Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er hægt að treysta Biblíunni?

Er hægt að treysta Biblíunni?

17. kafli

Er hægt að treysta Biblíunni?

1. (a) Hver er skoðun margra á Biblíunni en hvað staðhæfir Biblían sjálf? (b) Hvaða spurning vaknar?

 MARGIR líta á Biblíuna aðeins sem ritverk viturra manna liðins tíma. Háskólaprófessor, Gerald A. Larue, staðhæfir: „Viðhorf ritaranna, eins og þau birtast í Biblíunni, endurspegla almennar hugmyndir, trúarskoðanir og hugtök samtíðar þeirra og takmarkast við þáverandi þekkingu manna.“⁠1 Biblían staðhæfir hins vegar að hún sé innblásin af Guði. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Ef það er rétt hlýtur hún að vera laus við rangar hugmyndir sem algengar voru á þeim tíma er verið var að skrifa hina ýmsu hluta hennar. Stenst Biblían rannsókn í ljósi nútímaþekkingar?

2. Hvaða áhrif hefur ný vitneskja oft á skrif manna um vísindi?

2 Þegar við athugum þetta mál er rétt að hafa hugfast að með vaxandi þekkingu þurfa menn látlaust að leiðrétta skoðanir sínar til samræmis við nýja vitneskju og uppgötvanir. Tímaritið Scientific Monthly sagði eitt sinn: „Það er til of mikils mælst að greinar, sem sumar hverjar eru ekki eldri en fimm ára, séu viðurkenndar núna sem nýjustu viðhorf þeirra vísindagreina sem þær fjalla um.“⁠2 En Biblían var skrifuð og tekin saman á hér um bil 1600 ára tímabili og fullgerð fyrir nálega 2000 árum. Hvað er hægt að segja núna um nákvæmni hennar?

Biblían og vísindin

3. Hvaða skoðanir höfðu menn til forna á undirstöðu jarðar en hvað segir Biblían?

3 Á þeim tíma er verið var að rita Biblíuna gerðu menn sér ýmsar hugmyndir um það hvernig jörðinni væri haldið á lofti í geimnum. Sumir héldu til dæmis að jörðin hvíldi á baki fjögurra fíla er stæðu á baki stórrar sæskjaldböku. Í stað svona fráleitra og óvísindalegra samtímahugmynda segir Biblían blátt áfram: „[Guð] þenur norðrið út yfir auðninni og lætur jörðina svífa í tómum geimnum.“ (Jobsbók 26:7) Já, fyrir ríflega 3000 árum sagði Biblían réttilega að jörðin hefði enga sýnilega undirstöðu. Það kemur heim og saman við þau hreyfi- og þyngdarlögmál sem menn hafa komist til skilnings á fyrir ekki svo löngu. „Þeir sem afneita innblæstri Heilagrar ritningar,“ sagði trúarlegur fræðimaður á síðustu öld, „eiga erfitt með að svara því hvernig Job vissi sannleikann.“⁠3

4, 5. (a) Hvað héldu menn eitt sinn um lögun jarðar og hvað óttuðust sumir þar af leiðandi? (b) Hvað segir Biblían um lögun jarðar?

4 Um lögun jarðar segir The Encyclopedia Americana: „Hinar elstu þekktu hugmyndir manna um jörðina voru á þá lund að hún væri fastur pallur í miðjum alheiminum. . . . Það var fyrst á endurreisnartímanum sem almennt var farið að líta á jörðina sem hnött.“⁠4 Sumir sjófarendur fyrri alda óttuðust meira að segja að þeir kynnu að sigla fram af brún þessarar flötu jarðar! En áttavitinn og aðrar framfarir gerðu mönnum síðan kleift að fara í lengri sjóferðir. Þessar „landkönnunarferðir sýndu mönnum að jörðin var hnöttótt en ekki flöt eins og flestir höfðu haldið,“ segir í annarri alfræðibók.⁠5

5 En fyrir hér um bil 2700 árum, löngu áður en slíkar landkönnunarferðir hófust, sagði Biblían: „Það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni, og þeir, sem á henni búa, eru sem engisprettur.“ (Jesaja 40:22) Hebreska orðið ḥug, þýtt „kringla,“ getur einnig merkt „kúla“ eða „hnöttur“ eins og fram kemur til dæmis í fræðiritinu Analytical Hebrew and Chaldee Lexicon eftir Davidson. Aðrar biblíuþýðingar tala því sumar um „jarðarhnöttinn“ (Douay-þýðingin) og „hnöttótta jörðina.“ (Moffatt) Biblían var ekki undir áhrifum hinnar almennu en röngu heimsmyndar samtíðar sinnar. Hún var sannleikanum samkvæm.

6. Hvaða stórkostlegri hringrás, sem menn skildu yfirleitt ekki til forna, lýsir Biblían?

6 Frá örófi alda hafa menn veitt því athygli að árnar renna í sjóinn án þess að sjávarborðið hækki. Uns mönnum varð ljóst að jörðin væri hnattlaga töldu sumir þetta stafa af því að samsvarandi magn sjávar steyptist út af brúnum jarðar. Síðar uppgötvuðu menn að sólin „dælir“ á sekúndu hverri þúsundum milljóna lítra af vatni upp úr höfunum með uppgufun. Við það myndast ský sem vindar síðan bera inn yfir land þar sem vatnið fellur til jarðar, ýmist sem regn eða snjór. Vatnið seytlar svo út í árnar og rennur í sjóinn á ný. Þótt þessi merkilega hringrás væri almennt ekki þekkt til forna er talað um hana í Biblíunni: „Allar ár renna í sjóinn en sjórinn er enn ekki fullur. Vatnið hverfur á ný að upptökum ánna og byrjar allt upp á nýtt.“ — Prédikarinn 1:7, Today’s English Version.

