Eðlishvöt – ásköpuð viska
13. kafli
Eðlishvöt – ásköpuð viska
1. Hvað sagði Darwin um eðlishvötina?
„MARGAR eðlishvatir eru svo stórfenglegar að lesandanum mun líklega þykja tilurð þeirra fullnægjandi til að kollvarpa kenningu minni,“ skrifaði Darwin. Bersýnilega áleit hann eðlishvötina vera óræða gátu því að strax í næstu setningu hélt hann áfram: „Ég vil færa hér fram til skýringar að ég fæst ekkert við uppruna vitsmunanna frekar en ég fæst við uppruna lífsins sjálfs.“1
2. Hvernig líta sumir vísindamenn núna á eðlishvötina?
2 Vísindamenn okkar daga komast engu nær því en Darwin að skýra eðlishvötina. Þróunarfræðingur segir: „Það er einföld staðreynd að gangvirki erfðavísanna sýnir ekki minnstu merki þess að geta miðlað sérstöku hátterni. . . . Þegar við spyrjum okkur að því hvernig eitthvert eðlislægt hátterni hafi orðið til í upphafi og orðið arfgengt kunnum við engin svör.“2
3, 4. Hvernig segir bók ein að eðlisávísun farfugla hafi orðið til, og í hverju er skýringum hennar áfátt?
3 Höfundur útbreiddrar bókar um fugla sér þó, ólíkt Darwin og öðrum þróunarsinnum, engin vandkvæði á að skýra einhverja dularfyllstu eðlishvötina — farflug fuglanna. Í bókinni segir: „Enginn vafi leikur á að þetta ferli er til komið vegna þróunar: fuglar frá heitum löndum hafa sennilega farið lengra og lengra í fæðuleit.“3
4 Geta einfeldnisleg svör af þessu tagi skýrt hin stórfurðulegu afrek margra farfugla? Vísindamenn vita að flækingur og annað slíkt hátterni, sem dýr og fuglar læra, er ekki skráð í erfðalykilinn og gengur ekki í arf til afkvæmis. Viðurkennt er að farferðir fugla og dýra eru bundnar eðlisávísun og „óháðar fyrri reynslu.“4 Lítum á fáein dæmi.
Stórkostleg afrek farfuglanna
5. Hvernig gerir farflug kríunnar hana að methafa í langflugi og hvaða spurningum varpar vísindamaður fram?
5 Krían er óumdeildur methafi í langflugi. Hún gerir sér hreiður norður við heimskautsbaug, en þegar haustar á norðurhveli jarðar flýgur hún suður á bóginn til að eyða sumrinu þar á hafísbreiðunni í grennd við suðurskautið. Hún á það til að fljúga hringinn í kringum Suðurskautslandið áður en hún heldur norður á bóginn til sumardvalar nálægt norðurheimskautsbaug. Árlegt farflug hennar getur því numið um 35.000 kílómetrum. Nóg æti er í grennd við bæði heimskautin og því varpaði vísindamaður fram spurningunni: „Hvernig uppgötvaði hún að slíka fæðugjafa væri að finna svona langt hvorn frá öðrum?“5 Þróunarkenningunni verður fátt um svör.
6, 7. Hvað virðist furðulegt við farflug rákaskríkjunnar, og hvaða spurningar gera okkur ljóst hvílíkt afrek hún vinnur?
6 Farflug amerísku rákaskríkjunnar er jafntorráðið fyrir þróunarkenninguna. Þetta er lítill fugl, aðeins rúmlega 20 grömm að þyngd, sem hefur sumardvöl í Norður-Ameríku. Að hausti flýgur hann frá Alaska til austurstrandar Kanada eða Nýja Englands í norðausturhluta Bandaríkjanna. Hann étur gráðuglega, safnar fitu og bíður síðan eftir kuldaskilum. Þegar þau koma leggur fuglinn upp. Ákvörðunarstaður hans er Suður-Ameríka, en í byrjun tekur hann stefnu á Afríku. Úti yfir Atlantshafinu, þar sem fuglinn flýgur í um 6 kílómetra hæð, rekst hann á staðvinda sem bera hann til Suður-Ameríku.
