Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leyndardómur trésins mikla

Leyndardómur trésins mikla

Sjötti kafli

Leyndardómur trésins mikla

1. Hvernig fór fyrir Nebúkadnesar konungi og hvaða spurningar vekur það?

 JEHÓVA leyfði Nebúkadnesar konungi Babýlonar að verða heimsstjórnandi. Hann var vellauðugur, átti mikilfenglega höll og borðaði dýrindismat — hann hafði allt sem hugurinn girntist. En skyndilega var hann auðmýktur. Hann brjálaðist og tók að hegða sér eins og dýr. Hann var rekinn frá konungsborði og úr höllinni, hafðist við með dýrum merkurinnar og át gras eins og naut. Af hverju varð hann fyrir þessari ógæfu og af hverju skiptir það okkur máli? — Samanber Jobsbók 12:17-19; Prédikarann 6:1, 2.

KONUNGUR MIKLAR HINN HÆSTA

2, 3. Hvers óskaði konungur Babýlonar þegnum sínum og hvernig leit hann á hinn hæsta Guð?

2 Skömmu eftir að Nebúkadnesar nær sér af geðveikinni sendir hann út athyglisverða tilkynningu um allt ríkið þar sem hann skýrir frá því hvað gerst hafi. Jehóva innblés spámanninum Daníel að varðveita nákvæma frásögu þessara atburða. Hún hefst með orðunum: „Nebúkadnesar konungur sendir kveðju sína öllum mönnum, sem á jörðinni búa, hverrar þjóðar, hvaða lands og hverrar tungu sem eru: ‚Gangi yður allt til gæfu! Mér hefir þóknast að kunngjöra þau tákn og furðuverk, sem hinn hæsti Guð hefir gjört við mig. Hversu mikil eru tákn hans og hversu máttug eru furðuverk hans! Ríki hans er eilíft ríki og máttarveldi hans varir frá kyni til kyns.‘“ — Daníel 4:1-3.

3 Þegnar Nebúkadnesars voru ‚allir menn sem á jörðinni búa‘ því heimsveldi hans náði yfir stærstan hluta þess heims sem biblíusagan fjallar um. Konungur segir um Guð Daníels: „Ríki hans er eilíft ríki.“ Þessi orð mikluðu Jehóva út um gervallt babýlonska heimsveldið. Og þetta er í annað sinn sem Nebúkadnesar hefur verið sýnt að einungis ríki Guðs ‚standi að eilífu.‘ — Daníel 2:44.

4. Hvernig hófust „tákn og furðuverk“ Jehóva í sambandi við Nebúkadnesar?

4 Hvaða „tákn og furðuverk“ gerði „hinn hæsti Guð“? Þau hófust með persónulegri reynslu konungs eins og hann segir sjálfur frá: „Ég, Nebúkadnesar, lifði áhyggjulaus í húsi mínu og átti góða daga í höll minni. Þá dreymdi mig draum, sem gjörði mig óttasleginn, og hugsanirnar í rekkju minni og sýnirnar, sem fyrir mig bar, skelfdu mig.“ (Daníel 4:4, 5) Hvað gerði hann í sambandi við þennan uggvekjandi draum?

5. Hvernig leit Nebúkadnesar á Daníel og hvers vegna?

5 Konungur kallaði vitringa Babýlonar á sinn fund og sagði þeim drauminn. En þeir gátu ekki ráðið hann svo fátt varð um skýringar. Síðan segir konungur: „Loks kom Daníel til mín, sem kallaður er Beltsasar eftir nafni guðs míns. Í honum býr andi hinna heilögu guða, og ég sagði honum drauminn.“ (Daníel 4:6-8) Daníel var kallaður Beltsasar við hirðina, og falsguðinn, sem konungur kallar ‚guð sinn,‘ var líklega annaðhvort Bel, Nebó eða Mardúk. Nebúkadnesar var fjölgyðistrúar og áleit að „andi hinna heilögu guða“ byggi í Daníel. Og þar eð Daníel hafði verið settur yfir alla vitringa Babýlonar kallaði konungur hann ‚æðsta forstjóra spásagnamannanna.‘ (Daníel 2:48; 4:9; samanber Daníel 1:20.) En Daníel var trúfastur og hætti auðvitað aldrei að tilbiðja Jehóva til að stunda spásagnir og galdra. — 3. Mósebók 19:26; 5. Mósebók 18:10-12.