7, 8. (a) Hvernig hefur Biblían reynst nákvæm í því sem hún segir um uppruna alheimsins? (b) Hver eru viðbrögð sumra stjörnufræðinga við þessari nýju vitneskju og hvers vegna?

7 Um uppruna alheimsins segir Biblían: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ (1. Mósebók 1:1) Vísindamönnum var gjarnt að kalla þetta viðhorf óvísindalegt og staðhæfa að alheimurinn ætti sér ekkert upphaf. Stjarnfræðingurinn Robert Jastrow bendir hins vegar á nýlegar uppgötvanir og segir: „Kjarninn í þessari sérkennilegu framvindu er sá að alheimurinn hafi í vissum skilningi átt sér upphaf — að hann hafi orðið til á ákveðnu augnabliki.“ Jastrow vísar hér til frumsprengingarkenningarinnar sem nú er almennt viðurkennd og talað er um í 9. kafla. Hann bætir við: „Nú sjáum við hvernig vitnisburður stjarnfræðinnar leiðir til sams konar viðhorfs til uppruna heimsins og fram kemur í Biblíunni. Smáatriðin eru ólík en meginatriði hinnar stjarnfræðilegu frásögu og sköpunarsögu Biblíunnar eru þau sömu.“⁠6

8 Hver hafa viðbrögðin orðið við þessum uppgötvunum? „Það er kynlegt hve stjarnfræðingar hafa komist í uppnám,“ segir Jastrow. „Viðbrögð þeirra eru athyglisvert dæmi um viðbrögð vísindalegrar hugsunar — sem ætluð er vera mjög hlutlæg hugsun — við því þegar uppgötvanir sjálfra vísindanna stangast á við faglegar trúarsetningar þeirra. Það kemur í ljós að vísindamaðurinn hegðar sér alveg eins og við hin þegar trúarskoðanir okkar stangast á við sönnunargögnin. Við verðum gramir, látum eins og mótsögnin sé ekki til ellegar breiðum yfir hana með innantómum orðum.“⁠7 En sú staðreynd stendur að enda þótt „uppgötvanir sjálfra vísindanna“ stangist á við það sem vísindin höfðu lengi álitið um uppruna alheimsins, þá staðfesta þær orðin sem staðið hafa í Biblíunni í árþúsundir.

9, 10. (a) Hvað segir Biblían um mikið flóð? (b) Hvaða fundir staðfesta nú þá frásögu Biblíunnar?

9 Biblían greinir frá því að á dögum Nóa hafi mikið flóð hulið hæstu fjöll jarðar og tortímt öllum mönnum nema þeim sem voru í örkinni miklu er Nói smíðaði. (1. Mósebók 7:1-24) Margir hafa gert gys að þessari frásögn. Þó hafa fundist sjávarskeljar uppi á háum fjöllum. Þá hefur fundist mikill fjöldi steingervinga og hræja, gaddfrosin í hálfgerðum fjöldagröfum, og bendir það einnig til þess að gríðarlegt flóð hafi orðið í fremur nálægri fortíð. Dagblaðið The Saturday Evening Post segir: „Mörg þessara dýra voru fullkomlega varðveitt, heil og ósködduð, og stóðu annaðhvort upprétt eða í það minnsta á kné. . . . Hér bregður fyrir átakanlegri mynd — í samanburði við það sem við vorum vön að ímynda okkur. Gríðarstórar hjarðir risastórra, vel alinna dýra, sem ekki eru sérstaklega fallin til að lifa í miklum kulda, voru á beit í friðsælum, sólríkum haga . . . Skyndilega drápust þau öll án nokkurra sýnilegra merkja um átök og áður en þeim tókst að kyngja síðasta munnbitanum, og síðan voru þau hraðfryst svo snögglega að hver einasta fruma í líkömum þeirra er fullkomlega varðveitt.“⁠8

10 Þessi mynd kemur heim og saman við það sem gerðist í flóðinu mikla. Samkvæmt frásögn Biblíunnar „opnuðust allar uppsprettur hins mikla undirdjúps og flóðgáttir himinsins lukust upp.“ Úrfellið kaffærði jörðina og því fylgdu vafalaust fimbulkaldir vindar á heimskautasvæðunum. (1. Mósebók 1:6-8; 7:11, 19) Þar hlýtur hitabreytingin að hafa verið mikil og snögg. Við þessar hamfarir kaffærðust alls konar dýr í leðju og gaddfrusu. Þannig kann að hafa farið fyrir loðfílnum sem sýndur er á myndinni hér til hliðar. Hann var grafinn úr jörð í Síberíu og var enn gróður í munni hans og maga og kjötið jafnvel ætt þegar það var þítt.