7 Hvernig veit rákaskríkjan að hún á að bíða eftir kuldaskilum, og að þau hafa í för með sér gott veður og meðbyr? Hvernig veit hún að hún á að hækka flugið jafnt og þétt þangað sem loftið er þunnt og kalt og súrefni helmingi minna en niðri við jörð? Hvernig veit hún að einungis þar uppi finnur hún hliðarvind sem ber hana til Suður-Ameríku? Hvernig veit hún að hún á að taka stefnu á Afríku til að nýta sér vindinn sem ber hana í suðvestur? Fuglinn hefur ekki meðvitaða vitneskju um neitt af þessu. Á um 3800 kílómetra ferð sinni yfir opnu hafi, sem tekur 3 til 4 sólarhringa, lætur hann stjórnast af eðlisávísun einni saman.
8. Nefndu nokkur fleiri afrek farfugla.
8 Hvítstorkurinn hefur sumardvöl í Evrópu en flýgur um 13.000 kílómetra veg til vetrardvalar í Suður-Afríku. Ameríska lóan flýgur frá svæðum norður við heimskautsbaug allt suður á gresjur Argentínu. Sumar tegundir af snípuætt fljúga þúsundir kílómetra suður fyrir gresjurnar, allt til syðsta odda Suður-Ameríku. Broddaspóinn flýgur frá Alaska til Tahítí og annarra eyja, upp undir 9500 kílómetra yfir opnu hafi. Þótt mánabríinn, fugl af kólibríætt, fljúgi miklu skemmri veg er farflug hans, um 1000 kílómetrar yfir Mexíkóflóa, jafnundravert miðað við stærð fuglsins. Hann vegur aðeins um 3 grömm, en á farflugi sínu blakar hann örsmáum vængjunum upp undir 75 sinnum á sekúndu í 25 stundir samfleytt. Það eru yfir 6 milljónir vængjaslaga án hvíldar!
9. (a) Hvað sýnir að ratvísi farfugla er ekki áunnin heldur hlýtur að vera þeim meðfædd? (b) Hvaða tilraunir með skrofu og bréfdúfur sýna að þessir fuglar eru fjölhæfir siglingafræðingar?
9 Fjölmargir ungir fuglar fljúga sitt fyrsta farflug án fylgdar fullorðinna. Ungir gaukfuglar á Nýja-Sjálandi fljúga 6400 kílómetra leið til Kyrrahafseyja til fundar við foreldra sína sem fóru á undan þeim. Skrofan flýgur frá Wales til Brasilíu og skilur unga sína eftir, en þeir fljúga sömu leið jafnskjótt og þeir verða fleygir. Ein skrofa flaug þessa leið á 16 dögum, að meðaltali 740 kílómetra á dag. Farið var með skrofu frá Wales til Boston, víðs fjarri venjulegri farleið fuglsins, og henni sleppt þar. Hún var komin heim í holu sína í Wales, í 5100 kílómetra fjarlægð, eftir tólf og hálfan dag. Bréfdúfur, fluttar 1000 kílómetra að heiman í hvaða átt sem er, hafa verið komnar heim í kofa sína aftur eftir einn dag.
10. Með hvaða tilraunum hefur verið sýnt fram á ratvísi aðalsmörgæsarinnar?
10 Enn eitt dæmi að lokum: ófleygir fuglar sem komast leiðar sinnar gangandi eða syndandi. Tökum aðalsmörgæsina (Adelíumörgæs) sem dæmi. Nokkrir fuglar voru fluttir 1900 kílómetra frá varpstöðvum sínum og sleppt þar. Þeir voru fljótir að ná áttum og tóku beina stefnu, þó ekki til varpstöðvanna þaðan sem þeir voru teknir, heldur á haf út í fæðuleit. Þaðan sneru þeir loks aftur til varpstöðvanna. Aðalsmörgæsin eyðir vetrinum í hafi í nánast algeru myrkri. En hvernig nær mörgæsin áttum í svartamyrkri vetrarins? Enginn veit það.
11. Hvað þurfa fuglar að hafa til að bera til að vinna slík afrek?
11 Hvernig vinna fuglar þessi afrek á sviði siglingafræði? Tilraunir benda til að þeir taki mið af sólu og stjörnum. Þeir virðast búnir innri klukkum sem gera ráð fyrir hreyfingum himintungla. En hvað gera þeir sé himinninn alskýjaður? Í það minnsta sumir fuglar hafa innbyggðan seguláttavita sem þeir grípa þá til. En áttavitastefnan ein nægir ekki. Þeir þurfa að hafa „kort“ í höfðinu sem á er merktur bæði brottfarar- og ákvörðunarstaður. Og leiðin þarf að vera merkt á kortið því að þeir fara sjaldan beinustu leið. En ekkert af þessu kemur að gagni nema þeir viti hvar þeir eru staddir á kortinu! Skrofan þurfti að vita hvar hún var, þegar henni var sleppt í Boston, til að geta tekið stefnu á Wales. Bréfdúfan varð að vita hvert hún hafði verið flutt áður en hún gat áttað sig á því hvernig hún kæmist heim.
