9. KAFLI
Fjölskyldur einstæðra foreldra
1-3. Hvað veldur því að einstæðum foreldrum fer fjölgandi og hvaða áhrif hefur þetta?
FJÖLSKYLDUR einstæðra foreldra eru sagðar vera sú fjölskyldugerð sem er í örustum vexti í Bandaríkjunum. Sömu sögu er að segja víða annars staðar. Skilnaðir hafa aldrei verið fleiri, sífellt fleiri feður eða mæður yfirgefa fjölskylduna og aldrei hafa fæðst jafn mörg börn utan hjónabands. Milljónir foreldra og barna finna fyrir afleiðingunum.
2 „Ég er 28 ára ekkja með tvö börn,“ skrifaði einstæð móðir. „Ég er mjög niðurdregin því að ég vil ekki að börnin mín alist upp föðurlaus. Mér finnst eins og öllum sé sama um mig. Börnin sjá mig oft gráta og það hefur áhrif á þau.“ Auk þess að glíma við tilfinningar á borð við reiði, samviskubit og einmanaleika þurfa flestir einstæðir foreldrar bæði að vinna úti og annast heimilið. Einstætt foreldri sagði: „Þetta er eins og að reyna að halda boltum á lofti. Eftir sex mánaða æfingu ræður maður loksins við fjóra bolta í einu. En um leið og maður er búinn að ná tökum á því kastar einhver að manni nýjum bolta.“
3 Börn einstæðra foreldra eiga líka oft við ýmsa erfiðleika að glíma. Þau geta þurft að takast á við mjög sárar tilfinningar eftir skyndilegt brotthvarf eða dauða annars foreldrisins. Það virðist hafa mjög slæm áhrif á marga unglinga ef annað foreldrið er ekki á heimilinu.
4. Hvernig vitum við að Jehóva er annt um fjölskyldur einstæðra foreldra?
4 Fjölskyldur einstæðra foreldra voru til á biblíutímanum. Í Biblíunni er ítrekað minnst á „föðurlausa“ og „ekkjur“. (Sálmur 146:9; 2. Mósebók 22:22; 5. Mósebók 24:19-21; Jobsbók 31:16-22) Jehóva Guði stóð ekki á sama um bágindi þeirra. Sálmaritarinn sagði að Guð væri „faðir föðurlausra, vörður ekknanna“. (Sálmur 68:6) Jehóva ber auðvitað sömu umhyggju fyrir einstæðum foreldrum og börnum þeirra núna. Í orði hans er að finna meginreglur sem geta hjálpað þeim að eiga farsælt fjölskyldulíf.
AÐ ANNAST HEIMILIÐ
5. Hvaða vandamál blasa við einstæðum foreldrum fyrst í stað?
5 Tökum heimilisreksturinn sem dæmi. „Oft koma upp aðstæður þar sem ég vildi óska þess að ég hefði karlmann á heimilinu,“ viðurkennir fráskilin kona, „eins og þegar óvenjuleg hljóð heyrast í bílnum og ég veit ekki hvaðan þau koma.“ Karlmönnum, sem hafa nýlega misst eiginkonuna eða gengið í gegnum hjónaskilnað, fallast oft hendur þegar þeir átta sig á því hve heimilisstörfin eru margslungin. Og sé heimilið í reiðileysi eru meiri líkur á að börnin verði ráðvillt og finni til öryggisleysis.
6, 7. (a) Hvaða fordæmi gaf væna konan sem talað er um í Orðskviðunum? (b) Af hverju er mikilvægt að einstæðir foreldrar sinni heimilisverkunum samviskusamlega?
6 Hvað getur hjálpað einstæðum foreldrum? Taktu eftir fordæmi vænu konunnar sem talað er um í Orðskviðunum 31:10-31. Hún hafði mörg járn í eldinum — hún keypti, seldi, saumaði, eldaði, fjárfesti í landareign, sinnti búskap og stundaði heimilisiðnað. Hvernig fór hún að þessu? Hún var iðin, byrjaði daginn snemma og var að langt fram eftir. Hún var líka vel skipulögð, fól öðrum ýmis verkefni en annaðist önnur sjálf. Það er ekki að furða að hún skyldi fá hrós.
