Eru þessar tilfinningar eðlilegar?
MAÐUR, sem syrgði föður sinn, skrifaði: „Sem barn á Englandi var mér kennt að láta tilfinningar mínar ekki í ljós að öðrum ásjáandi. Ég man eftir hvernig faðir minn, sem verið hafði í hernum, sagði við mig með herptum vörum þegar eitthvað olli mér sársauka: ‚Ekki gráta!‘ Ég man ekki hvort móðir mín kyssti okkur börnin nokkurn tíma eða faðmaði (við vorum fjögur systkinin). Ég var 56 ára þegar faðir minn dó. Mér fannst missir minn hræðilega mikill. Þó gat ég ekki grátið í fyrstu.“
Í sumum menningarsamfélögum lætur fólk tilfinningar sínar opinskátt í ljós. Það sést hvernig því líður, hvort sem það er glatt eða dapurt. Í sumum heimshlutum, sér í lagi í norðanverðri Evrópu og á Bretlandseyjum, hefur fólk, einkum karlmenn, á hinn bóginn verið vanið á að fela öll geðbrigði, halda aftur af tilfinningum sínum, láta engan bilbug á sér finna og bera ekki tilfinningarnar utan á sér. En er það á einhvern hátt rangt að láta í ljós sorg sína þegar maður hefur misst ástvin? Hvað segir Biblían?
Þeir sem grétu í Biblíunni
Biblían var skrifuð af Hebreum við austanvert Miðjarðarhaf en þeir voru fólk sem tjáði sig opinskátt. Hún hefur að geyma mörg dæmi um fólk sem duldi alls ekki sorg sína. Davíð konungur syrgði lát sonar síns, Amnons, sem var myrtur. Hann ‚grét ákaflega‘. (2. Samúelsbók 13:28-39) Hann syrgði jafnvel fráfall hins sviksama sonar síns, Absalons, sem hafði reynt að sölsa undir sig ríkið. Frásaga Biblíunnar segir okkur: „Þá varð [Davíð] konungi bilt. Gekk hann upp í þaksalinn uppi yfir hliðinu og grét. Og er hann gekk, mælti hann svo: ‚Sonur minn Absalon, sonur minn, sonur minn Absalon! Ó, að ég hefði dáið í þinn stað, Absalon, sonur minn, sonur minn!‘“ (2. Samúelsbók 18:33) Davíð syrgði eins og sérhver eðlilegur faðir. Og foreldrar hafa sannarlega oft óskað þess að þeir hefðu mátt deyja í stað barna sinna. Það virðist svo óeðlilegt að barn deyi á undan foreldrum sínum.
Hvernig brást Jesús við dauða Lasarusar vinar síns? Hann grét þegar hann nálgaðist gröf hans. (Jóhannes 11:30-38) Seinna grét María Magdalena þegar hún nálgaðist legstað Jesú. (Jóhannes 20:11-16) Kristinn maður, sem skilur upprisuvon Biblíunnar, er að vísu ekki óhuggandi í sorg sinni eins og sumir sem hafa ekki skýran biblíulegan grundvöll fyrir trúarhugmyndum sínum um ástand hinna látnu. En sem mennskur maður með eðlilegar tilfinningar syrgir sannkristinn maður vissulega og tregar fráfall ástvinar, jafnvel þótt hann hafi von um upprisu hans. — 1. Þessaloníkubréf 4:13, 14.
Að gráta eða gráta ekki
Hvað um viðbrögð okkar nú á dögum? Finnst þér erfitt eða vandræðalegt að sýna tilfinningar þínar? Hverju mæla ráðgjafar með? Viðhorf þeirra enduróma oft einungis hina fornu, innblásnu visku Biblíunnar. Þeir hvetja okkur til að láta sorg okkar í ljós, ekki byrgja hana inni. Það minnir okkur á trúfasta menn til forna, eins og Job, Davíð og Jeremía. Í Biblíunni kemur fram hvernig þeir tjáðu sorg sína. Sannarlega bældu þeir ekki niður tilfinningar sínar. Þar af leiðandi er ekki skynsamlegt að einangra sig frá fólki. (Orðskviðirnir 18:1) Að sjálfsögðu láta menn harm sinn í ljós á ólíkan hátt í mismunandi samfélögum og það er einnig háð ríkjandi trúarhugmyndum. *
Hvað ef manni finnst maður þurfa að gráta? Það er í mannlegu eðli að gráta. Mundu að við dauða Lasarusar „komst [Jesús] við í anda og . . . grét“. (Jóhannes 11:33, 35) Með því sýndi hann að grátur er eðlileg viðbrögð við dauða ástvinar.
