Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er til staður þar sem menn kveljast að eilífu?

Er til staður þar sem menn kveljast að eilífu?

9. kafli

Er til staður þar sem menn kveljast að eilífu?

1. Hvað hafa trúarbrögðin kennt um helvíti?

 MILLJÓNUM manna hefur verið kennt að helvíti sé staður þar sem fólk sé kvalið og pínt. Þangað fara hinir illu. Alfræðibókin Encyclopædia Britannica segir: „Rómversk-kaþólska kirkjan kennir að helvíti . . . verði til að eilífu; að þjáningar þess muni aldrei taka enda.“ Alfræðibókin segir síðan að „margir íhaldssamir hópar mótmælenda haldi enn“ þessari kaþólsku kenningu. Hindúar, búddhatrúarmenn og múhameðstrúarmenn kenna líka að helvíti sé staður kvala og píninga. Engan þarf að undra að menn, sem hefur verið kennt slíkt, segja oft að sé helvíti svona slæmur staður vilji þeir ekkert um hann tala.

2. Hvernig leit Guð á það að brenna börn í eldi?

2 Þetta vekur upp spurninguna: Skapaði alvaldur Guð slíkan stað til að kvelja menn? Sjáum hvað Guði fannst um hegðun Ísraelsmanna þegar þeir, að fyrirmynd nágrannaþjóða sinna, fóru að brenna börn sín í eldi. Hann útskýrir í orði sínu: Þeir hafa „byggt Tófet-fórnarhæðir í Hinnomssonar-dal til þess að brenna sonu sína og dætur í eldi, sem ég hefi ekki boðið og mér hefir ekki í hug komið!“ — Jeremía 7:31.

3. Hvers vegna er óskynsamlegt og óbiblíulegt að halda að Guð kvelji menn?

3 Hugleiddu það sem hér er sagt. Ef ekki hafði hvarflað að Guði að steikja fólk í eldi er þá sennilegt að hann hafi skapað brennandi víti handa þeim sem þjóna honum ekki? Biblían segir: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Ætli ástríkur Guð myndi kvelja fólk að eilífu? Myndir þú gera það? Vitneskjan um kærleika Guðs ætti að fá okkur til að leita í orði hans til að athuga hvort til er eitthvert „helvíti“ þar sem menn eru kvaldir um alla eilífð.

SÉOL OG HADES

4. (a) Hvernig sýnir Biblían að séol og hades merkja eitt og hið sama? (b) Hvað sýnir sú staðreynd að Jesús var í hades?

4 Þegar Biblían vísar til þess staðar sem menn fara til við dauðann notar hún orðið „séol“ í Hebresku ritningunum og „hades“ í Grísku ritningunum. Með því að líta á Sálm 16:10 og Postulasöguna 2:31, en þessi vers eru sýnd á næstu blaðsíðu, má sjá að þessi tvö orð eru sömu merkingar. Í báðum þessum versum er notað orðið „helja“ til þýðingar á hebreska orðinu séol og gríska orðinu hades. Sumir halda því fram að í hades séu menn kvaldir um aldur og ævi. En taktu eftir að Jesús Kristur var í hades. Eigum við að trúa því að Guð hafi kvalið Krist í einhverju „helvíti“? Vitaskuld ekki! Þegar Jesús dó fór hann einfaldlega í gröf sína.

5, 6. Hvernig sannar það sem sagt er um Jakob og Jósef, son hans, og um Job, að séol er ekki staður kvala?

5 Í 1. Mósebók 37:35 greinir frá Jakob sem þá syrgði ástkæran son sinn Jósef sem hann taldi hafa verið drepinn. Biblían segir um Jakob: „Hann vildi ekki huggast láta og sagði: ‚Með harmi mun ég niður stíga til sonar míns til heljar [séol].‘“ Staldraðu hér aðeins við og hugleiddu málið. Var séol kvalastaður? Hélt Jakob að Jósef, sonur sinn, væri kominn á slíkan stað til að dvelja þar til eilífðar, og langaði hann til að fara þangað til fundar við hann? Hélt Jakob ekki hreinlega að ástkær sonur hans væri látinn í gröfinni og vildi hann ekki sjálfur deyja?

