Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna er svona mikið um þjáningar ef skaparanum er annt um okkur?

Hvers vegna er svona mikið um þjáningar ef skaparanum er annt um okkur?

Tíundi kafli

Hvers vegna er svona mikið um þjáningar ef skaparanum er annt um okkur?

Á MEÐAN 60 sekúndur líða hjá deyja meira en 30 manns af smitsjúkdómum, 11 bíða lægri hlut í baráttunni við krabbamein og 9 andast af völdum hjartasjúkdóma. Þetta eru aðeins nokkrir þeirra sjúkdóma sem herja á fólk. Margir þjást og deyja af öðrum orsökum eins og alkunna er.

Árið 1996 var sett upp í fordyri byggingar Sameinuðu þjóðanna í New York klukka sem tifaði áfram eitt skref fyrir hvert barn sem fæddist fátækri fjölskyldu eða 47 sinnum á mínútu. Út frá öðrum sjónarhóli má segja að fyrir hvern hring, sem jörðin snýst um öxul sinn, fari 20 af hundraði íbúa hennar hungraðir í háttinn. Og ekki verður tölu komið á glæpina sem framdir eru á mínútu hverri.

Fram hjá þeirri staðreynd verður ekki litið að þjáningar er að finna í ríkum mæli hvarvetna í heiminum.

„Óréttlætið alls staðar í kringum okkur lætur samt mörg okkar að mestu ósnortin,“ segir fyrrverandi lögreglumaður. Við hættum þó að vera ósnortin um leið og það fer að snerta líf okkar eða ástvina okkar. Settu þig til dæmis í spor Masako sem annaðist móður sína og föður þegar þau fengu krabbamein. Yfir hana helltist vanmáttartilfinning þegar hún sá þau veslast upp og stynja af kvölum. Hugleiddu líka örvinglun Sharadu, asískrar stúlku, en faðir hennar seldi hana níu ára gamla fyrir upphæð sem samsvarar um 1000 krónum. Farið var með hana úr þorpi hennar til ókunnugrar borgar og hún neydd til að bjóða sex mönnum á dag blíðu sína.

Hvers vegna er slíkar þjáningar að finna í miklum mæli? Hvers vegna bindur skaparinn ekki enda á þær? Vegna slíkra þjáninga snúa margir baki við Guði. Móðir lögreglumannsins fyrrverandi, sem vitnað er í hér að ofan, varð fyrir barðinu á geðsjúklingi. Hann lýsir viðbrögðum sínum þannig: „Ég hafði aldrei verið jafnlangt frá því að ímynda mér alvaldan, kærleiksríkan Guð sem stýrir alheiminum.“ Veltir þú fyrir þér hvers vegna slíkir atburðir gerast? Já, hvers vegna er allt þetta böl til? Hver er orsök þess og stendur skaparanum á sama um það?

Þjást menn vegna fyrra lífs?

Víða um heim eru milljónir þeirrar trúar að menn þjáist vegna síns fyrra lífs, að núverandi böl sé refsing fyrir það sem menn gerðu í fyrra lífi. „Böl mannsins er afleiðing þess að við erum bundin í karma, af því að við berum öll, jafnskjótt og við fæðumst, þunga byrði liðins karma.“ * Heimspekingurinn Daisetz T. Suzuki setti fram þessa skoðun en hann gerði zenbúddhatrú vinsæla á Vesturlöndum. Hindúaspekingar hugsuðu á sínum tíma upp „karmalögmálið“ þegar þeir þreifuðu fyrir sér eftir skýringu á þjáningu mannsins. Er útskýring þeirra á þjáningunni skynsamleg eða fullnægjandi?

Kona, sem var búddhatrúar, sagði: „Mér fannst engin skynsemi í því að þurfa að þjást fyrir eitthvað sem ég var fædd með en vissi ekkert um. Ég varð að taka því sem örlögum mínum.“ Henni reyndist þessi útskýring á þjáningunni ófullnægjandi. Sama kann að gilda um þig. Kenningin um endurfæðingu er ef til vill ekki útbreidd á heimaslóðum þínum en hún byggir á hugmynd sem er ríkjandi í öllum hinum kristna heimi og annars staðar — hugmyndinni um að í manninum búi ódauðleg sál sem lifir af líkamsdauðann. Þessi „sál“ er sögð verða fyrir þjáningunum, annaðhvort í þessu lífi eða framhaldslífi.

