Ágreiningur um þróunarkenninguna – hvers vegna?
2. kafli
Ágreiningur um þróunarkenninguna – hvers vegna?
Þegar ákveðið var að gefa út sérstaka endurprentun á bók Darwins, Uppruna tegundanna, í tilefni þess að hundrað ár voru liðin frá frumútgáfu hennar, var W. R. Thompson, sem þá var forstöðumaður líffræðistofnunar á vegum samveldislandanna í Ottawa í Kanada, boðið að rita inngangsorð sérútgáfunnar. Í þeim sagði hann meðal annars: „Eins og við vitum er mikill skoðanamunur meðal líffræðinga, ekki aðeins hvað varðar orsakir þróunarinnar heldur jafnvel um sjálft ferli hennar. Þessi ágreiningur stafar af því að sönnunargögnin eru ófullnægjandi og leyfa okkur ekki að draga neinar óyggjandi ályktanir. Það er því bæði rétt og viðeigandi að vekja athygli almennings, sem ekki er sérmenntaður í vísindum, á þeim ágreiningi sem ríkir um þróunarkenninguna.“a
1, 2. (a) Hvernig er orðið „staðreynd“ skilgreint? (b) Nefndu dæmi um staðreyndir.
STUÐNINGSMENN þróunarkenningarinnar telja hana óvéfengjanlega staðreynd. Þeir álíta að þróun sé „raunveruleiki, sannleikur, sannreynd,“ eins og orðabók skilgreinir orðið „staðreynd.“ En er hún það?
2 Tökum dæmi: Einu sinni var álitið að jörðin væri flöt. Nú hefur verið sýnt fram á með öruggri vissu að hún er hnöttótt. Það er staðreynd. Einu sinni héldu menn að jörðin væri miðpunktur alheimsins og himinhvolfið snerist um hana. Nú er vitað með vissu að jörðin er á braut um sól. Það er líka staðreynd. Sýnt hefur verið fram á með óhrekjandi rökum að mörg fyrirbæri, sem áður voru aðeins umdeildar kenningar, eru staðreyndir, raunveruleiki, sannleikur.
3. (a) Hvað bendir til að ekki hafi verið sýnt fram á að þróunarkenningin sé „staðreynd“? (b) Hvaða leið er gott að fara til að kynna sér stöðu þróunarkenningarinnar nú?
3 Ætli rannsóknir á rökum þróunarsinna fyrir kenningu sinni færi okkur í hendur sams konar óyggjandi sannanir? Athyglisvert er að allar götur síðan bók Charles Darwins, Uppruni tegundanna, kom út árið 1859 hafa ýmis atriði kenningarinnar verið töluvert deiluefni, jafnvel meðal fremstu vísindamanna á sviði þróunarfræða. Núna eru deilurnar háværari en nokkru sinni fyrr. Það er athyglisvert að skoða hvað málsvarar þróunarkenningarinnar segja sjálfir um málið.
Þróunarkenningin sætir árásum
4-6. Hvað hefur verið að gerast meðal málsvara þróunarkenningarinnar?
4 Vísindatímaritið Discover lýsir stöðunni svona: „Þróunarkenningin . . . sætir ekki aðeins árásum kristinna bókstafstrúarmanna; hún er líka véfengd af virtum vísindamönnum. Vaxandi andófs gætir meðal steingervingafræðinga gegn hinni ríkjandi skoðun Darwinismans.“1 Francis Hitching, þróunarfræðingur og höfundur bókarinnar The Neck of the Giraffe, segir: „Þrátt fyrir að Darwinismi sé viðurkenndur í heimi vísindanna sem hið mikla einingarlögmál líffræðinnar, á hann ótrúlega erfitt uppdráttar eftir 125 ára tilveru.“2
5 Í frétt af mikilvægri ráðstefnu um pað bil 150 sérfræðinga í þróunarfræðum, sem haldin var í Chicago, sagði: „[Þróunarkenningin] er að ganga í gegnum sína víðtækustu og byltingarkenndustu breytingu í næstum 50 ár. . . . Mikið er deilt um það núna meðal líffræðinga nákvæmlega hvernig þróunin átti sér stað. . . . Engin greinileg lausn á deilunni var í sjónmáli.“3
6 Steingervingafræðingurinn Niles Eldredge, kunnur þróunarfræðingur, segir: „Þær efasemdir, sem hafa smeygt sér inn í hina sjálfumglöðu fullvissu, er hefur einkennt þróunarlíffræðina síðastliðin tuttugu ár, hafa hleypt tilfinningunum upp í suðumark.“ Hann talar um að „algert samkomulag vanti jafnvel innan herbúðanna“ og bætir við: „Það er sannarlega allt í uppnámi þessa dagana. . . . Stundum virðast vera til jafnmörg tilbrigði af hverju [þróunar]þema og líffræðingarnir eru margir.“4
7, 8. Hvað sagði virtur rithöfundur um bók Darwins, Uppruna tegundanna?
