Velur þú heim Satans eða nýja skipan Guðs?
25. kafli
Velur þú heim Satans eða nýja skipan Guðs?
1. Hvernig sýnum við hvort við aðhyllumst nýja skipan Guðs?
ERT ÞÚ HLYNNTUR nýrri, réttlátri skipan Guðs og vilt þú að hún komi? Ert þú andvígur Satan og vilt þú að heimur hans hverfi? Vera má að þú svarir báðum spurningunum játandi. En fylgir hugur máli? Gamall málsháttur segir að verkin tali hærra en orðin. Ef þú trúir á nýja skipan Guðs eiga verk þín og líferni að bera því vitni. — Matteus 7:21-23; 15:7, 8.
2. (a) Hvaða tveim húsbændum er hægt að þjóna? (b) Á hverju sést hvorum við þjónum?
2 Sannleikurinn er sá að líf þitt getur aðeins verið þóknanlegt annaðhvort Jehóva Guði eða Satan djöflinum, ekki báðum. Ein af meginreglum Biblíunnar hjálpar okkur að skilja það. Hún er á þessa leið: „Vitið þér ekki, að ef þér bjóðið öðrum sjálfa yður fyrir þjóna og hlýðið honum, þá eruð þér þjónar þess, sem þér hlýðið?“ (Rómverjabréfið 6:16) Hverjum hlýðir þú? Hvers vilja gerir þú? Hverju sem þú svarar getur þú ekki þjónað hinum sanna Guði, Jehóva, ef þú gengur óréttláta vegu heimsins.
HVAÐ ER HEIMUR SATANS?
3. (a) Hvern segir Biblían vera höfðingja heimsins? (b) Hvernig kom munurinn á heiminum og lærisveinum Jesú fram í bæn sem hann bað?
3 Jesús kallaði Satan ‚höfðingja heimsins.‘ Og Jóhannes postuli sagði að ‚allur heimurinn væri á valdi hins vonda.‘ (Jóhannes 12:31; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Við tökum eftir að í bæn til Guðs talaði Jesús ekki um lærisveina sína sem hluta af heiminum. Hann sagði: „Ég bið fyrir þeim [lærisveinunum]. Ég bið ekki fyrir heiminum, . . . Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:9, 16; 15:18, 19) Af þessu má ljóst vera að sannkristnir menn eiga að vera aðgreindir frá heiminum.
4. (a) Um hvað er orðið ‚heimurinn‘ notað í Jóhannesi 3:16? (b) Hver er sá ‚heimur‘ sem fylgjendur Krists eiga að aðgreina sig frá?
4 En hvað átti Jesús við með orðinu ‚heimurinn‘? Í Biblíunni merkir ‚heimurinn‘ stundum mannkynið í heild. Guð sendi son sinn til að hann gæfi líf sitt sem lausnargjald fyrir mannheiminn. (Jóhannes 3:16) En Satan hefur safnað meirihluta mannkynsins í skipulag sem er Guði mótsnúið. Heimur Satans er því allt hið skipulagða mannfélag sem stendur utan hins sýnilega skipulags Guðs og er aðgreint frá því. Það er sá heimur sem sannkristnir menn verða að aðgreina sig frá. — Jakobsbréfið 1:27.
5. Hvaða mikilvægur hluti heimsins er nefndur hér og hvernig er honum lýst í Biblíunni?
5 Heimur Satans — það samfélag manna sem hann hefur skipulagt — skiptist í nokkra hluta sem eru þó nátengdir hver öðrum. Fölsk trúarbrögð eru veigamikill hluti heimsins. Í Biblíunni er fölskum trúarbrögðum líkt við ‚skækju mikla,‘ vændiskonu, sem ber nafnið „Babýlon hin mikla.“ Hún er heimsveldi eins og sést á því að hún „heldur ríki yfir konungum jarðarinnar.“ (Opinberunarbókin 17:1, 5, 18) En hvað sannar að Babýlon hin mikla sé trúarlegt heimsveldi?
6, 7. (a) Hvað sannar að Babýlon hin mikla er trúarlegt heimsveldi? (b) Hvert hefur verið samband falstrúarbragða og pólitískra stjórna?
