Sáttmáli Guðs við „vin“ sinn er nú þegar milljónum til gagns
9. kafli
Sáttmáli Guðs við „vin“ sinn er nú þegar milljónum til gagns
1, 2. (a) Hvaða vináttusamband er þegar byrjað að verka milljónum manna til góðs? (b) Hvers vegna gat Abraham orðið vinur Guðs?
FYRIR meira en 1950 árum sagði sannur vinur alls mannkyns: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóhannes 15:13) Sá sem þetta mælti, Jesús, var afkomandi manns sem nefndur var vinur Jehóva Guðs, æðstu tignarpersónu alheimsins. Þetta vináttusamband hefur, þótt þar kunni að virðast hallast nokkuð á, nú þegar byrjað að gagna milljónum manna.
2 Hver var þessi maður aftur í grárri forneskju sem gerði okkur svo gott með vináttu sinni við Guð? Það var Abraham, afkomandi Sems, eins þeirra sem lifði af flóðið á dögum Nóa. Abraham varð vinur Guðs og sýndi sanna vináttu. Vegna kærleika síns og trúar fór Abraham að vilja Guðs og því sagði biblíuritarinn Jakob: „Ritningin rættist, sem segir: ‚Abraham trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað,‘ og hann var kallaður Guðs vinur.“ — Jakobsbréfið 2:23.
3, 4. (a) Á hverju sést hve mikils Jehóva mat trú og traust Abrahams til sín? (b) Með hvaða orðum nær yfirlýsing Jehóva í Jesaja 41:8 hámarki?
3 Þessi maður trúar og verka var frá borginni Úr í Kaldeu og var fyrstur manna nefndur Hebrei. (1. Mósebók 14:13) Þessi nafngift var síðan notuð um afkomendur hans, Ísraelsþjóðina. (Filippíbréfið 3:5) Með því að Jehóva Guð hafði gert Abraham að vini sínum gaf hann honum líka ýmsar persónulegar upplýsingar. Það má sjá af því sem skrifað er í 1. Mósebók 18:17-19.
4 Af þessu má sjá hve mikils Jehóva Guð mat trú og traust Abrahams sem birtist í möglunarlausri hlýðni hans. Jehóva gat því kinnroðalaust sagt Ísraelsmönnum: „En þú, Ísrael þjónn minn, Jakob, sem ég hefi útvalið, þú afsprengi Abrahams ástvinar míns.“ — Jesaja 41:8.
Abrahamssáttmálinn tekur gildi
5, 6. (a) Hvaða sáttmála gerði Jehóva Guð við vin sinn Abraham? (b) Við hvaða aðstæður gaf Guð vini sínum loforð um afkvæmi?
5 Þau áhrif, sem kærleiks- og vináttubönd geta haft, birtast í því að drottinvaldur alheimsins, Jehóva, gerði sáttmála við Abraham sem var aðeins maður. Í 1. Mósebók 15:18 lesum við: „Á þeim degi gjörði [Jehóva] sáttmála við Abram [Abraham] og mælti: ‚Þínu afkvæmi gef ég þetta land, frá Egyptalandsánni til árinnar miklu, árinnar Efrat.‘“
6 Efrat var áin sem Abraham og fjölskylda hans fór yfir til að komast inn í fyrirheitna landið. Þegar það gerðist var Abraham barnlaus, þótt orðinn væri 75 ára, og kona hans komin úr barneign. (1. Mósebók 12:1-5) Jafnvel þótt svo væri sagði Guð við hinn hlýðna Abraham: „Lít þú upp til himins og tel þú stjörnurnar, ef þú getur talið þær. . . . Svo margir skulu niðjar þínir verða.“ — 1. Mósebók 15:2-5.
7. (a) Hvað er þessi sáttmáli kallaður? (b) Hvaða ár tók hann gildi og með hvaða atburði? (c) Hve mörg ár liðu þar til lagasáttmálinn var gerður við Ísraelsþjóðina?
7 Sáttmálinn, sem Jehóva Guð gerði við ‚vin‘ sinn, er nefndur Abrahamssáttmálinn. Hann tók gildi árið 1943 f.o.t. þegar Abraham fór eftir ákvæðum sáttmálans og fór yfir Efrat á leið sinni til fyrirheitna landsins. Það ár uppfyllti Jehóva Guð loforð sitt um að blessa hinn barnlausa Abraham með afkvæmi. Lögmálið, sem tilheyrði sáttmálanum er gerður var við Ísraelsþjóðina við Sínaífjallið, varð til 430 árum síðar, árið 1513 f.o.t. — 1. Mósebók 12:1-7; 2. Mósebók 24:3-8.
Lagasáttmálanum bætt við Abrahamsáttmálann
8. (a) Hver var tilgangur lagasáttmálans? (b) Ógilti lagasáttmálinn Abrahamssáttmálann?
