Eftir Harmagedón verður paradís á jörð
19. kafli
Eftir Harmagedón verður paradís á jörð
1. (a) Hvaða hugmynd gera margir sér um Harmagedón? (b) Hvað segir Biblían um það?
ORÐIÐ „HARMAGEDÓN“ vekur óhug með mörgum. Veraldarleiðtogar nota það oft um þriðju heimsstyrjöldina sem þeir óttast að geti brotist út. En í Biblíunni er Harmagedón heiti á stað þar sem Guð mun heyja réttlátt stríð. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Þetta stríð Guðs mun ryðja brautina réttlátri nýrri skipan.
2. (a) Hverjum verður eytt í Harmagedón? (b) Hvaða verk er því hyggilegt að forðast?
2 Í Harmagedónstríðinu verður aðeins hinum illu tortímt, ólíkt styrjöldum manna þar sem farast bæði góðir og vondir. (Sálmur 92:8) Jehóva Guð verður dómarinn og hann mun afmá hvern þann sem af ráðnum hug neitar að hlýða réttlátum lögum hans. Margir sjá ekkert rangt við saurlifnað, drykkjuskap, lygar og svik, en að sögn Guðs er þetta rangt. Í Harmagedón mun hann þess vegna ekki bjarga þeim sem halda áfram að gera slíkt. (1. Korintubréf 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:8) Því er brýnt fyrir þá sem iðka slíkt en þekkja lög Guðs að breyta hegðun sinni.
3. (a) Við hvað líkti Jesús endalokum núverandi heims? (b) Hvað verður um Satan og illa anda hans? (c) Hvers konar skilyrði munu ríkja í paradís á jörð samkvæmt ritningargreinunum á næstu blaðsíðum?
3 Enginn hluti þessa illa heims mun standa eftir Harmagedón. Þeir einir sem þjóna Guði munu lifa áfram. (1. Jóhannesarbréf 2:17) Jesús Kristur líkti ástandinu við daga Nóa. (Matteus 24:37-39; 2. Pétursbréf 3:5-7, 13; 2:5) Eftir Harmagedón verður ríki Guðs einasta ríkisstjórnin yfir jörðinni. Satan og illir andar hans verða horfnir. (Opinberunarbókin 20:1-3) Á næstu blaðsíðum má sjá nokkrar þeirra blessana sem Biblían gefur til kynna að hlýðnir menn muni fá að njóta.
ALLT MANNKYNIÐ Í FRIÐI
„Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað . . . Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“ — Jesaja 9:6, 7.
„Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til. Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.“ — Sálmur 72:7, 8.
ENGIN STRÍÐ FRAMAR
„Komið, skoðið dáðir [Jehóva], hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu. Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar.“ — Sálmur 46:9, 10.
GÓÐ HÚSAKYNNI OG ÁNÆGJULEG VINNA FYRIR ALLA
„Þeir munu reisa hús og búa í þeim, . . . Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, . . . mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna. Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er [Jehóva] hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim.“ — Jesaja 65:21-23.
GLÆPIR, OFBELDI OG MANNVONSKA HORFIN
„Illvirkjarnir verða afmáðir, . . . Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.“ — Sálmur 37:9, 10.
„En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“ — Orðskviðirnir 2:22.
ÖLL JÖRÐIN PARADÍS
Jesús sagði: „Þú skalt vera með mér í paradís.“ — Lúkas 23:43, NW.
Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:29.
NÆGUR MATUR HANDA ÖLLUM
„[Jehóva] allsherjar mun . . . búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum.“ — Jesaja 25:6.
„Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum.“ „Landið gefur sinn gróða; guð, vor guð, blessar oss.“ — Sálmur 72:16; 67:7, Ísl. bi. 1859.
4, 5. (a) Hvaða ástand mun ekki verða í paradís á jörð? (b) Hvað mun fólk þá geta gert sem víða er ekki hægt núna?
4 Þig hlýtur að langa til að lifa á paradísarjörð líkri garðinum sem fyrsti maðurinn Adam var skapaður í. (1. Mósebók 2:8; Lúkas 23:43) Hugsaðu þér — stríð, glæpir og ofbeldi mun heyra fortíðinni til. Þú munt geta farið í gönguferð hvar sem þig lystir, hvenær sem er að degi eða nóttu án þess að þurfa að óttast um líf þitt eða limi. Illmenni verða hreinlega ekki lengur til. — Sálmur 37:35-38.