6 „Konungar jarðarinnar“ eru sagðir ‚drýgja saurlifnað‘ með Babýlon hinni miklu, og því getur hún ekki verið pólitískt heimsveldi. Og sökum þess að „seljendur“ eða farandkaupmenn jarðarinnar standa álengdar og harma eyðileggingu hennar getur hún ekki verið heimsveldi verslunar og viðskipta. (Opinberunarbókin 17:2; 18:15) Að hún sé í raun og veru trúarlegt heimsveldi sést á þeim orðum Biblíunnar að ‚hún hafi leitt þjóðirnar afvega með kukli sínu og göldrum‘ eða ‚andatrúariðkun.‘ — Opinberunarbókin 18:23, Lifandi orð, NW.
7 Samband Babýlonar hinnar miklu við ‚dýr‘ nokkurt sannar einnig að hún er trúarlegt heimsveldi. Í Biblíunni tákna slík villidýr pólitískar stjórnir. (Daníel 8:20, 21) Babýlon hinni miklu er svo lýst að hún sitji „á skarlatsrauðu dýri, . . . og hafði það sjö höfuð og tíu horn.“ Hún hefur reynt að ráða yfir þessu „dýri“ eða pólitískum stjórnum veraldar. (Opinberunarbókin 17:3) Og alkunna er að í gegnum alla sögu mannkynsins hafa trúarbrögðin skipt sér af stjórnmálum og oft sagt valdhöfum fyrir verkum. Trúarbrögðin hafa sannarlega ‚haldið ríki yfir konungum jarðarinnar.‘ — Opinberunarbókin 17:18.
8. Nefndu annan hluta af heimi Satans. Hvernig er honum lýst í Biblíunni?
8 Hinar pólitísku stjórnir eru annar stór hluti af heimi Satans. Eins og við höfum þegar nefnt líkir Biblían þeim við villidýr. (Daníel 7:1-8, 17, 23) Sýn, sem Jóhannes postuli sá, lýsir því að þessar dýrslegu stjórnir hafi fengið vald sitt frá Satan: „Þá sá ég dýr stíga upp af hafinu. Það hafði tíu horn og sjö höfuð . . . Drekinn gaf því mátt sinn.“ (Opinberunarbókin 13:1, 2; 12:9) Satan freistaði Jesú með því að bjóða honum öll þessi ríki, og það sannar enn betur að þau, eða stjórnirnar sem þau tákna, eru hluti af heimi Satans. Satan hefði ekki getað gert það ef hann hefði ekki ráðið yfir þeim. — Matteus 4:8, 9.
9. (a) Hvaða hluta af heimi Satans er lýst í Opinberunarbókinni 18:11? (b) Hvað gerir hann sem sýnir að Satan stendur að baki honum?
9 Enn einn áberandi hluti af heimi Satans er hið fégráðuga og yfirgangssama viðskiptakerfi sem Opinberunarbókin 18:11 (NW) kallar „farandkaupmenn.“ Viðskiptaheimurinn elur á eigingjarnri löngun manna í þá hluti sem hann framleiðir, enda þótt þeir hafi kannski ekki þörf fyrir þá og séu jafnvel betur settir án þeirra. Samtímis hrúgar hinn ágjarni viðskiptaheimur upp matvælabirgðum í vörugeymslum sínum enda þótt milljónir manna svelti í hel vegna þess að þær hafa ekki efni á að kaupa sér matvæli. En vopn til hernaðar, sem geta tortímt öllu mannkyninu, eru framleidd og seld í ábataskyni. Þannig elur viðskiptaheimur Satans, ásamt falstrúarbrögðum og pólitískum stjórnum, á eigingirni, glæpum og hræðilegum styrjöldum.
10, 11. (a) Nefnið enn einn hluta af heimi Satans. (b) Hvernig varar Biblían okkur við að flækja okkur í honum?
10 Það mannfélag, sem Satan djöfullinn ræður yfir, er í sannleika sagt óguðlegt og spillt. Það er fjandsamlegt réttlátum lögum Guðs og stundar alls konar siðlausar athafnir í erg og gríð. Þess vegna má segja að léttúð og siðleysi sé enn einn hluti af heimi Satans. Af þeim sökum brýndu bæði Páll og Pétur postuli fyrir kristnum mönnum að forðast óguðlegt og illt athæfi þjóðanna. — Efesusbréfið 2:1-3; 4:17-19; 1. Pétursbréf 4:3, 4.
11 Jóhannes postuli lagði líka ríkt á við kristna menn um að vera á verði gegn röngum löngunum og siðleysi heimsins. Hann skrifaði: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins. Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.“ (1. Jóhannesarbréf 2:15, 16) Lærisveinninn Jakob sagði að ‚vildi einhver vera vinur heimsins gerði hann sig að óvini Guðs.‘ — Jakobsbréfið 4:4.