Slíkar hugmyndir eiga miklu fylgi að fagna en hvað sannar gildi þeirra? Er ekki viturlegt í mikilvægum málum sem þessu að láta leiðast af því sem skaparinn segir? Þótt menn séu innilega sannfærðir í sinni trú og hugmyndum getur þeim skjátlast en við höfum séð að fullyrðingar Guðs eru áreiðanlegar.

Eins og sjá má af kaflanum hér á undan leiddi synd fyrstu mannhjónanna til þess sem er síðasti harmleikurinn í lífi hvers manns, dauðans. Skaparinn veitti Adam þessa viðvörun: „Jafnskjótt og þú [óhlýðnast, eða syndgar] skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:17; 3:19) Guð sagði ekkert um að Adam hefði ódauðlega sál. Adam var maður. Á máli Biblíunnar þýddi það að hann væri sál. Þegar hann dó þá dó þess vegna sálin sem hét Adam. Eftir það hafði hann enga meðvitund og leið engar þjáningar.

Kenningarnar um karma, hringrás endurfæðinga eða ódauðlega sál sem á kannski eftir að þjást á seinni tilvistarstigum eru ekki komnar frá skaparanum og hann samþykkir þær ekki heldur. En við getum betur skilið hvers vegna menn þjást sem raun ber vitni nú á dögum ef við gerum okkur grein fyrir þeim áhrifum sem synd Adams hefur haft.

Hver er orsök þjáningarinnar?

Erfitt er að greina orsök þjáningar mannsins í heild sinni en rétt hjálpartæki getur komið að góðu gagni. Sjónauki hjálpar okkur að sjá betur fjarlæga hluti en Biblían gerir okkur kleift að greina orsök þjáningarinnar.

Fyrst er að nefna að Biblían vekur athygli okkar á því að „tími og tilviljun“ mætir öllum mönnum. (Prédikarinn 9:11) Jesús vísaði eitt sinn í fréttnæman atburð á hans dögum — átján menn fórust þegar turn féll yfir þá. Hann tók skýrt fram að fórnarlömb slyssins hafi ekki verið verri syndarar en aðrir menn. (Lúkas 13:1-5) Þeir liðu fyrir það að vera á röngum stað á röngum tíma. En Biblían lætur ekki þar við sitja heldur kemur með upplýsingar sem útskýra á fullnægjandi hátt hver sé frumorsök þjáningarinnar. Hvaða upplýsingar eru það?

Eftir að fyrstu mennirnir höfðu syndgað kvað hinn mikli dómari, Jehóva, upp þann úrskurð að þeir hefðu fyrirgert öllum rétti sínum til áframhaldandi lífs. Adam og Eva dóu ekki bókstaflega alveg strax en árin, sem þau áttu eftir ólifuð, kostuðu þau ýmsar þjáningar sem voru í raun sjálfskaparvíti. Hrörnun og sjúkdómar tóku að segja til sín, brauðstritið varð daglegt hlutskipti þeirra og sorgmædd horfðu þau upp á afbrýði og ofbeldi sundra fjölskyldunni. (1. Mósebók 3:16-19; 4:1-12) Mikilvægt er að hafa hugfast hjá hverjum sökin á allri þessari þjáningu hvíldi fyrst og fremst. Þeim hjónum var sjálfum um að kenna. En hvers vegna hafa þjáningar haldið áfram allt fram á þennan dag?

Þótt margir kynnu að andmæla því að vera taldir syndarar kemur Biblían beint að kjarna málsins þegar hún segir: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ (Rómverjabréfið 5:12) Fyrstu mannhjónin fengu að finna fyrir afleiðingum skaðlegrar breytni sinnar en áhrifin náðu líka til afkomenda þeirra. (Galatabréfið 6:7) Niðjar þeirra fengu ófullkomleikann í arf sem leiðir þá til dauða. Þetta er ef til vill skiljanlegra þegar höfð er í huga sú vísindalega staðreynd að enn erfa börn gjarnan sjúkdóma eða galla frá foreldrum sínum. Dreyrasýki, dvergkornablóðleysi, kransæðasjúkdómar, ein tegund sykursýki og jafnvel brjóstakrabbi eru dæmi um arfgenga sjúkdóma. Þótt börnunum sé ekki sjálfum um að kenna geta þau liðið fyrir það sem þau hafa fengið í vöggugjöf.

