Trúarbrögð þín skipta máli
3. kafli
Trúarbrögð þín skipta máli
1. Hver er skoðun sumra á trúarbrögðum?
‚ÖLL TRÚARBRÖGÐ eru góð,‘ segja margir. ‚Þau eru einfaldlega mismunandi leiðir að sama marki.‘ Ef það væri rétt skipti í rauninni ekki máli hvaða trúarbrögð þú játaðir, því að það þýddi að öll trúarbrögð væru Guði velþóknanleg. En eru þau það?
2. (a) Hvernig komu farísearnir fram við Jesú? (b) Hvern sögðu farísearnir vera föður sinn?
2 Þegar Jesús Kristur var hér á jörð var til trúarhópur sem var kallaður farísear. Þeir höfðu byggt upp ákveðið tilbeiðsluform og trúðu að það hefði velþóknun Guðs. En samtímis reyndu farísearnir að drepa Jesú! Jesús sagði þeim þess vegna: „Þér vinnið verk föður yðar.“ Þeir svöruðu og sögðu: „Einn föður eigum vér, Guð.“ — Jóhannes 8:41.
3. Hvað sagði Jesús um föður faríseanna?
3 Var Guð í raun og sannleika faðir þeirra? Viðurkenndi Guð trúarform þeirra? Alls ekki! Enda þótt farísearnir hefðu Ritninguna undir höndum og héldu sig fylgja henni hafði djöfullinn leitt þá afvega. Jesús sagði þeim það: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, . . . hann er lygari og lyginnar faðir.“ — Jóhannes 8:44.
4. Hvernig leit Jesús á trú faríseanna?
4 Greinilega voru farísearnir á trúarlegum villigötum. Trú þeirra þjónaði hagsmunum djöfulsins, ekki Guðs. Jesús taldi trú þeirra ekki góða; hann fordæmi hana. Hann sagði þessum trúarlega sinnuðu faríseum: „Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast.“ (Matteus 23:13) Vegna þessarar fölsku guðsdýrkunar kallaði Jesús faríseana hræsnara og höggorma. Hann sagði að þeir væru, vegna sinnar röngu breytni, á veginum til tortímingar. — Matteus 23:25-33.
5. Hvernig sýndi Jesús fram á að hin mörgu trúarbrögð eru ekki aðeins ólíkar leiðir að sama marki?
5 Við sjáum að Jesús Kristur kenndi ekki að öll trúarbrögð væru aðeins mismunandi leiðir að sama markinu, hjálpræði. Í sinni frægu fjallræðu sagði hann: „Gangið inn um þrönga hliðið. Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir eru þeir, sem þar fara inn. Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann.“ (Matteus 7:13, 14) Flestir tilbiðja Guð ekki á réttan hátt og eru því á veginum sem liggur til glötunar. Aðeins fáeinir eru á veginum sem liggur til lífsins.
6. Hvað getum við lært af því að líta á guðsdýrkun Ísraelsþjóðarinnar?
6 Sé á það litið hvernig Guð kom fram við Ísraelsþjóðina er ljóst hversu mikilvægt er að tilbiðja Guð á þann hátt sem hann hefur velþóknun á. Guð brýndi fyrir Ísraelsmönnum að halda sér frá falstrúarbrögðum þjóðanna umhverfis þá. (5. Mósebók 7:25) Þessar þjóðir fórnuðu börnum sínum til að blíðka guði sína og stunduðu alls kyns óhreinar kynlífsathafnir, þar á meðal kynvillu. (3. Mósebók 18:20-30) Guð fyrirskipaði Ísraelsmönnum að forðast þessar athafnir. Hann refsaði þeim þegar þeir óhlýðnuðust og tilbáðu aðra guði. (Jósúa 24:20; Jesaja 63:10) Það skipti miklu máli hvaða trú þeir iðkuðu.
FÖLSK TRÚARBRÖGÐ NÚ Á DÖGUM?
7, 8. (a) Hvaða afstöðu tóku trúarbrögðin í heimsstyrjöldunum? (b) Hvernig álítur þú að Guð líti á það sem trúarbrögðin hafa gert á styrjaldartímum?
7 Hvað um hin mörg hundruð trúarbrögð nútímans? Vafalaust fellst þú á að margt sé gert í nafni trúarbragðanna sem Guð ekki hefur velþóknun á. Í heimsstyrjöldum þessarar aldar, sem milljónir núlifandi manna komust lifandi í gegnum, hvöttu trúfélög beggja vegna víglínunnar fólk sitt til að drepa. „Drepið Þjóðverja — drepið þá,“ sagði biskupinn í London. Og hinum megin víglínunnar sagði erkibiskupinn í Köln Þjóðverjum: „Vér bjóðum yður í nafni Guðs að berjast til síðasta blóðdropa, landi voru til heiðurs og dýrðar.“
8 Kaþólskir menn fengu því blessun trúarleiðtoga sinna til að drepa kaþólikka og mótmælendur fóru eins að. Kennimaðurinn Harry Emerson Fosdick viðurkenndi: „Við höfum dregið upp stríðsfána, meira að segja í kirkjum okkar. . . . Með öðru munnvikinu höfum við prísað friðarhöfðingjann og með hinu vegsamað styrjaldir.“ Hvernig heldur þú að Guð líti á trúarbrögð sem segjast gera vilja hans en vegsama styrjaldir?