6 Já, góðir menn fara í séol. Hugsaðu til dæmis um Job sem er þekktur fyrir trúfesti sína og hollustu við Guð. Þegar hann leið miklar þjáningar bað hann Guð að hjálpa sér. Bæn hans er skráð í Jobsbók 14:13: „Ó að þú vildir geyma mig í dánarheimum [séol], . . . setja mér tímatakmark og síðan minnast mín.“ Ef séol (dánarheimar, helja) táknaði stað elds og píningar er þá skynsamlegt að álíta að Job hefði viljað fara þangað og dvelja þar uns Guð minntist hans? Ljóst er að Job vildi deyja og vera grafinn til að þjáningum hans linnti.

7. (a) Hvert er ástand þeirra sem eru í séol? (b) Hvað er þá séol og hades?

7 Hvergi þar sem hebreska orðið séol kemur fyrir í Biblíunni er það tengt lífi, starfsemi eða kvölum. Aftur á móti er það tengt dauða og athafnaleysi. Hugsaðu til dæmis um Prédikarann 9:10 sem hljóðar svo: „Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum [séol], þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ Svarið er því ljóst. Séol og hades eiga ekki við stað kvalar og píningar heldur venjulega gröf manna. (Sálmur 139:8) Jafnt góðir menn sem vondir fara í séol eða hades.

KOMIST ÚT ÚR HELJU

8, 9. Hvers vegna sagði Jónas, meðan hann var í kviði fisksins, að hann væri í helju?

8 Geta menn komist út úr helju (séol, hades)? Athugum Jónas sem dæmi. Þegar Guð lét stóran fisk gleypa Jónas, til að hann drukknaði ekki, bað Jónas úr kviði fisksins: „Ég kallaði til [Jehóva] í neyð minni, og hann svaraði mér. Frá skauti Heljar [séol] hrópaði ég, og þú heyrðir raust mína.“ — Jónas 2:3.

9 Hvað átti Jónas við með orðunum „frá skauti Heljar“? Kviður þessa fisks var að sjálfsögðu ekki staður elds og kvala. Hins vegar hefði hann getað orðið gröf Jónasar. Reyndar sagði Jesús Kristur um sjálfan sig: „Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar.“ — Matteus 12:40.

10. (a) Hvað sannar að þeir sem eru í helju eiga afturkvæmt þaðan? (b) Hvað bendir enn fremur til að helja sé eitt og hið sama og gröfin?

10 Jesús lá látinn í gröf sinni í þrjá daga. En Biblían segir: „Ekki varð hann eftir skilinn í helju . . . Þennan Jesú reisti Guð upp.“ (Postulasagan 2:31, 32) Á viðlíka hátt var Jónas, fyrir atbeina Guðs, reistur upp úr helju, það er að segja því sem hefði getað orðið gröf hans. Það gerðist þegar fiskurinn spjó honum upp á þurrt land. Já, menn geta komist út úr helju! Í rauninni segir í Opinberunarbókinni 20:13 að ‚dauðinn og Hel muni skila þeim dauðu sem í þeim eru.‘ Yljar þetta loforð þér ekki um hjartaræturnar? Hvílíkur munur er ekki á kenningu Biblíunnar varðandi ástand hinna dánu og því sem mörg trúarbrögð hafa kennt.

GEHENNA OG ELDSDÍKIÐ

11. Hvaða grískt orð, sem kemur tólf sinnum fyrir í Biblíunni, er þýtt „helvíti,“ „eldsvíti“ eða „víti“ í íslensku biblíunni?

11 Einhver kann núna að malda í móinn og segja: ‚Biblían talar ekki aðeins um „helju“ heldur einnig um helvíti, eldsvíti og eldsdíkið. Sannar það ekki að til sé staður þar sem menn eru kvaldir eftir dauðann?‘ Víst er það að sumar biblíuþýðingar, svo sem íslenska þýðingin, tala um ‚eldsvíti‘ og að „fara til helvítis, í hinn óslökkvanda eld.“ (Matteus 5:22; Markús 9:43) Alls eru tólf vers í kristnu Grísku ritningunum þar sem gríska orðið Gehenna kemur fyrir, en íslenska biblían þýðir það níu sinnum sem „helvíti,“ tvisvar sem „eldsvíti“ og einu sinni sem ‚víti.‘ (Sjá neðanmálsathugasemdir við Matteus 5:22, 30 í íslensku biblíunni frá 1912.) Er Gehenna í raun og veru staður elds og kvala en helja aðeins gröfin?