5 Það mun þýða að engir óheiðarlegir stjórnmálamenn og ágjarnir kaupsýslumenn verða til að kúga fólk. Menn munu ekki þurfa að bera þunga skattabyrði til að standa undir hernaðarútgjöldum. Engan mun nokkurn tíma framar skorta mat né þægilegt húsnæði vegna fátæktar. Atvinnuleysi, verðbólga og hátt verðlag mun ekki þekkjast. Þeir erfiðleikar, sem valda fjölskyldum nú á dögum margs kyns þjáningum, verða þurrkaðir út. Allir munu hafa ánægjuleg störf að vinna og geta séð og notið árangurs erfiðis síns.
6. (a) Hvaða starf munu þeir sem lifa af Harmagedón vinna? (b) Hvernig mun Guð blessa það starf sem unnið er?
6 Til að byrja með munu þeir sem lifa Harmagedón af hafa það verkefni að hreinsa jörðina og fjarlægja rústir þessa gamla kerfis. Þá munu þeir, undir umsjón Guðsríkis, yrkja jörðina og gera hana að fögrum bústað. Það verður sannarlega ánægjulegt verkefni! Guð mun blessa allt sem gert er. Hann mun tryggja rétt loftslag til ræktunar matjurta og búpenings, og sjá til þess að vernda hann gegn sjúkdómum og öðru tjóni.
7. (a) Hvaða loforð Guðs mun rætast? (b) Hvers bíða kristnir menn samkvæmt fyrirheiti Guðs?
7 Þá mun rætast fyrirheit hins ástríka skapara sem birtist í ávarpi sálmaritarans í Biblíunni: „Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ (Sálmur 145:16) Já, öllum réttmætum löngunum guðhræddra manna verður fullnægt eins og best verður á kosið. Við getum ekki einu sinni ímyndað okkur hversu unaðslegt lífið verður í paradís á jörð. Pétur postuli sagði frá ráðstöfun Guðs til blessunar fólki sínu og skrifaði: „En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ — 2. Pétursbréf 3:13; Jesaja 65:17; 66:22.
8. (a) Hvers vegna þurfum við ekki nýjan, efnislegan himin? (b) Hvað er ‚nýi himinninn‘?
8 Hvað er þessi ‚nýi himinn‘? Ekki er átt við nýjan, bókstaflegan himin því að Guð skapaði hann fullkominn og hann er honum til lofs og dýrðar. (Sálmur 8:4; 19:2, 3) ‚Nýi himinninn‘ er ný stjórn yfir jörðinni. ‚Himinninn,‘ sem nú er, er myndaður af stjórnum mannanna. Í Harmagedón munu þær líða undir lok. (2. Pétursbréf 3:7) ‚Nýi himinninn,‘ sem mun koma í þeirra stað, verður himnesk ríkisstjórn Guðs. Konungur hennar verður Jesús Kristur, en með honum, og hluti ‚nýja himinsins,‘ verða 144.000 af trúföstum fylgjendum hans. — Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1, 3.
9. (a) Hvað er ‚nýja jörðin‘? (b) Hver er sú jörð sem verður eytt?
9 Hvað er þá ‚nýja jörðin‘? Hún er ekki ný reikistjarna því að Guð gerði reikistjörnuna Jörð þannig úr garði að hún hentaði fullkomlega mannlegu lífi, og sá er vilji hans að hún standi að eilífu. (Sálmur 104:5) Með ‚nýju jörðinni,‘ er átt við nýtt samfélag manna. Biblían notar oft orðið „jörð“ á þennan hátt. Til dæmis segir hún: „Öll jörðin [í merkingunni fólkið] hafði eitt tungumál.“ (1. Mósebók 11:1) ‚Jörðin,‘ sem þá verður eytt, er það fólk sem gerir sig að hluta þessa illa heimskerfis. (2. Pétursbréf 3:7) ‚Nýja jörðin,‘ sem kemur í þess stað, verður mynduð af sönnum þjónum Guðs sem hafa aðgreint sig frá þessum heimi óguðlegra manna. — Jóhannes 17:14; 1. Jóhannesarbréf 2:17.
10. (a) Hverjum er nú verið að safna saman og hvert? (b) Hvað verður gert í paradís á jörð sem stjórnir mannanna ekki geta, samkvæmt ritningargreinunum á næstu blaðsíðum?
10 Á þessari stundu er verið að safna inn í kristna söfnuðinn fólki af öllum kynþáttum og þjóðernum sem mun mynda hluta ‚nýju jarðarinnar.‘ Einingin og friðurinn, sem ríkir meðal þeirra, er einungis lítill forsmekkur af því sem mun gera lífið svo unaðslegt í paradís á jörð eftir Harmagedón. Ríki Guðs mun sannarlega áorka því sem engin af stjórnum mannanna getur gert sér minnstu vonir um að áorka. Skoðaðu nokkur dæmi um þessa blessun á næstu blaðsíðum.