7 Einstæðir foreldrar ættu að sinna heimilisstörfunum samviskusamlega af því að það stuðlar að vellíðan barnanna. Lærðu að hafa ánægju af þessum störfum. En góð skipulagning er líka nauðsynleg. Biblían segir: „Fyrirætlanir iðjumannsins reynast fésamar vel.“ (Orðskviðirnir 21:5) Einstæður faðir viðurkennir: „Mér hættir til þess að hugsa ekki um matargerð fyrr en ég er orðinn svangur.“ En skipulagðar máltíðir eru oft mun næringarríkari og meira aðlaðandi en matur sem hafður er til í skyndi. Þú gætir líka þurft að læra að sinna nýjum verkefnum. Það má læra ýmislegt með því að lesa handbækur og leita ráða hjá hjálpsömum fagmönnum eða vinum. Sumar einstæðar mæður hafa til dæmis lært að mála, sinna einföldum bílaviðgerðum eða skipta um pakkningar í krana.
8. Hvernig geta börn einstæðra foreldra hjálpað til á heimilinu?
8 Er sanngjarnt að biðja börnin að hjálpa til? Einstæð móðir sagði: „Maður vill bæta börnunum það upp að hafa bara annað foreldrið með því að ætlast ekki til of mikils af þeim.“ Það er kannski eðlilegt að hugsa þannig en það er ekki víst að það sé börnunum fyrir bestu. Guðhrædd börn á biblíutímanum voru látin vinna viðeigandi heimilisstörf. (1. Mósebók 37:2; Ljóðaljóðin 1:6.) Þótt þú þurfir að gæta þess að hlaða ekki of miklu á börnin er viturlegt að gefa þeim verkefni eins og að vaska upp og taka til í herberginu sínu. Af hverju ekki að sinna sumum heimilisstörfum í sameiningu? Það getur verið mjög skemmtilegt.
AÐ SJÁ FJÖLSKYLDUNNI FARBORÐA
9. Af hverju eiga einstæðar mæður oft við fjárhagserfiðleika að glíma?
9 Flestum einstæðum foreldrum finnst erfitt að láta enda ná saman og ungar ógiftar mæður eiga oft sérstaklega erfitt með það. * Í löndum þar sem boðið er upp á félagslega aðstoð gæti verið skynsamlegt að þiggja hana, að minnsta kosti þar til maður hefur fundið vinnu. Biblían heimilar kristnu fólki að nýta sér slíka aðstoð þegar þess þarf. (Rómverjabréfið 13:1, 6) Ekkjur og fráskildar mæður glíma líka við svipuð vandamál. Margar þeirra þurfa að fara aftur út á vinnumarkaðinn eftir að hafa verið heimavinnandi í mörg ár og fá því aðeins láglaunastörf. Sumar geta bætt kjör sín með því að endurmennta sig eða fara á stutt námskeið.
10. Hvernig getur einstæð móðir útskýrt fyrir börnunum af hverju hún verði að vinna úti?
10 Þú mátt búast við því að börnin verði ekki ánægð þegar þú ferð út á vinnumarkaðinn en þú þarft ekki að hafa samviskubit. Reyndu frekar að útskýra fyrir þeim af hverju þú verðir að vinna úti og bentu þeim á að Jehóva ætlist til þess að þú sjáir fyrir þeim. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Flest börn laga sig að breyttum aðstæðum með tímanum. Reyndu samt að verja eins miklum tíma með þeim og þú mögulega getur þótt þú sért mjög upptekin. Slík athygli og umhyggja getur líka dregið úr áhrifunum af kröppum fjárhag fjölskyldunnar. — Orðskviðirnir 15:16, 17.
HVER ANNAST HVERN?
11, 12. Hvaða mörk verða einstæðir foreldrar að virða og hvernig geta þeir gert það?
11 Það er eðlilegt að einstæðir foreldrar séu sérstaklega nánir börnunum sínum. Þeir þurfa hins vegar að gæta þess að fara ekki yfir hin eðlilegu mörk sem Guð setti milli foreldra og barna. Til dæmis getur það valdið alvarlegum vandræðum ef einstæð móðir ætlast til þess að sonur hennar axli þá ábyrgð að vera húsbóndinn á heimilinu eða ef hún lítur á dóttur sína sem trúnaðarvin og íþyngir henni með persónulegum vandamálum. Slíkt er óviðeigandi og það getur ruglað barnið í ríminu og valdið því streitu.
12 Fullvissaðu börnin um að þar sem þú sért foreldrið munir þú annast þau en ekki öfugt. (Samanber 2. Korintubréf 12:14.) Stundum geturðu þurft á ráðum eða stuðningi að halda. Leitaðu þá til safnaðaröldunga eða ef til vill þroskaðra kristinna kvenna en ekki til barna þinna. — Títusarbréfið 2:3.