8 Þegar þar var komið sögu voru afkomendur Abrahams í gegnum soninn Ísak orðnir frjáls þjóð. Þjóðin hafði verið frelsuð úr Egyptalandi og leidd til Sínaífjalls í Arabíu. Með Móse sem milligöngumann hafði hún fengið aðild að lagasáttmálanum við Jehóva Guð. Þar eð Ísraelsmenn voru afkomendur vinar Jehóva, Abrahams, hver var eiginlega tilgangur slíks lagasáttmála? Hann var sá að vera útvalinni þjóð Jehóva til verndar. Lagasáttmálinn felldi ekki Abrahamssáttmálann úr gildi, jafnvel þótt hann sýndi fram á að Ísraelsmenn væru sekir syndarar í ljósi hins fullkomna lögmáls Guðs. — Galatabréfið 3:19-23.
9, 10. (a) Hver var almenn skoðun afkomenda Abrahams á sæðinu sem allar þjóðir jarðar myndu hljóta blessun fyrir? (b) Hafa viðhorf þeirra reynst rétt?
9 Táknrænt talað urðu Ísraelsmenn „synir“ þessa lagasáttmála. Þeim fannst sökum þess að þeir voru að holdinu afkomendur Abrahams yrðu þeir sjálfkrafa það „afkvæmi“ sem allar þjóðir myndu blessa sig fyrir. Varð reyndin sú? Nei! Núna, næstum 3500 árum síðar, er uppi hið sjálfstæða, veraldlega lýðveldi Ísrael, en það heyr baráttu fyrir tilveru sinni meðal fjandsamlegra þjóða.
10 Sú er því ekki leið Jehóva Guðs að menn taki gyðingatrú til að verða hluti af „afkvæmi“ Abrahams til blessunar öllu mannkyni. Hvað hefur þá gerst?
11. Hvernig skýrði Páll postuli það hvernig fór fyrir afkomendum Abrahams að holdinu?
11 Páll postuli skýrir málið fyrir okkur og segir: „Ritað er, að Abraham átti tvo sonu, annan við ambáttinni [Hagar], en hinn við frjálsu konunni [Söru]. Sonurinn við ambáttinni var fæddur á náttúrlegan hátt, en sonurinn við frjálsu konunni var fæddur samkvæmt fyrirheiti. Þetta hefur óeiginlega merkingu: Konurnar merkja tvo sáttmála: Annar er sá frá Sínaífjalli og elur börn til ánauðar, það er Hagar; en Hagar merkir Sínaífjall í Arabíu og samsvarar hinni núverandi Jerúsalem, því að hún er í ánauð ásamt börnum sínum. En Jerúsalem, sem í hæðum er, er frjáls, og hún er móðir vor.“ — Galatabréfið 4:22-26.
12. Hverjum samsvaraði ambáttin Hagar?
12 Sú Jerúsalem, sem ambáttin Hagar samsvaraði, var jarðnesk, byggð Gyðingum að holdinu. Á dögum Jesú Krists var hún höfuðborg Ísraelsþjóðarinnar og undir lagasáttmálanum. (Matteus 23:37, 38) Meðan lagasáttmálinn, sem Móse miðlaði, var enn í gildi var Ísrael að holdinu sýnilegur hluti skipulags Jehóva. Því gat kona verið tákn hennar, það er Hagar ambátt Söru.
Sannir synir Abrahamssáttmálans
13. (a) Hverju samsvaraði kona Abrahams, Sara? (b) Hvers vegna er hægt að kalla ‚Jerúsalem í hæðum‘ frjálsa?
13 Á hinn bóginn var ‚Jerúsalem í hæðum‘ ósýnilegt skipulag Jehóva á himnum. Með sama hætti var hægt að láta konu vera tákn þess, Söru hina sönnu eiginkonu Abrahams. Lagasáttmálinn var ekki gerður við þetta skipulag, þannig að ‚Jerúsalem í hæðum‘ var frjáls eins og Sara. Það er þetta skipulag sem hið fyrirheitna sæði eða afkvæmi kemur af, og þess vegna gat Páll postuli kallað það ‚móður vora.‘
14. Á Abrahamssáttmálinn við ‚Jerúsalem í hæðum,‘ og hvað er því hægt að kalla andagetna lærisveina Jesú Krists?
