Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað getur gert líf þitt tilgangsríkara?

Hvað getur gert líf þitt tilgangsríkara?

Fyrsti kafli

Hvað getur gert líf þitt tilgangsríkara?

HEFUR þig dreymt um betra líf, hvort sem það væri á heimaslóðum eða í suðrænni paradís? Við höfum flest einhvern tíma látið okkur dreyma um slíkt.

Árið 1891 fór franski listmálarinn Paul Gauguin til Frönsku-Pólýnesíu í leit að slíku lífi. En raunveruleikinn var fljótur að segja til sín. Ósiðlát fortíð listamannsins leiddi sjúkdóma og kvöl yfir hann sjálfan og aðra. Þegar hann fann dauðann nálgast málaði hann það sem kallað hefur verið „hinsta tjáning mikillar listgáfu.“ Í bókinni Paul Gauguin 1848-1903 — The Primitive Sophisticate segir svo: „Málverkið nær yfir allt litróf vegferðar mannsins frá vöggu til grafar . . . [Málarinn] túlkar þar lífið sem mikla ráðgátu.“

Paul Gauguin nefndi málverkið „Hvaðan komum við? Hvað erum við? Hvert förum við? *

Þessar spurningar hljóma ef til vill kunnuglega. Þær vakna hjá mörgu hugsandi fólki. Einn ritstjóri The Wall Street Journal skrifaði eftir að hafa bent á framfarir manna í vísindum og tækni: „Hvað snertir vangavelturnar um manninn sjálfan, um ógöngur hans, um stöðu hans í þessum heimi, hefur okkur miðað lítið áfram frá því í árdaga. Við sitjum enn uppi með spurningar um tilvist okkar: Hver erum við, hvers vegna erum við til og hvert liggur leið okkar?“

Að vísu eru sumir niðursokknir í að annast fjölskyldu sína, afla sér lífsviðurværis, skoða sig um í heiminum eða sinna öðrum áhugamálum sínum enda þekkja þeir engan annan tilgang í lífinu. Albert Einstein sagði einhverju sinni: „Sá maður, sem örvæntir um tilganginn með lífi sínu, er ekki aðeins vansæll heldur vart hæfur til að njóta lífsins.“ Út frá þessu sjónarmiði er því eðlilegt að sumir leitist við að gefa lífi sínu einhvern tilgang með því að skapa listaverk, stunda vísindarannsóknir eða sinna mannúðarmálum. Kannast þú við einhverja slíka?

Það er skiljanlegt að með fólki vakni grundvallarspurningar um tilgang lífsins. Hve margir foreldrar, sem horft hafa á barn sitt deyja úr mýraköldu eða öðrum sjúkdómi, hafa ekki spurt sjálfa sig: ‚Til hvers er þessi þjáning? Hefur hún einhvern tilgang?‘ Svipaðar spurningar ónáða marga pilta og stúlkur þegar þau fara að taka eftir fátækt, sjúkdómum og ranglæti. Hrottafengnar styrjaldir fá fólk oft til að hugleiða hvort nokkur tilgangur sé með lífinu.

Jafnvel þótt þú hafir ekki reynt slíkt böl samsinnir þú líklega prófessor Freeman Dyson sem sagði: „Ég er í góðum félagsskap þegar ég spyr enn á ný spurninganna sem [biblíupersónan] Job bar fram: Hvers vegna þjáumst við? Hvers vegna er heimurinn svona ranglátur? Hvaða tilgangi þjónar sársauki og hörmungar?“ Þig fýsir sjálfsagt líka að fá svörin við þeim.

Það hefði vissulega mikla þýðingu fyrir okkur að fá fullnægjandi svör. Prófessor, sem lifði af hrylling fangabúðanna í Auschwitz, sagði: „Það er ekkert til í þessum heimi . . . sem betur hjálpar fólki að komast lifandi í gegnum jafnvel hinar verstu aðstæður en meðvitundin um að líf manna hafi tilgang.“ Hann taldi jafnvel samband vera milli geðheilsu manna og þessarar leitar að tilgangi með lífinu.

Í aldanna rás hafa margir leitað svara í trúarbrögðunum. Eftir að Gautama (Búddha) sá fársjúkan mann, gamalmenni og lík af manni, leitaði hann í frumspekinni að þekkingu á hinum æðri sannindum eða tilgangi tilverunnar án þess þó að til kæmi trú á Guð sem persónu. Aðrir hafa snúið sér að kirkju sinni.

Hvað um fólk nú á tímum? Margir einblína á vísindin og vísa trúnni og „Guði“ á bug sem málinu óviðkomandi. „Því meir sem vísindunum fleygir fram,“ segir bókin Religion and Atheism, „þeim mun minna rúm virðist vera fyrir Guð. Guð hefur verið gerður útlægur.“

Hvers vegna er skapara ýtt til hliðar?

