Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hin furðulega gerð lifandi vera

Hin furðulega gerð lifandi vera

11. kafli

Hin furðulega gerð lifandi vera

1, 2. (a) Hvað sýnir að vísindamenn viðurkenna að þörf sé á hönnuði? (b) Hvernig snúa þeir síðan við blaðinu?

 ÞEGAR mannfræðingar grafa í jörðina og finna egghvassan, oddlaga tinnustein ganga þeir út frá því að hann hafi verið gerður af manni sem vopn eða verkfæri. Vísindamenn eru á einu máli um að slík áhöld, sem augljóslega eru gerð í ákveðnum tilgangi, hafi ekki orðið til af neinni hendingu.

2 Þegar um er að ræða lifandi verur er hins vegar oft horfið frá þess konar rökfærslu. Þá er ekki talin þörf á hönnuði. En einfaldasti einfrumungur, eða bara kjarnsýran sem geymir erfðalykil hans, er margfalt flóknari smíð en mótaður tinnusteinn. Samt sem áður fullyrða þróunarfræðingar að lifandi verur eigi sér engan hönnuð heldur hafi þær mótast af langri röð tilviljana.

3. Hvað var Darwin ljóst og hverju ætlaði hann það hlutverk?

3 Darwin var þó ljóst að gera yrði ráð fyrir einhverju hönnunarafli og ætlaði náttúruvali það hlutverk. „Náttúruval,“ sagði hann, „rannsakar nákvæmlega, daginn út og daginn inn, hin smávægilegu afbrigði út um allan heim. Þeim óæskilegu er hafnað en öll þau hagstæðu varðveitt og þeim safnað upp.“⁠1 Þessi skoðun er nú að glata fylgi.

4. Hvernig eru hugmyndirnar um náttúruval að breytast?

4 Stephen Gould greinir svo frá að margir þróunarfræðingar haldi nú fram að óvíst sé að umtalsverðar breytingar „lúti náttúruvali heldur geti þær breiðst tilviljunarkennt út um stofna.“⁠2 Gordon Taylor tekur í sama streng: „Náttúruval skýrir brot af því sem gerist, meginhlutinn er óskýrður.“⁠3 Jarðfræðingurinn David Raup segir: „Annar kostur en náttúruval, sem nú er talinn mikilvægur, tengist áhrifum hreinnar tilviljunar.“⁠4 En er ‚hrein tilviljun‘ einhvers konar hönnuður? Hefur hún verið fær um að vefa þann margslungna vef sem lífheimurinn er gerður úr?

5. Hvað segir dýrafræðingur um hönnun lifandi vera?

5 Dýrafræðingurinn Richard Lewontin segir að lifandi verur „virðist hafa verið vandvirknislega og listrænt hannaðar.“ Hann lítur á þær sem „aðalsönnunargagnið um mikinn hönnuð.“⁠5 Það er gagnlegt að skoða nánar nokkur þessara sönnunargagna.

Hið smáa

6. Eru einfrumungar í raun og veru svo einfaldar lífverur?

6 Við skulum byrja á því að skoða smæstu lífverurnar: einfrumunga eða frumdýr. Líffræðingur kemst svo að orði að frumdýr geti „veitt sér til matar, melt fæðuna, losað sig við úrgangsefni, hreyft sig úr stað, byggt hús, makað sig,“ og að „án vefja, líffæra, hjarta og huga hafi þau í rauninni allt sem við höfum.“⁠6

7. Hvernig og í hvaða tilgangi mynda kísilþörungar gler, og hversu mikilvægu hlutverki gegna þeir í lífríki hafsins?

7 Kísilþörungar, sem eru einfrumungar, taka til sín kísil og súrefni úr sjónum og búa til úr því gler sem þeir smíða úr litlar „pilludósir“ undir blaðgrænu sína. Vísindamaður einn ber á þær lof bæði fyrir notagildi og fegurð. Hann segir: „Þessi laufgræna í skartgripaskrínunum er það haglendi þangað sem allt sjávarlíf sækir níu tíundu fæðu sinnar.“ Næringargildið liggur að verulegu leyti í olíunni sem kísilþörungarnir mynda, en hún hjálpar þeim meðal annars að fljóta léttilega nálægt yfirborðinu þar sem blaðgræna þeirra getur baðað sig í sólarljósinu.

