Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna hefur Guð leyft tilvist illskunnar?

Hvers vegna hefur Guð leyft tilvist illskunnar?

11. kafli

Hvers vegna hefur Guð leyft tilvist illskunnar?

1. (a) Hvert er ástand mála á jörðinni nú? (b) Að hverju finna sumir?

 HVERT sem litið er í heiminum eru glæpir, hatur og vandamál. Oft bitnar illskan á saklausu fólki. Sumir kenna Guði um og segja: ‚Ef Guð er til, hvers vegna leyfir hann allar þessar hörmungar?‘

2. (a) Hverjir vinna vonskuverkin? (b) Hvernig mætti koma í veg fyrir stóran hluta þjáninganna á jörðinni?

2 En hverjir eru það sem fremja vonskuverkin? Það eru mennirnir, ekki Guð. Guð fordæmir vonskuverk. Meira að segja mætti koma í veg fyrir mikið af þjáningum jarðarbúa ef menn hlýddu lögum Guðs. Hann fyrirskipar okkur að elska. Hann bannar morð, þjófnað, saurlífi, ágirnd, drykkjuskap og önnur illskuverk sem valda mönnum þjáningum. (Rómverjabréfið 13:9; Efesusbréfið 5:3, 18) Guð skapaði Adam og Evu með undursamlegan heila og líkama og hæfni til að njóta lífsins til hins ýtrasta. Hann ætlaðist aldrei til að þau né börn þeirra þjáðust né ættu í erfiðleikum.

3. (a) Hverjir bera ábyrgð á vonskunni? (b) Hvað sýnir að Adam og Eva hefðu getað staðist freistingar Satans?

3 Það var Satan djöfullinn sem var frumkvöðull illmennskunnar á jörðinni, en Adam og Eva bera einnig sök á henni. Þau voru ekki svo veikgeðja að þau hefðu ekki getað spornað við fótum þegar djöfullinn freistaði þeirra. Þau hefðu getað sagt Satan að ‚fara burt‘ eins og hinn fullkomni maður Jesús gerði síðar. (Matteus 4:10) En þau gerðu það ekki og það leiddi til þess að þau urðu ófullkomin. Öll börn þeirra, við líka, hafa erft þennan ófullkomleika sem hefur í för með sér sjúkdóma, sorgir og dauða. (Rómverjabréfið 5:12) En hvers vegna hefur Guð leyft að þjáningarnar haldi áfram?

4. Hvað hjálpar okkur að skilja að ástríkur Guð getur leyft vonskunni að vera til um hríð?

4 Við fyrstu sýn kann svo að virðast að engin ástæða hafi getað verið fullnægjandi til að Guð leyfði allar þær þjáningar sem menn hafa mátt þola í gegnum aldirnar. En er slík ályktun rétt? Hafa ekki foreldrar, sem elska börn sín mjög heitt, leyft að þau gengjust undir sársaukafulla skurðaðgerð til að lækna einhvern kvilla? Tímabundnar þjáningar hafa oft gert börnum fært að njóta betri heilsu síðar meir á ævinni. Hvað hefur þá áunnist við það að Guð hefur leyft mannvonskunni að viðgangast?

MIKILVÆGT DEILUMÁL SEM ÞURFTI AÐ ÚTKLJÁ

5. (a) Hvernig véfengdi Satan orð Guðs? (b) Hverju lofaði Satan Evu?

5 Við uppreisnina gegn Guði í aldingarðinum vaknaði mikilvæg spurning eða deilumál. Við þurfum að skoða það til að skilja hvers vegna Guð hefur leyft tilvist vonskunnar. Jehóva sagði Adam að borða ekki ávöxt ákveðins trés í garðinum. Hvað myndi gerast ef Adam gerði það? Guð sagði: ‚Þá skalt þú vissulega deyja.‘ (1. Mósebók 2:17) En Satan sagði hið gagnstæða. Hann sagði Evu, konu Adams, að borða af forboðna trénu. „Vissulega munu þið ekki deyja,“ sagði Satan. Hann hélt áfram og sagði Evu: „En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ — 1. Mósebók 3:1-5.

6. (a) Hvers vegna óhlýðnaðist Eva Guði? (b) Hvað fólst í því að eta af forboðna trénu?