7 Christopher Booker, sem skrifar í dagblaðið Times í Lundúnum, hafði þetta að segja (og hann aðhyllist þróunarkenninguna): „Þetta var dásamlega einföld og aðlaðandi kenning. Eini gallinn var sá að hún var full af tröllauknum götum og Darwin var það ljóst, að minnsta kosti að einhverju leyti.“ Um bók Darwins, Uppruna tegundanna, segir hann: „Við stöndum hér frammi fyrir þeirri nöpru kaldhæðni að bókin, sem varð fræg fyrir að skýra uppruna tegundanna, gerir það í rauninni alls ekki.“ — Leturbreyting okkar.
8 Booker heldur áfram: „Einni öld eftir dauða Darwins höfum við enn ekki minnstu sannanlega eða jafnvel trúlega hugmynd um hvernig þróunin átti sér stað í raun — og á síðustu árum hefur það leitt til óvenjulegra átaka um spurninguna í heild. . . . Það ríkir nánast styrjaldarástand meðal þróunarfræðinganna, þar sem alls kyns sértrúarflokkar [þróunarsinna] hvetja til einhverra nýrra smábreytinga.“ Hann segir svo að lokum: „Við höfum ekki minnstu hugmynd um hvernig og hvers vegna þróunin átti sér stað og munum sennilega aldrei vita það.“5
9. Hvernig má lýsa stöðu mála meðal þróunarfræðinga eins og hún hefur verið í seinni tíð?
9 Þróunarfræðingurinn Hitching tekur í sama streng og segir: „Erjur og illindi um þróunarkenninguna gusu upp . . . Á æðstu stöðum tóku menn óbifanlega afstöðu, með eða móti, og svívirðingunum rigndi eins og sprengjum úr báðum áttum.“ Hann segir þetta vera umfangsmikla, fræðilega deilu, „hugsanlega ein þeirra tímamóta í vísindunum þegar sönnunargögnin gegn gamalgróinni hugmynd vega svo þungt að þau kollvarpa henni skyndilega og ný kemur í staðinn.“6 Og breska tímaritið New Scientist lét þess getið að „æ fleiri vísindamenn, einkum þróunarfræðingar . . . halda því fram að þróunarkenning Darwins sé alls ekki ósvikin vísindakenning. . . . Margir gagnrýnendanna eru mjög mikils metnir menntamenn.“7
Ógöngur varðandi upprunann
10. Hefur verið sýnt fram á það sem staðreynd að lífið hafi orðið til við þróun?
10 Stjarnfræðingurinn Robert Jastrow segir um þá spurningu hver sé uppruni lífsins: „Sér til skapraunar kunna [vísindamenn] engin afdráttarlaus svör, því að efnafræðingum hefur aldrei tekist að herma eftir tilraunum náttúrunnar til að skapa líf úr lífvana efni. Vísindamenn vita ekki hvernig það gerðist.“ Hann bætir við: „Vísindamenn hafa enga sönnun fyrir því að lífið sé ekki afleiðing beinnar sköpunar.“8
11. Hvers vegna er erfitt að skýra tilvist flókinna líffæra með þróunarkenningunni?
11 En uppruni lífsins er ekki eini vandinn sem við er að glíma. Lítum á líffæri svo sem augað, eyrað eða heilann. Þau eru öll stórkostlega flókin að gerð og taka langt fram margbrotnustu tækjum sem menn hafa smíðað. Sá vandi blasir við þróunarkenningunni að sjón, heyrn eða hugsun geta ekki átt sér stað nema allir einstakir hlutar þessara líffæra vinni saman. Þau hefðu verið gagnslaus þangað til hinir einstöku hlutar þeirra hefðu verið fullmótaðir. Sú spurning vaknar því hvort hið stefnulausa fyrirbæri, tilviljunin, sem er talin vera drifkraftur þróunarinnar, hafi getað fært alla hlutana saman á réttu augnabliki til að úr yrði þetta margbrotna gangvirki.