8. Í hvers konar myndum birtast bústaðir kísilþörunganna?

8 Sami vísindamaður segir að hin fögru glerskrín þeirra séu „ótrúlega margbreytileg að lögun — hringir, ferningar, skildir, þríhyrningar, sporöskjur, rétthyrningar — alltaf skreytt fögru ætimynstri sem minnir á rúmfræðimyndir. Mynstrið, ofið í hreint gler, er svo fíngert að skera þyrfti mannshár í 400 sneiðar eftir endilöngu til að komast fyrir á milli rákanna.“⁠7

9. Hve flókin hús reisa sumir geislungar?

9 Annar hópur sjávarfrumdýra, nefnd geislungar, mynda sér gler og gera úr því „glersólir með löngum, grönnum, gagnsæjum nálum sem standa eins og geislar út frá miðlægri kristalkúlu.“ Sumir geislungar smíða „sexhyrninga úr glernálum sem þeir reisa úr einfaldar stoðgrindarhvelfingar.“ Um einn hinna smásæju byggingameistara er sagt: „Ein stoðgrindarhvelfing nægir ekki þessum mikla arkitekt. Hann þarf að gera sér þrjár glerhvelfingar með laufskornu blúndumynstri, hverja innan í annarri.“⁠8 Orð fá ekki lýst þessum fögru smíðisgripum — til þess þarf myndir.

10, 11. (a) Hvernig eru svampar samsettir og hvað verður um einstakar frumur ef svampi er algerlega sundrað? (b) Hvaða spurningum viðvíkjandi stoðgrind svampdýra kunna þróunarsinnar ekki svör við, en hvað vitum við?

10 Svampdýr eru samsett úr milljónum frumna en aðeins af fáeinum ólíkum tegundum. Kennslubók fyrir háskóla segir: „Frumurnar mynda ekki vefi eða líffæri, en þó bera þær á vissan hátt kennsl hver á aðra sem heldur þeim saman og raðar niður.“⁠9 Ef svampi er þrýst gegnum grisju þannig að þær milljónir frumna, sem mynda hann, skiljast í sundur þá sameinast þær aftur og byggja svampinn upp á nýjan leik. Svampdýr gera sér stoðgrindur úr gleri sem geta verið mjög fagrar. Ein sú furðulegasta er blómakarfa Venusar.

11 Vísindamaður segir um hana: „Þegar maður virðir fyrir sér flókna stoðgrind svampdýra, eins og til dæmis þá sem gerð er úr kíslnálum og kallast [blómakarfa Venusar], gapir maður af undrun. Hvernig geta hálfsjálfstæðar, smásæjar frumur sameinast um að framleiða milljónir glernála og gera úr þeim svona margbrotna og fagra grind? Við vitum það ekki.“⁠10 En eitt vitum við: Tilviljun kemur tæplega til álita sem hönnuður.

Samhjálp

12. Hvað er samlífi? Nefndu nokkur dæmi.

12 Þess eru mörg dæmi að tvær lífverur virðist eins og sniðnar til að lifa hvor með annarri. Slík samhjálp í ríki náttúrunnar er nefnd samlífi. Vissar tegundir fíkjutrjáa og vespna geta ekki tímgast án þess að hjálpast að. Termítar éta trjávið en þurfa frumdýrin, sem lifa í meltingarfærum þeirra, til að melta hann. Sauðfé, nautgripir, geitur og úlfaldar gætu ekki heldur melt trénið í grasinu ef þeir nytu ekki hjálpar gerla og frumdýra sem lifa í meltingarfærum þeirra. Í grein í vísindatímariti segir: „Sá hluti af maga kýrinnar, þar sem sú melting fer fram, er um 100 lítrar að rúmmáli — og í hverjum dropa eru 10 milljarðar smásærra lífvera.“⁠11 Þörungar og sveppir vinna saman og verða fléttur eða skófir. Þá fyrst geta þeir þrifist á berum steini og byrjað að breyta honum í jarðveg.