Adam og Eva, sem við höfum erft genin okkar frá, kusu að setja sig upp á móti aðferð Jehóva við að ríkja yfir mönnum. * Mannkynssagan sýnir að menn hafa reynt alls konar stjórnarhætti í viðleitni sinni til að stýra samfélagi manna. Sumum sem tóku þátt í þessari viðleitni gekk gott eitt til, jafnt körlum sem konum. Hver hefur samt árangurinn orðið? Er búið að lina flestar þjáningar mannsins? Varla getum við sagt það. Þvert á móti hafa margar stjórnmálastefnur og styrjaldir aukið á vandann. Fyrir um það bil 3000 árum skrifaði vitur stjórnandi: „Einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ — Prédikarinn 8:9.

Sýnist þér staða mála allt önnur nú á dögum, kannski betri? Flestir myndu svara því neitandi. Fjöldi karla, kvenna og barna þjáist ekki einungis vegna meðfæddrar syndar og galla heldur vegna þess sem þau eða aðrir hafa gert. Leiddu hugann að óstjórn manna og illri meðferð á jörðinni sem oft er til komin vegna ágirndar. Menn eru sekir um að valda mengun, skapa fátækt og stuðla að hungri og farsóttum. Jafnvel sumar náttúruhamfarir, sem margir eigna „æðri máttarvöldum,“ má rekja til athafna mannsins. En mönnum sést oft yfir aðra meginorsök þjáninganna hér á jörð.

Persónan að baki bölinu

Ein af bókum Biblíunnar er sérstaklega opinská um grundvallarástæðu þjáninganna og hvers vegna umhyggjusamur skapari hefur leyft þær. Þessi bók, Jobsbók, getur gefið okkur skýra mynd af því hvers vegna maðurinn þjáist. Hún gerir það með því að veita okkur innsýn í ósýnilega heima þar sem mjög þýðingarmiklir atburðir áttu sér stað.

Fyrir um það bil 3500 árum, skömmu áður en Móse skrifaði fyrstu bók Biblíunnar, bjó maðurinn Job þar sem nú heitir Arabía. Í frásögunni kemur fram að Job var heiðarlegur, góðviljaður og naut mikillar virðingar. Hann var mjög auðugur að búfé og var jafnvel sagður „meiri öllum austurbyggjum.“ Job átti hamingjusama fjölskyldu — konu, sjö syni og þrjár dætur. (Jobsbók 1:1-3; 29:7-9, 12-16) Dag einn kom sendiboði í ofboði til Jobs og sagði frá því að ræningjaflokkur hefði haft á brott með sér stóran hluta af verðmætum nautpeningi hans. Brátt kom annar og tilkynnti að sauðahjarðir Jobs hefðu farist. Því næst tóku Kaldear 3000 úlfalda hans og drápu alla hjarðsveinana nema einn. Að lokum komu verstu fréttirnar. Óvenjulegur vindur skall á húsi frumgetins sonar Jobs, lagði það í rúst og varð öllum börnum hans, sem þar voru saman komin, að fjörtjóni. Skyldu slíkar harmafregnir hafa fengið Job til að álasa Guði? Hvernig hefðir þú brugðist við í hans sporum? — Jobsbók 1:13-19.

Ógæfu Jobs var samt ekki þar með lokið. Hræðilegur sjúkdómur lagðist á hann og frá hvirfli til ilja varð hann þakinn illkynjuðum kaunum. * Job varð svo veikur og ógeðslegur að konan hans kenndi Guði um: „Formæltu Guði og farðu að deyja!“ sagði hún. Job vissi ekki hvers vegna hann þurfti að þola þessar þjáningar en samt vildi hann ekki saka Guð um að vera valdur að þeim. Við lesum: „Í öllu þessu syndgaði Job ekki með vörum sínum.“ — Jobsbók 2:6-10.

Þrír kunningjar Jobs fréttu af raunum hans og komu til hans. „Hvar hefur hinum réttvísu verið tortímt?“ spurði Elífas sem gekk út frá því að Job hlyti að hafa gert eitthvað illt. (Jobsbók 4. og 5. kafli) Hann sakaði Job um leyndar syndir, jafnvel um að hafa synjað þurfandi fólki brauðs og undirokað ekkjur og munaðarleysingja. (Jobsbók 15. og 22. kafli) Hinir tveir ávítuðu Job líka eins og þjáningar hans væru sjálfskaparvíti. Þeir voru ekki þeir huggarar sem þeir þóttust vera. En höfðu þeir rétt fyrir sér? Alls ekki.