11. Hvað annað í Biblíunni hefur aukin þekking staðfest og hvaða ályktun dró kunnur vísindamaður?

11 Því nánar sem Biblían er rannsökuð þeim mun athyglisverðari er nákvæmni hennar. Eins og fram kemur á blaðsíðu 36 og 37 í þessari bók lýsir Biblían sköpunarferlinu í nákvæmlega sömu röð og vísindin hafa nú staðfest. Það væri vandskýrt ef Biblían væri einungis verk manna. Þetta er enn eitt dæmi þess hvernig aukin þekking hefur staðfest fjölmörg smáatriði í Biblíunni. Isaac Newton, einn af mestu vísindamönnum sögunnar, hafði ærið tilefni til að segja: „Engin vísindi eru betur staðfest en biblíutrúin.“⁠9

Biblían og heilsuvernd

12. Hvernig ber læknir saman algengar hjátrúargrillur og orð Biblíunnar?

12 Um allar aldir hafa menn verið mjög fáfróðir um sjúkdóma og heilsuvernd. Læknir segir jafnvel: „Fjöldi fólks gengur enn með ýmsar hjátrúargrillur, svo sem að fyrirbyggja megi gigt með því að hafa kastaníu í vasanum; að menn fái vörtur af því að handleika körtur; að lækna megi hálsbólgu með því að hafa rautt flannel um hálsinn“ og margar fleiri. Svo bendir hann á: „Engar slíkar staðhæfingar er að finna í Biblíunni. Það er í sjálfu sér eftirtektarvert.“⁠10

13. Nefndu dæmi um hættulega læknismeðferð sem Forn-Egyptar ráðlögðu.

13 Það er einnig athyglisvert að bera hættulegar lækningaaðferðir fortíðar saman við það sem Biblían segir. Ebers-papýrusritið, læknaskjal frá tímum Forn-Egypta, ráðlagði til dæmis að saur skyldi notaður við læknismeðferð af ýmsu tagi. Meðal annars gaf það sem læknisráð að blanda skyldi saman mannasaur og nýmjólk í bakstur á sár sem hrúðrið er fallið af. Til að draga út flís var gefið þetta læknisráð: „Ormablóð, sjóðið og merjið í olíu; moldvarpa, drepið, sjóðið og bleytið upp í olíu; asnatað, hrært út í nýmjólk. Berið á gatið.“⁠11 Nú er vitað að meðferð af þessu tagi getur valdið alvarlegri sýkingu.

14. Hvernig átti að ganga frá saur að sögn Biblíunnar, og hvernig stuðlaði það að heilsuvernd?

14 Hvað sagði Biblían um meðferð á saur? Hún fyrirskipaði: „Er þú þarft að setjast niður úti, þá skalt þú grafa holu með [spaða], moka því næst aftur yfir og hylja saurindin.“ (5. Mósebók 23:13) Því var langt í frá að Biblían ráðlegði saur sem lækningalyf heldur mælti hún fyrir um hvernig gengið skyldi frá honum með öruggum hætti. Allt fram á þessa öld var mönnum almennt ókunnugt um hættuna af því að láta saur liggja óvarinn fyrir flugum. Það olli útbreiðslu alvarlegra sjúkdóma, sem flugur geta borið með sér, og kostaði fjölda mannslífa. Samt stóð þessi einfalda fyrirbyggjandi heilbrigðisregla í Biblíunni og Ísraelsmenn fylgdu henni fyrir meira en 3000 árum.

15. Hvaða hátterni lækna, sem hafði í för með sér dauða fyrir marga, hefði mátt forðast ef þeir hefðu fylgt ráðum Biblíunnar varðandi lík?

15 Á síðustu öld gengu læknar rakleiðis frá krufningu á líkskurðarstofu inn á fæðingardeild til mæðraskoðunar, án þess svo mikið sem að þvo sér um hendurnar. Þannig barst smit frá hinum dánu til hinna lifandi og dánartíðnin var eftir því. Jafnvel eftir að sýnt hafði verið fram á gildi handþvottar settu margir læknar sig upp á móti slíkri hreinlætisreglu. Með því voru þeir að hafna visku Biblíunnar, þótt þeir vissu það vafalaust ekki, því að í lögmáli Jehóva til Ísraelsmanna var ákvæði þess efnis að hver sá er snerti lík yrði óhreinn og yrði að þvo bæði sig og klæði sín. — 4. Mósebók 19:11-22.

16. Hvers vegna bera fyrirmælin um umskurn á áttunda degi vitni um visku sem ekki gat verið frá mönnum komin?

16 Þegar Jehóva Guð gerði sáttmála við Abraham sagði hann við hann: „Átta daga gömul skal öll sveinbörn umskera meðal yðar.“ Síðar var þessi krafa endurtekin í lagasáttmálanum milli Guðs og Ísraels. (1. Mósebók 17:12; 3. Mósebók 12:2, 3) Engin skýring var gefin á því hvers vegna þetta skyldi gert á áttunda degi, en núna vitum við ástæðuna. Læknisfræðirannsóknir hafa leitt í ljós að K-vítamín, sem hefur áhrif á blóðstorknun, nær ekki fullnægjandi marki fyrr en þá. Annar storkuþáttur, próþrombín, virðist ná hærra stigi á áttunda degi en á nokkrum öðrum tíma í lífi barnsins. Á grundvelli þessara upplýsinga komst dr. S. I. McMillen að eftirfarandi niðurstöðu: „Áttundi dagurinn er hinn fullkomni umskurnardagur.“⁠12 Var það einskær tilviljun? Alls ekki. Það voru fyrirmæli frá Guði sem vissi allt um þetta.