12. (a) Hvað sagði Jeremía um ferðir farfugla, hvenær sagði hann það og hvers vegna er það athyglisvert? (b) Hvers vegna er óvíst að skilningur okkar á ferðum farfugla verði nokkurn tíma fullkominn?
12 Á miðöldum drógu margir enn í efa að fuglar flyttust búferlum í stórum stíl, enda þótt Biblían hafi talað um það á sjöttu öld f.o.t.: „Jafnvel storkurinn í loftinu þekkir sínar ákveðnu tíðir, og turtildúfan og svalan og tranan gefa gætur að tíma endurkomu sinnar.“ Þótt menn hafi nú orðið margs áskynja eiga þeir mikið ólært enn. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr fer Biblían með rétt mál er hún segir: „Hann hefur gefið mönnum skynbragð á fortíð og framtíð, en engan skilning á verki Guðs frá upphafi til enda.“ — Jeremía 8:7; Prédikarinn 3:11, The New English Bible.
Aðrir siglingafræðingar
13. Nefndu dæmi um aðrar skepnur en fugla sem flytjast búferlum.
13 Hreindýr í Alaska flytjast búferlum um 1300 kílómetra til suðurs að vetri. Margar hvalategundir ferðast yfir 9600 kílómetra frá Norður-Íshafi og aftur til baka. Loðselurinn flyst búferlum milli Pribilof-eyja í Beringshafi og Suður-Kaliforníu, um 4800 kílómetra veg. Sæskjaldbökur rata frá Brasilíuströnd til hinnar örsmáu Ascension-eyjar, sem liggur 2200 kílómetra úti í Atlantshafinu, og aftur til baka. Sumar krabbategundir flytjast búferlum allt að 240 kílómetra eftir hafsbotninum. Lax hverfur úr ánum þar sem hann klaktist út, eyðir nokkrum árum úti í opnu hafi, og syndir síðan mörg hundruð kílómetra leið til að finna sömu árnar og hann á uppruna sinn í. Ungir álar, fæddir í Þanghafi í Atlantshafi, eyða mestum hluta ævinnar í ám í Bandaríkjunum og Evrópu, en snúa svo til Þanghafsins til hrygningar.
14. Hvað er furðulegt við búferlaflutninga kóngafiðrildisins og hvaða leyndardómur er óráðinn?
14 Kóngafiðrildi fara frá Kanada að hausti og hafa gjarnan vetrarsetu í Kaliforníu eða Mexíkó. Stundum fljúga þau yfir 3200 kílómetra leið, og eitt fiðrildi mældist fljúga 130 kílómetra á dag. Þau setjast að í trjám þar sem skjólsælt er — í sömu trjálundunum, jafnvel sömu trjánum ár eftir ár. En ekki þó sömu fiðrildin! Á leiðinni til baka að vori verpa þau eggjum sínum á svölurótarplöntur. Ungu fiðrildin, sem þar verða til, halda ferðinni áfram norður á bóginn, og um haustið leggja þau upp í sömu 3200 kílómetra ferðina suður, sem foreldrar þeirra fóru, og leggjast eins og ábreiða á trén í sömu trjálundunum og foreldrar þeirra árið áður. Bókin The Story of Pollination segir: „Fiðrildin, sem koma suður að hausti, eru ung og hafa aldrei áður séð vetrardvalarstaðina. Hvernig þau fara að því að finna þá er enn ein af hinum óráðnu gátum náttúrunnar.“6
15. Hvaða eitt orð svarar ótal spurningum um visku dýranna?
15 Eðlislæg viska er ekki takmörkuð við búferlaflutninga. Tökum fáein dæmi sem sýna það.
Hvað gerir milljónum blindra termíta fært að samhæfa störf sín til að byggja og loftræsta sín stóru og miklu híbýli? Eðlishvöt.
Hvað veldur því að mölflugutegund af ættkvíslinni Pronuba þekkir þau mismunandi skref sem þarf til að víxlfrjóvga pálmaliljuna, þannig að til geta orðið bæði nýjar pálmaliljur og nýr mölur? Eðlishvöt.