13. Hvaða spurningar vekur sambýli maura og akasíutrjáa?

13 Viss maurategund á sér heimili í holum þyrnum akasíutrés. Þeir sjá um að halda trénu lausu við skordýr, sem éta lauf, og klippa í sundur og drepa klifurjurtir sem reyna að festa sig við stofn þess. Í staðinn gefur tréð frá sér sætan vökva sem maurunum þykir góður, og auk þess vaxa á því lítil, fölsk aldin sem eru þeim til fæðu. Fundu maurarnir fyrst upp á því að vernda tréð sem síðan umbunaði þeim með aldininu, eða myndaði tréð aldinið fyrst fyrir maurana sem síðan þökkuðu trénu fyrir með vernd sinni? Eða gerðist hvort tveggja samtímis af tilviljun?

14. Hvernig laða blóm að sér skordýr til frævunar?

14 Mörg dæmi eru um slíka samvinnu skordýra og blóma. Skordýrin fræva blóm og blómin launa fyrir sig með frjódufti og hunangslegi handa skordýrunum. Sum blóm mynda tvenns konar frjóduft. Önnur tegundin frjóvgar frækornin; hin er ófrjó en nærir gestkomandi skordýr. Mörg blóm hafa sérstök merki og sérstakan ilm til að leiða skordýrin að hunangsleginum. Á leiðinni fræva þau blómin. Sum blóm hafa sleppibúnað sem virkar þannig að skordýrin fá frjóhnappa eins og kylfur í sig þegar þau snerta „gikkinn.“

15. Hvernig tryggir tóbakspípublómið víxlfrævun og hvaða spurningar vekur það?

15 Tóbakspípublómið, Aristolochia sipho, getur til dæmis ekki frjóvgað sig sjálft heldur þarf það að láta skordýr færa sér frjókorn frá öðru blómi. Plantan hefur pípulaga blað sem umlykur blómið og þetta blað er þakið vaxi. Skordýr, sem ilmur blómsins lokkar að, tylla sér á blaðið en renna þá eftir hálli pípunni niður í holrúm í blómbotninum. Þroskuð fræni taka þar við frjókornum sem skordýrin bera með sér og frævun á sér stað. En skordýrunum er haldið innilokuðum í þrjá daga í viðbót þangað til frjókorn blómsins hafa þroskast og sáldrast yfir þau. Þá fyrst visna hárin í pípunni, sem ásamt vaxhúðinni héldu skordýrunum innilokuðum, og blómið leggst út af þannig að pípan liggur lárétt. Skordýrin skríða út og fljúga leiðar sinnar í heimsókn til annars tóbakspípublóms með nýjar birgðir af frjókornum, til að frjóvga það. Skordýrin una vel þriggja daga innilokun sinni af því að þau gæða sér á hunangslegi sem þeim er geymdur í blóminu. Varð þetta sérkennilega samspil til af hreinni tilviljun eða stendur skynsemigæddur hönnuður að baki?

16. Hvernig fara sum blóm af brönugrasaætt að því að láta fræva sig?

16 Sumar tegundir stæliblóma af brönugrasaætt bera blóm sem líkjast flugum. Á einu þeirra, flugublóminu, líkjast krónublöðin kvendýri ákveðinnar vesputegundar, með augum, fálmurum og vængjum. Blómið lyktar meira að segja eins og kvendýr tilbúið til mökunar! Karldýr kemur til að maka sig, en frævar aðeins blómið. Annað blóm af brönugrasaætt býr til gerjaðan hunangslög sem gerir gestkomandi býflugu valta á fótunum. Henni verður fótaskortur svo að hún dettur ofan í lítið ker með vökva í, og til að komast út þarf hún að þrengja sér undir sprota sem stráir yfir hana frjódufti.