12. Hvað er Gehenna og hvað var gert þar?

12 Ljóst er að hebreska orðið „séol“ og gríska orðið „hades“ eiga við gröfina. Hvað er þá Gehenna? Í Hebresku ritningunum er Gehenna kallað ‚Hinnomssonardalur.‘ Hinnom var heiti dals sem lá rétt utan við múra Jerúsalem, en þar höfðu Ísraelsmenn fórnað börnum sínum í eldi. Seinna kom hinn góði konungur Jósía í veg fyrir að hægt væri að nota dalinn til slíkra ódæðisverka. (2. Konungabók 23:10) Honum var breytt í einn allsherjar sorphaug.

13. (a) Til hvers var Gehenna notað á dögum Jesú? (b) Hverju var aldrei kastað þangað?

13 Þess vegna var Gehenna sorphaugur Jerúsalemborgar á jarðvistardögum Jesú. Eldur var látinn loga þar með því að henda þangað brennisteini til að brenna sorpinu. Smiths Dictionary of the Bible, 1. bindi, útskýrir: „Hann varð almennur sorphaugur borgarinnar þar sem kastað var líkum glæpamanna, hræjum dýra og öllum öðrum óþverra.“ Lifandi skepnum var aftur á móti aldrei kastað þangað.

14. Hvað bendir til að Gehenna hafi verið notað sem tákn eilífrar tortímingar?

14 Jerúsalembúar þekktu til sorphauga borgarinnar og skildu því hvað Jesús átti við þegar hann sagði hinum illgjörnu trúarleiðtogum: „Höggormar og nöðrukyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm [dóm Gehenna]?“ (Matteus 23:33) Jesús átti greinilega ekki við að þessir trúarleiðtogar yrðu kvaldir og píndir. Þegar Ísraelsmenn brenndu börn sín lifandi í þessum dal sagði Guð að sér hefði aldrei komið slíkur hryllingur í hug! Það er því augljóst að Jesús notaði Gehenna sem viðeigandi tákn um algera og eilífa tortímingu. Hann átti við að þessir illu trúarleiðtogar verðskulduðu ekki upprisu. Þeir sem hlýddu á Jesú gátu skilið að þeim sem færu í Gehenna yrði tortímt að eilífu, alveg eins og sorpinu.

15. Hvað er „eldsdíkið“ og hvernig má sanna það?

15 Hvað er þá „eldsdíkið“ sem um er getið í Opinberunarbók Biblíunnar? Það hefur svipaða merkingu og Gehenna. Það er ekki tákn meðvitaðra kvala heldur eilífs dauða eða tortímingar. Taktu eftir hvernig Biblían tekur það fram í Opinberunarbókinni 20:14: „Og dauðanum og Helju var kastað í eldsdíkið. Þetta er hinn annar dauði, eldsdíkið.“ Eldsdíkið merkir ‚annan dauða,‘ dauða sem engin upprisa er frá. Bersýnilega er þetta ‚díki‘ táknrænt því að dauðanum og helju (hades) er varpað í það. Ekki er hægt að brenna dauðann og helju bókstaflega. Aftur á móti er hægt að afmá hvort tveggja, tortíma því, og það verður gert.

16. Hvað merkir það að djöfullinn verði kvalinn að eilífu í ‚eldsdíkinu‘?

16 Einhver kann að benda á að Biblían segi samt sem áður að djöfullinn verði kvalinn að eilífu í eldsdíkinu. (Opinberunarbókin 20:10) Hvað merkir það? Þegar Jesús var á jörðinni voru fangaverðir stundum kallaðir „kvalarar“ eða „böðlar.“ Jesús sagði um mann nokkurn í einni af dæmisögum sínum: „Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum, uns hann hefði goldið allt, sem hann skuldaði honum.“ (Matteus 18:34) Úr því að þeir sem kastað er í „eldsdíkið“ deyja hinum ‚öðrum dauða,‘ sem engin upprisa er frá, má komast svo að orði að þeir séu fangelsaðir að eilífu í dauðanum. Þeir eru dánir alveg eins og fangaverðir gættu þeirra þar um alla eilífð. Hinir illu eru að sjálfsögðu ekki píndir bókstaflega vegna þess að dánir eiga sér, eins og við höfum séð, enga tilveru. Þeir hafa enga meðvitund.