12. (a) Hvað sagði Darwin um uppruna augans? (b) Standa menn nær lausn gátunnar núna?
12 Darwin viðurkenndi að þetta væri ráðgáta. Hann skrifaði til dæmis: „Að ímynda sér að augað . . . hafi myndast við [þróun], virðist, og það játa ég fúslega, í hæsta máta fáránlegt.“9 Meira en öld er liðin síðan þessi orð voru sögð. Hefur gátan verið leyst? Nei. Síðan Darwin var uppi hafa menn þvert á móti komist að raun um að augað er enn flóknara en hann áleit það vera. Þar af leiðandi segir Jastrow: „Augað virðist vera sérhannað; enginn sjónaukahönnuður hefði getað gert betur.“10
13. Að hvaða niðurstöðu komst vísindamaður nokkur varðandi mannsheilann?
13 Ef hægt er að segja þetta um augað, hvað má þá segja um mannsheilann? Úr því að jafnvel einföld vél þróast ekki af tilviljun, hvernig getur þá hugsast að mannsheilinn, sem er margfalt flóknari að gerð, hafi gert það? Jastrow heldur áfram: „Það er erfitt að fallast á að mannsaugað sé afkvæmi tilviljunar; það er enn erfiðara að fallast á að vitsmunir mannsins hafi þróast af tilviljunarkenndum truflunum í heilafrumum forfeðra okkar.“11
Ógöngur steingervingafræðinnar
14. Er það rétt að steingervingaskráin styðji þróunarkenninguna?
14 Vísindamenn hafa grafið úr jörðu milljónir beina og annarra steingerðra menja lifandi vera. Þær eru nefndar steingervingar. Ef þróunarkenningin væri sönn ættu steingervingarnir að bera þess glögg merki að ein lífverutegund hafi þróast yfir í aðra. En fréttaritið Bulletin, gefið út á vegum Náttúrusögusafns Chicago, segir: „[Þróunar]kenning Darwins hefur alltaf verið nátengd vitnisburði steingervingaskrárinnar, og sennilega ganga flestir út frá því sem gefnum hlut að steingervingarnir séu mjög veigamikill þáttur í hinum almennu rökum fyrir túlkun Darwinismans á lífssögunni. Því miður er það ekki alls kostar rétt.“
15. (a) Hvernig leit Darwin á steingervingaskrána í sinni tíð? (b) Hvað leiða niðurstöðurnar í ljós eftir meira en einnar aldar steingervingasöfnun?
15 Hvers vegna? Fréttaritið segir að steingervingaskráin hafi komið Darwin „í bobba, því að hún leit ekki út eins og hann hafði spáð . . . Saga jarðlaganna sýndi hvorki þá né sýnir nú samfellda keðju hægfara framþróunar.“ Sannleikurinn er sá að núna, eftir rúmlega einnar aldar steingervingasöfnun, „höfum við í höndunum enn færri dæmi um þróunarbreytingar en við höfðum á tímum Darwins,“ segir í fréttaritinu.12 Af hverju stafar það? Af því að nú hafa menn undir höndum margfalt fleiri steingervinga en þá, og þeir leiða í ljós að sumt af því, sem áður var notað til stuðnings þróunarkenningunni, styður hana alls ekki.