AÐ HALDA UPPI AGA
13. Hvers vegna getur verið erfitt fyrir einstæða móður að beita aga?
13 Það getur verið auðveldara fyrir karlmann en konu að láta taka sig alvarlega þegar beita þarf aga. Einstæð móðir segir: „Synir mínir eru orðnir fullvaxta og komnir með karlmannsraddir. Stundum er erfitt að virka ekki hikandi eða veikburða í samanburði við þá.“ Auk þess gætirðu enn verið að syrgja ástkæran maka eða verið með samviskubit eða fundið til reiði vegna hjónaskilnaðar. Ef þið hafið sameiginlegt forræði óttast þú kannski að barnið kjósi frekar að búa hjá fyrrverandi maka þínum. Það getur verið erfitt að beita viðeigandi aga við slíkar aðstæður.
14. Hvernig geta einstæðir foreldrar haldið uppi viðeigandi aga?
14 „Agalaus sveinn gjörir móður sinni skömm,“ segir Biblían. (Orðskviðirnir 29:15) Það er Jehóva þóknanlegt að þú setjir heimilisreglur og sjáir til þess að þeim sé fylgt. Þú þarft því ekki að vera hikandi, hafa samviskubit eða fyllast sektarkennd. (Orðskviðirnir 1:8) Hvikaðu aldrei frá meginreglum Biblíunnar. (Orðskviðirnir 13:24) Reyndu að sýna sanngirni, stefnufestu og ákveðni. Með tímanum hefur það oftast jákvæð áhrif á börnin. En taktu samt tillit til tilfinninga þeirra. Einstæður faðir segir: „Ég varð að milda agann sem ég veitti börnunum af því að það var mikið áfall fyrir þau að missa móður sína. Ég tala við þau hvenær sem færi gefst. Við eigum notalegar stundir saman þegar við eldum matinn. Þá segja þau mér allt sem þeim liggur á hjarta.“
15. Hvað ættu fráskildir foreldrar að forðast þegar þeir tala um fyrrverandi maka sinn?
15 Þeir sem eru fráskildir ávinna ekkert með því að gera lítið úr fyrrverandi maka sínum. Það er sársaukafullt fyrir börnin að hlusta á foreldrana rífast og það grefur að lokum undan virðingu þeirra fyrir ykkur báðum. Forðastu því særandi athugasemdir eins og: „Þú er alveg eins og pabbi þinn.“ Þótt fyrrverandi maki þinn hafi sært þig er hann enn foreldri barnanna og þau þurfa að fá ást, athygli og aga frá ykkur báðum. *
16. Hvernig ættu einstæðir foreldrar að haga trúaruppeldi barnanna?
16 Eins og fram hefur komið í fyrri köflum er agi fólginn í uppeldi og kennslu en ekki aðeins refsingu. Hægt er að forðast mörg vandamál með því að veita börnunum gott trúaruppeldi. (Filippíbréfið 3:16) Regluleg samkomusókn er nauðsynleg. (Hebreabréfið 10:24, 25) Það er líka nauðsynlegt að fjölskyldan taki sér tíma vikulega til biblíunáms. Það er vissulega ekki auðvelt að halda slíku námi gangandi að staðaldri. „Þegar ég kem heim úr vinnunni langar mig helst til að hvíla mig,“ segir samviskusöm móðir. „En ég undirbý mig í huganum til að kenna dóttur minni því ég veit að ég þarf að gera það. Hún hefur mjög gaman af fjölskyldunáminu okkar.“
17. Hvað getum við lært af góðu uppeldi Tímóteusar?
17 Tímóteus, félagi Páls postula, fékk biblíukennslu hjá móður sinni og ömmu en ekki föður sínum. Samt sem áður varð hann framúrskarandi þjónn Guðs. (Postulasagan 16:1, 2; 2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:14, 15) Þú mátt líka búast við góðum árangri ef þú elur börnin þín upp „með aga og umvöndun Drottins“. — Efesusbréfið 6:4.
BARÁTTAN VIÐ EINMANALEIKA
18, 19. (a) Hvaða áhrif getur einmanaleiki haft á einstæða foreldra? (b) Hvaða ráð fáum við til að hafa stjórn á holdlegum löngunum?
