Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig hægt er að þekkja hina sönnu trú

Hvernig hægt er að þekkja hina sönnu trú

22. kafli

Hvernig hægt er að þekkja hina sönnu trú

1. Hverjir iðkuðu sanna trú á fyrstu öldinni?

 ENGINN VAFI getur á því leikið hverjir iðkuðu sanna trú á fyrstu öldinni. Það voru fylgjendur Jesú Krists. Þeir tilheyrðu allir sama kristna skipulaginu. Hvað um okkar daga? Á hverju má þekkja þá sem iðka sanna trú?

2. Hvernig má þekkja þá sem iðka sanna trú?

2 Jesús útskýrði hvernig við ættum að fara að því: „Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. . . . Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. . . . Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.“ (Matteus 7:16-20) Hvaða góða ávexti eigum við að vænta að sannir guðsdýrkendur beri? Hvað eiga þeir að segja og gera nú á dögum?

AÐ HELGA NAFN GUÐS

3, 4. (a) Hvað er það fyrsta sem beðið er um í fyrirmyndarbæn Jesú? (b) Hvernig helgaði Jesús nafn Guðs?

3 Sannir guðsdýrkendur ættu að fylgja orðunum í fyrirmyndarbæninni sem Jesús kenndi lærisveinum sínum. Það fyrsta, sem Jesús nefndi þar, var þetta: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ Önnur biblíuþýðing segir: „Megi nafn þitt vera haldið heilagt.“ (Matteus 6:10, Jerusalem Bible) Hvað merkir það að helga nafn Guðs eða halda það heilagt? Hvernig gerði Jesús það?

4 Jesús benti á hvernig hann gerði það þegar hann sagði í bæn til föður síns: „Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér úr heiminum.“ (Jóhannes 17:6) Jesús kunngerði öðrum nafn Guðs, Jehóva. Hann lét ekki undir höfuð leggjast að nota nafnið. Jesús vissi að faðir hans ætlaði að láta nafn sitt verða dýrlegt um alla jörðina. Hann gaf því fordæmið um að kunngera nafnið og halda það heilagt. — Jóhannes 12:28; Jesaja 12:4, 5.

5. (a) Hvernig er kristni söfnuðurinn tengdur nafni Guðs? (b) Hvað þurfum við að gera til að hljóta hjálpræði?

5 Biblían sýnir að tilvera sannkristna safnaðarins er nátengd nafni Guðs. Pétur postuli útskýrði að Guð hefði ‚snúið sér til heiðinna þjóða til að eignast meðal þeirra lýð er bæri nafn hans.‘ (Postulasagan 15:14) Hinn sanni söfnuður verður því að halda nafn hans heilagt og kunngera það um alla jörðina. Meira að segja er nauðsynlegt að þekkja þetta nafn til að hljóta hjálpræði, því að Biblían segir: „Því að ‚hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun hólpinn verða.‘“ — Rómverjabréfið 10:13, 14.

6. (a) Halda flest kirkjufélög nafn Guðs heilagt? (b) Er til einhver söfnuður sem ber vitni um nafn Guðs?

6 Hvaða nútímamenn halda nafn Guðs heilagt og hverjir kunngera það um alla jörðina? Yfirleitt forðast kirkjurnar að nefna Jehóva á nafn. Sumar hafa gengið svo langt að láta það hverfa úr þýðingum sínum á Biblíunni. En hvaða samtökum heldur þú að fólk myndi tengja þig ef þú talaðir við nágranna þína og nefndir oft nafn Jehóva? Aðeins eitt samfélag manna fylgir í raun og veru fordæmi Jesú í þessu efni. Aðalmarkmið þeirra í lífinu er að þjóna Guði og bera nafni hans vitni eins og Jesús gerði. Þeir hafa því tekið sér hið biblíulega nafn „vottar Jehóva.“ — Jesaja 43:10-12.