HVERNIG FORÐAST MÁ AÐ VERA HLUTI AF HEIMINUM
12, 13. (a) Hvernig benti Jesús á að kristnir menn verða að vera í heiminum? (b) Hvernig er hægt að vera í heiminum án þess að tilheyra honum?
12 Svo lengi sem heimur Satans er til verða kristnir menn að lifa í honum. Jesús gat þess þegar hann bað til föður síns: „Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum.“ Síðan bætti hann við um fylgjendur sína: „Þeir eru ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:15, 16) Hvernig er hægt að vera í heimi Satans án þess að vera hluti af honum?
13 Við búum að sjálfsögðu meðal manna sem mynda samfélag nútímans. Meðal þeirra eru bæði saurlífismenn, ágjarnir menn og aðrir sem vinna alls kyns vonskuverk. Vera má að þú vinnir með þeim, gangir í skóla með þeim, matist með þeim og takir þátt með þeim í öðrum áþekkum athöfnum. (1. Korintubréf 5:9, 10) Þú átt meira að segja að elska þá á sama hátt og Guð gerir. (Jóhannes 3:16) En sannkristinn maður elskar ekki óguðlegar athafnir manna. Hann tileinkar sér ekki viðhorf þeirra, verk eða markmið. Hann tekur ekki þátt í spilltum trúarbrögðum þeirra og stjórnmálum. Og þótt hann þurfi oft að vinna í heimi viðskiptanna til að sjá sér farborða, gerir hann sig ekki sekan um óheiðarleika í viðskiptum né hefur það sem sitt æðsta markmið að eignast efnislega hluti. Hann er hlynntur nýrri skipan Guðs og forðast því þann slæma félagsskap sem fólkið í heimi Satans er. (1. Korintubréf 15:33; Sálmur 1:1; 26:3-6, 9, 10) Þannig er hann í heimi Satans án þess að vera hluti af honum.
14. Hvaða boði Biblíunnar munt þú hlýða ef þú aðhyllist nýja skipan Guðs?
14 Hvað um þig? Vilt þú vera hluti af heimi Satans eða ert þú hlynntur nýrri skipan Guðs? Kjósir þú nýja skipan Guðs munt þú aðgreina þig frá heiminum, þar á meðal falstrúarbrögðum hans. Þú munt hlýða kallinu: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni [Babýlon hinni miklu].“ (Opinberunarbókin 18:4) Að ganga út úr Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða, er meira en aðeins að slíta öll tengsl við falstrúarstofnanir. Það felur einnig í sér að segja skilið við trúarhátíðir heimsins. — 2. Korintubréf 6:14-18.
15. (a) Hvað er kristnum mönnum boðið að halda hátíðlegt í stað fæðingar Jesú? (b) Hvað sýnir að Jesús hefur ekki getað fæðst í desembermánuði þegar kalt er í veðri? (c) Hvers vegna varð 25. desember fyrir valinu sem fæðingarhátíð Jesú?
15 Jólin eru sjálfsagt sú trúarhátíð sem hvað mest fer fyrir. Mannkynssagan sýnir hins vegar að í upphafi héldu kristnir menn ekki jól. Jesús sagði fylgjendum sínum að minnast dauða síns, ekki fæðingar. (1. Korintubréf 11:24-26) Jesús fæddist reyndar alls ekki 25. desember. Biblían skýrir frá því að fjárhirðar hafi enn verið með sauði úti í haga að næturlagi um þær mundir sem Jesús fæddist. Það hefðu þeir ekki getað um miðjan vetur þegar kalt er og rigningasamt. (Lúkas 2:8-12) 25. desember varð fyrir valinu sem fæðingarhátíð Jesú vegna þess að „Rómverjar héldu þá þegar þennan dag, saturnaliahátíðina, fæðingardag sólar, hátíðlegan.“ — The World Book Encyclopedia.
16. (a) Nefndu aðra útbreidda trúarhátíð sem ekki er af kristnum toga spunnin. (b) Hvað er ærið tilefni fyrir sannkristna menn til að halda ekki upp á jól og páska?