18 Einstæð móðir segir í mæðutón: „Einmanaleikinn hellist yfir mig þegar ég kem heim, sérstaklega eftir að börnin eru komin í háttinn.“ Já, einmanaleiki er oft eitt stærsta vandamál einstæðra foreldra. Það er eðlilegt að þrá þann innilega félagsskap sem hjónabandið veitir. En ætti einstætt foreldri að reyna að leysa þetta vandamál, hvað sem það kostar? Páll postuli minntist á ungar ekkjur sem urðu ‚gjálífar og afræktu Krist‘. (1. Tímóteusarbréf 5:11, 12) Það væri mjög skaðlegt að láta andlegu gildin víkja fyrir holdlegum löngunum. — 1. Tímóteusarbréf 5:6.
19 Kristinn karlmaður sagði: „Kynhvötin getur verið mjög sterk en maður getur stjórnað henni. Ef einhver hugsun skýtur upp kollinum má maður ekki leyfa henni að festa rætur. Maður verður að ýta henni úr huganum. Það getur líka hjálpað að hugsa um hag barnanna.“ Orð Guðs ráðleggur: „Deyðið því hið jarðneska í fari yðar: . . . losta.“ (Kólossubréfið 3:5) Segjum að þú værir að reyna að minnka matarlystina. Myndirðu þá lesa blöð sem sýndu myndir af girnilegum mat eða umgangast fólk sem talaði ekki um annað en mat? Sennilega ekki. Hið sama á við um holdlegar langanir.
20. (a) Hvaða hætta er samfara því að leita sér að maka utan safnaðarins? (b) Hvernig hefur einhleypt fólk nú á dögum og á fyrstu öldinni tekist á við einmanaleika?
20 Sumir kristnir menn hafa gripið til þess ráðs að leita sér að maka utan safnaðarins. (1. Korintubréf 7:39) Leysti það vandann? Nei. Fráskilin kristin kona sagði: „Það er eitt sem er verra en að vera einhleyp — að vera gift röngum manni.“ Ekkjur á fyrstu öldinni voru örugglega einmana af og til en þær sem voru skynsamar héldu sér uppteknum við að ‚sýna gestrisni, þvo fætur heilagra, hjálpa bágstöddum og leggja stund á hvert gott verk‘. (1. Tímóteusarbréf 5:10) Trúfastir þjónar Guðs nú á dögum, sem hafa beðið árum saman eftir að eignast guðhræddan maka, hafa líka haldið sér uppteknum. Sextíu og átta ára kristin ekkja fór að heimsækja aðrar ekkjur þegar hún varð einmana. Hún sagði: „Ég hef komist að raun um að ég hef ekki tíma til að vera einmana ef ég fer í þessar heimsóknir og sinni heimilisverkunum og trúnni.“ Það er sérstaklega gagnlegt að vera upptekinn af því að fræða aðra um Guðsríki. — Matteus 28:19, 20.
21. Hvernig geta bænir og góðir vinir hjálpað í baráttunni við einmanaleika?
21 Að vísu er ekki að finna neina töfralausn í glímunni við einmanaleika. En það er hægt að fá styrk frá Jehóva til að umbera einmanakenndina. Kristnir menn fá slíkan styrk þegar þeir eru stöðugir „í ákalli og bænum nótt og dag“. (1. Tímóteusarbréf 5:5) Með ákalli er átt við það að sárbæna Guð um hjálp, jafnvel með sárum kveinstöfum og táraföllum. (Samanber Hebreabréfið 5:7.) Það er mikil hjálp í því að úthella hjarta sínu fyrir Jehóva „nótt og dag“. Og góðir vinir geta átt drjúgan þátt í því að fylla tómarúmið. Þeir geta hughreyst mann með ‚vingjarnlegum orðum‘ eins og nefnt er í Orðskviðunum 12:25.
22. Hvað getur hjálpað okkur þegar einmanakenndin gerir vart við sig af og til?
22 Líklegt er þó að einmanakenndin geri vart við sig af og til. Þá er gott að minna sig á það að allir eiga við einhverja erfiðleika að glíma. Sannleikurinn er sá að ‚bræður okkar um allan heim‘ þjást á einn eða annan hátt. (1. Pétursbréf 5:9) Reyndu að hugsa ekki of mikið um það sem liðið er. (Prédikarinn 7:10) Minntu sjálfan þig á hið góða sem þú hefur. Umfram allt skaltu vera staðráðinn í að vera ráðvönd manneskja og gleðja hjarta Jehóva. — Orðskviðirnir 27:11.