Sú tilhneiging að vísa trú eða Guði á bug á sér í rauninni rætur í heimspeki sem leggur áherslu á rökhyggju eina og sér. Charles Darwin taldi að lífheimurinn yrði betur skýrður með „náttúruvali“ en tilveru skapara. Sigmund Freud hélt því fram að Guð væri hugarburður og frá tímum Friedrichs Nietzsches til okkar daga hefur sú hugmynd að ‚Guð sé dauður‘ átt fylgi að fagna. Austurlenskar heimspekihugmyndir eru á svipuðum nótum. Kennendur búddhatrúarinnar eru á því að ekki sé nauðsynlegt að fræðast um Guð, og hvað snertir sjintótrúna eru „guðirnir ekkert annað en menn“ að sögn Tetsuo Yamaori prófessors.

Vantrú á tilvist skapara er mjög útbreidd en á hún rétt á sér? Líklega þekkir þú dæmi um „vísindalegar staðreyndir“ sem voru almennt viðurkenndar áður fyrr en með tíð og tíma kom í ljós að þær voru fjarri öllum sanni. Hugmyndir eins og þær að ‚jörðin sé flöt‘ og ‚alheimurinn snúist um jörðina‘ réðu ríkjum öldum saman en núna vitum við betur.

Hvað um vísindahugmyndir síðari tíma? Átjándu aldar heimspekingurinn David Hume viðurkenndi ekki að til væri skapari en gat á engan hátt útskýrt tilvist lífsins í sínum margbreytilegu myndum á jörðinni. Kenning Darwins setti fram tilgátu um hvernig ein tegund lífvera verður til af annarri en hún útskýrði ekki hvernig lífið sjálft varð til né hver sé tilgangurinn með lífi okkar.

Margir vísindamenn og leikmenn finna þar af leiðandi fyrir því að eitthvað skortir á. Vísindakenningar reyna að útskýra hvernig lífið varð til en mikilvægustu spurningarnar snúast um hvers vegna það sé til. Þetta snertir jafnvel fólk sem er alið upp í samfélögum þar sem trú á skapara er almenn. Ungur, evrópskur sagnfræðinemi sagði: „Í mínum augum er Guð dauður. Ef hann væri virkilega til væri heimurinn ekki svona ruglaður. Saklaust fólk sveltur, dýrategundir eru að deyja út . . . Það er fásinna að halda að skapari sé til.“ Með ástandið á jörðinni í huga eiga margir ómögulegt með að skilja hvers vegna skapari — sé gengið út frá því að hann sé til — láti ekki til sín taka heiminum til heilla.

Við hljótum engu að síður að játa að margir hafna tilvist skapara vegna þess að þeir vilja ekki trúa. „Jafnvel þótt Guð segði mér persónulega að ég yrði að breyta lífi mínu, tæki ég það ekki í mál,“ sagði evrópskur iðnrekandi við einn starfsmanna sinna. „Ég vil lifa lífinu eins og mér sjálfum sýnist.“ Greinilega finnst sumum að viðurkenning á yfirvaldi skapara hefti frelsi þeirra eða samræmist ekki þeim lífsstíl sem þeir kjósa sér. Þeir segja ef til vill: ‚Ég trúi aðeins því sem ég sé og ég get ekki séð einhvern ósýnilegan skapara.‘

Spurningarnar um lífið og tilgang þess hopa þó hvergi og gildir þá einu hvers vegna hinn eða þessi hefur kosið að ýta skapara til hliðar. Eftir að maðurinn tók að rannsaka útgeiminn var guðfræðingurinn Karl Barth spurður um hvað honum fyndist um þann mikla sigur vísindanna. Hann svaraði: „Hann leysir engin þeirra vandamála sem halda vöku fyrir mér á nóttinni.“ Nú á tímum flýgur maðurinn um í geimnum og æðir um í netheimum. Hugsandi fólk sér eftir sem áður nauðsyn þess að hafa tilgang, eitthvað sem gerir líf þess tilgangsríkara.

Við hvetjum alla þá sem hafa opinn huga til að íhuga þetta viðfangsefni. Í bókinni Belief in God and Intellectual Honesty er bent á að sá sem býr yfir „vitsmunalegum heiðarleika“ einkennist af „fúsleika til að grandskoða það sem maður nú þegar telur rétt“ og vilja „til að gefa nægilegan gaum að öðrum tiltækum vísbendingum.“

Hvað snertir það viðfangsefni, sem við tökum til athugunar hér á eftir, geta slíkar ‚tiltækar vísbendingar‘ hjálpað okkur að sjá hvort skapari standi að baki lífinu og alheiminum. Og sé til skapari, hvernig er hann þá? Skyldi hann hafa persónuleika sem skiptir líf okkar einhverju máli? Vandleg athugun á þessu efni getur varpað ljósi á hvernig líf okkar getur orðið tilgangsríkara og veitt okkur meiri gleði.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 D’où venons-nous? Que sommes-nous? Où allons-nous?

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 4]

[Mynd á blaðsíðu 6]

Málverk Gauguins vakti upp spurningar um tilgang lífsins.