16 Páskar eru önnur trúarhátíð sem haldin er mjög víða. „Heilaga vikan“ í sumum löndum Rómönsku-Ameríku er mjög lík páskunum. En frumkristnir menn héldu ekki heldur páska hátíðlega. Páskahald nútímans má einnig rekja til heiðinna hátíða. Páskahátíð Gyðinga var allsendis óskyld því páskahaldi sem nú tíðkast þótt hún sé kölluð sama nafni. Alfræðibókin Encyclopædia Britannica segir: „Engin vísbending er um það í Nýjatestamentinu að páskar hafi verið haldnir hátíðlegir.“ En skiptir það einhverju máli þótt jólin og páskarnir séu ekki kristnar hátíðir, heldur eigi upptök sín meðal manna sem dýrkuðu falska guði? Páll postuli varaði við því að blanda saman réttu og röngu og sagði að jafnvel ‚lítið súrdeig sýrði allt deigið.‘ (Galatabréfið 5:9) Hann sagði sumum hinna frumkristnu að það væri rangt að halda hátíðir sem Móselögin hefðu kveðið á um, en Guð hafði nú numið úr gildi. (Galatabréfið 4:10, 11) Þá hlýtur að vera langtum mikilvægara fyrir sannkristna menn nú á dögum að halda ekki hátíðir sem Guð hefur aldrei boðið að skuli haldnar og rekja uppruna sinn til falskra trúarbragða!
17. (a) Hvað er rangt við helgidaga sem heiðra fræga menn eða þjóðir? (b) Hvernig sýnir Biblían kristnum mönnum hvað þeir eiga að gera?
17 Aðrir hátíðisdagar eru haldnir til heiðurs hetjum eða frægum mönnum, eða þá þjóðum eða veraldlegum stofnunum. Biblían varar okkur við því að heiðra menn á einhvern þann hátt sem jaðrar við tilbeiðslu, eða að treysta stofnunum mannanna til að áorka því sem aðeins Guð getur. (Postulasagan 10:25, 26; 12:21-23; Opinberunarbókin 19:10; Jeremía 17:5-7) Hátíðisdagar, sem hafa það markmið að heiðra og upphefja menn eða mannlegar stofnanir, eru ekki í samræmi við vilja Guðs og sannkristnir menn taka engan þátt í þeim. — Rómverjabréfið 12:2.
18. (a) Hvaða hluti hafa menn búið til sem þeir vilja láta heiðra eða dýrka? (b) Hvað segja lög Guðs um slíkt?
18 Menn hafa í aldanna rás reist sér margs konar líkneski eða merki og fyrirskipað öðrum að heiðra þau eða dýrka. Sum hafa verið úr málmi eða tré en önnur úr dúk eða klæði með mynd af einhverju á himni eða jörð. Sumar þjóðir setja lög þess efnis að allir skuli heiðra eða dýrka slíkan hlut. En lög Guðs segja að þjónar hans eigi ekki að gera það. (2. Mósebók 20:4, 5; Matteus 4:10) Hvað hafa þjónar Guðs gert undir slíkum kringumstæðum?
19. (a) Hvað bauð konungur Babýlonar öllum að gera? (b) Hvaða fordæmi eiga kristnir menn að fylgja?
19 Í Babýlon til forna lét Nebúkadnesar konungur reisa geysistórt líkneski úr gulli og fyrirskipaði að allir skyldu beygja sig fyrir því. ‚Hverjum sem gerir það ekki,‘ sagði hann, ‚verður kastað í brennandi eldsofn.‘ Biblían segir okkur að þrír Hebrear, þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó, hafi neitað að gera það sem konungur skipaði. Hvers vegna? Vegna þess að hér var um tilbeiðsluathöfn að ræða og þeir tilbáðu engan annan en Jehóva. Guð hafði velþóknun á því sem þeir gerðu og bjargaði þeim undan reiði konungsins. Nebúkadnesar skildist líka að ríkinu stafaði engin hætta af þessum þjónum Jehóva og setti lög til verndar frelsi þeirra. (Daníel 3:1-30) Finnst þér trúfesti þessara ungu manna ekki aðdáunarverð? Ætlar þú að sýna að þú styðjir nýja skipan Guðs af alefli með því að hlýða öllum lögum Guðs? — Postulasagan 5:29.
20. Nefndu dæmi um ýmsar leiðir sem Satan notar til að reyna að fá okkur til að brjóta lög Guðs um siðferði.
20 Satan vill vitanlega ekki að við þjónum Jehóva. Hann vill að við þjónum sér. Þess vegna reynir hann að fá okkur til að gera það sem hann vill, vegna þess að hann veit að við verðum þrælar eða þjónar þess sem við hlýðum. (Rómverjabréfið 6:16) Með ýmsum leiðum, þar á meðal sjónvarpi, kvikmyndum, ýmiss konar dansi og siðlausum bókum og ritum, hvetur Satan til kynmaka milli ógiftra einstaklinga, svo og hjúskaparbrots. Hann lætur líta svo út að slíkt sé ósaknæmt, jafnvel í stakasta lagi. Engu að síður er það brot á lögum Guðs. (Hebreabréfið 13:4; Efesusbréfið 5:3-5) Sá sem gerir slíkt sýnir í raun réttri að hann aðhyllist heim Satans.
