Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skipulags Jehóva minnst með hollustu

Skipulags Jehóva minnst með hollustu

17. kafli

Skipulags Jehóva minnst með hollustu

1. Um hollustu við hvern ættum við að hugsa og hvað sagði Davíð konungur um þetta efni?

 MENN hafa margt að segja um hollustu við land og þjóð. En hve mikið segja lýðir og leiðtogar þessa heims um hollustu við Guð, hann sem er skapari þess lands sem þjóðirnar byggja? Davíð, konungur Ísraels til forna, var drottinhollur dýrkandi skaparans, Jehóva Guðs. Davíð ávarpaði þennan drottinholla Guð svo: „Gagnvart drottinhollum ert þú drottinhollur.“ (2. Samúelsbók 22:26NW; Sálmur 18:26) Lýsa þessi orð afstöðu þinni til Guðs?

2. Hvernig vitum við að Jehóva hefur verið trúr mannkyninu?

2 Viðhorf mannkynsins í heild bera því ekki vitni að það leiði hugann mikið að hollustu við Guð. En þrátt fyrir það sýnir Jehóva mannkyninu hollustu. Hann hefur ekki hrint því frá sér. Trúfastur sonur hans sagði: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Það var ekki Guð sem ofurseldi mannheiminn mesta óvini hans, Satan, sem kom fyrstu foreldrum okkar til að sýna Guði ótrúmennsku. Guð sýndi líka mannkyninu hollustu sína árið 2370 f.o.t. með því að koma Nóa og fjölskyldu hans lífs í gegnum heimsflóðið sem afmáði alla aðra menn. (2. Pétursbréf 2:5) Á þennan hátt gaf skaparinn mannkyninu nýja byrjun.

3. (a) Hvað má segja um ofbeldi nútímans og hvað ætlar Guð að gera við því? (b) Hver er umbunin fyrir hollustu við Jehóva?

3 Ofbeldið á jörðinni er nú margfalt meira en var á dögum Nóa fyrir liðlega fjórum árþúsundum. (1. Mósebók 6:11) Það er þess vegna réttlátt að hinn sami Guð afmái núverandi heimskerfi. Það hefur hann líka afráðið. Hann mun þó sjá um að drottinhollir þjónar hans lifi. Hann mun fara eftir Sálmi 37:28: „[Jehóva] hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu.“ Eins og á dögum Nóa mun hann gefa réttláta byrjun nýrri heimsskipan sem felst í ‚nýjum himni og nýrri jörð.‘ (2. Pétursbréf 3:13) Drottinhollusta hefur mikil laun í för með sér. Hún gefur líf!

4. Hvernig vitum við að Ísraelsþjóðin var sýnilegt skipulag Jehóva til forna?

4 Í stjórnartíð Davíðs konungs reyndist Ísraelsþjóðin drottinholl Jehóva. Davíð gaf allri þjóðinni fordæmi. Hún var sýnilegt skipulag Jehóva. Hún var skipulag manna sem var séreign hans. Enginn vafi leikur á hvað átt er við með áminningarorðunum í Amosi 3:1, 2: „Heyrið þetta orð, sem [Jehóva] hefir talað gegn yður, þér Ísraelsmenn, gegn öllum þeim kynstofni, sem ég leiddi út af Egyptalandi, svolátandi: Yður eina læt ég mér annt um fremur öllum kynstofnum jarðarinnar.“ — Samanber 1. Konungabók 8:41-43.

5. (a) Var reynt að lauma villukenningum inn í kristna söfnuðinn á dögum postula Jesú Krists? (b) Hvað var sagt að myndi gerast eftir dauða postulanna?

5 Í samræmi við þessa staðreynd biblíusögunnar á hinn sami Guð, Jehóva, sér skipulag manna á jörðinni núna. Þetta skipulag er séreign hans. En jafnvel þegar þetta skipulag var á bernskuskeiði, á dögum postula Jesú Krists, sem stóðu einbeittir vörð um hreinleika kristna safnaðarins, var reynt að læða villukenningum inn í það. (1. Korintubréf 15:12; 2. Tímóteusarbréf 2:16-18) Eftir dauða Jóhannesar postula, ekki löngu eftir árið 98, hófst það fráhvarf sem sagt var fyrir. — Postulasagan 20:30; 2. Pétursbréf 2:1, 3; 1. Tímóteusarbréf 4:1.

6. (a) Hve lengi réð fráhvarfið ríkjum og með hvaða afleiðingum? (b) Í hvaða fjötra voru trúfélög kristna heimsins komin og hvaða spurningar vakna?