GEYSIHÁTT TRÉ

6, 7. Lýstu því sem Nebúkadnesar sá í draumi sínum.

6 Hvernig var draumurinn sem skelfdi konung Babýlonar? „Sýnir þær, er fyrir mig bar í rekkju minni, voru þessar,“ segir Nebúkadnesar. „Ég horfði, og sjá, tré nokkurt stóð á jörðinni, og var það geysihátt. Tréð var mikið og sterkt, og svo hátt að upp tók til himins, og mátti sjá það alla vega frá endimörkum jarðarinnar. Limar þess voru fagrar og ávöxturinn mikill, og fæðsla handa öllum var á því. Skógardýrin lágu í forsælu undir því, fuglar himinsins bjuggu á greinum þess, og allar skepnur nærðust af því.“ (Daníel 4:10-12) Sagt er að Nebúkadnesar hafi haldið mikið upp á hin stóru sedrustré í Líbanon. Hann hafi jafnvel farið þangað til að sjá þau og flutt einhver þeirra til Babýlonar til smíða. En aldrei hafði hann séð neitt í líkingu við tréð sem hann dreymdi. Það „stóð á jörðinni“ miðsvæðis og sást um heim allan, og var svo frjósamt að allar skepnur gátu nærst af því.

7 Margt fleira bar fyrir í draumnum því Nebúkadnesar heldur áfram: „Ég horfði á í sýnum þeim, sem fyrir mig bar í rekkju minni, og sá heilagan vörð stíga niður af himni. Hann kallaði hárri röddu og mælti svo: ‚Höggvið upp tréð, sníðið af greinarnar, slítið af því limarnar og dreifið ávöxtunum víðs vegar, svo að dýrin flýi burt undan því og fuglarnir af greinum þess. Samt skuluð þér láta stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni, bundinn járn- og eirfjötrum, í grænu graslendi. Hann skal vökna af dögg himinsins og taka hlut með dýrunum í grösum jarðarinnar.‘“ — Daníel 4:13-15.

8. Hver var ‚vörðurinn‘?

8 Babýloníumenn höfðu sínar eigin trúarhugmyndir um góðar og illar andaverur. En hver var þessi ‚vörður‘ af himni? Hann er sagður ‚heilagur‘ svo að þetta hefur verið réttlátur engill sem var fulltrúi Guðs. (Samanber Sálm 103:20, 21.) Þú getur rétt ímyndað þér spurningarnar sem hljóta að hafa sótt á Nebúkadnesar. Af hverju átti að höggva upp tréð? Hvaða gagn var í stofninum bundnum járn- og eirfjötrum svo að hann gæti ekki vaxið? Hvaða tilgangi gat stubburinn einn þjónað?

9. Hvað sagði vörðurinn efnislega og hvaða spurningum er varpað fram?

9 Nebúkadnesar hefur varla skilið upp né niður í draumnum þegar hann heyrði vörðinn halda áfram: „Hjarta hans skal umbreytast, svo að í honum skal ekki mannshjarta vera, heldur skal honum dýrshjarta fengið verða, og sjö tíðir skulu yfir hann líða. Skipunin hvílir á ályktun varðanna, og þetta eru fyrirmæli hinna heilögu, til þess að hinir lifandi viðurkenni, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og gefur hann hverjum sem hann vill, og að hann getur upphafið hinn lítilmótlegasta meðal mannanna til konungdóms.“ (Daníel 4:16, 17) Trjástofn hefur ekki mannshjarta. Og hvernig var hægt að gefa trjástofni dýrshjarta, ef út í það var farið? Hverjar voru þessar „sjö tíðir“? Og hvernig tengdist þetta „konungdómi mannanna“? Nebúkadnesar brann í skinninu að vita svörin.

ÓTÍÐINDI FYRIR KONUNG

10. (a) Hvað geta tré táknað í Biblíunni? (b) Hvað táknaði hið mikla tré?

