Hvernig varðveittist bókin?
Hvernig varðveittist bókin?
Forn rit gátu auðveldlega orðið eldi, raka eða myglu að bráð. Biblían var ekki ónæm fyrir slíkum hættum. Sagan af því hvernig hún hefur staðist tímans tönn og náð að verða aðgengilegasta bók í heimi á sér enga líka meðal fornra rita. Sú saga verðskuldar meira en lauslega athugun.
BIBLÍURITARARNIR meitluðu ekki verk sín í stein; þeir letruðu þau ekki heldur á varanlegar leirtöflur. Þeir skráðu greinilega orð sín á forgengilegt efni — papírus (unninn úr egypskri jurt með sama nafni) og bókfell (unnið úr dýraskinnum).
Hvað varð um upphaflegu handritin? Líklega grotnuðu þau niður fyrir löngu, flest þeirra í Ísrael til forna. Fræðimaðurinn Oscar Paret útskýrir það: „Raki, mygla og ýmsar lirfur eru verulegir ógnvaldar beggja þessara efna [papírus og leður] sem skrifað var á. Við þekkjum af daglegri reynslu hversu auðveldlega pappír og jafnvel sterkt leður skemmist undir beru lofti eða í röku herbergi.“1
Ef frumritin eru ekki lengur til hvernig hafa þá orð biblíuritaranna náð að varðveitast til okkar daga?
Nákvæmir afritarar varðveittu þau
Fljótlega eftir að frumritin voru færð í letur var farið að handskrifa afrit. Afritun Ritninganna varð reyndar að sérstakri starfsgrein í Ísrael til forna. (Esrabók 7:6; Sálmur 45:2) En afritin voru líka skráð á forgengilegt efni. Með tímanum þurftu enn önnur handrituð afrit að leysa þau af hólmi. Þegar frumritin hurfu af sjónarsviðinu urðu þessi afrit grundvöllur seinni afrita. Öldum saman var haldið áfram að gera afrit af afritum. Leiddu mistök afritaranna í aldanna rás til verulegra breytinga á biblíutextanum? Allt bendir til þess að svo hafi ekki verið.
Afritararnir voru mjög trúfastir starfi sínu. Þeir báru mikla virðingu fyrir textanum sem þeir afrituðu. Þeir voru líka nákvæmir, jafnvel nostursamir. Hebreska orðið, sem þýtt er „afritari“ í New World Translation („fræðimaður“ og „hraðritari“ í íslensku biblíunni), er sofer sem vísar til þess að telja eitthvað eða skrá. Lýsandi dæmi um nákvæmni afritaranna eru Masoretarnir. * Um þá segir fræðimaðurinn Thomas Hartwell Horne: „Þeir . . . skráðu hver væri miðstafurinn í Fimmbókaritinu [fyrstu fimm bókum Biblíunnar], hvaða setning væri í miðju hverrar bókar og hve oft hver einstakur stafur [hebreska] stafrófsins kæmi fyrir í öllum Hebresku ritningunum.“3
Leiknir afritarar notfærðu sér á þennan hátt nokkrar aðferðir til að tryggja sem mesta nákvæmni. Til þess að forðast að sleppa jafnvel einum staf úr biblíutextanum gengu þeir svo langt að telja bæði afrituðu orðin og hvern staf þar að auki. Ímyndaðu þér vandvirknina sem í þessu fólst: Þeir gættu að 815.140 einstökum stöfum í Hebresku ritningunum eftir því sem mönnum hefur talist til!4 Slík kostgæfni tryggði nákvæmni á háu stigi.
Afritararnir voru samt ekki óskeikulir. Eru einhverjar sannanir fyrir því að biblíutextinn hafi varðveist í áreiðanlegri mynd þrátt fyrir síendurteknar afritanir um aldir?