6 Eva óhlýðnaðist Guði og át af trénu. Hvers vegna? Hún trúði Satan. Hún hélt í eigingirni sinni að hún gæti áunnið eitthvað með því að óhlýðnast Guði. Hún hugsaði með sér að hún eða Adam þyrftu ekki lengur að vera ábyrg frammi fyrir Guði. Þau þyrftu ekki lengur að lúta lögum hans; þau gætu ákveðið sjálf hvað væri „gott“ og hvað væri „illt.“ Adam fylgdi fordæmi Evu og át líka. Biblíuþýðing nokkur (The Jerusalem Bible) segir í neðanmálsathugasemd um upphaflega synd mannsins gegn Guði: „Hún er valdið til að ákveða sjálfur hvað sé gott og hvað sé illt og breyta samkvæmt því, krafa um algert sjálfstæði í siðferðilegum efnum. . . . Fyrsta syndin var árás á drottinvald Guðs.“ Með öðrum orðum sagt, hún var árás á rétt Guðs til að fara með skilyrðislaust yfirvald yfir manninum.

7. (a) Hvaða deilumál kom upp við óhlýðni mannsins? (b) Hvaða spurningum þurfti að svara í sambandi við deilumálið?

7 Með því að neyta forboðna ávaxtarins voru Adam og Eva þess vegna að slíta sig undan stjórn Guðs. Þau gerðu sig honum óháð, gerðu það sem var „gott“ eða „illt“ að eigin mati. Það deilumál eða spurning, sem hér vaknaði, var því þetta: Hefur Guð rétt til að fara með alræðisvald yfir mannkyninu? Með öðrum orðum, er Jehóva sá sem skal ákveða hvað sé gott eða illt fyrir menn? Ber honum að ákveða hver sé rétt eða röng breytni, eða getur maðurinn gert betur en Guð með því að ráða því sjálfur? Stjórnarfar hvers er betra? Geta menn, undir ósýnilegri forystu Satans, stjórnað með góðum árangri, án forystu Jehóva? Eða þarf handleiðslu Guðs til að setja á fót réttláta stjórn til að koma á varanlegum friði á jörðinni? Allar þessar spurningar vöknuðu við þessa árás á drottinvald Guðs, á rétt hans til að vera hinn eini og óumdeilanlegi stjórnandi mannkynsins.

8. Hvers vegna tortímdi Jehóva ekki uppreisnarseggjunum þá þegar?

8 Jehóva hefði vitanlega getað afmáð uppreisnarseggina þrjá jafnskjótt og uppreisnin var gerð. Enginn vafi lék á að hann var sterkari en Satan eða Adam og Eva. En hefði hann tortímt þeim hefði það ekki útkljáð málið á sem bestan hátt. Það hefði til dæmis ekki svarað þeirri spurningu hvort menn gætu stjórnað farsællega án hjálpar Guðs. Jehóva lét því nokkurn tíma líða til að útkljá hið alvarlega deilumál sem upp var komið.

DEILUMÁLIÐ ÚTKLJÁÐ

9, 10. Hver hefur orðið árangurinn af tilraunum manna til að stjórna án handleiðslu Guðs?

9 Hver er niðurstaðan eftir þennan langa tíma sem er liðinn síðan? Hvað finnst þér? Hafa síðastliðin 6000 ár sýnt að mönnum hafi farist það vel úr hendi að ráða málum sínum án leiðsagnar Guðs? Hafa menn haldið uppi góðri stjórn sem hefur verið öllum til blessunar og hamingju? Eða hefur sagan staðfest orð spámannsins Jeremía: ‚Það er ekki á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum‘? — Jeremía 10:23.

10 Í sögu mannkynsins hafa verið reyndar alls kyns stjórnir en engin hefur reynst þess megnug að tryggja öllum, sem bjuggu við hana, öryggi og ósvikna hamingju. Sumir kunna að benda á ýmis merki um framfarir. En er unnt að tala um raunverulegar framfarir þegar bogi og örvar hafa vikið fyrir kjarnorkusprengjunni og heimurinn óttast nú enn eina heimsstyrjöld? Hvers konar framfarir eru það að menn skuli geta spígsporað á tunglinu en ekki búið saman í friði á jörðinni? Hvaða gæði eru það að byggja sér hús og heimili búin alls kyns nýtísku þægindum þegar fjölskyldurnar, sem búa þar, eru sundraðar vegna alls kyns vandamála? Eru götuóeirðir, eignatjón og útbreitt lögleysi eitthvað til að vera stoltur af? Alls ekki! En það eru afleiðingarnar af því að menn hafa reynt að stjórna óháðir Guði. — Orðskviðirnir 19:3.