6 Þetta fráhvarf var allsráðandi í sautján aldir, allt fram á síðari helming 19. aldar. Þegar þar var komið sögu hafði kristni heimurinn klofnað í hundruð sértrúarflokka. Óljóst var hverjir væru sannir þjónar Guðs. Kristni heimurinn var ringulreið alls kyns trúfélaga sem hvað snerti trúarkenningar talaði hrærigraut tungna sem voru ekki traustlega grundvallaðar á kenningalegu tungumáli hinnar innblásnu Ritningar. Slík trúfélög voru í raun orðin fangar langtum stærra heimsveldis en Babýlonar sem lagði Jerúsalem í rúst. En hvernig var Forn-Babýlon og hvernig hljóta trúfastir Gyðingar, sem þar voru í fjötrum, að hafa hugsað?

Bandingjar í Babýlon minntust með hollustu Síonar

7. (a) Hverju líktist Forn-Babýlon í trúarlegu tilliti? (b) Hvaða áhrif hlýtur það að hafa haft á Gyðingana sem voru fluttir þangað?

7 Forn-Babýlon var land falsguða og fjölmargra skurðgoða. (Daníel 5:4) Við getum ímyndað okkur hvaða áhrif þessi dýrkun margra falsguða hafði á hjörtu trúfastra Gyðinga sem höfðu tilbeðið hinn eina sanna Guð án líkneskja af nokkru tagi. Í stað hins fagra musteris Jehóva í Jerúsalem í allri sinni fegurð, sáu þeir musteri falsguða og líkneski þeirra út um Babýlon allra. * Dýrkendur hins eina sanna Guðs hlýtur að hafa hryllt við öllu þessu!

8. (a) Hve lengi myndu Gyðingar þurfa að vera í útlegð og hvað hljóta trúfastir Gyðingar að hafa þráð? (b) Hvernig lýsir Sálmur 137:1-4 hjartasorg hinna drottinhollu Gyðinga í útlegðinni?

8 Samkvæmt spádómi Jeremía myndu þeir verða að umbera þetta í 70 ár áður en þeir fengju að snúa heim aftur. (2. Kroníkubók 36:18-21; Jeremía 25:11, 12) Harmi þessara bandingja, sem elskuðu Jehóva og þráðu að dýrka hann í musteri sem honum var helgað í útvalinni borg hans, er lýst í Sálmi 137:1-4: „Við Babýlonsfljót, þar sátum vér og grétum, er við minntumst Síonar. Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar. Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: ‚Syngið oss Síonarkvæði!‘ Hvernig ættum vér að syngja [Jehóva] ljóð í öðru landi?“

9. Hvers vegna vildu Babýloníumenn láta Gyðinga syngja ‚ljóð Jehóva‘ en hvað átti að gerast við lok 70 áranna?

9 ‚Ljóð Jehóva‘ er ljóð eða söngur frjálsrar þjóðar sem dýrkar hann í heilögu musteri hans. Babýloníumenn vildu fá Gyðingana í útlegðinni til að syngja ‚Jehóva ljóð‘ svo að þeir gætu spottað nafn hans sem stæði hann guðum Babýlonar að baki. Heilagt nafn hans hafði þegar mátt þola mikla háðung þegar hann leyfði að þjóð hans yrði tekin úr landinu, er hann hafði gefið henni, og leidd burt til lands þar sem var aragrúi guða. En tíminn, sem Babýloníumenn fengju til að spotta hann og lítilsvirða þjóðina, er bar nafn hans, var takmarkaður — 70 ár. Þá yrðu falsguðir Babýlonar niðurlægðir og hinn sanni Guð, Jehóva, upphafinn.

Órjúfanleg tryggð við skipulag Jehóva

10. Hvaða spurning vaknar varðandi þjóna Jehóva nú á 20. öldinni sem voru hnepptir í fjötra Babýlonar hinnar miklu?

10 Núna er á sjónarsviðinu skipulag, nefnt Babýlon hin mikla, sem ekki takmarkast við það land er Babýlon réði heldur teygir sig um allan heiminn. Þjónar Jehóva á 20. öldinni voru með valdi hnepptir í varðhald í Babýlon hinni miklu og það kom yfir þá sem ögun frá Guði Forn-Ísraels. Er það viðhorf, sem Gyðingarnir í Forn-Babýlon báru í hjarta sér, þeim rétt fyrirmynd?

11. (a) Létu drottinhollir Gyðingar ættland sitt falla í gleymsku? (b) Hvernig lét sálmaritarinn í ljós tilfinningar sínar og annarra bandingja?

11 Með því að útlegð Gyðinganna átti að standa í heilan mannsaldur var ekkert auðveldara en að koma sér vel fyrir í Babýlon fortíðarinnar og láta heimalandið falla í gleymsku. En bandingjarnir gerðu það ekki. Sá þeirra sem orti sálminn túlkar fagurlega tilfinningar þeirra: „Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd. Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.“ — Sálmur 137:5, 6.