9. (a) Hvernig hafa margir litið á þá glæpi sem fólk ólíkra trúarbragða fremur? (b) Hvaða ályktun hljótum við að draga þegar trúfélag gerir sig að hluta af heiminum?
9 Milljónir nútímamanna hafa snúið baki við Guði og Kristi, vegna þeirra glæpa sem fólk hinna mörgu ólíku trúarbragða hefur framið frá örófi alda í nafni Guðs. Þeir kenna Guði um hinar skelfilegu trúarstyrjaldir, svo sem þær er kaþólskir og múhameðstrúarmenn háðu og voru kallaðar krossferðirnar, styrjaldirnar milli múhameðstrúarmanna og hindúa, og styrjaldirnar milli kaþólskra og mótmælenda. Þeir benda á að Gyðingar hafi verið myrtir í nafni Krists, og á hinn grimma kaþólska rannsóknarrétt. En þótt trúarleiðtogarnir, sem báru ábyrgð á þessum hryllilegu glæpum, hafi fullyrt að Guð væri faðir þeirra, voru þeir ekki samt börn djöfulsins í jafnmiklum mæli og farísearnir sem Jesús fordæmdi? Megum við ekki ætla að Satan stjórni líka trúarbrögðunum, sem fólk þessa heims iðkar, fyrst hann er guð þessa heims? — 2. Korintubréf 4:4; Opinberunarbókin 12:9.
10. Nefndu dæmi um það sem gert er í nafni trúarbragða en þú ert ekki sáttur við.
10 Vafalaust er margt gert í nafni trúarbragða nú á dögum sem þú álítur ekki rétt. Þú heyrir oft af fólki sem lifir afar siðlausu lífi, en er virt sóknarbörn í einhverri kirkju. Þú heyrir kannski jafnvel um trúarleiðtoga sem lifa mjög spilltu lífi en eru eigi að síður álitnir góðir trúarleiðtogar innan sinnar kirkju. Sumir trúarleiðtogar hafa sagt að kynvilla og kynlíf fyrir hjónaband sé ekki rangt. En þú veist ef til vill að Biblían er ekki sammála. Meira að segja refsaði Guð Ísraelsmönnum með lífláti fyrir þá sök að þeir iðkuðu slíkt. Hann tortímdi Sódómu og Gómorru af sömu ástæðu. (Júdasarbréfið 7) Bráðlega mun hann gera hið sama við öll fölsk trúarbrögð nútímans. Í Biblíunni er slíkum trúarbrögðum líkt við skækju vegna siðlausra maka þeirra við ‚konunga jarðarinnar.‘ — Opinberunarbókin 17:1, 2, 16.
GUÐSDÝRKUN SEM ER GUÐI ÞÓKNANLEG
11. Hvaða skilyrði þarf guðsdýrkun okkar að uppfylla til að vera Guði þóknanleg?
11 Úr því að Guð hefur ekki velþóknun á öllum trúarbrögðum þurfum við að spyrja: ‚Tilbið ég Guð á þann hátt sem er honum þóknanlegur?‘ Hvernig getum við vitað hvort við gerum það? Það er ekki maður heldur Guð sem dæmir um það hvað sé sönn guðsdýrkun. Eigi guðsdýrkun okkar að vera Guði þóknanleg þarf hún að eiga sér djúpar rætur í sannleiksorði Guðs, Biblíunni. Okkur ætti að vera innanbrjósts eins og biblíuritaranum sem sagði: „Guð skal reynast sannorður, þótt hver maður reyndist lygari.“ — Rómverjabréfið 3:3, 4.
12. Hvers vegna sagði Jesús að guðsdýrkun faríseanna hefði ekki velþóknun Guðs?
12 Farísearnir á fyrstu öld litu ekki þannig á málin. Þeir settu fram sínar eigin trúarskoðanir og erfðavenjur og fylgdu þeim frekar en orði Guðs. Hverjar urðu afleiðingarnar? Jesús sagði þeim: „Þér ógildið orð Guðs með erfikenning yðar. Hræsnarar, sannspár var Jesaja um yður, er hann segir: Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.“ (Matteus 15:1-9; Jesaja 29:13) Þess vegna er nauðsynlegt, ef við viljum njóta velþóknunar Guðs, að ganga úr skugga um að trúarskoðanir okkar séu í samræmi við kenningar Biblíunnar.