11. Hvers þarnast menn þess vegna?

11 Niðurstaðan ætti að vera öllum augljós. Tilraunir mannsins til að stjórna óháður Guði hafa reynst herfileg mistök. Þær hafa valdið mönnum miklum þjáningum. „Einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu,“ segir Biblían. (Prédikarinn 8:9) Auðsætt er að menn þurfa á handleiðslu Guðs að halda til að ráða málum sínum farsællega. Guð áskapaði manninum þörfina á að eta mat og drekka vatn; eins var honum ásköpuð þörfin á að hlýða lögum Guðs. Virði maðurinn lög Guðs að vettugi er jafnvíst að hann lendir í erfiðleikum og að hann þjáist ef hann sinnir ekki kalli líkamans eftir mat og drykk. — Orðskviðirnir 3:5, 6.

HVERS VEGNA SVONA LENGI?

12. Hvers vegna hefur Guð tekið sér svona langan tíma til að útkljá deilumálið?

12 Einhver kann að spyrja hvers vegna Guð hafi tekið sér svona langan tíma, um 6000 ár, til að útkljá þetta deilumál. Gat hann ekki útkljáð það með viðunandi hætti fyrir langa löngu? Í rauninni ekki. Hefði Guð gripið inn í fyrir langa löngu hefði mátt saka hann um að gefa mönnunum ekki nægan tíma til að prófa sig áfram. En nú er svo komið að menn hafa haft nægan tíma til að mynda stjórn sem skyldi fullnægja þörfum allra þegna sinna, og auk þess hafa þeir gert vísindalegar uppgötvanir sem gætu tryggt öllum hin ágætustu lífskjör. Í aldanna rás hafa menn reynt næstum allar hugsanlegar tegundir stjórnar. Og framfarir þeirra á sviði vísinda hafa verið miklar. Þeir hafa beislað orku frumeindarinnar og ferðast til tunglsins. En hvaða afleiðingar hefur það haft? Hefur það komið á nýrri skipan til blessunar mannkyninu?

13. (a) Hvernig er ástatt nú þrátt fyrir vísindalegar framfarir mannsins? (b) Hvað sannar það greinilega?

13 Því fer fjarri! Þess í stað er nú meiri óhamingja og erfiðleikar á jörðinni en nokkru sinni fyrr. Glæpir, mengun, stríð, sundraðar fjölskyldur og önnur vandamál hafa nú náð svo alvarlegu stigi að vísindamenn telja tilveru mannsins ógnað. Eftir um 6000 ára tilraunir til sjálfstjórnar, og eftir að hafa náð hátindi vísindalegra „framfara,“ stendur mannkynið nú frammi fyrir sjálfstortímingu! Er ekki augljóst að menn geta ekki stjórnað sér farsællega án Guðs? Getur nokkur kvartað undan því að Guð hafi ekki gefið nægan tíma til að útkljá þetta deilumál?

14. Hvað ætti að hvetja okkur til að skoða annað deilumál sem Satan vakti?

14 Guð hefur vissulega haft ærna ástæðu til að leyfa mönnum undir stjórn Satans að iðka þá mannvonsku sem verið hefur svo lengi. Með uppreisn Satans kom upp annað deilumál sem einnig hefur þurft tíma til að útkljá. Athugun á þessu deilumáli mun hjálpa okkur enn frekar að skilja hvers vegna Guð hefur leyft tilvist hins illa. Þú ættir að hafa sérstakan áhuga á þessu deilumáli því að það snertir þig persónulega.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 100]

Foreldrar hafa góða og gilda ástæðu til að leyfa að barn, sem þeir elska, gangist undir sársaukafulla skurðaðgerð. Guð hefur líka ærna ástæðu til að leyfa að menn þjáist um hríð.

[Mynd á blaðsíðu 101]

Með því að eta forboðna ávöxtinn sneru Adam og Eva baki við stjórn Guðs. Þau fóru að ákveða sjálf hvað væri gott eða illt.

[Mynd á blaðsíðu 103]

Manninum var ásköpuð þörfin fyrir handleiðslu Guðs, alveg eins og honum var ásköpuð þörfin á að neyta matar og drekka vatn.