10 Daníel var agndofa um stund eftir að hann heyrði drauminn en síðan skelfdur. En konungur hvatti spámanninn til að skýra drauminn svo að hann sagði: „Ég vildi óska, herra, að draumurinn rættist á óvinum þínum og þýðing hans á mótstöðumönnum þínum. Tréð, sem þú sást og bæði var mikið og sterkt . . . , það ert þú, konungur, sem ert orðinn mikill og voldugur og mikilleiki þinn vaxinn svo mjög, að hann nær til himins og veldi þitt til endimarka jarðar.“ (Daníel 4:18-22) Í Ritningunni eru tré stundum notuð til tákns um menn, valdhafa og ríki. (Sálmur 1:3; Jeremía 17:7, 8; Esekíel, 31. kafli) Líkt og hið geysiháa tré í draumnum var Nebúkadnesar „orðinn mikill og voldugur“ sem höfuð heils heimsveldis. En tréð táknaði ‚veldi til endimarka jarðar,‘ það er að segja allt ríki mannanna. Það táknar því alheimsdrottinvald Jehóva, einkum gagnvart jörðinni. — Daníel 4:17.

11. Hvernig sýndi draumur konungs að hann yrði niðurlægður?

11 Niðurlægjandi umskipti biðu Nebúkadnesars. Daníel benti á það og hélt áfram: „Þar er konungurinn sá heilagan vörð stíga niður af himni og segja: ‚Höggvið upp tréð og eyðileggið það, en látið samt stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni, bundinn járn- og eirfjötrum, í grænu graslendi, hann skal vökna af dögg himinsins og taka hlut með dýrum merkurinnar, uns sjö tíðir eru yfir hann liðnar,‘ —  þá er þýðingin þessi, konungur, og ráðstöfun Hins hæsta er það, sem komið er fram við minn herra, konunginn.“ (Daníel 4:23, 24) Það kostaði töluvert hugrekki að flytja hinum volduga konungi þessi boð.

12. Hvað átti að koma fyrir Nebúkadnesar?

12 Hvað átti að koma fyrir Nebúkadnesar? Þú getur ímyndað þér viðbrögð hans þegar Daníel bætti við: „Þú munt út rekinn verða úr mannafélagi og eiga byggð með dýrum merkurinnar. Þér mun gefið verða gras að eta eins og uxum, og þú munt vökna af dögg himinsins, og sjö tíðir munu yfir þig líða, uns þú viðurkennir, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill.“ (Daníel 4:25) Ljóst er að jafnvel embættismenn Nebúkadnesars myndu ‚reka hann úr mannafélagi.‘ En áttu þá hjarðmenn að aumkast yfir hann og annast hann? Nei, því að Guð hafði ákveðið að Nebúkadnesar skyldi búa með „dýrum merkurinnar“ og nærast á gróðri jarðar.

13. Hvað átti að verða um stöðu Nebúkadnesars sem heimsstjórnanda, samanber tréð í draumnum?

13 Líkt og tréð var höggvið upp yrði Nebúkadnesar settur af sem heimsstjórnandi — en aðeins um tíma. Daníel sagði: „En þar er sagt var, að stofn trésins með rótum sínum skyldi eftir verða, það merkir, að þú skalt halda ríki þínu, er þú kannast við, að allt valdið er á himnum.“ (Daníel 4:26) Í draumnum var stofn eða stubbur trésins skilinn eftir en bundinn svo að hann yxi ekki. „Stofn“ Babelkonungs yrði skilinn eftir en fengi ekki að dafna í „sjö tíðir.“ Staða hans sem heimsstjórnanda yrði eins og fjötraði trjástubburinn; hún yrði óhult uns sjö tíðir væru liðnar. Jehóva myndi sjá til þess að enginn einn tæki við stjórnartaumunum í Babýlon af Nebúkadnesar á þeim tíma, þótt Evíl Meródak sonur hans kunni að hafa farið með völd fyrir hans hönd á meðan.