16. Hvað viðurkenna margir vísindamenn núna sem styðja þróunarkenninguna?
16 Sú staðreynd að steingervingaskráin skuli ekki styðja hugmyndina um hægfara þróun einnar tegundar í aðra hefur gert mörgum þróunarsinna órótt í skapi. Í ritinu The New Evolutionary Timetable talar Steven Stanley um það að „steingervingaskráin í heild sýni ekki hægfara breytingu frá einum meginhóp til annars.“ Hann heldur áfram: „Hin þekkta steingervingaskrá samrýmist ekki og hefur aldrei samrýmst [hugmyndinni um hægfara þróun].“13 Niles Eldredge játar einnig: „Það mynstur, sem okkur hefur verið sagt síðastliðin 120 ár að við ættum að finna, er ekki til.“14
Nýrri kenningar
17. Hvað segir tímaritið Science Digest um nýju kenningarnar?
17 Þessi staða mála hefur komið mörgum vísindamönnum til að slá fram nýstárlegum kenningum um þróun lífsins. Tímaritið Science Digest kemst þannig að orði: „Sumir vísindamenn slá nú fram hugmyndum um enn örari þróunarbreytingar og hafa snúið sér í fullri alvöru að hugmyndum sem áður nutu vinsælda aðeins í skáldsögum.“15
18. Hvaða vandi er þeim á höndum sem slá því fram að lífið hafi kviknað úti í geimnum?
18 Sumir vísindamenn hafa til dæmis komist að þeirri niðurstöðu að líf hafi ekki getað kviknað af sjálfu sér á jörðinni. Þeir ímynda sér að það hljóti að eiga sér uppruna úti í geimnum og hafi síðan með einhverjum hætti borist til jarðar. Með slíkum vangaveltum er einungis verið að ýta ráðgátunni um uppruna lífsins út í fjarlægt og fráleitt umhverfi. Þær hættur, sem mæta lífverum í fjandsamlegu umhverfi útgeimsins, eru vel þekktar. Er þá líklegt að lífið hafi kviknað af sjálfu sér annars staðar í alheiminum, lifað af þau erfiðu skilyrði sem þurfti til að berast til jarðar og síðan þróast upp í þann fjölbreytta lífheim sem við þekkjum?
19, 20. Hvaða nýja kenningu aðhyllast sumir þróunarfræðingar núna?
19 Þar eð steingervingaskráin sýnir ekki fram á hægfara breytingu frá einni lífverutegund til annarrar hafa sumir vísindamenn komið fram með þá hugmynd að þróunarbreytingarnar hafi átt sér stað í slitróttum stökkum en ekki jafnt og sígandi. The World Book Encyclopedia segir um þessa hugmynd: „Margir líffræðingar álíta að nýjar tegundir geti orðið til við skyndilegar og róttækar breytingar á genunum.“16
20 Sumir fylgismenn þessarar kenningar hafa kallað hana „rykkjótt jafnvægi.“ Með því eiga þeir við að tegundirnar haldi „jafnvægi“ (haldi sér að mestu óbreyttar), en af og til verði „rykkur“ (stórt þróunarstökk). Hér er komin fram andhverfa þeirrar kenningar sem nálega allir þróunarsinnar hafa aðhyllst um áratuga skeið. Hyldýpinu milli þessara tveggja kenninga var vel lýst í fyrirsögn í dagblaðinu The New York Times: „Harkalega er ráðist á kenninguna um hraða þróun.“ Í greininni sagði að hin nýja hugmynd um „rykkjótt jafnvægi“ hefði „vakið upp nýja andstöðu“ hjá þeim sem aðhyllast hinar hefðbundnu hugmyndir.17
21. (a) Hvaða sönnunargögn ættu að liggja fyrir, óháð því hvaða þróunarkenningu menn aðhyllast? (b) Hvaða staðreyndir blasa samt við?
21 Óháð því hvora kenninguna menn aðhyllast má með réttu ætlast til að þess sjáist einhvers staðar merki að ein lífverutegund breytist í aðra. En djúpið milli hinna ólíku lífverutegunda, sem steingervingasagan ber vitni, svo og djúpið milli þeirra margbreytilegu tegunda sem nú byggja jörðina, er óbrúað.
22, 23. Hvernig hefur hugmynd Darwins um að „þeir hæfustu lifi“ verið véfengd á síðustu árum?
22 Það er einnig athyglisvert að kynna sér hvernig komið er fyrir hugmynd Darwins þess efnis að ‚hinir hæfustu lifi,‘ kenningu sem lengi hefur átt fylgi að fagna. Hún hefur verið nefnd „náttúruval.“ Darwin áleit að náttúran „veldi úr“ hæfustu lífverurnar og léti þær lifa áfram. Smám saman eiga þessar „hæfustu“ lífverur að hafa þróað ný einkenni, sem urðu þeim til framdráttar í lífsbaráttunni, og með þeim hætti þróast smátt og smátt. En rannsóknir síðastliðinna 130 ára sýna að enda þótt rétt geti verið að hinir hæfustu lifi þá skýrir það alls ekki hvernig þeir komu fram. Eitt ljón getur verið hæfara til að lifa en annað, en það skýrir ekki hvernig það varð ljón. Öll afkvæmi þess verða ljón, ekki eitthvað annað.