„Efnaverksmiðjur“ náttúrunnar

17. Hvernig vinna laufblöð og rætur saman að næringarnámi?

17 Hið græna lauf plantnanna nærir heiminn, beint eða óbeint. Laufið þrífst þó ekki án hjálpar örsmárra róta og rótaranga sem þrengja sér í milljónatali gegnum jarðveginn. Hver rótarangi er með hlífðarhettu eða rótarbjörg á endanum sem smurð er olíu, og rótarhár að baki rótarbjörginni sjúga í sig vatn með uppleystum steinefnum sem flutt eru eftir hárfínum pípum í safaviðnum upp til laufblaðanna. Í laufblöðunum eru myndaðar sykrur og amínósýrur og þessi næringarefni eru flutt út um allt tréð eða jurtina og niður í ræturnar.

18. (a) Hvernig kemst vatn frá rótunum upp í laufið og hvað sýnir að þetta kerfi er meira en fullnægjandi? (b) Hvað er útgufun og hvernig stuðlar hún að hringrás vatnsins?

18 Hringrásarkerfi trjáa og plantna er að sumu leyti svo undravert að margir vísindamenn skoða það sem nánast kraftaverk. Í fyrsta lagi, hvernig er vatninu dælt upp í 60 til 100 metra hæð frá jörðu? Rótarþrýstingurinn kemur því af stað, en í stofninum taka önnur öfl við. Samloðunarkraftur vatnsins hengir sameindirnar hverja við aðra þannig að þegar vatn gufar út úr laufblöðunum togast ofurgrannar vatnssúlur upp bolinn eins og reipi — reipi sem ná allt frá rótunum upp í laufblöðin og geta komist allt að 60 metra á klukkustund. Sagt er að með þessu kerfi gæti tré lyft vatni upp í þriggja kílómetra hæð frá jörðu! Með útgufun umframvatns úr laufblöðunum er milljörðum tonna af vatnsgufu komið í umferð út í andrúmsloftið til að hún geti fallið á nýjan leik til jarðar sem regnvatn — endurvinnslukerfi af fullkomnustu gerð!

19. Hvaða hlutverki þjónar sambýli baktería og róta sumra plöntutegunda?

19 En þetta er ekki allt og sumt. Laufblöðin þurfa að fá nítröt eða nítrít úr jörðinni til að geta myndað hinar nauðsynlegu amínósýrur. Eldingar og vissar bakteríur festa köfnunarefni í jarðveginum að einhverju marki. Belgjurtir — svo sem ertur, smári, baunagras og refsmári — mynda líka verulegt magn köfnunarefnissambanda. Vissar tegundir baktería fara inn í rætur þeirra. Ræturnar gefa bakteríunum kolvetni og bakteríurnar binda eða breyta köfnunarefni úr jarðveginum í nýtanleg nítröt og nítrít. Á einu ári geta þær bundið allt að 200 kílógrömm á hvern hektara.

20. (a) Hvað er ljóstillífun, hvar fer hún fram og hver skilur það ferli? (b) Hvað segir líffræðingur um hana? (c) Hvað má kalla grænu jurtirnar, í hverju eru þær framúrskarandi og hvaða spurningar eiga við?

20 Og enn er ekki öll sagan sögð. Grænu laufblöðin taka til sín sólarorku, koldíoxíð úr andrúmsloftinu og vatn frá rótum plöntunnar til að mynda sykur og gefa frá sér súrefni. Þetta er nefnt ljóstillífun og á hún sér stað í frumulíffærum sem kallast grænukorn. Þau eru svo smá að 400.000 kæmust fyrir í punktinum við lok þessarar setningar. Vísindamenn skilja þetta ferli ekki fullkomlega. „Í ljóstillífun eiga sér stað um sjötíu aðskildar efnabreytingar,“ segir líffræðingur einn. „Hún er hreint kraftaverk.“⁠12 Grænu jurtirnar hafa verið nefndar „efnaverksmiðjur“ náttúrunnar — þær eru fallegar, hljóðlátar, menga ekki, framleiða súrefni, endurvinna vatn og næra heiminn. Urðu þær til af hreinustu tilviljun? Er það í sannleika trúlegt?