Jobsbók auðveldar okkur að koma auga á frumorsök þjáninga Jobs og sjá hvers vegna Guð leyfði þær. Fyrsti og annar kafli Jobsbókar opinbera það sem nýlega hafði átt sér stað á hinum ósýnilega himni, á hinu andlega tilverusviði. Uppreisnargjarn andi, nefndur Satan, * kom ásamt öðrum öndum fram fyrir Guð. Þegar ámælislaust líferni Jobs kom til tals sagði Satan ögrandi: „Ætli Job óttist Guð fyrir ekki neitt? . . . En rétt þú út hönd þína og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið.“ — Jobsbók 1:9-12.

Satan ákærði með öðrum orðum Guð um að múta Job. Þessi ögrandi andavera fullyrti að Job myndi formæla Jehóva ef hann væri sviptur auði sínum og heilsu. Í víðara samhengi var Satan að halda því fram að enginn maður myndi í raunum og þjáningum sýna Guði kærleika og trúfesti. Þessi ögrun hafði víðtæk og varanleg áhrif. Þetta mál, sem Satan gerði að ágreiningsefni, þurfti að útkljá. Guð gaf Satan þess vegna frjálsar hendur til að reyna Job og það var Satan sem leiddi umræddar þjáningar yfir Job.

Job vissi auðvitað ekki og gat ekki vitað um hið umfangsmikla deilumál sem komið var upp á himni. Satan stóð líka þannig að málum að svo virtist sem Guð væri valdur að allri ógæfu Jobs. Þegar til dæmis eldingum sló niður í sauðahjörð Jobs dró hjarðsveinninn, sem lifði ósköpin af, þá ályktun að það hefði verið „eldur Guðs.“ Þó að Job hafi ekki vitað hvers vegna þetta gerðist formælti hann hvorki Jehóva Guði né hafnaði honum. — Jobsbók 1:16, 19, 21.

Ef við skoðum ítarlega hvað það var sem leiddi til þessarar lífsreynslu Jobs sjáum við að málið snýst um eftirfarandi spurningu: Munu menn þjóna Jehóva af kærleika þó að þeir lendi í raunum? Job lagði sitt af mörkum til að svara þeirri spurningu. Aðeins ósvikinn kærleikur til Guðs gæti fengið mann til að varðveita trúfesti sína við Jehóva eins og Job gerði. Hvílíkur vitnisburður um að ákærur Satans væru ósannar! Mál Jobs var hins vegar hvorki upphafið né endirinn á þessum ágreiningi. Deilan hefur staðið í aldir og stendur enn. Við eigum þar líka hlut að máli.

Hvernig bregðast margir við þegar þeir sjá þjáningar eða verða fyrir þeim sjálfir, hver sem ástæðan er? Þeir þekkja kannski ekki til deilunnar á dögum Jobs eða trúa jafnvel ekki á tilvist Satans. Þar af leiðandi efast þeir oft um að til sé skapari eða þeir kenna honum um þjáningarnar. Hvað finnst þér um þetta? Getur þú ekki verið sammála biblíuritaranum Jakob í ljósi þess sem þú veist um skaparann? Þrátt fyrir þjáningar gat Jakob sagt með sannfæringu: „Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: ‚Guð freistar mín.‘ Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.“ — Jakobsbréfið 1:13.

Það sem getur hjálpað okkur hvað mest að sjá þjáningar manna í réttu ljósi er að skoða vandlega orð og athafnir Jesú. Við vitum að Jesús er mikils metinn fyrir innsæi, þekkingu og kennsluhæfileika. Hver var afstaða hans til Satans og þjáninga? Jesús var viss um að Satan djöfullinn er til og getur þar að auki valdið þjáningum. Satan, sem reynt hafði að brjóta trúfesti Jobs á bak aftur, reyndi sjáanlega að gera það sama við Jesú. Það sannar að Satan er raunverulegur en sýnir líka að hann heldur áfram með sömu ásakanirnar og hann bar fram á dögum Jobs. Jesús sýndi eins og Job að hann var trúfastur skaparanum jafnvel þótt það kostaði hann auðæfi og völd, ylli honum líkamlegum þjáningum og leiddi til dauða hans á kvalastaur. Það sem kom fyrir Jesú ber vitni þess að Guð leyfði enn mönnum að sýna að þeir gætu verið honum trúfastir þrátt fyrir erfiðleika. — Lúkas 4:1-13; 8:27-34; 11:14-22; Jóhannes 19:1-30.