Áreiðanleg undirstaða til að byggja traust sitt á
Það er góð ástæða til að halda að Biblían hafi borist óbrengluð allt til okkar daga. Til vitnis um það eru handritin sem enn eru til, en áætlað er að þau séu um 6000 af Hebresku ritningunum í heild eða að hluta og um 5000 af kristnu Grísku ritningunum. Þeirra á meðal er handrit af Hebresku ritningunum sem fannst árið 1947 og sýnir hve nákvæm afritun Ritningarinnar var. Menn hafa síðan kallað það „mesta handritafund okkar tíma.“5
Snemma á því ári var ungur hirðingi að gæta hjarðar sinnar þegar hann uppgötvaði helli nálægt Dauðahafinu. Inni í honum fann hann allnokkrar leirkrúsir, flestar tómar. En í einni krúsinni, sem var þétt innsigluð, fann hann bókrollu úr leðri sem var vandlega vafin líni og innihélt alla Jesajabók Biblíunnar. Bókrollan var vel varðveitt en slitin og bar þess merki að gert hefði verið við hana. Ungi hirðirinn gerði sér litla grein fyrir því að hin forna bókrolla, sem hann hafði undir höndum, ætti eftir að ná heimsathygli.
Hvað var svona markvert við þetta handrit? Árið 1947 var elsta tiltæka handritið af Hebresku ritningunum í heild frá um það bil tíundu öld e.o.t. En þessi nýfundna bókrolla reyndist vera frá annarri öld f.o.t. * — meira en þúsund árum eldri. * Fræðimenn höfðu mikinn áhuga á að komast að því hvernig þetta handrit stæðist samanburð við mun yngri handrit.
Í einni rannsókn báru fræðimenn saman 53. kafla Jesajabókar í Dauðahafsbókrollunni við Masoretatextann sem skrifaður var þúsund árum síðar. Bókin, A General Introduction to the Bible, útskýrir niðurstöður rannsóknarinnar: „Af 166 orðum í Jesaja 53 er óvissa um aðeins sautján stafi. Tíu þessara stafa eru einungis stafsetningarfrávik og hafa ekki áhrif á merkinguna. Fjórir stafir til viðbótar eru minniháttar stílbreytingar, eins og samtengingar. Stafirnir þrír, sem þá eru eftir, mynda orðið ‚ljós,‘ sem bætt er við í 11. versi, og breytir ekki miklu um merkinguna. . . . Í einum kafla með 166 orðum er því aðeins eitt orð (þrír stafir) sem óvissa ríkir um eftir þúsund ára framflutning textans — og þetta orð breytir ekki merkingunni svo nokkru nemi.“7
Prófessor Millar Burrows, sem vann árum saman við greiningu Dauðahafshandritanna, komst að svipaðri niðurstöðu: „Ósamræmið milli . . . Jesajabókrollunnar og Masoretatextans má í mörgum tilfellum útskýra með ritvillum. Að þeim undanskildum er merkileg samhljóðan við texta handritanna frá miðöldum þegar á heildina er litið. Slíkt samræmi svo miklu eldra handrits við hinn hefðbundna texta er traustvekjandi vitnisburður um nákvæmni hans í einu og öllu.“8
„Traustvekjandi vitnisburður“ er líka fyrir hendi hvað snertir afritun kristnu Grísku ritninganna. Á 19. öld fannst til dæmis Codex Sinaiticus, skinnhandrit sem unnið var á fjórðu öld, og hjálpar til að staðfesta nákvæmni handrita af kristnu Grísku ritningunum sem skrifuð voru öldum síðar. Papírusslitur af Jóhannesarguðspjalli, sem fannst í Faiyūm-héraði í Egyptalandi, er talið vera frá fyrri helmingi annarrar aldar e.o.t., innan við 50 árum eftir að frumritið var skrifað. Það hafði varðveist um aldir í þurrum sandinum. Textinn kemur heim og saman við texta miklu yngri handrita.9
Fyrirliggjandi gögn staðfesta því að afritararnir voru miklir nákvæmnismenn. Engu að síður urðu þeim á mistök. Ekkert einstakt handrit er gallalaust — Dauðahafsbókrollan af Jesaja þar með talin. Fræðimönnum hefur hins vegar tekist að finna og leiðrétta slík frávik frá frumtextanum.