21. Hvaða önnur verk myndu sýna að við aðhyllumst heim Satans?
21 Sitthvað annað má nefna sem er útbreitt og vinsælt í heimi Satans en brýtur í bága við lög Guðs, til dæmis að drekka sig drukkinn. (1. Korintubréf 6:9, 10) Þá er að nefna notkun fíkniefna svo sem hass, marijúana og heróíns til að komast í vímuástand, eða þá tóbaks. Allt er þetta óhreint og líkamanum skaðlegt. Notkun slíkra efna er skýlaust brot á þeim fyrirmælum Guðs að ‚hreinsa okkur af allri saurgun á líkama og sál.‘ (2. Korintubréf 7:1) Tóbaksreykingar eru auk þess heilsuspillandi fyrir þá sem eru nálægt reykingamanninum og verða að anda reyknum að sér, þannig að reykingamaður brýtur það lagaboð Guðs að kristinn maður eigi að elska náunga sinn. — Matteus 22:39.
22. (a) Hvað segir Biblían um blóð? (b) Hvers vegna er enginn eðlismunur á að taka blóð í æð og „neyta“ þess? (c) Hvað sýnir að við megum alls ekki taka blóð inn í líkama okkar ef við eigum að ‚halda okkur frá því‘?
22 Víða í heiminum er algengt að nota blóð til matar. Stundum eru dýr drepin til manneldis en ekki blóðguð sem skyldi, eða þá blóðið notað við matargerð. En orð Guðs bannar neyslu blóðs. (1. Mósebók 9:3, 4; 3. Mósebók 17:10) En hvað þá um blóðgjafir? Sumir segja að blóðgjöf eigi ekkert skylt við það að „eta“ eða „neyta“ blóðs. En ekki má gleyma að sjúklingi, sem ekki getur nærst með venjulegum hætti í gegnum munninn, er oft gefin næring í æð á sama hátt og blóð er gefið. Biblían segir okkur að ‚halda okkur frá blóði.‘ (Postulasagan 15:20, 29) Hvað merkir það? Ef læknir segði þér að halda þér frá áfengi þýddi það tæplega að þú mættir taka það beint í æð, aðeins ekki nota munninn til að drekka það. Vitanlega ekki! Að ‚halda sér frá blóði‘ þýðir að það skuli alls ekki tekið inn í líkamann.
23. (a) Hvaða ákvörðun þarft þú að taka? (b) Hvað sýnir hvaða ákvörðun þú hefur tekið?
23 Þú þarft að sýna Jehóva Guði að þú aðhyllist nýja skipan hans og sért ekki hluti af þessum heimi. Til þess þarft þú að taka ákvörðun — ákvörðun um að þjóna Jehóva, gera vilja hans. Þú getur ekki haltrað til beggja hliða eins og sumir Ísraelsmenn gerðu forðum daga. (1. Konungabók 18:21) Mundu að þjónir þú ekki Jehóva ert þú að þjóna Satan. Þú segir kannski að þú aðhyllist nýja skipan Guðs, en hvað segir breytni þín? Að kjósa nýja skipan Guðs felur í sér að forðast allt sem Guð fordæmir og verður ekki til í réttlátri, nýrri skipan hans.
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 209]
Hvaða heimur var það sem Jesús bað ekki fyrir og lærisveinar hans tilheyra ekki?
[Mynd á blaðsíðu 210]
Í Biblíunni er falstrúarbrögðum lýst sem drukkinni vændiskonu, og stjórnum heimsins, sem hún „ríður,“ sem villidýri.
Léttúð er áberandi í heimi Satans. Mikið fer einnig fyrir fégráðugum viðskiptaheimi.
[Mynd á blaðsíðu 213]
Óhugsandi er að Jesús hafi fæðst 25. desember, vegna þess að fjárhirðar voru enn með hjarðir sínar úti í haga að næturlagi þegar hann fæddist.
[Mynd á blaðsíðu 214]
Þjónar Guðs neituðu að tilbiðja líkneski sem konungur hafði látið reisa. Hvað myndir þú gera við svipaðar aðstæður?