AÐ BOÐA RÍKI GUÐS

7. Hvernig sýndi Jesús fram á mikilvægi Guðsríkis?

7 Í fyrirmyndarbæninni, sem Jesús kenndi, benti hann líka á mikilvægi ríkis Guðs. Hann kenndi mönnum að biðja: „Til komi þitt ríki.“ (Matteus 6:10) Aftur og aftur lagði Jesús áherslu á að Guðsríki væri eina lausnin á vandamálum mannkynsins. Hann og postular hans gerðu það með því að prédika þetta ríki „þorp úr þorpi“ og „í heimahúsum,“ hús úr húsi. (Lúkas 8:1; Postulasagan 5:42; 20:20) Guðsríki var aðalinntak prédikunar þeirra og kennslu.

8. Hvernig sýndi Jesús fram á hver yrði aðalboðskapur sannra fylgjenda hans á „síðustu dögum“?

8 Hvað um okkar daga? Hver er aðalkenning hins sannkristna safnaðar Guðs? Í spádómi um ‚síðustu daga,‘ sem nú standa yfir, sagði Jesús: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Guðsríki þarf því að vera aðalboðskapur fólks Guðs nú á dögum.

9. Hvaða samfélag manna prédikar nú boðskapinn um Guðsríki?

9 Ef einhver knýr dyra hjá þér og talar um að ríki Guðs sé einasta von mannkynsins, hvaða samtökum munt þú álykta að hann tilheyri? Hafa menn frá öðrum trúfélögum en vottum Jehóva talað við þig um ríki Guðs? Tæplega, því að fáir þeirra hafa minnstu hugmynd um hvað það er! Þeir þegja þunnu hljóði um stjórn Guðs enda þótt hún sé lang fréttnæmasta efni okkar daga. Spámaðurinn Daníel sagði að þetta ríki myndi ‚knosa og að engu gera allar aðrar stjórnir en sjálft standa að eilífu.‘ — Daníel 2:44.

AÐ VIRÐA ORÐ GUÐS

10. Hvernig sýndi Jesús orði Guðs virðingu?

10 Enn eitt auðkenni þeirra sem iðka sanna trú er viðhorf þeirra til Biblíunnar. Jesús sýndi orði Guðs alltaf virðingu. Hann skírskotaði aftur og aftur til Biblíunnar — hún hafði lokaorðið í öllum málum. (Matteus 4:4, 7, 10; 19:4-6) Jesús sýndi Biblíunni einnig virðingu með því að lifa eftir kenningum hennar. Hann gerði aldrei lítið úr henni. Þess í stað fordæmdi hann þá sem kenndu ekki í samræmi við Biblíuna og reyndu að draga úr mætti kenninga hennar með því að halda fram sínum eigin hugmyndum. — Markús 7:9-13.

11. Hvert er oft viðhorf kirkjufélaga til orðs Guðs?

11 Hvernig standast kirkjur kristna heimsins samanburð við fordæmi Krists í þessu efni? Bera þær djúpa virðingu fyrir Biblíunni? Fjöldi presta nú á tímum trúir ekki frásögum Biblíunnar af syndafalli Adams, flóðinu á dögum Nóa, Jónasi og stórfisknum og svo mætti lengi telja. Þeir segja að maðurinn hafi ekki verið skapaður beint af Guði heldur orðið til vegna þróunar. Eru þeir með því að efla virðingu manna fyrir orði Guðs? Sumir kirkjuleiðtogar fullyrða að kynmök utan hjónabands séu ekki röng, eða jafnvel að kynvilla eða fjölkvæni geti verið við hæfi. Álítur þú að með því hvetji þeir fólk til að hafa Biblíuna að leiðarljósi? Þeir fylgja sannarlega ekki fordæmi sonar Guðs og postula hans. — Matteus 15:18, 19; Rómverjabréfið 1:24-27.