21, 22. (a) Hvað sögðu tveir frægir vísindamenn um þá vitsmuni sem birtast í heimi náttúrunnar? (b) Hver eru rök Biblíunnar í málinu?

21 Sumir af frægustu vísindamönnum veraldar hafa átt erfitt með að trúa því. Þeir sjá mikla greind speglast í ríki náttúrunnar. Robert A. Millikan, sem fékk nóbelsverðlaun í eðlisfræði, trúði á þróunarkenninguna en sagði þó á fundi Ameríska eðlisfræðifélagsins: „Einhver guðdómur mótar örlög okkar . . . Hrein efnishyggja er að mínu mati hámark heimskunnar. Vitrir menn allra alda hafa alltaf séð nóg til að fyllast að minnsta kosti lotningu.“ Í ræðu sinni vitnaði hann í þekkt orð Alberts Einsteins þess efnis að hann hafi „auðmjúkur í bragði reynt að skilja aðeins óendanlega smátt brot þeirra vitsmuna sem birtast í náttúrunni.“⁠13

22 Hin endalausa fjölbreytni og ótrúlega margbrotna gerð lífheimsins ber öll merki þess að gífurlegir vitsmunir búi að baki gerð hans. Þessi niðurstaða er einnig látin í ljós í Biblíunni þar sem slík hönnun er eignuð skapara. Um hann er sagt: „Hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. Mennirnir eru því án afsökunar.“ — Rómverjabréfið 1:20.

23. Að hvaða skynsamlegri niðurstöðu komst sálmaritari Biblíunnar?

23 Úr því að lífheimurinn í kringum okkur ber svo mörg merki markvissrar hönnunar virðast þeir vera „án afsökunar“ sem segja að stefnulaus tilviljun hafi ráðið gerð hans. Það var því vissulega ekki óskynsamlegt af sálmaritaranum að gefa vitrum skapara heiðurinn: „Hversu mörg eru verk þín, [Jehóva], þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað. Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.“ — Sálmur 104:24, 25.

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 151]

„Í ljóstillífun eiga sér stað um sjötíu aðskildar efnabreytingar. Hún er hreint kraftaverk.“

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 148, 149]

Hin furðulega gerð frækorna

Fræ þroskast og ferðbúast!

Fjölbreyttum og snjöllum aðferðum er beitt til að koma fræjum út í heiminn! Fræ brönugrasanna eru svo létt að þau berast eins og ryk með vindinum. Fræ fífilsins eru búin fallhlíf. Hlynurinn ber fræ með vængjum sem flögra burt eins og fiðrildi. Sumar vatnaplöntur búa fræ sín flotholtum svo að þau geti siglt sína leið.

Sumar plöntur hafa fræbelgi sem opnast snöggt og skjóta fræjunum út í loftið. Nornahesliviður lætur fræhýðið klemma hál fræin þangað til þau skjótast frá ávextinum út í buskann. Þeytigúrkan beitir vökvaþenslu. Eftir því sem aldinið vex þykknar hýðið inn á við og þrýstingur eykst á vökvanum sem er í því miðju. Þegar fræin verða fullþroska er þrýstingur orðinn svo mikill að aldinið spýtir stilknum út úr sér eins og tappa úr flösku og fræin sprautast út.

[Myndir]

Fífill

Hlynur

Þeytigúrka

Fræ sem mæla úrkomu

Fræ sumra einærra eyðimerkurplantna spíra ekki fyrr en úrkoma nemur 10 millimetrum eða meiru. Þau virðast líka bera skyn á það úr hvaða átt vatnið kemur — ef það rignir ofan frá spíra þau, en ef þau rennblotna neðan frá spíra þau ekki. Í jarðveginum eru sölt sem koma í veg fyrir að fræin spíri. Það þarf regn ofan að til að skola söltunum burt. Vatn, sem kemur neðan frá, gerir það ekki.