17. Hvaða önnur uppgötvun læknavísindanna staðfestir orð Biblíunnar?

17 Nútímavísindi hafa einnig komist að því að hugarástand og tilfinningalíf hafa mikil áhrif á heilsufar manna. Alfræðibók segir: „Síðan 1940 hefur mönnum orðið æ ljósara að lífeðlisfræðileg starfsemi líffæra og líffærakerfa er nátengd hugarástandi einstaklingsins, og að vefjarbreytingar geta jafnvel orðið í líffæri sem verður fyrir slíkum áhrifum.“⁠13 En Biblían vísaði endur fyrir löngu til þessara nánu tengsla hugarástands og líkamsheilsu. Til dæmis segir hún: „Rósamt hjarta er líf líkamans, en ástríða er eitur í beinum.“ — Orðskviðirnir 14:30; 17:22.

18. Hvernig varar Biblían fólk við skaðlegum tilfinningum og leggur áherslu á kærleika?

18 Þannig varar Biblían fólk við skaðlegum tilfinningum og viðhorfum. „Framgöngum sómasamlega,“ áminnir hún, „ekki í þrætu né öfund.“ Hún ráðleggur einnig: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir.“ (Rómverjabréfið 13:13; Efesusbréfið 4:31, 32) Einkum mælir Biblían með kærleika. „Íklæðist yfir allt þetta elskunni,“ segir hún. Sem mesti málsvari kærleikans sagði Jesús lærisveinum sínum: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.“ Í fjallræðu sinni sagði hann jafnvel: „Elskið óvini yðar.“ (Kólossubréfið 3:12-15; Jóhannes 13:34; Matteus 5:44) Sumir hæðast kannski að þessum viðhorfum og kalla þau veikleika, en það kemur þeim í koll. Vísindamenn hafa komist að raun um að skortur á kærleika er veigamikill þáttur í fjöldamörgum geðsjúkdómum og öðrum kvillum.

19. Hvað hafa læknavísindin uppgötvað í sambandi við kærleika?

19 Breska læknatímaritið Lancet sagði einu sinni: „Langþýðingarmesta uppgötvun geðlæknisfræðinnar er máttur kærleikans til að vernda og lækna hugann.“⁠14 Kunnur sérfræðingur um streitu, dr. Hans Selye, segir: „Það er ekki hinn hataði maður eða óþolandi yfirboðari sem fær magasár, háan blóðþrýsting og hjartasjúkdóm. Það er sá sem hatar eða lætur aðra verða sér til skapraunar. ‚Elskaðu náunga þinn‘ er eitthvert viturlegasta læknisráð sem nokkurn tíma hefur verið gefið.“⁠15

20. Hvernig líkti læknir fjallræðu Jesú við ráðgjöf geðlækna?

20 Viska Biblíunnar er uppgötvunum nútímans langtum fremri. Dr. James T. Fisher skrifaði einu sinni: „Ef teknar væru saman allar vönduðustu greinarnar sem allir fremstu sálfræðingar og geðlæknar hafa skrifað um geðvernd — ef þær væru tengdar saman og fágaðar og allt óþarft málskrúð strikað út — ef tekinn væri úr því kjarninn en hismið skilið eftir og ef færustu núlifandi skáld væru fengin til að tjá sem best þessi ómenguðu brot hreinnar vísindaþekkingar, þá hefðum við í höndunum klunnalega og ófullkomna samantekt á fjallræðunni.“⁠16

Biblían og mannkynssagan

21. Hvernig var sögugildi Biblíunnar véfengt fyrir um það bil öld?

21 Eftir að Darwin birti þróunarkenningu sína tóku menn að ráðast frá öllum hliðum á sögugildi Biblíunnar. Fornleifafræðingurinn Leonard Woolley segir: „Undir lok nítjándu aldar reis upp skóli öfgafullra biblíugagnrýnenda sem var reiðubúinn að afneita sögulegum grundvelli nánast allra frásagna elstu bóka Gamlatestamentisins.“⁠17 Sumir gagnrýnendur staðhæfðu jafnvel að ritkunnátta hefði ekki orðið almenn fyrr en á tímum Salómons og eftir það; ekki væri því hægt að treysta elstu frásögum Biblíunnar úr því að þær væru skrifaðar öldum eftir að atburðirnir gerðust. Einn af talsmönnum þessarar kenningar sagði árið 1892: „Tíminn, sem frásögurnar fyrir daga Móse fjalla um, er fullnægjandi sönnun fyrir þjóðsagnaeðli þeirra. Á þeim tíma var ritlistin óþekkt.“⁠18

22. Hvað hafa menn uppgötvað varðandi útbreiðslu ritlistarinnar til forna?

22 Á síðari áratugum hafa miklir fornleifafundir átt sér stað og kappnógar sannanir fengist fyrir því að ritlistin var orðin almenn löngu fyrir daga Móse. „Við verðum að ítreka,“ segir fornleifafræðingurinn William Foxwell Albright, „að hebresk stafrófsritun var stunduð í Kanaan og grannhéruðum allt frá tímum ættfeðranna, og að hin öra breyting stafagerðarinnar er óyggjandi sönnun fyrir útbreiddri notkun.“⁠19 Og annar kunnur sagnfræðingur og fornleifafræðingur segir: „Okkur þykir fáránlegt núna að sú spurning skuli nokkurn tíma hafa komið upp hvort Móse hafi kunnað að skrifa.“⁠20