14. Hvað hvatti Daníel Nebúkadnesar til að gera?

14 Í ljósi þess sem koma átti fyrir Nebúkadnesar samkvæmt spádóminum hvatti Daníel hann hugrakkur: „Lát þér því, konungur, geðjast ráð mitt: Losa þig af syndum þínum með réttlætisverkum og af misgjörðum þínum með líknsemi við aumingja, ef vera mætti, að hamingja þín yrði við það langærri.“ (Daníel 4:27) Ef Nebúkadnesar léti af syndsamlegri kúgunarstefnu sinni og drambi myndi það kannski breyta stöðu hans. Um tveim öldum áður hafði Jehóva ákveðið að eyða íbúum Níníve, höfuðborgar Assýríu, en hætti við af því að konungurinn og þegnarnir iðruðust. (Jónas 3:4, 10; Lúkas 11:32) Hvað um hinn drambsama Nebúkadnesar? Myndi hann breyta um stefnu?

FYRRI UPPFYLLING DRAUMSINS

15. (a) Hvaða hugarfar sýndi Nebúkadnesar áfram? (b) Hvað má ráða af áletrunum um framkvæmdir Nebúkadnesars?

15 Nebúkadnesar lét ekki af drambi sínu. Tólf mánuðum eftir að hann dreymdi drauminn var hann á gangi á hallarþakinu og gortaði þá: „Er þetta ekki sú hin mikla Babýlon, sem ég hefi reist að konungssetri með veldisstyrk mínum og tign minni til frægðar?“ (Daníel 4:28-30) Nimrod hafði grundvallað Babýlon (Babel) en Nebúkadnesar gerði hana glæsilega. (1. Mósebók 10:8-10) Hann gortar í fleygrúnaáletrun: „Nebúkadnesar, konungur Babýlonar, sem endurbyggði Esagílu og Esídu, sonur Nabópólassars er ég. . . . Víggirðingar Esagílu og Babýlonar styrkti ég og skapaði stjórnartíð minni eilíft nafn.“ (George A. Barton. 1949. Archaeology and the Bible, bls. 478-9) Önnur áletrun nefnir um 20 musteri sem hann endurnýjaði eða endurbyggði. Alfræðibókin The World Book Encyclopedia segir: „Undir stjórn Nebúkadnesars varð Babýlon ein mikilfenglegasta borg fornaldar. Í skrám sínum minnist hann örsjaldan á herferðir sínar en fjallar mikið um byggingaframkvæmdir og gaumgæfni við guði Babýloníu. Sennilega gerði Nebúkadnesar hengigarða Babýlonar, eitt af sjö undrum veraldar að fornu.“

16. Hvernig yrði Nebúkadnesar niðurlægður?

16 En niðurlæging hins hreykna konungs var á næstu grösum. Hin innblásna frásaga segir: „Áður en þessi orð voru liðin af vörum konungs, kom raust af himni: ‚Þér gjörist hér með vitanlegt, Nebúkadnesar konungur, að konungdómurinn er vikinn frá þér. Þú munt út rekinn verða úr mannafélagi og eiga byggð með dýrum merkurinnar. Þér mun gefið verða gras að eta eins og uxum, og sjö tíðir munu yfir þig líða, uns þú viðurkennir, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill.‘“ — Daníel 4:31, 32.

17. Hvernig fór fyrir hinum stolta Nebúkadnesar og hvert varð hlutskipti hans?

17 Nebúkadnesar gekk af vitinu þegar í stað. Hann var rekinn úr mannlegu samfélagi og át gróður ‚eins og uxi.‘ Og vissulega var þetta engin paradísarvist þar sem hann gat setið iðjulaus í grasinu innan um dýr merkurinnar og látið ljúfan blæ leika um vanga sér. Í Írak, þar sem rústir Babýlonar liggja, sveiflast hitinn frá 50 gráðum yfir sumarmánuðina niður fyrir frostmark að vetri. Nebúkadnesar var berskjaldaður fyrir náttúruöflunum og án þjónustuliðs þannig að sítt og flókið hárið líktist arnarfjöðrum, og óklipptar neglurnar á tám og fingrum líktust fuglaklóm. (Daníel 4:33) Hvílík auðmýking fyrir þennan stolta heimsstjórnanda!