23 Því segir Tom Bethell í Harper’s tímaritinu: „Darwin gerði mistök sem eru nógu alvarleg til að grafa undan kenningu hans. Og þessi mistök hafa einungis nýlega verið viðurkennd. . . . Ein lífvera getur vissulega verið ‚hæfari‘ en önnur . . . en það á auðvitað engan þátt í að skapa lífveruna . . . Mér sýnist ljóst að slík hugmynd sé meingölluð.“ Bethell bætir við: „Ég fæ ekki betur séð en að niðurstaðan sé býsna hastarleg: Kenning Darwins er að mínu mati alveg að falli komin.“18
Staðreynd eða kenning?
24, 25. (a) Nefndu þrjú svið þar sem þróunarkenningunni er áfátt. (b) Hvernig mætti líta á núverandi þróunarkenningu samkvæmt því sem þróunarfræðingur segir?
24 Francis Hitching lýsir í hnotskurn sumum af hinum óleystu ráðgátum þróunarkenningarinnar er hann segir: „[Þróunarkenning nútímans] hefur brugðist á þrem þýðingarmiklum sviðum þar sem hægt er að prófa hana: Steingervingaskráin ber vitni um endurtekin stökk í þróuninni frekar en hægfara breytingar. Genin eru öflugur hemlabúnaður sem hefur þann meginstarfa að koma í veg fyrir þróun nýrra tegunda. Tilviljunarkenndar stökkbreytingar hver á fætur annarri á sameindastiginu geta ekki skýrt hinn skipulega og vaxandi margbreytileik lífsins.“ — Leturbreyting okkar.
25 Hitching lýkur síðan máli sínu með þessum orðum: „Svo vægt sé til orða tekið er mönnum heimilt að véfengja þróunarkenningu sem er í slíkum mæli dregin í efa jafnvel af þeim sem kenna hana. Sé Darwinisminn í sannleika hið mikla einingarafl líffræðinnar felur hann í sér óvenjuvíðtækan þekkingarskort á mörgum sviðum. Hann svarar ekki mikilvægustu grundvallarspurningunum — hvernig lífvana efnasambönd urðu lifandi, hvaða málfræðireglur liggja að baki erfðalyklinum, hvernig arfberarnir móta lögun og gerð lifandi vera.“ Hitching gengur svo langt að segja að hann álíti núverandi þróunarkenningu „svo ófullkomna að rétt sé að líta á hana sem trúaratriði.“19
26. Hvers vegna er ekki rökrétt að halda áfram að fullyrða að þróunarkenningin sé staðreynd?
26 Margir málsvarar þróunarkenningarinnar eru eftir sem áður þeirrar skoðunar að þeir hafi nægilega sterk rök til að geta fullyrt að þróun lífsins sé staðreynd. Þeir segja að deilur þeirra snúist aðeins um smáatriði. En væri einhver önnur kenning jafnfull af óleystum ráðgátum og þróunarkenningin og slíkur ágreiningur um hana meðal þeirra sem aðhyllast hana, væri þá jafnfúslega talað um hana sem staðreynd? Kenning verður ekki staðreynd við það eitt að endurtaka í sífellu að hún sé það. Líffræðingurinn John R. Duran skrifaði í Lundúnablaðið The Guardian: „Margir vísindamenn falla í þá freistni að bíta í sig ákveðnar hugmyndir . . . Aftur og aftur hefur spurningunni um uppruna lífsins verið slegið fram eins og henni væri endanlega svarað. Ekkert er jafnfjarri sanni. . . . En tilhneigingin til kreddufestu heldur velli og hún er málstað vísindanna ekki til framdráttar.“20
27. Hvaða aðra skýringu getum við skoðað í ljósi staðreyndanna í leit að skilningi á tilurð lífsins?
27 En hvað má á hinn bóginn segja um sköpunarhugmyndina sem skýringu á tilurð lífsins? Fellur sá rammi, sem hún dregur upp, betur að þekktum staðreyndum en þær staðhæfingar sem þróunarkenningin styðst oft við? Varpar sköpunarsaga 1. Mósebókar, sem er þekktasta slíka sagan, trúverðugu ljósi á það hvernig jörðin og lífið á henni varð til?