Guð lætur tímann ekki líða að ástæðulausu

Til að skilja hvers vegna þjáningar eiga sér stað verðum við að gera okkur ljóst að slys, óstjórn manna og ill meðferð á jörðinni, syndugar tilhneigingar manna og Satan djöfullinn valda þjáningum. En ekki nægir að vita hvað sé að baki bölinu. Þegar eitthvað kvelur menn er þeim gjarnan eins innanbrjósts og spámanninum Habakkuk til forna er hann sagði: „Hversu lengi hefi ég kallað, [Jehóva], og þú heyrir ekki! Hversu lengi hefi ég hrópað til þín: ‚Ofríki!‘ og þú hjálpar ekki! Hví lætur þú mig sjá rangindi, hví horfir þú upp á rangsleitni? Eyðing og ofríki standa fyrir augum mér. Af því koma þrætur, og deilur rísa upp.“ (Habakkuk 1:2, 3) Já, af hverju heldur Jehóva áfram að ‚horfa upp á rangsleitni‘ án þess að því er virðist að gera nokkuð í málinu? Sem hinn alvaldi býr hann yfir þeim mætti og kærleika til réttlætisins sem þarf til að binda enda á þjáningar. Hvenær ætlar hann þá að gera það?

Eins og áður var minnst á var skaparinn, þá er fyrstu mannhjónin kusu algert sjálfræði, viss um að sumir afkomenda þeirra tækju aðra stefnu. Í visku sinni lét Jehóva tímann líða. Til hvers? Til þess að sýna fram á að stjórn, sem ekki tekur mið af skaparanum, leiði einungis til óhamingju en það sé á hinn bóginn rétt og heillavænlegt að samlaga sig vilja skaparans.

Á meðan tíminn hefur liðið hefur Guð séð um að jörðin væri tiltölulega þægilegur bústaður. Páll postuli skrifaði: „Hann hefur um liðnar aldir leyft, að sérhver þjóð gengi sína vegu. En þó hefur hann vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið yður regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt yður fæðu og fyllt hjörtu yðar gleði.“ (Postulasagan 14:16, 17) Augljóst er að skaparinn leiðir ekki þjáningar yfir menn en hann hefur leyft þær til þess að útkljá afskaplega þýðingarmikið deilumál.

Hvenær linnir þjáningunum?

Þjáningarnar í heiminum fara vaxandi og það bendir í raun til þess að tíminn til að binda enda á þær sé nálægur. Hvers vegna er hægt að segja það? Biblían opinberar það sem gerðist á hinu ósýnilega sviði á dögum Jobs og hún gerir það líka í tengslum við okkar tíma. Síðasta bók hennar, Opinberunarbókin, segir frá stríði sem átti sér stað á himni. Hvaða afleiðingar hafði það? Satan „var varpað niður á jörðina“ ásamt djöflasveitum sínum. „Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið,“ segir þar áfram. „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ — Opinberunarbókin 12:7-12.

Ítarleg athugun á spádómum Biblíunnar bendir til þess að þessi atburður hafi átt sér stað á tuttugustu öldinni. Þér er kannski kunnugt um að virtir sagnfræðingar viðurkenna að alger straumhvörf hafi átt sér stað í mannkynssögunni árið 1914 þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út. * Upp frá því hafa þjáningar og hörmungar færst í aukana. Jesús vísaði til þessa sama tímabils þegar nánir lærisveinar hans spurðu hann um „tákn komu [hans] og endaloka veraldar.“ Jesús sagði: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum, en ógnir og tákn mikil á himni.“ (Matteus 24:3-14; Lúkas 21:5-19) Þessi orð, sem vita á miklar þjáningar, uppfyllast núna í algerum mæli í fyrsta sinn í sögunni.

Biblían lýsir þessum atburðum sem undanfara ‚mikillar þrengingar, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða‘ aftur. (Matteus 24:21) Með henni grípur Guð ótvírætt inn í málefni mannanna. Hann lætur til sín taka til að binda enda á hina illu „veröld“ sem um aldir hefur valdið mönnum þjáningum. Þetta þýðir samt ekki ‚heimsendi‘ í mynd kjarnorkubáls sem gjöreyðir mannkyninu. Orð Guðs fullvissar okkur um að fjöldi fólks lifi þetta af. „Mikill múgur . . . af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum“ kemur lifandi út úr þessari miklu þrengingu. — Opinberunarbókin 7:9-15.