Mál Anne, sem missti barnið sitt, Rachel, úr vöggudauða, styður þetta. Eiginmaður hennar sagði: „Það undarlega var að hvorki Anne né ég grétum við útförina. Allir aðrir grétu.“ Þessu svaraði Anne þannig: „Já, en ég hef grátið heilmikið fyrir okkur bæði. Ég held að það hafi í alvöru lagst á mig með fullum þunga nokkrum vikum eftir þennan hörmulega atburð, þegar ég dag nokkurn var loksins ein í húsinu. Ég grét allan daginn. En ég held að það hafi hjálpað mér. Mér leið betur þess vegna. Ég varð að harma dauða barnsins míns. Ég trúi virkilega að það eigi að leyfa syrgjendum að gráta. Þótt það séu eðlileg viðbrögð annarra að segja ‚Gráttu ekki‘, þá hjálpar það ekki í raun og veru.“
Hvernig sumir bregðast við
Hvernig hafa sumir brugðist við þeirri vanlíðan sem ástvinamissir veldur? Sem dæmi skulum við líta á Juanitu. Hún þekkir þá tilfinningu að missa barn. Hún hafði fimm sinnum misst fóstur. Núna var hún barnshafandi enn á ný. Þess vegna er skiljanlegt að hún yrði áhyggjufull þegar flytja þurfti hana á sjúkrahús eftir bílslys. Tveimur vikum síðar hófust fæðingarhríðirnar — fyrir tímann. Skömmu síðar fæddist Vanessa litla og vóg aðeins tæpar fjórar merkur. „Ég var svo spennt,“ minnist Juanita. „Loksins var ég orðin móðir!“
En hamingja hennar var skammvinn. Vanessa dó fjórum dögum síðar. „Ég fann fyrir svo miklum tómleika,“ segir Juanita. „Móðurhlutverkið var tekið af mér. Mér fannst ég vera bara hálf manneskja. Það var sársaukafullt að koma heim
og inn í herbergið sem við höfðum undirbúið fyrir Vanessu og sjá litlu nærbolina sem ég hafði keypt handa henni. Næstu tvo mánuði endurlifði ég fæðingardag hennar. Ég vildi ekki hafa neitt með nokkurn að gera.“Öfgafull viðbrögð? Það getur verið erfitt fyrir aðra að skilja það, en þeir sem hafa, eins og Juanita, upplifað það segja að þeir hafi syrgt barnið sitt jafnt og þeir hefðu syrgt einhvern sem hefði lifað um nokkurn tíma. Þeir segja að foreldrar elski barnið sitt löngu áður en það fæðist. Tengsl þess við móðurina eru sérstök. Þegar barnið deyr finnst móðurinni að raunveruleg persóna hafi glatast. Og það er það sem aðrir þurfa að skilja.
Hvernig reiði og sekt geta haft áhrif á mann
Önnur móðir segir hverjar tilfinningar hennar hafi verið þegar henni var sagt að sex ára sonur hennar hefði dáið vegna meðfædds hjartagalla. „Ég gekk í gegnum hver tilfinningaviðbrögðin af öðrum — doða, vantrú, sektarkennd og reiði gagnvart eiginmanni mínum og lækninum fyrir að gera sér ekki ljóst hversu alvarlegt ástand hans var.“
Reiði getur verið annað einkenni sorgar. Það getur verið reiði út í lækna og hjúkrunarfólk. Syrgjandanum finnst ef til vill að þeir hefðu átt að gera meira til að annast hinn látna. Það getur verið reiði út í vini og ættingja sem virðast segja eða gera það sem er rangt. Sumir reiðast hinum látna fyrir að vanrækja heilsu sína. Stella segir: „Ég man eftir að hafa verið reið eiginmanni mínum af því að ég vissi að þetta hefði getað farið á annan veg. Hann hafði verið mjög sjúkur en haft viðvaranir læknanna að engu.“ Og stundum kemur upp reiði út í hinn látna vegna þeirra byrða sem dauði hans veldur eftirlifendunum.
Sumir fá sektartilfinningu vegna reiðinnar — þeir fordæma sjálfa sig fyrir það að finna til reiði. Aðrir kenna sér um dauða ástvinarins. Þeir sannfæra sjálfa sig um að hann hefði ekki dáið, „ef ég hefði bara látið hann fara fyrr til læknis“ eða „látið hann leita til annars læknis“ eða „látið hann hugsa betur um heilsuna“.