Spurningar
[Rammi á blaðsíðu 14]
‚Darwinismi á ótrúlega erfitt uppdráttar eftir 125 ára tilveru.‘
[Rammi á blaðsíðu 15]
„Mikið er deilt um það núna meðal líffræðinga nákvæmlega hvernig þróunin átti sér stað.“
[Rammi á blaðsíðu 18]
„Augað virðist vera sérhannað; enginn sjónaukahönnuður hefði getað gert betur.“
[Rammi á blaðsíðu 21]
„Það mynstur, sem okkur hefur verið sagt síðastliðin 120 ár að við ættum að finna, er ekki til.“
[Rammi á blaðsíðu 21]
„Sumir vísindamenn slá nú fram hugmyndum [um þróun] . . . sem áður nutu vinsælda aðeins í skáldsögum.“
[Rammi á blaðsíðu 22]
Nýjar kenningar ganga í berhögg við það sem notið hefur viðurkenningar um áratuga skeið.
[Rammi á blaðsíðu 23]
„Kenning Darwins er að mínu mati alveg að falli komin.“
[Rammi á blaðsíðu 24]
„Aftur og aftur hefur spurningunni um uppruna lífsins verið slegið fram eins og henni væri endanlega svarað. Ekkert er jafnfjarri sanni.“
[Rammi á blaðsíðu 18]
„Tölvuvísindamenn reyna án árangurs að líkja eftir mannsauganu“
Dagblaðið The New York Times sagði undir fyrirsögninni hér að ofan: „Vísindamenn sem reyna að láta einn af djörfustu draumum mannsins rætast — að smíða vélar sem hugsa — hafa misst fótanna er þeir reyndu að stíga það sem ætla mætti fyrsta frumskrefið. Þeim hefur mistekist að líkja eftir sjóninni.
Eftir tveggja áratuga rannsóknir hefur þeim enn ekki tekist að kenna vélum að bera kennsl á hversdagslega hluti og greina einn frá öðrum, athöfn sem virðist ósköp einföld.
Í staðinn hafa menn öðlast nýja og djúpa virðingu fyrir flókinni uppbyggingu mannssjónarinnar. . . . Sjónhimna mannsaugans er öfundarefni tölvusérfræðinga. Hinar 100 milljónir stafa og keilna sjónhimnunnar og taugungalög hennar framkvæma að minnsta kosti 10 milljarða útreikninga á sekúndu.“b
[Mynd á blaðsíðu 16]
Þróunarsinni, sem skrifar í Lundúnablaðið Times, sagði um bók Darwins, Uppruna tegundanna: „Við stöndum hér frammi fyrir þeirri nöpru kaldhæðni að bókin, sem varð fræg fyrir að skýra uppruna tegundanna, gerir það í rauninni alls ekki.“
[Mynd á blaðsíðu 17]
Þróunarfræðingur segir: „Á æðstu stöðum tóku menn óbifanlega afstöðu, með eða móti, og svívirðingunum rigndi eins og sprengjum úr báðum áttum.“
[Mynd á blaðsíðu 19]
Stjarnfræðingurinn Robert Jastrow segir: „Það er erfitt að fallast á að mannsaugað sé afkvæmi tilviljunar; það er enn erfiðara að fallast á að vitsmunir mannsins hafi þróast af tilviljunarkenndum truflunum í heilafrumum forfeðra okkar.“
[Mynd á blaðsíðu 20]
„Sum hinna sígildu dæma um darwinskar breytingar í steingervingaskránni . . . hefur orðið að leggja fyrir róða eða breyta sökum ítarlegri upplýsinga.“c — David Raup við Náttúrusögusafn Chicago.
Árhestur
Öglir
Lungnafiskur
[Mynd á blaðsíðu 22]
Þótt rétt geti verið að hinir hæfustu lifi skýrir það ekki hvernig þeir komu fram.