Hvað er Guðsríki?
6. kafli
Hvað er Guðsríki?
Hvar er Guðsríki staðsett? (1)
Hver er konungur þess? (2)
Hve margir auk konungsins eiga aðild að stjórninni? (3)
Hvað sýnir að við lifum á hinum síðustu dögum? (4)
Hvað gerir Guðsríki fyrir mannkynið í framtíðinni? (5-7)
1. Þegar Jesús var á jörðinni kenndi hann fylgjendum sínum að biðja um komu Guðsríkis. Það er stjórn sem stofnsett er á himni og mun ríkja yfir jörðinni. Guðsríki mun helga nafn Guðs. Það mun láta vilja Guðs verða gerðan á jörðinni eins og hann er gerður á himni. — Matteus 6:9, 10.
2. Guð lofaði að Jesús yrði konungurinn í ríki hans. (Lúkas 1:30-33) Þegar Jesús var á jörðinni sýndi hann að hann yrði gæskuríkur, réttlátur og fullkominn stjórnandi. Þegar hann sneri aftur til himna var hann ekki strax krýndur sem konungur Guðsríkis. (Hebreabréfið 10:12, 13) Árið 1914 veitti Jehóva Jesú það vald sem hann hafði heitið honum. Upp frá því hefur Jesús ríkt á himni sem skipaður konungur Jehóva. — Daníel 7:13, 14.
3. Jehóva hefur líka valið ýmsa trúfasta menn og konur á jörðinni til að fara til himna. Þau munu ríkja með Jesú sem konungar, dómarar og prestar yfir mannkyninu. (Lúkas 22:28-30; Opinberunarbókin 5:9, 10) Jesús nefndi þessa meðstjórnendur í ríki sínu „litla hjörð.“ Tala þeirra er 144.000. — Lúkas 12:32; Opinberunarbókin 14:1-3.
4. Jafnskjótt og Jesús varð konungur kastaði hann Satan og illum öndum hans frá himni niður til nágrennis jarðarinnar. Það skýrir hvers vegna ástandið er orðið svona slæmt hér á jörðinni síðan 1914. (Opinberunarbókin 12:9, 12) Styrjaldir, hungursneyðir, farsóttir, aukið lögleysi — allt er þetta hluti ‚táknsins‘ sem gefur til kynna að Jesús sé sestur að völdum og að runnir séu upp síðustu dagar þessa heimskerfis. — Matteus 24:3, 7, 8, 12; Lúkas 21:10, 11; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
5. Brátt mun Jesús dæma fólk, aðgreina það eins og hirðir skilur sauði frá geithöfrum. „Sauðirnir“ eru þeir sem munu hafa sannað sig trúfasta þegna hans. Þeir hljóta eilíft líf á jörðinni. „Hafrarnir“ eru þeir sem munu hafa hafnað Guðsríki. (Matteus 25:31-34, 46) Í náinni framtíð eyðir Jesús öllum sem líkja má við hafra. (2. Þessaloníkubréf 1:6-9) Ef þú vilt verða einn af „sauðum“ Jesú verður þú að hlusta á boðskapinn um Guðsríki og breyta í samræmi við það sem þú lærir. — Matteus 24:14.
6. Jörðinni er núna skipt í mörg ríki. Hvert hefur sína eigin stjórn. Þjóðirnar berjast oft hver við aðra. Guðsríki leysir hins vegar af hólmi allar stjórnir manna. Það mun ríkja sem eina stjórnin yfir allri jörðinni. (Daníel 2:44) Styrjaldir, glæpir og ofbeldi verða ekki framar til. Allir munu búa saman í friði og einingu. — Míka 4:3, 4.
7. Í þúsundáraríki Jesú ná trúfastir menn því að verða fullkomnir og öll jörðin verður paradís. Við lok þúsund áranna hefur Jesús gert allt sem Guð bað hann að gera. Þá skilar hann ríkinu aftur til föður síns. (1. Korintubréf 15:24) Væri ekki rétt að þú segðir vinum þínum og ættingjum frá því sem Guðsríki mun gera?
[Mynd á blaðsíðu 13]
Undir stjórn Jesú hverfa óvild og fordómar.