HVERNIG GETA AÐRIR HJÁLPAÐ?
23. Hvaða skyldur hafa kristnir menn gagnvart einstæðum foreldrum í söfnuðinum?
23 Hjálp og stuðningur trúsystkina er ómetanlegur. Í Jakobsbréfinu 1:27 segir: „Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður er þetta, að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra.“ Já, kristnum mönnum er skylt að aðstoða fjölskyldur einstæðra foreldra. Hvernig er hægt að gera það?
24. Hvernig væri hægt að aðstoða einstæða foreldra?
24 Hægt er að veita fjárhagslega aðstoð. Biblían segir: „Ef sá, sem hefur heimsins gæði, horfir á bróður sinn vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir honum, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum?“ (1. Jóhannesarbréf 3:17) Gríska frummálsorðið, sem er þýtt „horfir á“, merkir ekki aðeins að líta snöggvast á eitthvað heldur stara á það af ásettu ráði. Af þessu má ráða að hugulsamur safnaðarmaður gæti byrjað á því að kynna sér aðstæður og þarfir fjölskyldunnar. Ef til vill er hún peningaþurfi eða það þarf að dytta að einhverju á heimilinu. Og sumir myndu þiggja með þökkum að vera boðið í mat eða fá að eiga ánægjulega stund í góðra vina hópi.
25. Hvernig geta aðrir í söfnuðinum sýnt einstæðum foreldrum hluttekningu og samhug ?
25 Í 1. Pétursbréfi 3:8 segir: „Verið allir samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir, miskunnsamir.“ Einstæð, sex barna móðir sagði: „Þetta hefur verið erfitt og ég verð niðurdregin af og til. En stundum segir bróðir eða systir við mig: ‚Joan, þú stendur þig vel. Þú mátt vera viss um að þetta er erfiðisins virði.‘ Það er mér mikil hjálp að vita að aðrir hugsa til mín og þeim er annt um mig.“ Eldri konur í söfnuðinum geta veitt verðmæta hjálp þegar ungar, einstæðar mæður eiga í hlut. Þær geta ljáð þeim eyra þegar þær þurfa að segja frá vandamálum sem þeim finnst ef til vill óþægilegt að ræða við karlmann.
26. Hvernig geta þroskaðir kristnir karlmenn hjálpað föðurlausum börnum?
26 Karlmenn í söfnuðinum geta aðstoðað á annan hátt. Hinn réttláti Job sagði: „Ég bjargaði . . . munaðarleysingjum, sem enga aðstoð áttu.“ (Jobsbók 29:12) Kristnir karlmenn geta sömuleiðis sýnt föðurlausum börnum heilbrigðan áhuga og ‚kærleik af hreinu hjarta‘ án þess að nokkuð annað búi að baki. (1. Tímóteusarbréf 1:5) Þeir gætu boðið slíkum börnum með sér í boðunarstarfið af og til og boðið þeim að vera með í biblíunámi eða afþreyingu fjölskyldunnar án þess þó að vanrækja eigin fjölskyldu. Slík umhyggja gæti komið í veg fyrir að föðurlaust barn fari út af réttri braut.
27. Hverju mega einstæðir foreldrar treysta?
27 Einstæðir foreldrar þurfa auðvitað að axla þá ábyrgð sem þeim er lögð á herðar. (Galatabréfið 6:5) Engu að síður njóta þeir ástar trúsystkina sinna og kærleika Jehóva Guðs. „Hann annast ekkjur og föðurlausa,“ segir Biblían. (Sálmur 146:9) Með hjálp hans og stuðningi geta fjölskyldur einstæðra foreldra notið hamingju og farsældar.
^ gr. 9 Kristni söfnuðurinn leggur ekki blessun sína yfir hegðun kristinnar stúlku sem verður ólétt vegna siðleysis. En ef hún iðrast geta safnaðaröldungar og aðrir í söfnuðinum boðið fram hjálp sína.
^ gr. 15 Hér er ekki verið að tala um aðstæður þar sem börn gætu þurft vernd gegn ofbeldishneigðu foreldri. Og ef fyrrverandi maki þinn reynir að grafa undan virðingu fyrir þér, kannski til að telja börnin á að flytja til sín, gæti verið gott að tala við reynda vini eins og öldunga í söfnuðinum og leita ráða um heppileg viðbrögð.