23. Hvað kom í ljós í sambandi við Sargon konung og hvaða hugmyndir urðu menn þar af leiðandi að endurskoða?

23 Hvað eftir annað hafa fornleifafundir staðfest sögulega nákvæmni Biblíunnar. Til dæmis var frásögn Biblíunnar í Jesaja 20:1 lengi vel eina heimildin um Sargon Assýríukonung. Á fyrri hluta síðustu aldar fullyrtu gagnrýnendur meira að segja að orð Biblíunnar um hann hefðu ekkert sögulegt gildi. En þá grófu fornleifafræðingar upp rústir glæsilegrar hallar Sargons í Khorsabad og margar áletranir fundust varðandi stjórn hans. Nú er Sargon þess vegna meðal þekktustu konunga Assýringa. Ísraelski sagnfræðingurinn Moshe Pearlman skrifar: „Skyndilega byrjuðu efasemdamenn, sem höfðu véfengt jafnvel sögulega hluta Gamlatestamentisins, að endurskoða afstöðu sína.“⁠21

24. Hversu nákvæmlega samsvarar frásögn Assýringa frásögu Biblíunnar af því er Sargon lagði undir sig Samaríu?

24 Ein af áletrunum Sargons greinir frá atvikum sem ekki höfðu verið þekkt fyrr af öðrum heimildum en Biblíunni. Hún hljóðar svo: „Ég settist um og vann Samaríu og flutti burt 27.290 íbúa hennar sem herfang.“⁠22 Frásaga Biblíunnar af þessum atburði í 2. Konungabók 17:6 er á þessa leið: „Á níunda ríkisári Hósea vann Assýríukonungur Samaríu og herleiddi Ísrael til Assýríu.“ Pearlman segir um þessa athyglisverðu samsvörun frásagnanna tveggja: „Hérna voru þá tvær frásögur, önnur í annálum sigurvegarans og hin í annálum hins sigraða, sem voru nánast spegilmynd hvor af annarri.“⁠23

25. Hvers vegna er þess ekki að vænta að Biblían og veraldlegar heimildir séu sammála í öllum atriðum?

25 Megum við þá vænta þess að veraldlegar heimildir og Biblían séu samhljóða í öllum smáatriðum? Nei, og Pearlman skýrir það svo: „Það var óvenjulegt í Miðausturlöndum til forna (og stundum einnig nú til dags) að ‚stríðsfréttir‘ beggja aðila væru samhljóða. Það gerðist aðeins þegar stríðsaðilarnir voru Ísrael og ein af grannþjóðunum, og aðeins þegar Ísrael beið ósigur. Þegar Ísrael sigraði var ósigursins aldrei getið í annálum óvinarins.“24 (Skáletur okkar.) Það kemur því ekki á óvart að veigamiklum atriðum skuli sleppt úr frásögn Assýringa af herför Sanheríbs, sonar Sargons, til Ísraels. Hvaða atriði eru það?

26. Hvernig er frásögn Sanheríbs í samanburði við frásögn Biblíunnar af innrás hans í Ísrael?

26 Fundist hafa veggjalágmyndir í höll Sanheríbs konungs sem sýna svipmyndir úr herför hans til Ísraels. Ritaðar lýsingar á henni hafa einnig fundist. Ein þeirra er á leirstrendingi og hljóðar svo: „Hiskía Gyðingur beygði sig ekki undir ok mitt og settist ég um 46 rammgerðar borgir hans . . . Sjálfan gerði ég hann að fanga í Jerúsalem, konungssetri sínu, líkt og fugl í búri. . . . Ég lét hann sitja eftir með minna land en jók enn skattgjaldið og katrû-gjafirnar (sem hann skuldaði) mér (sem) lénsdrottni (sínum).“⁠25 Útgáfa Sanheríbs samræmist Biblíunni að því er varðar sigra Assýringa. En eins og við er að búast lætur hann þess ógetið að honum skyldi ekki takast að vinna Jerúsalem, og að hann skyldi hafa neyðst til að snúa heim af því að 185.000 af hermönnum hans höfðu verið drepnir á einni nóttu. — 2. Konungabók 18:13-19:36; Jesaja 36:1-37:37.

27. Hvernig samræmist frásögn Biblíunnar af morðinu á Sanheríb fornum veraldlegum heimildum?

27 Skoðum nú frásögurnar af því hvernig Sanheríb var ráðinn af dögum og hvað nýir fornleifafundir leiða í ljós. Biblían segir að tveir sona hans, þeir Adrammelek og Sareser, hafi verið þar að verki. (2. Konungabók 19:36, 37) En bæði sú frásögn, sem eignuð er Nabonídusi Babýlonarkonungi og frásögn Berossusar prests í Babýlon frá þriðju öld f.o.t., nefna aðeins einn son í sambandi við morðið. Hvor útgáfan var rétt? Síðar fundust brot úr strendingi Asarhaddons, þess af sonum Sanheríbs sem tók við völdum af honum. Sagnfræðingurinn Philip Biberfeld segir um þann fund: „Aðeins frásaga Biblíunnar reyndist rétt. Áletranir Asarhaddons staðfestu hana í öllum smáatriðum og sýna að Biblían lýsir þessum atburði í sögu Babýlonar og Assýríu nákvæmar en babýlonskar heimildir. Þessi uppgötvun hefur geysimikla þýðingu jafnvel fyrir mat okkar á samtímaheimildum sem koma ekki heim og saman við arfsögn Biblíunnar.“⁠26