Til að fá heildarmyndina skulum við líta á það sem Biblían segir að á eftir komi. Paradísargarðurinn, sem ætlunin var í upphafi að yrði heimili mannkynsins, verður skapaður á ný. (Lúkas 23:43) Enginn verður heimilislaus. Jesaja skrifaði: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. . . . því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna. Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er [Jehóva] hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim. . . . Úlfur og lamb munu vera saman á beit, og ljónið mun hey eta sem naut . . . Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra — segir [Jehóva].“ — Jesaja 65:21-25.

Hvað um þjáningar einstakra manna? Styrjaldir verða þá engar og ekki heldur ofbeldisverk eða glæpir. (Sálmur 46:9, 10; Orðskviðirnir 2:22; Jesaja 2:4) Skapari og lífgjafi mannsins hjálpar þá hlýðnum mönnum að ná fullri heilsu og halda henni. (Jesaja 25:8; 33:24) Hungur þekkist ekki lengur vegna þess að uppskeran verður kappnóg þegar vistkerfi jarðarinnar kemst í gott lag. (Sálmur 72:16) Já, það sem veldur þjáningum núna heyrir þá sögunni til. — Jesaja 14:7.

Er hægt að hugsa sér betri fréttir en þessar? Þó kann einhverjum að finnast að enn sé eftir tvennt sem skyggir á gleðina. Ánægja manns af þessum blessunum yrði takmörkuð ef maður þyrfti að deyja aðeins 70 til 80 ára gamall. Yrði maður ekki líka leiður vegna vina og vandamanna sem létust áður en skaparinn hafði bundið enda á þjáningar manna? Hvernig verða þau vandkvæði leyst?

Mesta kvölin að engu gerð

Skaparinn er með lausnina. Hann gerði alheiminn og mennina. Hann getur gert það sem menn ráða ekki við eða það sem menn eru rétt að byrja að gera sér ljóst að sé mögulegt. Skoðum aðeins tvö dæmi um það.

Við höfum innbyggðan möguleika til að lifa endalaust.

Biblían segir umbúðalaust að Guð gefi okkur kost á eilífu lífi. (Jóhannes 3:16; 17:3) Dr. Michael Fossel greindi frá því, eftir að hafa rannsakað genin í frumum mannsins, að kynfrumum karla hraki ekki með aldrinum. „Ef genin, sem þegar búa í okkur, ná að koma upplýsingunum rétt til skila geta þau viðhaldið frumunum í okkur án þess að ellihrörnun komi til.“ Þetta er í samræmi við það sem við sáum í 4. kafla að mannsheilinn búi yfir hæfni sem menn ná ekki að nota nema í örlitlum mæli á venjulegri mannsævi. Heilinn virðist gerður til að starfa endalaust. Þetta eru að sjálfsögðu aðeins aukaatriði sem styðja það sem Biblían segir beint út — að Jehóva muni gera okkur kleift að lifa þjáningalausu lífi að eilífu. Taktu efir því sem hann lofar í síðustu bók Biblíunnar: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ — Opinberunarbókin 21:4.

Skaparinn er fær um að hjálpa þeim sem þjáðist og dó. Hann getur gefið honum lífið aftur, reist hann upp frá dauðum.

Lasarus var einn þeirra sem reistur var upp frá dauðum. (Jóhannes 11:17-45; sjá blaðsíðu 158-160.) Donald MacKay prófessor hefur lýst þessu með samanburði við tölvuskrá. Hann sagði að þótt tölva eyðileggist þýði það ekki endilega að stærðfræðijafna eða hugbúnaður, sem í henni er, glatist. Setja má sömu jöfnu eða hugbúnað inn í nýja tölvu og keyra þar „ef stærðfræðingurinn óskar þess.“ Prófessorinn heldur áfram: „Heilarannsóknir, sem ganga út frá vélhyggju, virðast leiða í ljós að jafnlítið sé að athuga við þá von um eilíft líf sem sett er fram í [Biblíunni], von er einkennist af áherslunni sem lögð er á ‚upprisuna.‘“ Deyi maður getur skaparinn vakið hann til lífsins aftur eins og hann gerði við Jesús og eins og Jesús gerði við Lasarus. Niðurstaða MacKays var sú að dauði manns væri engin hindrun fyrir því að hann fengi aftur líf í nýjum líkama „ef skaparinn óskaði þess.“

Já, hin endanlega lausn er í hendi skaparans. Hann einn getur losað menn til fulls við þjáningar, gert að engu áhrif syndarinnar og afmáð dauðann. Jesús Kristur sagði lærisveinum sínum frá einstakri framvindu mála sem ekki er enn farin af stað. Hann sagði: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram.“ — Jóhannes 5:28, 29.

