfið 13:20.

16. Fyrir hvað ættum við að vera þakklát Jehóva Guði?

16 Alvöldum Guði Jehóva séu þakkir fyrir að vekja upp betri meðalgangara en Móse, sem hann gat notað til að fella lagasáttmála Móse löglega úr gildi með því að negla hann á kvalastaurinn og sjá fyrir blóði eilífs nýs sáttmála!

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 105]

Nýi sáttmálinn, sem Jesús miðlaði, er miklu fremri þeim gamla sem Móse miðlaði.