12. Hvaða viðhorf lét sálmaritarinn í ljós?

12 Hvað létu bandingjarnir í ljós með þessu viðhorfi? Hollustu við sýnilegt skipulag Jehóva þeirra tíma meðan hann lét landið, sem hann gaf útvalinni þjóð sinni, liggja í eyði í 70 ár. Já, sýnilegt skipulag Jehóva lifði í hjörtum þessara Ísraelsmanna.

13. Hvernig var hollusta við sýnilegt skipulag Jehóva umbunuð?

13 Þeim var ríkulega umbunuð slík hollusta við hið sýnilega skipulag Guðs til forna. Það gerðist þegar Babýlon, þriðja heimsveldi biblíusögunnar, var sigruð og Medía-Persía, fjórða heimsveldið, rak erindi Guðs Ísraels. Hvernig? Með því að gefa hinum herteknu Gyðingum heimfararleyfi til þess lands þar sem sýnilegt skipulag Jehóva var staðsett, ásamt fyrirmælum um að endurbyggja musteri hans í Jerúsalem sem miðdepil höfuðborgarinnar. (2. Kroníkubók 36:22, 23) Bæði var musteri sannrar guðsdýrkunar endurreist og Jerúsalem endurbyggð á ný umgyrt múrum, þannig að borgin varð sá staður þaðan sem Jehóva ríkti yfir þjóð sinni.

14. (a) Hvað sagði Messías um sýnilegt skipulag Jehóva öldum síðar? (b) Í hvaða skilningi ríkti Jehóva frá Jerúsalem?

14 Meira en sex öldum eftir eyðingu Jerúsalem sagði Jesús: „Þér eigið alls ekki að sverja, hvorki við himininn, því hann er hásæti Guðs, né við jörðina, því hún er skör fóta hans, né við Jerúsalem, því hún er borg hins mikla konungs.“ (Matteus 5:34, 35) Þegar Messías var á jörðinni stóð endurbyggt musteri Jehóva í Jerúsalem, og táknrænt talað ríkti Jehóva í hinu allra helgasta í musterinu. Jerúsalem, höfuðborg þjóna Guðs, var því borgin þaðan sem hann ríkti yfir sýnilegu skipulagi sínu.

Jehóva er trúr skipulagi sínu

15. Var Jesús að hafna sýnilegum hluta skipulags Jehóva þegar hann afhjúpaði svikula trúarleiðtoga Ísraels? Gefðu skýringu.

15 Útskúfaði Jesús þá sýnilegu skipulagi Guðs þegar hann afhjúpaði hina sviksömu trúarleiðtoga Ísraels og fordæmdi þá? Já, því að hann sagði: „Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið.“ (Matteus 23:37, 38) Þegar Jesús hafnaði Jerúsalem og „börnum“ hennar, lét hann þá himneskan föður sinn eftir án jarðnesks skipulags? Nei, því að sjálfur var Jesús grundvöllur þess nýja skipulags sem skapari alheimsins ætlaði að byggja upp.

16. Hvernig birtist það að í sama mund og Jesús dó á kvalastaurnum var Ísrael hafnað?

16 Skýrt kom í ljós að Ísrael að holdinu væri hafnað þegar hið þykka fortjald, sem skildi að hið heilaga og hið allra helgasta í musterinu í Jerúsalem, rifnaði „ofan frá og niður úr“ í sama mund og Jesús dó á kvalastaurnum. Samtímis ‚skalf jörðin og björgin klofnuðu.‘ Þetta voru máttarverk Guðs sem hafði ríkt þar í óeiginlegum skilningi. Með þeim gaf hann til kynna að hann hefði hafnað Ísraelsþjóðinni og trú hennar. — Matteus 27:51.

17. Hvernig sýndu Jesús og Jehóva trúfesti þeim sem tilheyra áttu hinu nýja, sýnilega skipulagi Guðs?

17 Væntanlegir meðlimir þess nýja, sýnilega skipulags, sem Jehóva Guð ætlaði bráðlega að byggja upp, urðu eftir í Jerúsalem. Jesús eftirlét þá í umsjá Guðs sem var nú að snúa baki við hinni jarðnesku borg til að beina athygli sinni að öðru betra. (Jóhannes 17:9-15) Jehóva var þannig trúr skipulagi sínu og tók sérstakt tillit til hinna trúföstu ættfeðra, Abrahams, Ísaks og Jakobs, og hinna tólf sona Jakobs. (Daníel 12:1) Í næsta kafla er haldið áfram umræðu okkar um hollustu, sem byggð er á Sálmi 137.

[Neðanmáls]

^ gr. 7  Fleygrúnaáletrun frá Forn-Babýlon hljóðar svo: „Alls voru í Babýlon 53 musteri aðalguðanna, 55 kapellur Mardúks, 300 kapellur fyrir jarðnesku guðdómana, 600 fyrir himnesku guðdómana, 180 altari fyrir gyðjuna Ístar, 180 fyrir guðina Nergal og Adad og 12 altari fyrir ýmsa guði.“

[Spurningar]