ÁSTRÍKT BRÆÐRALAG ALLRA MANNA
„Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem hann er.“ — Postulasagan 10:34, 35.
„Sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. . . . Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta.“ — Opinberunarbókin 7:9, 16.
FRIÐUR MILLI MANNA OG DÝRA
„Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra.“ — Jesaja 11:6; Jesaja 65:25.
SJÚKDÓMAR, ELLIHRÖRNUN OG DAUÐI HVERFA
„Þá munu augu hinna blindu upplúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“ — Jesaja 35:5, 6.
„Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.
LÁTNIR ENDURVAKTIR TIL LÍFS
„Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram.“ — Jóhannes 5:28, 29.
„Hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru.“ — Opinberunarbókin 20:13.
11. Hvað spillir oft þeirri paradís sem fólk reynir að skapa sér?
11 Óhætt er að segja að paradís undir stjórn Guðs verði óendanlega miklu betri en nokkuð af því sem þetta gamla kerfi getur veitt! Að vísu hafa sumir breytt dvalarstað sínum í það sem líkst getur paradís, en þeir sem búa á slíkum stöðum eru oft illskeyttir og eigingjarnir, jafnvel hata hver annan. Og með tíð og tíma veikjast þeir, hrörna og deyja. En eftir Harmagedón verður paradís á jörð miklu meira en aðeins fögur heimili og skrúðgarðar.
12, 13. (a) Hvernig friður mun ríkja eftir Harmagedón? (b) Hvers er þörf til að koma þessum skilyrðum á?
12 Hugsaðu þér. Fólk allra kynþátta og þjóðerna mun læra að búa saman eins og ein fjölskylda bræðra og systra. Það mun elska hvert annað. Enginn verður eigingjarn eða óvingjarnlegur. Enginn mun hata annan mann aðeins vegna kynþáttar hans, hörundslitar eða fæðingarstaðar. Fordómar munu hverfa. Allir jarðarbúar verða sannir vinir og nágrannar hvers annars. Það verður paradís í andlegum skilningi. Gætir þú hugsað þér að búa í þessari paradís undir ‚nýja himninum‘?
13 Fólk talar núna mikið um friðsamlega sambúð og hefur jafnvel sett á fót „Sameinuðu þjóðirnar.“ Þó eru menn og þjóðir sundraðri en nokkru sinni fyrr. Hvað er að? Hjörtu manna þurfa að breytast, en óhugsandi er að stjórnir þessa heims geti unnið slík kraftaverk. En boðskapur Biblíunnar um kærleika Guðs gerir það.
14. Hvað er nú að gerast sem sannar að þessi paradís verður að veruleika?
14 Margir fara í hjarta sér að elska Guð þegar þeir læra um hina réttlátu nýju skipan. Þeir fara þá að vera kærleiksríkir við aðra, alveg eins og Guð er. (1. Jóhannesarbréf 4:9-11, 20) Það hefur oft kallað á stóra breytingu í lífi þeirra. Margir sem voru illskeyttir og hatursfullir, eins og villidýr, hafa við það orðið auðmjúkir og friðsamir. Þeim er safnað, eins og hlýðnum sauðum, í hina kristnu sauðahjörð.
15. (a) Hvaða tveir hópar kristinna manna eru til? (b) Hverjir verða fyrstir til að mynda ‚nýju jörðina‘?
15 Fyrir 1900 árum var byrjað að safna saman ‚lítilli hjörð‘ 144.000 kristinna manna sem ríkja munu með Kristi. Einungis fáeinir þeirra eru enn á jörðinni; flestir ríkja nú þegar með Kristi á himnum. (Lúkas 12:32; Opinberunarbókin 20:6) En Jesús talaði um aðra kristna menn þegar hann sagði: „Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi [af ‚litlu hjörðinni‘]. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.“ (Jóhannes 10:16) Nú er verið að safna saman ‚miklum múgi‘ þessara ‚annarra sauða.‘ Þeir verða fyrstu meðlimir nýja samfélagsins á jörðinni. Jehóva mun varðveita þá í gegnum ‚þrenginguna miklu‘ við endalok þessa illa heimskerfis, til að þeir lifi áfram inn í hina jarðnesku paradís. — Opinberunarbókin 7:9, 10, 13-15.
16. Hvaða kraftaverk mun gera sambúð við dýrin ánægjulega?
16 Eftir Harmagedón mun enn eitt kraftaverk eiga sinn þátt í að gera jörðina að paradís. Skepnur svo sem ljón, tígrisdýr, hlébarðar og bjarndýr, sem nú geta verið hættulegar, verða friðsöm. Verður ekki ánægjulegt að geta farið í gönguferð um skóglendi, ef til vill um stund með ljón sér við hlið og síðan stórt bjarndýr? Enginn mun nokkurn tíma þurfa að óttast aðra lífveru.