Hjá öðrum gengur sektartilfinningin enn þá lengra, einkum ef ástvinur þeirra dó skyndilega
og óvænt. Þeir byrja að rifja upp þær stundir þegar þeir urðu reiðir út í hinn látna eða rifust við hann. Þeim getur líka fundist að þeir hafi ekki verið hinum dána allt það sem þeir í rauninni hefðu átt að vera.Hið langa sorgarferli margra mæðra styður það sem margir sérfræðingar segja, að missir barns skilji eftir sig varanlegt tómarúm í lífi foreldranna, einkum móðurinnar.
Þegar makinn deyr
Fráfall maka er önnur tegund áfalls, einkum ef bæði hjónin lifðu mjög starfssömu lífi saman. Það getur þýtt endalok þess lífsstíls sem þau áttu saman, við ferðalög, störf og skemmtun og þess að reiða sig hvort á annað.
Eunice útskýrir hvað kom fyrir þegar eiginmaður hennar lést skyndilega úr hjartaslagi. „Fyrstu vikuna var ég í tilfinningadoða eins og ég væri hætt að geta fótað mig. Ég fann ekki einu sinni bragð eða lykt. Þó var eins og rökhugsun mín héldi áfram aðskilin öðru. Sökum þess að ég hafði verið hjá manninum mínum á meðan þeir voru að reyna að halda honum gangandi með hjartahnoði og lyfjagjöf komu ekki yfir mig
hin venjulegu afneitunareinkenni. Engu að síður fann ég fyrir ákafri máttleysistilfinningu, eins og ég væri að horfa á bíl fara fram af klettum og gæti ekkert gert.“Grét hún? „Auðvitað gerði ég það, einkum þegar ég las þau hundruð samúðarkorta sem ég fékk send. Ég grét við hvert þeirra. Það hjálpaði mér að þrauka daginn á enda. En ekkert kom að gagni þegar ég var hvað eftir annað spurð að því hvernig mér liði. Ég var augljóslega alveg miður mín.“
Hvað hjálpaði Eunice að komast í gegnum sorg sína? „Án þess að gera mér það ljóst,“ segir hún, „tók ég ómeðvitað þá ákvörðun að halda áfram að lifa mínu lífi. Ég fæ hins vegar enn þá sting í hjartað þegar ég minnist þess að eiginmaðurinn minn, sem elskaði lífið svo mikið, er ekki hér til að njóta þess.“
„Láttu ekki aðra ráða því . . . “
Höfundar bókarinnar Leavetaking — When and How to Say Goodbye ráðleggja: „Láttu ekki aðra ráða því hvernig þú hegðar þér eða hverjar tilfinningar þínar eru. Sorgarferlið fer mismunandi leiðir hjá hverjum og einum. Aðrir kunna að hafa þá skoðun — og láta hana í ljós við þig — að sorg þín sé of mikil eða ekki nægileg. Fyrirgefðu þeim og gleymdu því. Ef þú reynir að troða þér í mót sem aðrir, eða samfélagið í heild, skapa hamlar þú því að þú náir að jafna þig tilfinningalega.“
Ólíkir einstaklingar meðhöndla vitaskuld sorg sína á mismunandi vegu. Við erum ekki að reyna að leggja til að ein leið sé endilega betri en önnur fyrir hvern og einn. En háski er samt á ferðum ef kyrrstaða tekur völdin, þegar hinn sorgbitni einstaklingur er ófær um að sætta sig við raunveruleikann. Þá getur hluttekningarsamur vinur þurft að koma til hjálpar. Biblían segir: „Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir.“ Vertu þess vegna ekki hræddur við að leita aðstoðar, að tala og að gráta. — Orðskviðirnir 17:17.
Sorg er eðlileg viðbrög við missi og það er ekki rangt að öðrum sé sorg manns augljós. En spyrja þarf fleiri spurninga: ‚Hvernig get ég borið sorg mína? Er eðlilegt að finna fyrir sektarkennd og reiði? Hvernig ætti ég að takast á við þessi viðbrögð? Hvað getur hjálpað mér að þola missinn og sorgina?‘ Næsti hluti svarar þessum spurningum og öðrum.
^ gr. 8 Endurholdgun sálarinnar er til dæmis hefðbundin trú meðal Jórúbamanna í Nígeríu. Þegar móðir missir barn er þess vegna mjög mikil sorg en aðeins í stuttan tíma, af því að, eins og viðlag hjá Jórúbamönnum segir: „Vatnið helltist niður en kerið er óbrotið.“ Að sögn Jórúbamanna þýðir þetta að vatnskerið, móðirin, geti eignast annað barn — ef til vill endurholdgun dána barnsins. Vottar Jehóva fylgja engum siðvenjum sem byggðar eru á hjátrú sem komin er af falshugmyndum um ódauðleika sálarinnar og endurholgun, sem á sér engan grundvöll í Biblíunni. — Prédikarinn 9:5, 10; Esekíel 18:4, 20.