12. (a) Hvers vegna er guðsdýrkun margra, sem jafnvel eiga Biblíuna, ekki þóknanleg Guði? (b) Hvaða ályktun hljótum við að draga ef fólki leyfist að brjóta boð Biblíunnar að yfirlögðu ráði, án þess að kirkjan hafi neitt við það að athuga?

12 Sumir meðlimir kirknanna eiga Biblíuna og lesa hana stundum, en líferni þeirra sýnir að þeir fylgja henni ekki. Biblían segir um slíka menn: „Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum.“ (Títusarbréfið 1:16; 2. Tímóteusarbréf 3:5) Hvað segir það um kirkjuna ef meðlimum hennar leyfist að spila fjárhættuspil, verða ofurölvi og fremja aðrar alvarlegar syndir án þess að hún hafi neitt við það að athuga? Það ber því vitni að trúarstofnunin njóti ekki viðurkenningar Guðs. — 1. Korintubréf 5:11-13.

13. Hvaða alvarlega ákvörðun þarf sá maður að taka sem kemst að því að kenningar þess trúfélags, sem hann tilheyrir, eru ekki allar samkvæmar Biblíunni?

13 Hafir þú velt fyrir þér efni fyrri kafla þessarar bókar, og íhugað ritningargreinarnar sem þar er bent á, hefur þú kynnst undirstöðukenningum orðs Guðs. En hvað ætlar þú að gera ef kenningar trúfélags þíns, sem þú tilheyrir, eru ekki í samræmi við orð Guðs? Þá stendur þú frammi fyrir alvarlegri ákvörðun: Þú þarft að ákveða hvort þú ætlar að aðhyllast Biblíuna og þau sannindi, sem hún kennir, eða vísa henni á bug í skiptum fyrir kenningar sem Biblían ekki styður. Það er auðvitað þitt að velja, en þú ættir að íhuga málið gaumgæfilega vegna þess að ákvörðun þín hefur áhrif á samband þitt við Guð og horfurnar á því að þú hljótir eilíft líf í paradís á jörð.

AÐ VERA AÐGREINDIR FRÁ HEIMINUM

14. (a) Nefnið annað einkenni sannrar trúar. (b) Hvers vegna er svo þýðingarmikið að sannir guðsdýrkendur uppfylli þessa kröfu?

14 Enn eitt einkenni þeirra sem iðka sanna trú er, eins og Jesús sagði, að „þeir eru ekki af heiminum,“ „tilheyra ekki heiminum.“ (Jóhannes 17:14, Lifandi orð) Þetta merkir að sannir guðsdýrkendur verða að halda sér aðgreindum frá hinum spillta heimi og málefnum hans. Jesús Kristur vildi ekki láta gera sig að pólitískum valdhafa. (Jóhannes 6:15) Þú hlýtur að skilja hversu mikilvægt er að halda sér aðgreindum frá heiminum þegar þú hefur í huga að Biblían segir Satan djöfulinn vera höfðingja heimsins. (Jóhannes 12:31; 2. Korintubréf 4:4) Alvara málsins kemur enn betur fram í eftirfarandi orðum Biblíunnar: „Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.“ — Jakobsbréfið 4:4.

15. (a) Tilheyra kirkjufélögin, sem þú þekkir til, í raun og veru ekki heiminum? (b) Þekkir þú eitthvert trúfélag sem uppfyllir þetta skilyrði?

15 Bera staðreyndir því vitni að kirkjan og trúfélögin í þínu landi taki þessi orð til sín? Er hægt að segja bæði um prestana og söfnuðina að þeir ‚tilheyri ekki heiminum‘? Taka þeir kannski mikinn þátt í þjóðernishyggju, stjórnmálum og stéttabaráttu heimsins? Þessum spurningum er ekki vandsvarað því að alkunna er hvað kirkjufélögin aðhafast. Auðséð er einnig að vottar Jehóva fylgja í raun og sannleika fordæmi Krists og fyrstu lærisveina hans, í því efni að halda sér aðgreindum frá heiminum, stjórnmálum hans, eigingirni og ofbeldi. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

AÐ ELSKA HVER ANNAN

16. Hvaða þýðingarmikið einkenni ættu sannir lærisveinar Krists að hafa?

16 Eitthvert þýðingarmesta einkenni sannra lærisveina Krists er sá kærleikur sem þeir bera hver til annars. Jesús sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Er þennan kærleika að finna innan þeirra trúfélaga sem þú þekkir til? Hvað gera þau til dæmis þegar þau lönd, þar sem þau eiga áhangendur, fara í stríð hvert við annað?