Ef þessar einæru eyðimerkurplöntur byrjuðu að vaxa eftir litla regnskúr myndu þær deyja. Það þarf mikla rigningu til að bleyta jarðveginn nógu mikið svo að plönturnar lifi af þurrkatíma síðar meir. Þess vegna bíða þær slíkrar rigningar. Tilviljun — eða hönnun?

Risi í smáum pakka

Inn í eitt af smæstu fræjunum er pakkað stærstu lífveru jarðar — risafurunni. Hún verður yfir 100 metrar á hæð og í rúmlega eins metra hæð frá jörðu getur stofninn verið 10 metrar í þvermál. Úr einu tré myndi fást nægilegt timbur í 50 sex herbergja hús. Börkurinn, sem er um 60 sentimetra þykkur, inniheldur barksýru sem fælir frá skordýr. Hann er svampkenndur og trefjóttur sem gerir hann næstum jafneldtraustan og asbest. Ræturnar ná yfir allt að einum og hálfum hektara. Tréð lifir í meira en 3000 ár.

Samt eru fræin, sem risafuran lætur rigna til jarðar í milljónatali, lítið stærri en títuprjónshaus að viðbættum örsmáum vængjum. Maður, sem stendur smár við rætur risafurunnar, getur lítið annað en horft upp fyrir sig með djúpri lotningu á þennan tignarlega, sterkbyggða risa. Er skynsamlegt að trúa því að yfirveguð hönnun hafi ekki ráðið tilurð og gerð þessa tígurlega trés og hins agnarsmáa fræs sem því er pakkað í?

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 150]

Tónsnillingar

Hermikrákan er fræg fyrir að herma eftir öðrum fuglum. Þess eru dæmi að hermikráka hafi hermt eftir 55 öðrum fuglum á einni klukkustund. Það er þó hið frumsamda, hreimfagra tónaflóð hermikrákunnar sem heillar menn. Vissulega lætur hún sér ekki nægja þá fáu, einföldu tóna sem þarf til að helga sér yfirráðasvæði. Syngur hún sjálfri sér til ánægju — og okkur?

Söngrindillinn í Suður-Ameríku er ekki síður undraverður. Hjón syngja tvísöng eins og algengt er meðal hitabeltisfugla, en söngrindilshjónin gera það á sérstæðan hátt. Heimildarrit segir: „Kven- og karlfuglinn syngja annaðhvort sömu lögin saman, sitt hvort lagið ellegar hluta sama lags til skiptis. Oft eru þeir svo taktvísir að söngurinn hljómar líkt og kæmi hann frá einum fugli.“⁠a Hrein unun er að hlusta á þetta samtal í blíðum tónum milli söngrindilshjónanna. Er hæfileiki þeirra tóm slysni?

[Myndir á blaðsíðu 142]

Þetta á sér hönnuð . . .

. . . en þetta ekki?

[Myndir á blaðsíðu 143]

Kísilþörungar

Stoðgrindur úr gleri hjá smásæjum plöntum eru í mörgum myndum.

[Myndir á blaðsíðu 144]

Geislungar: Dæmi um listrænar stoðgrindur úr gleri hjá smásæju dýri.

Blómakarfa Venusar

[Mynd á blaðsíðu 145]

Mörg blóm hafa vegvísa sem sýna skordýrum hvar hunangslögur sé falinn.

[Myndir á blaðsíðu 146]

Sum blóm hafa vaxbornar rennibrautir til að veiða skordýr í gildru svo að frævun geti farið fram.

Hvers vegna líkist blóm þessa brönugrass kvendýri ákveðinnar vesputegundar?

[Mynd á blaðsíðu 147]

Sagt er að samloðunarkraftur vatnssameinda gæti lyft vatnssúlu í tré upp í þriggja kílómetra hæð!