13. Hvað sagði Jesús að við yrðum að gera til að hafa velvild Guðs?
13 Ekki er nóg að segjast trúa á Krist og síðan gera það sem við teljum rétt. Öllu máli skiptir að við kynnum okkur vilja Guðs í málinu. Jesús benti á það í fjallræðu sinni þegar hann sagði: „Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ‚Herra, herra,‘ ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.“ — Matteus 7:21.
14. Hvers vegna kynni Jesús að líta á okkur sem „illgjörðamenn“ jafnvel þótt við ynnum „góðverk“?
14 Vera kann að við gerum það sem við teljum „góðverk,“ og gerum þau í nafni Krists. Samt sem áður væru þau til einskis ef við ekki gerðum vilja Guðs. Við værum í sömu aðstöðu og þeir sem Kristur nefnir næst: „Margir munu segja við mig á þeim degi: ‚Herra, herra‚ höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?‘ Þá mun ég votta þetta: ‚Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.‘“ (Matteus 7:22, 23) Já, við getum gert það sem við höldum vera gott — og aðrir menn þakka eða jafnvel bera á okkur lof fyrir — en ef við gerum ekki það sem Guð segir vera rétt erum við í augum Jesú Krists „illgjörðamenn.“
15. Hvers vegna er hyggilegt að fylgja fordæmi fólksins í Beroju til forna?
15 Mörg trúarbrögð nútímans gera ekki vilja Guðs og við getum þess vegna ekki einfaldlega gengið að því vísu að kenningar þess trúfélags, sem við tilheyrum, séu í samræmi við orð Guðs. Sú staðreynd ein að trúfélag notar Biblíuna sannar ekki að allt sem það kennir og iðkar standi í Biblíunni. Þýðingarmikið er að við rannsökum sjálf hvort svo er eða ekki. Mönnum í borginni Beroju var hrósað fyrir að rannsaka Ritninguna, eftir að kristni postulinn Páll hafði prédikað fyrir þeim, til að fullvissa sig um að allt sem hann hafði sagt þeim væri rétt. (Postulasagan 17:10, 11) Til að trúarbrögð njóti velþóknunar Guðs þurfa þau að vera Biblíunni sammála í öllum atriðum; þau mega ekki aðhyllast suma hluta hennar og hafna öðrum. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
EINLÆGNIN EIN NÆGIR EKKI
16. Hvað sagði Jesús til að sýna að einlægnin ein er ekki nóg til að njóta velvildar Guðs?
16 Einhver kann að spyrja hvort Guð hafi ekki velþóknun á þeim sem iðkar trú sína í einlægni jafnvel þótt trú hans sé röng. Hvað sagði Jesús? Hann sagðist ekki hafa velþóknun á ‚illgjörðamönnum‘ enda þótt þeir teldu sig vera að gera rétt. (Matteus 7:22, 23) Einlægnin ein myndi ekki heldur afla þeim velþóknunar Guðs. Einu sinni sagði Jesús fylgjendum sínum: „Sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.“ (Jóhannes 16:2) Þeir sem drápu kristna menn héldu kannski í einlægni að þeir væru að þjóna Guði með því, en svo var auðvitað ekki. Guð hafði ekki velþóknun á því sem þeir gerðu.
17. Hvað gerði Páll áður en hann gerðist kristinn, enda þótt hann væri einlægur?
17 Áður en Páll postuli gerðist kristinn aðstoðaði hann við morðið á Stefáni. Síðan leitaði hann færis á að drepa fleiri kristna menn. (Postulasagan 8:1; 9:1, 2) Hann útskýrði: „Þér hafið heyrt . . . hversu ákaflega ég ofsótti söfnuð Guðs og vildi eyða honum. Ég fór lengra í gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir meðal þjóðar minnar og var miklu vandlætingarsamari um erfikenningu forfeðra minna.“ (Galatabréfið 1:13, 14) Já, Páll var einlægur en það gerði trú hans ekki rétta.
18. (a) Hvaða trúarbrögðum tilheyrði Páll þegar hann ofsótti kristna menn? (b) Hvers vegna þurftu Páll og aðrir á hans dögum að breyta trú sinni?
18 Páll tilheyrði á þeim tíma trúarskipan Gyðinganna sem hafði hafnað Jesú Kristi, en það hafði leitt til þess að Guð hafði hafnað henni. (Postulasagan 2:36, 40; Orðskviðirnir 14:12) Páll þurfti þess vegna að skipta um trú til að hljóta velvild Guðs. Síðar skrifaði hann um aðra sem voru „kappsfullir Guðs vegna“ — voru einlægir en nutu ekki velþóknunar Guðs vegna þess að trú þeirra byggðist ekki á nákvæmri þekkingu á fyrirætlunum Guðs. — Rómverjabréfið 10:2, 3.