Hugsa sér! Alvaldur alheimsins er reiðubúinn og fær um að endurreisa til lífs þá sem eru í gröfunum. Hann man eftir þeim. Þeir fá tækifæri til að sanna sig verðuga þess að höndla „hið sanna líf.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:19; Postulasagan 24:15.

En skyldi til þess ætlast að við gerum eitthvað núna á meðan við bíðum eftir að þjáningin hverfi fyrir fullt og allt úr mannheimi? Sé til þess ætlast skyldi það þá gera líf okkar tilgangsríkara jafnvel núna strax? Lítum nánar á það í næsta kafla.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Karma er sögð vera „áhrif gerða manns í fortíðinni á framtíð hans eða endurholdganir.“

^ gr. 19 Í 1. Mósebók 2:17 eru sett fram fyrirmæli Guðs til Adams um að hann megi ekki eta af skilningstrénu góðs og ills. Biblíuþýðingin The New Jerusalem Bible (1985) kemur með athugasemd neðanmáls um hvaða „skilning“ sé hér átt við: „Hann er valdið til að ákveða sjálfur hvað sé gott og hvað sé illt og breyta samkvæmt því, krafan um algert sjálfstæði í siðferðilegum efnum þar sem maðurinn jafnframt neitar að viðurkenna stöðu sína sem sköpuð vera, sjá Jes[aja] 5:20. Fyrsta syndin var árás á alræðisvald Guðs.“

^ gr. 24 Önnur biblíuvers bæta við upplýsingum sem gefa okkur gleggri mynd af þjáningum Jobs. Hold hans var þakið möðkum, skorpur mynduðust á húðinni og hann varð viðbjóðslega andfúll. Sársaukinn nísti Job og hörundið varð svart og flagnaði af. — Jobsbók 7:5; 19:17; 30:17, 30.

^ gr. 26 Í kaflanum „Hvað getur bók kennt okkur um skaparann?“ hér að framan tókum við til umfjöllunar þátt Satans djöfulsins í synd Adams og Evu.

^ gr. 38 Fjallað er um þessa spádóma í 11. kafla bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Rammi á blaðsíðu 168]

Engin ódauðleg sál

Samkvæmt orðum Biblíunnar er sérhver maður sál. Sálin deyr þegar maðurinn deyr. Esekíel 18:4 segir: „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ Dánir menn eru ekki með meðvitund eða lifandi nokkurs staðar. Salómon skrifaði: „Hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5, 10) Hvorki Gyðingar né frumkristnir menn kenndu í upphafi að sálin væri ódauðleg.

„Sálin í G[amla] t[estamentinu] merkir ekki hluta af manninum heldur allan manninn — manninn sem lifandi veru. Í N[ýja] t[estamentinu] táknar hún á samsvarandi hátt líf mannsins . . . Biblían talar ekki um áframhaldandi líf óefniskenndrar sálar.“ — New Catholic Encyclopedia.

„Hugmyndin um ódauðleika sálarinnar og trú á upprisu dauðra . . . eru tvær hugmyndir af gerólíkum toga.“ — Dopo la morte: immortalità o resurrezione? eftir guðfræðinginn Philippe H. Menoud.

„Af því að maðurinn er í heild sinni syndari deyr hann alveg á líkama og sál (algerum dauða) þegar kallið kemur . . . Milli dauða og upprisu er bil.“ — Lúterska spurningakverið Evangelischer Erwachsenenkatechismus.

[Rammi á blaðsíðu 175]

Hefur það tekið svo langan tíma?

Tíminn frá dögum Jobs til Jesú kann að virðast langur tími fyrir þjáninguna að halda áfram, ein 1600 ár. Mönnum þætti 100 ár langur tími til að bíða eftir að þjáningum linnti. En við verðum að gera okkur ljóst að megindeilumálið, sem Satan setti fram, varpaði neikvæðu ljósi á skaparann. Frá sjónarhóli Guðs hafa þjáningar og illska fengið að eiga sér stað upp frá því í stuttan tíma. Hann er ‚konungur eilífðar‘ og í hans augum eru ‚þúsund ár sem dagurinn í gær þegar hann er liðinn.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:17; Sálmur 90:4) Fyrir menn, sem veitt verður eilíft líf, mun þessi kafli sögunnar, þá er þjáning var til, sýnast líka ósköp stuttur.