Villur afritaranna leiðréttar
Setjum sem svo að 100 menn væru beðnir um að handskrifa afrit af löngu skjali. Vafalaust myndu ritvillur slæðast inn hjá að minnsta kosti sumum skrifaranna. En þeir gerðu ekki allir sömu villurnar. Ef öll 100 afritin væru borin vandlega saman væri hægt að einangra ritvillurnar og komast nákvæmlega að texta skjalsins jafnvel þótt menn fengju aldrei að líta það augum.
Biblíuafritararnir gerðu ekki heldur allir sömu villurnar. Textafræðingar hafa núna aðgang að þúsundum biblíuhandrita og með samanburðargreiningu hefur þeim tekist að einangra villur, finna út hinn upprunalega leshátt og skrá niður leiðréttingar eftir þörfum. Þessar nákvæmu rannsóknir hafa gert textafræðingum kleift að endurgera texta sem stendur eins nálægt frumtextanum og komist verður. Þessar fáguðu útgáfur hebresku og grísku textanna taka upp þau orð sem almennt er samstaða um að séu hin upprunalegu. Neðanmáls er oft getið frávika eða annars lesháttar sem kann að finnast í vissum handritum. Þessar fáguðu útgáfur textafræðinganna eru það sem biblíuþýðendur nota þegar þeir þýða Biblíuna á nútímamál.
Þegar þú tekur þér í hönd nútímaþýðingu Biblíunnar er þess vegna full ástæða til að treysta því að hebreski og gríski textinn, sem hún er byggð á, endurspegli af óvenjulegri nákvæmni upprunalegan texta biblíuritaranna. * Sagan af því hvernig Biblían lifði af afritun á afritun ofan í þúsundir ára er sannarlega stórmerkileg. Sir Frederic Kenyon, forstöðumaður Breska þjóðminjasafnsins um árabil, gat þess vegna fullyrt: „Það verður ekki staðhæft um of að efnislega er texti Biblíunnar öruggur . . . Það sama verður ekki sagt um neina aðra forna bók í heiminum.“10
[Neðanmáls]
^ gr. 8 Masoretarnir (er merkir „arfsagnarmeistararnir“) voru afritarar Hebresku ritninganna og voru uppi frá sjöundu til tíundu aldar e.o.t. Afritin, sem þeir gerðu, eru nefnd masoretatextar.2
^ gr. 14 Skammstöfunin f.o.t. merkir „fyrir okkar tímatal“ og e.o.t. merkir „eftir okkar tímatali,“ oft kallað „fyrir Krist“ og „eftir Krist.“
^ gr. 14 Ritið Textual Criticism of the Hebrew Bible, eftir Emanuel Tov segir: „Með hjálp kolefnis-14 aðferðarinnar er 1QIsaa [Dauðahafshandritið af Jesajabók] núna tímasett milli 207 og 107 f.o.t. (fornletursfræðileg tímasetning: 125-100 f.o.t.) . . . Fyrrnefnd fornletursfræðileg aðferð hefur verið endurbætt á síðari árum og býður upp á nokkuð afdráttarlausa tímasetningu á grundvelli samanburðar á lögun og stöðu stafanna við utanaðkomandi heimildir eins og dagsetta mynt og áletranir. Þessi aðferð hefur reynst tiltölulega áreiðanleg.“6
^ gr. 22 Að sjálfsögðu getur verið munur á því hve nákvæmlega þýðendur halda sér við hebreska og gríska frumtextann.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Leiknir afritarar varðveittu Biblíuna.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Dauðahafsbókrollan af Jesajabók (ljósrit sýnt hér) er svo til nákvæmlega eins og Masoretatextinn sem gerður var þúsund árum síðar.