19. Hvað sýnir að hinir ólíku trúarlærdómar geta ekki allir verið réttir?
19 Hinir fjölmörgu ólíku trúarlærdómar í heiminum geta ekki allir verið réttir og sannir. Til dæmis hafa menn annaðhvort sál sem lifir af líkamsdauðann eða ekki. Annaðhvort mun jörðin standa að eilífu eða ekki. Annaðhvort mun Guð binda enda á illskuna eða ekki. Þessar skoðanir og margar aðrar eru annaðhvort réttar eða rangar. Ekki geta verið til tvenn, gerólík sannindi. Önnur hvor þeirra eru sönn, ekki bæði. Rangar skoðanir verða ekki réttar þótt einhver trúi þeim og iðki þær, ef þær eru í rauninni rangar.
20. Hvernig getum við fylgt réttu „vegakorti“ í sambandi við trú okkar?
20 Hvernig yrði þér við ef einhver sannaði fyrir þér að þú hefðir á röngu að standa? Segjum að þú værir í bifreið á leið til ákveðins staðar sem þú hefðir aldrei komið til áður. Þú hefur vegakort með þér en þú hefur ekki tekið þér tíma til að skoða það gaumgæfilega. Einhver hefur sagt þér hvaða leið þú eigir að fara og þú treystir honum, trúir í einlægni að sú leið, sem hann benti þér á, sé rétt. En segjum að svo sé ekki. Hvað gerðist ef einhver benti þér á að þú værir ekki á réttri leið? Hvað myndir þú gera ef hann notaði þitt eigið vegakort til að sýna þér að þú værir á rangri leið? Myndi stolt og þvermóðska koma í veg fyrir að þú viðurkenndir að þú værir á rangri braut? Gott og vel. Ef athugun á þinni eigin biblíu sýnir þér að þú ert á rangri braut í trúarlegum efnum skalt þú vera fús til að færa þig inn á rétta veginn. Forðastu breiða veginn sem liggur til glötunar og færðu þig inn á mjóa veginn sem liggur til lífsins!
NAUÐSYNLEGT AÐ GERA VILJA GUÐS
21. (a) Hvers er þörf auk þess að þekkja sannleikann? (b) Hvað munt þú gera ef þú uppgötvar að Guð hefur ekki velþóknun á einhverju sem þú gerir?
21 Mikilvægt er að þekkja sannleikann í Biblíunni. Þó er slík þekking einskis virði ef þú ekki tilbiður Guð í sannleika. (Jóhannes 4:24) Það sem máli skiptir er að iðka sannleikann, að gera vilja Guðs. „Trúin [er] dauð án verka,“ segir Biblían. (Jakobsbréfið 2:26) Til að þóknast Guði þarf trú þín ekki aðeins að vera í fullu samræmi við Biblíuna heldur þarft þú einnig að iðka hana í öllum athöfnum lífsins. Ert þú þá fús til að breyta til ef þú uppgötvar að þú ert að gera það sem Guð segir vera rangt?
22. Hvaða hagnaðar getum við notið nú og í framtíðinni ef við iðkum sanna trú?
22 Þú átt margvíslega blessun í vændum ef þú gerir vilja Guðs. Meira að segja munt þú njóta góðs af því nú þegar. Iðkir þú sanna trú verður þú betri maður — betri karlmaður, eiginmaður eða faðir, betri kona, eiginkona eða móðir, betra barn. Það mun þroska í fari þínu góða eiginleika, Guði að skapi, sem mun valda því að þú skerð þig úr fjöldanum vegna þess að þú gerir það sem er rétt. En það sem meira máli skiptir er að þú verður í aðstöðu til að hljóta þá blessun sem eilíft líf, hamingja og fullkomin heilsa á nýrri paradísarjörð Guðs er. (2. Pétursbréf 3:13) Enginn vafi leikur á að það skiptir máli hvaða trú þú játar!
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 25]
Þjónuðu trúarleiðtogarnir, sem reyndu að drepa Jesú, Guði?
[Mynd á blaðsíðu 26, 27]
Jesús sagði flesta vera á breiða veginum sem liggur til glötunar. Aðeins fáeinir eru á mjóa veginum sem liggur til lífsins.
[Mynd á blaðsíðu 29]
„Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum.“ — Títusarbréfið 1:16.
Í orði
Í verki
[Mynd á blaðsíðu 30]
Trúarágreiningur olli því að Páll tók þátt í að grýta lærisveininn Stefán.
[Mynd á blaðsíðu 33]
Myndir þú, ef þú hefðir villst, vera of stoltur eða þrjóskur til að viðurkenna það?