Hvað veldur því að köngulóin, sem dvelur í „köfunarbjöllu“ sinni niðri í vatni, veit að þegar súrefnið er á þrotum þarf hún að höggva gat á köfunarbjölluna, hleypa út stöðnuðu lofti, gera við gatið og sækja nýjar birgðir af fersku lofti? Eðlishvöt.
Hvað veldur því að mímósabjallan veit að hún verður að verpa eggjum sínum undir börk á grein mímósatrés, skríða um 30 cm inn greinina og éta í sundur börkinn allan hringinn í kring til að drepa greinina, því að eggin klekjast ekki út í lifandi tré? Eðlishvöt.
Hvað veldur því að nýfæddur kengúruungi á stærð við baun, fæddur blindur og lítt þroskaður, veit að til að lifa af þarf hann að brjótast af eigin rammleik eftir feldi móður sinnar fram á kvið hennar, inn í pokann og festa sig við einn af spenunum? Eðlishvöt.
Hvað gerir einni dansandi býflugu mögulegt að segja hinum hvar hunangsvökva sé að finna, hversu mikið sé þar, hversu langt í burtu, í hvaða átt hann sé og í hvers konar blómi hann sé að finna? Eðlishvöt.
16. Hvað hlýtur að búa að baki allri þessari visku dýranna?
16 Slíkar spurningar gætu haldið áfram og fyllt heila bók, en svarið yrði alltaf hið sama: „Þau eru vitur af eðlishvöt.“ (Orðskviðirnir 30:24, New World Translation) „Hvernig,“ spyr rannsóknarvísindamaður, „gat slík flókin, eðlislæg þekking þróast og gengið í arf til komandi kynslóða?“7 Menn geta ekki svarað því. Þróunarkenningin kann ekki skýringu á því. En slíkir vitsmunir hljóta að vera frá vitsmunaveru komnir. Slík viska kallar á vitran hönnuð. Hún kallar á snilligáfu viturs skapara.
17. Hvaða hugsunarhátt margra þróunarsinna er hyggilegt að forðast?
17 Margir sem trúa á þróun vísa samt umsvifalaust á bug öllum slíkum vitnisburði, segja hann málinu óviðkomandi og ekki vísindalegt viðfangsefni. En láttu ekki slíka þröngsýni hindra þig í að vega og meta þennan vitnisburð. Meira er tíundað í næsta kafla.
[Spurningar]
[Rammi á blaðsíðu 160]
Darwin: „Ég fæst ekkert við uppruna vitsmunanna.“
[Rammi á blaðsíðu 167]
„Þau eru vitur af eðlishvöt.“
[Rammi á blaðsíðu 160]
‚Við kunnum engin svör‘ við því hvernig eðlishvötin varð til og byrjaði að ganga í arf.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 164, 165]
Hreiðurgerð og eðlishvöt
„Ekki er að finna hina minnstu vísbendingu,“ segir G. R. Taylor um gangvirki erfðavísanna, „um að það geti flutt sérstakt atferli, svo sem þá athafnaröð sem er samfara hreiðurgerð.“a Samt sem áður erfist hin eðlisbundna kunnátta sem þarf til hreiðurgerðar; hún er ekki kennd. Athugum fáein dæmi.
Nashyrningsfuglinn í Afríku og Asíu. Kvenfuglinn ber að leir og hleður upp í gat í holu tré þar til hann rétt getur troðið sér inn. Karlinn færir henni meiri leir og hún hleður upp í gatið uns einungis lítil rifa er eftir. Karlinn færir henni mat um þessa rifu og síðar ungunum þegar þeir koma úr eggjunum. Þegar karlinn hefur ekki lengur undan að færa þeim æti brýst kvenfuglinn út. Í þetta sinn lagfæra ungarnir gatið og bæði hjónin færa þeim æti. Nokkrum vikum síðar brjótast ungarnir út og yfirgefa hreiðrið. Ber það ekki annars vott um markvissa hönnun að kvenfuglinn skuli algerlega fella fjaðrir og láta sér vaxa nýjan fjaðrabúning meðan hann er innilokaður og getur ekkert flogið?
Svölungar. Ein tegund gerir sér hreiður úr munnvatni. Áður en fengitíminn hefst þrútna munnvatnskirtlarnir og taka að gefa frá sér seigfljótandi, slímkenndan vökva. Þegar þetta gerist segir eðlishvötin fuglinum hvað gera skal við þennan vökva. Fuglinn smyr honum á klettavegg, og þegar hann harðnar er fleiri lögum bætt við uns til er orðið bikarlaga hreiður. Önnur tegund svölunga gerir sér hreiður sem ekki er stærra en teskeið, límir það á pálmalauf og límir síðan eggin í hreiðrið.