18. Hvernig var stjórninni yfir Babýlon háttað í þessar sjö tíðir?

18 Í draumi Nebúkadnesars var tréð mikla fellt og stofninn fjötraður til að hann yxi ekki í sjö tíðir. Eins var Nebúkadnesar „hrundið úr konungshásætinu“ þegar Jehóva sló hann vitfirringu. (Daníel 5:20) Segja má að þetta hafi breytt hjarta konungs úr mannshjarta í nautshjarta. En Guð hélt hásæti hans handa honum uns hinum sjö tíðum lauk. Þótt Evíl Meródak hafi hugsanlega farið fyrir stjórninni um tíma var Daníel ‚höfðingi yfir öllu Babel-héraði og æðsti forstjóri yfir öllum vitringum í Babýlon.‘ Félagar hans þrír af hópi Hebrea héldu áfram stjórnsýslustörfum í héraðinu. (Daníel 1:11-19; 2:48, 49; 3:30) Útlagarnir fjórir biðu þess að Nebúkadnesar endurheimti hásæti sitt heill á geðsmunum og hefði þá lært að „Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill.“

VIÐREISN NEBÚKADNESARS

19. Hvað viðurkenndi konungur Babýlonar eftir að Jehóva veitti honum vitið á ný?

19 Jehóva veitti Nebúkadnesar vitið á ný eftir að tíðunum sjö var lokið. Þá viðurkenndi konungur hinn hæsta Guð og sagði: „Ég, Nebúkadnesar, hóf að liðnum þessum tíma augu mín til himins, og fékk ég þá vit mitt aftur. Og ég lofaði Hinn hæsta og vegsamaði og tignaði þann, sem lifir eilíflega, því að veldi hans er eilíft veldi, og ríki hans varir frá kyni til kyns. Allir þeir, sem á jörðinni búa, eru sem ekkert hjá honum, og hann fer með himnanna her og byggjendur jarðarinnar eins og hann sjálfur vill, og enginn er sá, er fái honum tálmun gjört og við hann sagt: ‚Hvað gjörir þú?‘“ (Daníel 4:34, 35) Nebúkadnesar áttaði sig á því að hinn hæsti er í alvöru einvaldur yfir ríki mannanna.

20, 21. (a) Hvernig á losun málmfjötranna af trjástofninum sér hliðstæðu í Nebúkadnesar? (b) Hvað viðurkenndi Nebúkadnesar og gerðist hann tilbiðjandi Jehóva eftir það?

20 Þegar Nebúkadnesar endurheimti hásætið var eins og málmfjötrarnir væru losaðir af trjástofninum. Hann sagði um viðreisn sína: „Samstundis fékk ég vit mitt aftur, og til heiðurs fyrir ríki mitt komst ég aftur til tignar og vegsemdar. Ráðgjafar mínir og stórmenni leituðu mín, og ég var aftur skipaður yfir ríki mitt, og mér var gefið enn meira veldi en áður.“ (Daníel 4:36) Hafi einhverjir embættismenn fyrirlitið hinn geðbilaða konung „leituðu“ þeir hans nú í algerri undirgefni.

21 Hinn hæsti Guð hafði unnið mikil „tákn og furðuverk.“ Orð konungs Babýlonar koma ekki á óvart: „Nú vegsama ég, Nebúkadnesar, göfga og tigna konung himnanna, því að allar gjörðir hans eru sannleikur, vegir hans réttlæti og hann megnar að lægja þá, sem fram ganga í dramblæti.“ (Daníel 4:2, 37) En þótt Nebúkadnesar viðurkenndi þetta gerðist hann ekki tilbiðjandi Jehóva.

ERU VÍSBENDINGAR Í VERALDLEGUM HEIMILDUM?

22. Við hvaða sjúkdóm hafa sumir viljað kenna geðveiki Nebúkadnesars en hvað ættum við að hafa hugfast í sambandi við orsök hennar?