17, 18. (a) Hvaða tilefni hryggðar verður ekki í paradís á jörð? (b) Hvers vegna getum við treyst að allir muni hafa fullkomna heilsu?
17 Einu gildir þótt heimili og garðar séu fögur, fólkið vingjarnlegt og elskuríkt og dýrin vinaleg ef við veikjumst, hrörnum og deyjum. Þá mun hryggðin eftir sem áður fylgja okkur. En hver getur gefið öllum fullkomna heilsu? Stjórnum mannanna hefur ekki tekist að vinna bug á krabbameini, hjartakvillum og öðrum sjúkdómum. Og jafnvel þótt það tækist viðurkenna læknar að öldrunareinkenni myndu áfram sækja á fólk. Við myndum hrörna þegar árin færðust yfir okkur. Með tímanum myndi sjónin daprast, vöðvarnir veiklast, húðin verða hrukkótt og líffærin innra með okkur gefa sig. Síðan kæmi dauðinn. Það væri sorglegt!
18 Eftir Harmagedón, þegar jörðin verður gerð paradís, mun Guð vinna stórkostlegt kraftaverk og breyta því öllu, því að Biblían lofar: „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) Þegar Jesús Kristur var á jörðinni sýndi hann mátt sinn til að lækna hvers kyns sjúkdóma og krankleika sem stafa af syndinni sem við höfum erft frá Adam. (Markús 2:1-12; Matteus 15:30, 31) Ellihrörnunin verður einnig stöðvuð undir stjórn Guðsríkis. Hinir aldurhnignu munu meira að segja verða sem ungir á ný. ‚Hold manna mun svella af æskuþrótti.‘ (Jobsbók 33:25) Verður ekki unaðslegt að vakna að morgni og uppgötva að heilsan er betri en hún var daginn áður?
19. Hvaða síðasti óvinur verður að engu gerður og hvernig?
19 Auðvitað vill enginn sem hefur fullkomna heilsu og æskuþrótt og býr í paradís á jörð nokkru sinni deyja. Enginn mun heldur þurfa að deyja! Hagnaðurinn af lausnarfórninni mun þýða að menn ná loksins að njóta hinnar stórfenglegu náðargjafar Guðs sem er „eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ (Rómverjabréfið 6:23) Eins og Biblían segir mun Kristur „ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur hans. Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.“ — 1. Korintubréf 15:25, 26; Jesaja 25:8.
20. Hverjir munu, auk margra núlifandi manna, vera í paradís á jörð og hvernig verður það mögulegt?
20 Jafnvel þeir sem nú eru látnir munu fá að lifa í paradís á jörð. Þeir munu endurheimta lífið! Þá verða ekki birtar dánartilkynningar heldur gleðifregnir af þeim sem hafa verið reistir upp frá dauðum. Verður ekki stórfenglegt að taka á móti feðrum, mæðrum, börnum og öðrum ástvinum sem verða vaktir upp frá dauðum? Þá verða engar útfararkapellur, kirkjugarðar né legsteinar til að spilla fegurð paradísar á jörð.
21. (a) Hverjir munu eiga þátt í að gæta þess að lögum og fyrirmælum ‚nýju himnanna‘ verði framfylgt? (b) Hvernig getum við sýnt að við viljum í sannleika ‚nýja himininn‘ og ‚nýju jörðina‘?
21 Hverjir munu stjórna eða stýra athöfnum manna í paradís á jörð? Öll lög og fyrirmæli munu koma frá ‚nýja himninum‘ hið efra. En á jörðinni verða trúfastir menn skipaðir til að sjá um að þessum lögum og fyrirmælum sé fylgt. Þessir menn eru fulltrúar hins himneska ríkis með sérstökum hætti og eru því kallaðir ‚höfðingjar‘ í Biblíunni. (Jesaja 32:1, 2; Sálmur 45:17) Jafnvel í kristna söfnuðinum eru nú menn, skipaðir af heilögum anda Guðs, til að annast og stýra starfsemi hans. (Postulasagan 20:28) Eftir Harmagedón getum við treyst að Kristur muni sjá um að réttu mennirnir séu útnefndir fulltrúar ríkisstjórnar Guðsríkis, því að hann mun þá hlutast beint til um málefni jarðarinnar. Hvernig getur þú sýnt að þú bíðir „nýs himins“ og „nýrrar jarðar“ Guðs með ákefð? Með því að gera allt sem þú getur til að uppfylla skilyrðin fyrir því að fá að lifa í þeirri réttlátu, nýju heimsskipan. — 2. Pétursbréf 3:14.
[Spurningar]