Keisaramörgæsin ber með sér innbyggt hreiður. Í vetrarkulda suðurskautsins verpir kvenfuglinn einu eggi og heldur síðan til fiskveiða í tvo til þrjá mánuði. Karlinn leggur eggið á fætur sér, sem eru búnir allþéttu æðaneti, og steypir yfir það útungunarpoka sem hann er með á kviðnum. Móðirin gleymir þó ekki föður og barni. Skömmu eftir að unginn kemur úr egginu snýr móðirin aftur með fullan maga af æti sem hún ælir upp handa þeim. Þá heldur karlinn til veiða og móðirin tekur ungann upp á fæturna og breiðir kviðpokann yfir hann.
Vefarafuglar í Afríku vefa sér hangandi hreiður úr grasi og öðrum jurtatrefjum. Eðlisávísun segir þeim að nota breytilegt vefmynstur og mismunandi hnúta. Félagslynd vefarategund býr til eins konar fjölbýlishús — stráþak um 4 til 5 metra í þvermál sem fest er við sterkar trjágreinar, og neðan í það hengir fjöldi vefarahjóna hreiður sín. Ný og ný hreiður bætast við uns þau geta verið orðin yfir hundrað sem njóta skjóls undir sama þaki.
Saumfuglinn í suðurhluta Asíu gerir sér þráð úr baðmullar- eða barkartrefjum og köngulóarvef, og splæsir saman stutta búta til að fá lengri þráð. Hann velur sér stórt laufblað, eitt eða fleiri, og heggur göt með nefinu meðfram jöðrunum. Síðan beitir hann nefinu eins og saumnál og notar þráðinn til að toga saman jaðrana líkt og við reimum skóna okkar. Þegar þráðurinn er á enda hnýtir fuglinn hann annaðhvort fastan eða splæsir við nýjan bút og heldur áfram að sauma. Með þessum hætti saumar fuglinn bikar sem hann gerir sér hreiður í.
Pungmeisan gerir sér einnig hangandi hreiður. Fuglinn vefur hreiðrið úr dúnmjúku jurtaefni og grasi svo að það er viðkomu nánast eins og flókaefni. Burðarvirki hreiðursins er ofið úr löngum grastrefjum. Fuglinn stingur trefjaendunum í gegnum vefinn með nefinu. Síðan tekur hann styttri trefjar úr mjúku efni sem hann treður í vefinn. Hann fer að ekki ósvipað og teppavefarar Austurlanda. Svo sterk og mjúk eru hreiðrin að þau hafa verið notuð sem handtöskur eða jafnvel sem inniskór handa börnum.
Topphænan í Andesfjöllum gerir sér oftast hreiður á lítilli, flatri eyju. En eyjar af því tagi eru mjög fágætar á varpstöðvum hennar þannig að hún býr sjálf til eyju handa sér! Topphænan velur sér stað þar sem vatnið er hálfur til einn metri á dýpt og tekur til við að bera þangað steina í nefinu. Steinarnir hrúgast upp uns til er orðin lítil eyja. Eyjarfóturinn getur verið allt að 4 metrar í þvermál og steinhrúgan vegið yfir eitt tonn. Fuglinn ber ýmiss konar gróður út á þessa steineyju og gerir sér þar stórt hreiður.
[Myndir á blaðsíðu 161]
Krían flyst búferlum 35.000 kílómetra leið ár hvert.
Hvernig veit rákaskríkjan með heila á stærð við baun svona mikið um veður og siglingafræði?
[Myndir á blaðsíðu 162]
Þegar mánabríinn flyst búferlum slær hann vængjunum allt að 75 sinnum á sekúndu í 25 stundir samfleytt.
Farfuglar eru fæddir með „kort“ í höfðinu og vita hvar þeir eru og hvert þeir eru að fara.
[Mynd á blaðsíðu 163]
Mörgæsir geta dvalið mánuðum saman í sjó í næstum algeru myrkri og síðan ratað til varpstöðva sinna án þess að skeika.
[Mynd á blaðsíðu 166]
Kóngafiðrildi hvílast á vetrardvalarstöðum sínum eftir 3200 kílómetra farflug til suðurs.