RÍKI MAÐURINN OG LASARUS

17. Hvernig vitum við að orð Jesú um ríka manninn og Lasarus eru líkingamál?

17 Hvað skyldi Jesús þá hafa átt við þegar hann sagði í einni af dæmisögum sínum: „En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn. Og í helju [hades], þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans“? (Lúkas 16:19-31) Við höfum séð að helja er gröf mannkynsins, ekki staður kvala og píningar, og því má ljóst vera að Jesús er að segja hér dæmisögu eða líkingu. Til frekari sönnunar því að hér sé ekki um að ræða frásögn af bókstaflegum atburði, heldur dæmisögu, skalt þú íhuga þetta: Er helja bókstaflega í kallfæri við himininn, þannig að samræður geti farið fram þar á milli? Og hvernig gat Abraham sent Lasarus til að kæla tungu ríka mannsins með vatnsdropa á fingurbroddi sér, ef ríki maðurinn var í bókstaflegu, brennandi díki? Hverju var Jesús þá að lýsa?

18. Hvað merkir dæmisagan í sambandi við (a) ríka manninn? (b) Lasarus? (c) dauða beggja? (d) kvöl ríka mannsins?

18 Ríki maðurinn í dæmisögunni táknaði hina sjálfumglöðu trúarleiðtoga sem höfnuðu Jesú og síðar drápu hann. Lasarus táknaði almenning sem tók við syni Guðs. Dauði ríka mannsins og Lasarusar táknaði breytingu á aðstæðum þeirra. Þessi breyting varð þegar Jesús nærði andlega hið hrjáða fólk, sem líktist Lasarusi, þannig að það gæti með því öðlast hylli hins meiri Abrahams, Jehóva Guðs. Samtímis „dóu“ fölsku trúarleiðtogarnir að því er varðaði hylli Guðs. Þeim var vísað á bug og þeir kvöldust þegar fylgjendur Krists afhjúpuðu illskuverk þeirra. (Postulasagan 7:51-57) Dæmisaga þessi kennir því ekki að sumir dánir menn séu kvaldir í bókstaflegum vítiseldi.

KENNINGAR INNBLÁSNAR AF DJÖFLINUM

19. (a) Hvaða lygar hefur djöfullinn útbreitt? (b) Hvernig vitum við með vissu að kenningin um hreinsunareld er ósönn?

19 Það var djöfullinn sem sagði Evu: „Vissulega munuð þið ekki deyja.“ (1. Mósebók 3:4; Opinberunarbókin 12:9) En hún dó samt og engin ögn af henni lifði áfram. Að sálin lifi líkamsdauðann er lygi sem djöfullinn kom af stað. Það er einnig lygi, sem djöfullinn hefur breitt út, að sálir illmenna séu kvaldar í helvíti eða hreinsunareldi. Biblían sýnir skýrt og greinilega að dánir eru án meðvitundar og þessar kenningar geta þess vegna ekki verið sannar. Reyndar kemur hvorki orðið „hreinsunareldur“ né sú hugmynd fram í Biblíunni.

20. (a) Hvað höfum við lært í þessum kafla? (b) Hvaða áhrif hefur þessi vitneskja haft á þig?

20 Við höfum séð að séol eða hades er staður hvíldar og vonar hinna látnu. Þangað fara jafnt góðir sem slæmir og bíða þar upprisu. Við höfum líka séð að Gehenna er ekki kvalastaður heldur notar Biblían þetta orð sem tákn eilífrar tortímingar. „Eldsdíkið“ er ekki heldur staður þar sem eldur brennur bókstaflega, heldur táknar hann „annan dauða“ sem engin upprisa er frá. Það getur ekki verið kvalastaður vegna þess að slíkt hefur aldrei hvarflað að Guði. Auk þess væri afar ranglátt að kvelja mann að eilífu vegna þess að hann gerði það sem rangt var í fáein ár á jörðinni. Sannarlega er gott að vita sannleikann um dauðann! Hann getur frelsað okkur úr viðjum ótta og hjátrúar. — Jóhannes 8:32.

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 83]

Hebreska orðið „séol“ og gríska orðið „hades“ merkja hið sama.

Íslenska biblían 1981

Sálmur 16:10

10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.

Postulasagan 2:31

31 Því sá hann fyrir upprisu Krists og sagði: Ekki varð hann eftir skilinn í helju, og ekki varð líkami hans rotnun að bráð.

[Mynd á blaðsíðu 84, 85]

Hvers vegna sagði Jónas eftir að fiskur hafði gleypt hann: „Frá skauti Heljar hrópaði ég“?

[Mynd á blaðsíðu 86]

Gehenna var dalur utan múra Jerúsalem. Hann var notaður sem tákn eilífs dauða.