28. Hvernig hefur það sem Biblían segir um Belsasar verið staðfest?

28 Sú var tíðin að allar þekktar, fornar heimildir voru ósammála Biblíunni um Belsasar. Biblían talar um hann sem konung Babýlonar er hún féll. (Daníel 5:1-31) Veraldlegar heimildir nefndu Belsasar ekki einu sinni á nafn og sögðu Nabonídus hafa verið konung á þeim tíma. Gagnrýnendur staðhæfðu því að Belsasar hefði aldrei verið til. En nú hafa fundist fornrit sem segja Belsasar hafa verið son Nabonídusar og meðstjórnanda föður síns í Babýlon. Það var greinilega af þeirri ástæðu sem Belsasar bauð Daníel að „vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu,“ því að hann var sjálfur annar. (Daníel 5:16, 29) Því segir R. P. Dougherty, prófessor við Yale-háskóla, um samanburð á Daníelsbók Biblíunnar og öðrum fornritum: „Óhætt er að segja að frásaga Ritningarinnar skari fram úr af því að hún notar nafnið Belsasar, eignar honum konungstign og viðurkennir að ríkinu hafi verið stjórnað af tveimur.“⁠27

29. Hvaða fornleifafundur staðfestir það sem Biblían segir um Pontíus Pílatus?

29 Annað dæmi um fornleifafund, sem hefur staðfest tilvist sögupersónu í Biblíunni, kemur fram hjá Michael J. Howard sem vann við Sesareu-leiðangurinn í Ísrael árið 1979. „Í 1900 ár,“ segir hann, „var Pílatus aðeins til á síðum guðspjallanna og í óljósum endurminningum sagnfræðinga Rómverja og Gyðinga. Nánast ekkert var vitað um ævi hans. Sumir sögðu jafnvel að hann hefði aldrei verið til. En árið 1961 vann ítalskur leiðangur að fornleifagrefti í rústum hins forna rómverska leikhúss í Sesareu. Verkamaður sneri við steini sem notaður hafði verið í eina af tröppunum. Á bakhlið hans var eftirfarandi áletrun á latínu, máð að hluta: ‚Caesariensibus Tiberium Pontius Pilatus Praefectus Iudaeae.‘ (Til íbúa Sesareu Tíberíum Pontíus Pílatus héraðsstjóra í Júdeu.) Þetta tók af allan vafa um tilvist Pílatusar. . . . Í fyrsta sinn kom nú fram í mynd áletrunar samtímavitnisburður um líf mannsins sem fyrirskipaði krossfestingu Krists.“⁠28 — Jóhannes 19:13-16; Postulasagan 4:27.

30. Hvernig hafa fornleifafundir staðfest lýsingu Biblíunnar á notkun úlfalda?

30 Nýlegir fornleifafundir staðfesta jafnvel ýmis af smæstu smáatriðum fornra frásagna Biblíunnar. Svo dæmi sé tekið andmælti Werner Keller árið 1964 Biblíunni er hann skrifaði að úlfaldinn hefði verið taminn tiltölulega seint í mannkynssögunni. Hann sagði að í sviðsmyndinni, þar sem „við hittum Rebekku í fyrsta sinn í heimaborg hennar Nahor, þyrftum við að skipta um leikmuni. ‚Úlfaldarnir,‘ sem tilheyrðu væntanlegum tengdaföður hennar, Abraham, og hún brynnti við brunninn, voru — asnar.“⁠29 (1. Mósebók 24:10) En árið 1978 benti ísraelski herforinginn og fornleifafræðingurinn Moshe Dayan á fornleifafundi er sýna að úlfaldar hafi verið „notaðir sem burðardýr“ á þeim tíma og að frásögn Biblíunnar sé því rétt. „Fundist hefur lágmynd í Byblos í Fönikíu frá átjándu öld f.Kr. með knékrjúpandi úlfalda,“ sagði Dayan. „Á innsigliskeflum frá ættfeðratímanum, sem fundust nýverið í Mesópótamíu, eru myndir af mönnum ríðandi úlföldum.“⁠30

31. Hvaða fleiri rök má færa fyrir sögulegri nákvæmni Biblíunnar?

31 Sönnunargögnin fyrir sögulegri nákvæmni Biblíunnar hafa hrannast svo upp að þeim verður ekki vísað á bug. Engum þarf að koma það á óvart að ekki skuli hafa fundist veraldlegar heimildir fyrir algerum ósigri Egypta við Rauðahafið, því að sá var ekki siður valdhafa þess tíma að skýra frá ósigrum sínum. Á musterisvegg í Karnak í Egyptalandi hafa menn hins vegar fundið frásögn Sísaks Faraós af velheppnaðri herför til Júda í stjórnartíð Rehabeams Salómonssonar. Biblían segir frá henni í 1. Konungabók 14:25, 26. Þá hefur einnig fundist útgáfa Mesa, konungs í Móab, af uppreisn hans gegn Ísrael. Hún er skráð á töflu sem nefnd er Móabítasteinninn. Lesa má um þennan sama atburð í Biblíunni í 2. Konungabók 3:4-27.