22 Sumir telja geðveiki Nebúkadnesars hafa verið svonefnda vargvilluröskun. Læknisfræðibók segir: „VARGVILLURÖSKUN . . . Sjúkdómurinn lýsir sér þannig að fólk heldur sig hafa breyst í dýr og líkir eftir hljóðum eða öskrum, útliti eða háttum þess dýrs. Oftast halda menn sig hafa breyst í úlf, hund eða kött, en stundum í naut eins og Nebúkadnesar.“ (Dictionnaire des sciences médicales, par une société de médicins et de chirurgiens, París, 1818, 29. bindi, bls. 246) Lýsingin á geðveiki Nebúkadnesars er ekki ósvipuð vargvilluröskun. En það var samkvæmt tilskipun Guðs sem hann missti vitið svo að það er ekki hægt með neinni vissu að benda á ákveðinn sjúkdóm.

23. Hvernig vitna veraldlegar heimildir um brjálsemi Nebúkadnesars?

23 Fræðimaðurinn John E. Goldingay vitnar í nokkrar hliðstæðar sagnir af geðveiki og viðreisn Nebúkadnesars. Hann segir til dæmis: „Slitróttur fleygrúnatexti virðist vísa til einhverrar geðtruflunar hjá Nebúkadnesar, og ef til vill að hann hafi vanrækt Babýlon og yfirgefið hana.“ Goldingay vitnar í heimild sem kallast „Hin babýlonska Jobsbók“ og segir að hún „vitni um hirtingu af hendi Guðs, sjúkdóm, auðmýkingu og leit að ráðningu á skelfilegum draumi. Hún talar um að falla eins og tré, vera útilokaður, éta gras, tapa skynseminni og vera eins og naut. Hún segir að Mardúk hafi látið rigna á hann, neglurnar hafi skemmst og hárið vaxið. Hún minnist á fjötra og síðan viðreisn sem hann lofar guðinn fyrir.“

SJÖ TÍÐIR SEM SNERTA OKKUR

24. (a) Hvað táknar tréð mikla í draumi Nebúkadnesars? (b) Hverju var haldið í skefjum í sjö tíðir og hvernig gerðist það?

24 Bæði tréð og Nebúkadnesar tákna heimsyfirráð. En munum að tréð táknar miklu æðri yfirráð og drottinvald en konungur Babýlonar fór með. Það táknar alheimsdrottinvald Jehóva, ‚konungs himnanna,‘ einkum gagnvart jörðinni. Ríkið, þar sem Jerúsalem var höfuðborg og Davíð og arftakar hans sátu í ‚hásæti Jehóva,‘ táknaði drottinvald hans gagnvart jörðinni uns Babýloníumenn eyddu borgina. (1. Kroníkubók 29:23) Guð lét höggva upp þetta drottinvald og fjötra það árið 607 f.o.t. þegar hann notaði Nebúkadnesar til að eyða Jerúsalem. Drottinvaldi Guðs gagnvart jörðinni með ríki í ætt Davíðs var haldið í skefjum í sjö tíðir. Hve langar voru þessar sjö tíðir, hvenær hófust þær og hvaða atburðir mörkuðu lok þeirra?

25, 26. (a) Hve langar voru hinar „sjö tíðir“ hjá Nebúkadnesar og af hverju segirðu það? (b) Hvenær og hvernig hófust hinar „sjö tíðir“ í aðaluppfyllingunni?

25 Meðan Nebúkadnesar var geðveikur „óx hár hans sem arnarfjaðrir og neglur hans sem fuglaklær.“ (Daníel 4:33) Það tók meira en sjö daga eða sjö vikur. Biblíuþýðingar tala ýmist um „sjö tíðir,“ „ákveðnar tíðir“ eða „tímabil.“ (Daníel 4:16, 23, 25, 32) Í forngrískri þýðingu (Sjötíumannaþýðingunni) stendur „sjö ár.“ Jósefus, sagnaritari Gyðinga á fyrstu öld, talar um ‚tíðirnar sjö‘ sem „sjö ár.“ (Antiquities of the Jews, 10. bók, 10. kafli, 6. grein) Og sumir hebreskufræðingar hafa talið þessar „tíðir“ vera „ár.“ Biblíuþýðingarnar An American Translation, Today’s English Version og þýðing James Moffatts tala um „sjö ár.“