14 Í raun á því Abrahamssáttmálinn við hana sem táknræna eiginkonu hins meiri Abrahams, já við alheimsskipulag Jehóva á himnum uppi. Af því leiðir að andagetnir lærisveinar Jesú Krists eru, eins og Páll postuli, synir eða börn Abrahamssáttmálans. Páll heldur áfram eftir þeim nótum og segir:
15. Hvað sagði Páll postuli í Galatabréfinu 4:27-31 í sambandi við „börn“ Abrahamssáttmálans?
15 „Því að ritað er: Ver glöð, óbyrja, sem ekkert barn hefur átt! Hrópa og kalla hátt, þú sem ekki hefur jóðsjúk orðið! Því að börn hinnar yfirgefnu eru fleiri en hinnar, sem manninn á. En þér, bræður, eruð fyrirheits börn eins og Ísak. En eins og sá, sem fæddur var á náttúrlegan hátt, ofsótti forðum þann, sem fæddur var á undursamlegan hátt, svo er það og nú. En hvað segir ritningin? ‚Rek burt ambáttina og son hennar, því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með syni frjálsu konunnar.‘ Þess vegna, bræður, erum vér ekki ambáttar börn, heldur börn frjálsu konunnar.“ — Galatabréfið 4:27-31; Jesaja 54:1.
16. Hvað sagði hinn táknræni sjónleikur til forna fyrir um lagasáttmálann og hvað stæði þá eftir?
16 Þannig sagði þessi táknræni sjónleikur til forna fyrir að Jehóva Guð, hinn meiri Abraham, myndi nema úr gildi lagasáttmálann sem gerður yrði við Ísrael við Sínaífjallið. Þannig yrði viðbótin við Abrahamssáttmálann (lagasáttmálinn) dregin frá eða numin úr gildi, svo að eftir stæði Abrahamssáttmálinn með fyrirheiti sínu um sæði eða afkvæmi en fyrir það myndu allar þjóðir jarðarinnar blessa sig.
17. (a) Hve lengi var lagasáttmálinn í gildi? (b) Með hvaða hætti var Jesús Kristur fremsti afkomandi Abrahams? (c) Undir hverju var það komið að Jesús yrði sá sem allar þjóðir jarðar fengju blessun fyrir?
17 Þessi lagasáttmáli, sem bætt hafði verið við, átti því að vera í gildi þar til hið fyrirheitna sæði birtist. Það reyndist vera Jesús Kristur. Hann varð fremsti afkomandi ættföðurins Abrahams vegna kraftaverks Guðs. Bæði var hann afkomandi Abrahams í holdlegan ættlegg og sonur Guðs, og þar með fullkominn maður, „heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum.“ (Hebreabréfið 7:26) Það að hann yrði sá sem allar þjóðir jarðar hlytu blessun fyrir var þó undir því komið að hann fórnaði fullkomnu lífi sínu og notaði verðmæti þeirrar fórnar til hagsbóta öllu mannkyni. Með slíkri fórnfýsi myndi hann þjóna hlutverki æðsta prests Jehóva, færa fórn sem uppfyllti allar kröfur Guðs.
Lagasáttmálinn negldur á kvalastaur Jesú
18. (a) Hverjir nutu fyrst góðs af lausnarfórninni og hvers vegna? (b) Hvað varð Jesús?
18 Lausnarfórnin kæmi fyrst til góða Gyðingaþjóðinni sem Jesús tilheyrði vegna þess að meyjan María fæddi hann á undraverðan hátt. Það skipti miklu máli því að Gyðingar voru undir tvöfaldri bölvun til dauða. Hvers vegna? Í fyrsta lagi vegna þess að þeir voru afkomendur syndarans Adams, og í öðru lagi af því að þeir höfðu, vegna ófullkomleika síns, kallað yfir sig bölvun með því að lifa ekki eftir lagasáttmálanum við Guð. Jesús hafði hins vegar tekið á sig að vera bölvun fyrir þá. Með því að láta negla sig á kvalastaur og deyja þar gat hann létt bölvuninni af hinum ‚týndu sauðum af Ísraelsætt.‘ Árið 33 var lagasáttmálinn negldur á kvalastaur Jesú og hinu gyðinglega sauðabyrgi undir lagasáttmálanum var lokað. — Matteus 15:24; Galatabréfið 3:10-13; Kólossubréfið 2:14.
19. (a) Hvaða nýtt sauðabyrgi þurfti nú að opna og hverja átti það að geyma? (b) Hvað verða því þeir sem eru leiddir inn í nýja sauðabyrgið?
19 Því þurfti að opna nýtt sauðabyrgi til að koma mætti fyrir andlegum sauðum hins upprisna góða hirðis, Jesú Krists. Hinn fórnfúsi góði hirðir táknar líka dyr þessa nýja sauðabyrgis. (Jóhannes 10:7) Þeir sem leiddir eru inn í þetta nýja sauðabyrgi undir umsjón góða hirðisins verða andagetnir synir hins meiri Abrahams og þar með hluti af sæði hans eða afkvæmi. (Rómverjabréfið 2:28, 29) Hinar smurðu leifar þessa andlega sæðis hafa þjónað til blessunar milljónum manna í meira en 200 löndum nú á síðustu dögum, trúar þessari staðreynd.
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 80, 81]
Lagasáttmáli Móse, gerður við Sínaífjallið, leið undir lok þegar hann var negldur á kvalastaurinn með Jesú.