32. Hvaða staðfestingu á frásögum Biblíunnar er að finna í fornminjasöfnum heims?

32 Víða í söfnum veraldar getur að líta lágmyndir, áletranir og styttur sem staðfesta frásögur Biblíunnar. Getið er Júda- og Ísraelskonunga, svo sem Hiskía, Manasse, Omrís, Akabs, Peka, Menahems og Hósía, í fleygrúnaskrám Assýríukonunga. Á svartri broddsúlu Salmanesers er mynd af Jehú konungi eða einum sendimanna hans að greiða skattgjald. Skreyting persnesku hallarinnar í Súsa, eins og biblíupersónurnar Mordekai og Ester þekktu hana, hefur verið endurgerð svo að menn geti virt hana fyrir sér nú. Styttur fyrstu rómversku keisaranna, Ágústusar, Tíberíusar og Kládíusar sem getið er um í Biblíunni, eru einnig til sýnis í söfnum. (Lúkas 2:1; 3:1; Postulasagan 11:28; 18:2) Meira að segja hefur fundist silfurdenar með mynd Tíberíusar keisara — en það var þess konar mynt sem Jesús bað um þegar hann svaraði spurningunni um greiðslu skatta. — Matteus 22:19-21.

33. Hvernig eru Ísrael og staðhættir þar staðfesting á nákvæmni Biblíunnar?

33 Hver sá sem þekkir vel til Biblíunnar og heimsækir Ísrael nú á dögum getur ekki annað en veitt athygli hve nákvæmlega Biblían lýsir landi og staðháttum. Dr. Ze’ev Shremer, sem stýrði jarðfræðileiðangri á Sínaískaga, sagði einu sinni: „Vitaskuld höfum við okkar eigin kort og landmælingar, en þegar kortin og Biblían stangast á fylgjum við Bókinni.“⁠31 Gefa má dæmi um það hvernig hægt er að lifa sig inn í þá sögu sem Biblían segir: Í Jerúsalem er hægt að ganga eftir 533 metra vatnsgöngum sem höggvin voru gegnum klett fyrir meira en 2700 árum. Þau voru gerð í því skyni að veita vatni örugga leið til borgarinnar frá hinni huldu Gíhonlind utan borgarmúranna, til Sílóamlaugar innan borgarmúranna. Biblían segir frá því að Hiskía hafi látið gera göngin til að tryggja borginni vatn er hann sá fram á að Sanheríb myndi setjast um hana. — 2. Konungabók 20:20; 2. Kroníkubók 32:30.

34. Hvað hafa nokkrir virtir fræðimenn sagt um nákvæmni Biblíunnar?

34 Þetta eru aðeins fáein dæmi af fjöldamörgum er sýna hvers vegna óhyggilegt er að vanmeta nákvæmni Biblíunnar. Efasemdir manna um áreiðanleika hennar byggjast yfirleitt hvorki á því sem hún segir né haldbærum rökum heldur á villandi upplýsingum eða fáfræði. Fyrrum forstöðumaður breska þjóðminjasafnsins, Frederic Kenyon, skrifaði: „Fornleifafræðin hefur ekki sagt sitt síðasta orð; en þær niðurstöður, sem nú eru fengnar, staðfesta það sem trúin myndi halda fram, að aukin þekking sé Biblíunni einungis til framdráttar.“⁠32 Og hinn kunni fornleifafræðingur Nelson Glueck sagði: „Segja má afdráttarlaust að enginn fornleifafundur hafi nokkurn tíma stangast á við orð Biblíunnar. Tugir fornleifafunda staðfesta í skýrum meginatriðum eða smæstu smáatriðum sagnfræðilegar upplýsingar í Biblíunni.“⁠33

Heiðarleiki og samræmi

35, 36. (a) Hvaða galla sína og mistök játuðu ýmsir biblíuritarar? (b) Hvernig eykur heiðarleiki ritaranna því vægi að Biblían sé frá Guði eins og þeir segja?

35 Heiðarleiki biblíuritaranna ber einnig vitni um að Biblían sé frá Guði komin. Það er andstætt mannlegu eðli að játa mistök eða misheppnan, einkum í riti. Flestir ritarar til forna létu nægja að segja frá afrekum sínum og mannkostum. En Móse lýsti því hvernig hann ‚sýndi ótrúmennsku‘ og var af þeim sökum meinað að leiða Ísrael inn í fyrirheitna landið. (5. Mósebók 32:50-52; 4. Mósebók 20:1-13) Jónas sagði sjálfur frá þrjósku sinni. (Jónas 1:1-3; 4:1) Páll viðurkennir fyrri misgerðir sínar. (Postulasagan 22:19, 20; Títusarbréfið 3:3) Og Matteus, postuli Krists, greinir frá því að postularnir hafi stundum sýnt litla trú, sóst eftir metorðum og meira að segja yfirgefið Jesú við handtöku hans. — Matteus 17:18-20; 18:1-6; 20:20-28; 26:56.