[Rammi á blaðsíðu 178]

Straumhvörf í mannkynssögunni

„Er við skyggnumst til baka ofan af sjónarhóli nútímans sjáum við greinilega að þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á hófust ‚örðugleikatímar‘ tuttugustu aldarinnar, (‚Times of Troubles‘), svo notað sé lýsandi orðalag breska sagnfræðingsins Arnolds Toynbee, og enn hefur menning okkar engan veginn komið sér út úr þeim.“ — The Fall of the Dynasties eftir Edmond Taylor.

„Sannast sagna er það árið 1914, frekar en Hírósíma, sem markar straumhvörfin á okkar tímum af því að núna sjáum við að . . . það var með fyrri heimsstyrjöldinni sem ruglingslegar umbreytingar hófust sem við erum enn að kljást við.“ — Dr. René Albrecht-Carrié, Barnard College í New York.

„Árið 1914 glataði heimurinn samhengi sem honum hefur síðan ekki tekist að endurheimta. . . . Þetta hefur verið tími einstakrar óreiðu og ofbeldis, bæði innan landamæra og þvert yfir þau.“ — The Economist.

[Rammi á blaðsíðu 181]

Er upprisa möguleg?

Taugasérfræðingurinn Richard M. Restak hefur sagt um mannsheilann og taugungana þar: „Allt sem við erum og allt sem við höfum gert gæti sá lesið sem fær væri um að ráða í merkingu tenginganna og rafrásanna sem myndast hafa milli þeirra 50 milljarða taugafrumna sem í okkur eru.“ Ef svo er gæti þá ekki kærleiksríkur skapari, með allar þær upplýsingar sem hann býr yfir, endurskapað látinn mann?

[Rammagrein á blaðsíðu 182]

Taugamót þín eru talin

Jesús sagði: „Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin.“ (Matteus 10:29-31) Hvað um gráu frumurnar inni í höfðinu? Heilafrumur (kallaðar taugungar) eru svo litlar að þær sjást aðeins í öflugri smásjá. Ímyndaðu þér að reyna að telja ekki aðeins taugungana heldur líka tengingarnar á milli þeirra (taugamótin) sem eru enn smærri og geta verið allt að 250.000 talsins hjá sumum taugungum.

Dr. Peter Huttenlocher var frumherji í því að telja tengingar milli taugunga. Hann beitti hinni öflugu rafeindasmásjá til verksins og notaði efni sem fékkst við krufningu á látnum fóstrum, ungbörnum og gamalmennum. Sýnishornin voru hvert eitt á stærð við títuprjónshaus og það kom á óvart að fjöldi taugunga í hverju og einu þeirra reyndist gróflega sá sami, eða um 70.000.

Dr. Huttenlocher tók síðan til við að telja tengingarnar milli heilafrumnanna í slíkum örsmáum sýnishornum. Fósturtaugungarnir voru með um 124 milljónir tenginga, nýfædd börn voru með 253 milljónir og átta mánaða börn með 572 milljónir tenginga. Hann komst að því að með auknum aldri barnsins eftir það fór þessi tala smám saman lækkandi.

Þessar niðurstöður eru áhugaverðar í ljósi þess sem Biblían segir um upprisuna. (Jóhannes 5:28, 29) Allur heili fullvaxta manns er með um það bil eitt þúsund billjónir tenginga milli taugunga, það er talan 1 með 15 núllum fyrir aftan. Er skaparinn fær um að telja ekki aðeins þessar tengingar heldur koma þeim líka aftur á?

Samkvæmt The World Book Encyclopedia eru stjörnurnar í alheiminum 200 trilljónir, eða 2 með 20 núllum á eftir. Skaparinn þekkir allar þessar stjörnur með nafni. (Jesaja 40:26) Það er því vel á hans færi að muna eftir og endurbyggja taugatengingarnar sem mynda minningar og tilfinningar þeirra manna sem hann kýs að reisa upp frá dauðum.

[Mynd á blaðsíðu 166]

Margir trúa á karmahringrásina, frá vöggu til grafar.

[Mynd á blaðsíðu 171]

Alexej, sonur Nikulásar II Rússakeisara og Alexöndru, tók dreyrasýki í arf. Við höfum tekið ófullkomleikann í arf frá forföður okkar, Adam.

[Myndir á blaðsíðu 179]

Á sama tíma og skaparinn hefur leyft þjáningar hefur hann gefið mönnum margt til yndisauka.