17. Hvernig standast meðlimir hinna ýmsu trúfélaga þá kröfu að elska hver annan?

17 Þú veist hvað venjulega gerist. Að boði veraldlegra valdhafa fara áhangendur hinna ýmsu trúfélaga út á vígvöllinn og brytja niður trúbræður sína af öðrum þjóðum. Kaþólskir drepa kaþólska, mótmælendur mótmælendur og múhameðstrúarmenn drepa múhameðstrúarmenn. Álítur þú slíkt samræmast orði Guðs og endurspegla anda hans? — 1. Jóhannesarbréf 3:10-12.

18. Hvernig standast vottar Jehóva þá kröfu að elska hver annan?

18 Hvernig standast vottar Jehóva þá kröfu að sýna hver öðrum kærleika? Þeir feta ekki í fótspor veraldlegra trúfélaga. Þeir drepa ekki trúbræður sína á vígvellinum. Þeir hafa ekki gerst sekir um þá lygi að segja: „Ég elska Guð,“ en hata bróður sinn af öðru þjóðerni, öðrum ættflokki eða kynþætti. (1. Jóhannesarbréf 4:20, 21) En þeir sýna kærleika sinn líka á aðra vegu. Hvernig? Með framkomu sinni við nágranna sína og því kærleiksríka starfi að reyna að hjálpa öðrum að kynnast Guði. — Galatabréfið 6:10.

EIN SÖNN TRÚ

19. Hvers vegna er bæði rökrétt og biblíulegt að segja að aðeins geti verið til ein sönn trú?

19 Rökrétt er að aðeins geti verið til ein sönn trú. Það er í samræmi við þá staðreynd að hinn sanni Guð „er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins.“ (1. Korintubréf 14:33) Biblían segir að í rauninni sé aðeins „ein trú.“ (Efesusbréfið 4:5) Hverjir mynda þá samfélag sannra guðsdýrkenda nú á dögum?

20. (a) Hverja segir þessi bók vera sanna guðsdýrkendur nú á dögum, í ljósi þeirra gagna sem fyrir liggja? (b) Trúir þú því? (c) Hver er besta leiðin til að kynnast vottum Jehóva?

20 Við hikum ekki við að fullyrða að það séu vottar Jehóva. Við bjóðum þér að kynnast trú þeirra og þeim sjálfum betur til að þú getir sannfærst um það. Besta leiðin til þess er að sækja samkomur þeirra í Ríkissal votta Jehóva. Biblían segir að þeir sem iðka sanna trú njóti mikillar lífsfyllingar nú þegar og eigi kost á eilífu lífi í paradís á jörð; þess vegna hlýtur að vera ómaksins vert að kynna sér málið gaumgæfilega. (5. Mósebók 30:19, 20) Við hvetjum þig eindregið til að gera það. Hvers vegna ekki að byrja á því nú þegar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 185]

Við hvaða trúfélag myndu menn tengja þig ef þú færir að tala við einhvern um Jehóva og ríki hans?

[Myndir á blaðsíðu 186]

Virðir sá maður orð Guðs sem lifir ekki eftir því?

[Mynd á blaðsíðu 188, 189]

Jesús afþakkaði boð um að verða pólitískur valdhafi.

[Mynd á blaðsíðu 190]

Þú ert hjartanlega velkominn á samkomur votta Jehóva.