36 Hefðu biblíuritararnir ætlað sér að falsa eitthvað, má þá ekki ætla að þeir hefðu helst kosið að hagræða sannleikanum þegar hann gaf miður fagra mynd af þeim sjálfum? Þeir hefðu tæplega afhjúpað sína eigin galla en síðan logið einhverju öðru. Heiðarleiki og hreinskilni biblíuritaranna gerir enn trúverðugri þá staðhæfingu þeirra að þeir hafi skrifað undir handleiðslu Guðs. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

37. Hvers vegna er innra samræmi Biblíunnar svo sterk rök fyrir því að hún sé innblásin af Guði?

37 Hið innra samræmi Biblíunnar í tengslum við gegnumgangandi aðalstef hennar ber því einnig vitni að Guð sé höfundur hennar. Það er auðvelt að segja að um 40 mismunandi ritarar hafi fært hinar 66 bækur Biblíunnar í letur á 16 alda tímabili. En hugsaðu þér hversu einstakt það er! Hugsaðu þér að byrjað hefði verið að semja bók á tímum Rómaveldis, að verkinu hefði verið haldið áfram á tímum einvaldskonunganna sem á eftir komu og allt fram á tíma lýðræðisríkjanna sem nú eru, og að ritararnir hefðu verið jafnólíkir og hermenn, konungar, prestar og sjómenn, auk fjárhirðis og læknis. Gætir þú vænst þess að fylgt hefði verið nákvæmlega sama stefi út í gegnum bókina? Biblían var þó skrifuð á álíka löngu tímabili undir stjórnarfari af ýmsu tagi og af mönnum úr öllum þessum stéttum. Og innra samræmið helst út í gegn. Meginboðskapur hennar er sá sami frá upphafi til enda. Styður þetta ekki þá staðhæfingu Biblíunnar að þessir menn hafi ‚talað orð frá Guði, knúðir af heilögum anda‘? — 2. Pétursbréf 1:20, 21.

38. Hvað þurfa menn að gera til að geta treyst Biblíunni?

38 Er hægt að treysta Biblíunni? Þú hefur ástæðu til þess ef þú rannsakar sjálfur það sem hún segir í stað þess að gera þig ánægðan með það sem aðrir halda fram að hún segi. Þó eru enn sterkari sannanir fyrir því að Biblían sé innblásin af Guði. Þær eru viðfangsefni næsta kafla.

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 202]

„Meginatriði hinnar stjarnfræðilegu frásögu og sköpunarsögu Biblíunnar eru þau sömu.“

[Rammi á blaðsíðu 204]

Það er eftirtektarvert að Biblían er alveg laus við hjátrúargrillur.

[Rammi á blaðsíðu 206]

Biblían gaf endur fyrir löngu í skyn hin nánu tengsl milli hugarástands og líkamsheilsu.

[Rammi á blaðsíðu 207]

Áhersla Biblíunnar á kærleika kemur heim og saman við skynsamleg læknisráð.

[Rammi á blaðsíðu 215]

Það er andstætt mannlegu eðli að játa mistök eða misheppnan, einkum í riti.

[Rammi á blaðsíðu 215]

Frásaga Biblíunnar einkennist af innra samræmi út í gegn.

[Skyringarmynd á blaðsíðu 201]

Biblían lýsir hringrás vatnsins sem var almennt óþekkt til forna.

[Mynd á blaðsíðu 200]

Sumir fornmenn héldu að undirstöður jarðar væru svona.

[Mynd á blaðsíðu 203]

Gaddfrosinn loðfíll sem grafinn var úr jörð í Síberíu. Hann hafði legið í jörð um þúsundir ára en var enn með jurtir í munni og maga og kjötið var ætt er hann var þíddur.

[Mynd á blaðsíðu 205]

Læknar á síðustu öld þvoðu sér ekki alltaf eftir að hafa snert lík. Það olli fleiri dauðsföllum.

LÍKHÚS

FÆÐINGARDEILD

[Mynd á blaðsíðu 209]

Kalksteinslágmynd af Sargon konungi. Lengi vel var frásögn Biblíunnar eina heimildin um hann.

[Myndir á blaðsíðu 210]

Veggjalágmynd úr höll Sanheríbs konungs í Níníve er sýnir hann taka við herfangi frá borginni Lakís í Júda.

Þessi leirstrendingur Sanheríbs konungs lýsir herför hans inn í Ísrael.

[Myndir á blaðsíðu 211]

Sigurminnismerki Asarhaddons, sonar Sanheríbs, sem endurómar 2. Konungabók 19:37: „En Asarhaddon sonur hans tók ríki eftir hann.“

Þessi áletrun fannst í Sesareu og staðfestir að Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu.

[Myndir á blaðsíðu 212]

Þessi veggjalágmynd staðfestir frásögu Biblíunnar af sigri Sísaks Faraós yfir Júda.

Móabítasteinninn greinir frá uppreisn Mesa konungs í Móab gegn Ísrael. Biblían segir einnig frá henni.

[Myndir á blaðsíðu 213]

Jehú konungur eða sendimaður hans að greiða Salmaneser III konungi skatt.

Marmarabrjóstmynd af Ágústusi sem var keisari þegar Jesús Kristur fæddist.

Silfurdenar með mynd og yfirskrift Tíberíusar keisara, eins og sá sem Kristur bað um.

[Mynd á blaðsíðu 214]

Hiskía konungur lét höggva þessi göng til að tryggja Jerúsalem vatn meðan borgin væri umsetin Assýringum.