26 Ljóst er að hinar „sjö tíðir“ Nebúkadnesars voru sjö ár. Í spádómum er árið að jafnaði reiknað 360 dagar og skiptist í tólf 30 daga mánuði. (Samanber Opinberunarbókina 12:6, 14.) Hinar „sjö tíðir“ eða ár konungsins voru 7 sinnum 360 dagar eða 2520 dagar. En hvað um aðaluppfyllingu draumsins? Hinar spádómlegu „sjö tíðir“ voru miklu meira en 2520 daga langar. Það má sjá af orðum Jesú: „Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.“ (Lúkas 21:24) Þessi ‚troðningur‘ hófst árið 607 f.o.t. þegar Jerúsalem var eytt og táknrænt ríki Guðs hætti að starfa í Júda. Hvenær átti ‚troðningurinn‘ að taka enda? Við ‚endurreisn allra hluta‘ þegar drottinvald Guðs birtist aftur gagnvart jörðinni fyrir atbeina táknrænnar Jerúsalem, það er að segja Guðsríkis. — Postulasagan 3:21.

27. Hvernig geturðu rökstutt að ‚tíðirnar sjö,‘ sem hófust árið 607 f.o.t., hafi ekki tekið enda 2520 bókstaflegum dögum síðar?

27 Ef við teljum 2520 bókstaflega daga frá eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t. lendum við á árinu 600 f.o.t. sem hefur enga þýðingu í biblíusögunni. Drottinvald Jehóva birtist ekki einu sinni gagnvart jörðinni árið 537 f.o.t. þegar hinir frelsuðu Gyðingar voru komnir aftur til Júda. Serúbabel, sem var erfingi að hásæti Davíðs, var ekki gerður að konungi heldur einungis að landstjóra í Júda sem taldist þá hérað í Persíu.

28. (a) Eftir hvaða reglu þarf að meta hina 2520 daga ‚tíðanna sjö‘? (b) Hve langar voru ‚tíðirnar sjö,‘ hvenær hófust þær og hvenær lauk þeim?

28 Þar eð ‚tíðirnar sjö‘ eru spádómlegar verðum við að beita biblíureglunni um „dag fyrir ár hvert“ á dagana 2520. Þessa reglu er að finna í spádómi um umsátur Babýloníumanna um Jerúsalem. (Esekíel 4:6, 7; samanber 4. Mósebók 14:34.) Þær „sjö tíðir,“ sem heiðnir valdhafar stjórnuðu jörðinni án íhlutunar Guðsríkis, voru því 2520 ár. Þær hófust með eyðingu Júda og Jerúsalem í sjöunda tunglmánuðinum (15. tísrí) árið 607 f.o.t. (2. Konungabók 25:8, 9, 25, 26) Til ársins 1 f.o.t. eru 606 ár. Þá eru eftir 1914 ár sem ná til ársins 1914 e.o.t. Hinum ‚sjö tíðum‘ eða 2520 árum lauk því 15. tísrí eða 4./5. október árið 1914.

29. Hver er hinn ‚lítilmótlegasti meðal mannanna‘ og hvað gerði Jehóva til að krýna hann?

29 Það ár lauk ‚tímum heiðingjanna‘ og Guð fékk stjórnvaldið í hendur hinum „lítilmótlegasta meðal mannanna,“ Jesú Kristi, sem óvinir töldu svo auvirðilegan að þeir tóku hann af lífi. (Daníel 4:17) Til að krýna messíasarkonunginn leysti Jehóva táknræna járn- og eirfjötra af ‚stofni‘ síns eigin drottinvalds. Þannig lét hinn hæsti Guð konunglegan ‚anga‘ spretta af honum og birti drottinvald sitt gagnvart jörðinni með himnesku ríki í höndum Jesú Krists, mesta erfingja Davíðs. (Jesaja 11:1, 2; Jobsbók 14:7-9; Esekíel 21:27) Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir þessi málalok og fyrir að opinbera leyndardóm trésins mikla!

HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?

• Hvað táknar tréð mikla í draumi Nebúkadnesars?

• Hvað kom fyrir Nebúkadnesar í fyrri uppfyllingu draumsins um tréð?

• Hvað viðurkenndi Nebúkadnesar eftir að draumurinn rættist?

• Hve langar voru hinar „sjö tíðir“ í aðaluppfyllingu draumsins um tréð, hvenær hófust þær og hvenær lauk þeim?

[Spurningar]

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 83]

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 91]