Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað segir sköpunarsaga Biblíunnar?

Hvað segir sköpunarsaga Biblíunnar?

3. kafli

Hvað segir sköpunarsaga Biblíunnar?

1. (a) Hver er tilgangur þessarar umfjöllunar um sköpunarsögu Biblíunnar og hvað ber að hafa í huga? (b) Með hvaða hætti er fjallað um atburðina í fyrsta kafla Biblíunnar?

 EINS og annað sem er misskilið eða mistúlkað verðskuldar fyrsti kafli Biblíunnar að minnsta kosti að á hann sé hlustað. Rétt er að kynna sér efni hans til að ganga úr skugga um hvort það kemur heim og saman við þekktar staðreyndir, en ekki til að reyna að láta það falla inn í fyrirfram ákveðinn hugmyndaramma. Auk þess ber að hafa hugfast að sköpunarsaga 1. Mósebókar var ekki skrifuð til að lýsa því hvernig sköpun efnisheimsins fór fram. Hún fjallar einungis um meginatriði sköpunarinnar lið fyrir lið, lýsir því hvað varð til, í hvaða röð það var myndað og á hvaða tímabili eða „degi“ það átti sér stað.

2. (a) Frá hvaða sjónarhóli er atburðunum lýst í sköpunarsögunni? (b) Hvernig má sjá það af lýsingu hennar á himintunglunum?

2 Þegar frásaga 1. Mósebókar er skoðuð er gagnlegt að hafa í huga að hún segir söguna frá viðhorfi manna. Hún lýsir atburðunum eins og þeir hefðu horft við mönnum á jörðinni, hefðu þeir verið þar. Það má sjá af lýsingu hennar á atburðum fjórða „dagsins.“ Þar er sólu og tungli lýst sem stórum ljósgjöfum í samanburði við stjörnurnar. Margar stjörnur eru þó langtum stærri en sólin okkar, og tunglið er óverulegt í samanburði við þær. En frá viðhorfi manns á jörðinni er annað að sjá; fyrir hann er sólin ‚hið stærra ljósið er ræður degi‘ og tunglið ‚hið minna ljósið sem ræður nóttu.‘ — 1. Mósebók 1:14-18.

3. Hvernig er jörðinni lýst fyrir fyrsta „daginn“?

3 Upphafsorð 1. Mósebókar gefa til kynna að jörðin kunni að hafa verið til um ármilljarða áður en fyrsti „dagur“ sköpunarinnar rann upp, þótt hún láti ósagt hve langur tími það var. Hins vegar lýsir hún hvernig jörðin var rétt áður en hinn fyrsti „dagur“ hófst: „Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum.“ — 1. Mósebók 1:2.

Hve langur er „dagurinn“?

4. Hvað kemur fram í sjálfri sköpunarsögunni sem gefur til kynna að orðið „dagur“ sé ekki bara 24 stunda tímabil?

4 Margir álíta að orðið „dagur“ sé í 1. kafla 1. Mósebókar notað í merkingunni sólarhringur eða 24 klukkustundir. En jafnvel í 1. Mósebók 1:5 er Guð sagður hafa skipt deginum í smærri einingar og kallað hinn bjarta hluta sólarhringsins „dag.“ Í 1. Mósebók 2:4 eru öll sköpunartímabilin nefnd einn „dagur“: „Þetta er saga himins og jarðar þegar þau voru sköpuð, á þeim degi [öll sköpunartímabilin sex] er Jehóva Guð gerði jörð og himin.“ — New World Translation.

5. Hver er ein af merkingum hebreska orðsins, sem þýtt er „dagur,“ og hvað sýnir það?

5 Hebreska orðið johm, þýtt „dagur,“ getur merkt mislöng tímabil. Í fræðiritinu Old Testament Word Studies eftir William Wilson eru nefndir eftirfarandi merkingarmöguleikar: „Dagur; oft notað almennt um tíma eða um langt tímabil; allt tímabilið sem til umræðu er . . . dagur getur líka verið ákveðið skeið er sérstakir atburðir gerast.“⁠1 Síðastnefnda merkingin virðist eiga vel við sköpunardagana, því segja má með sanni að þeir hafi verið tímabil eða skeið þegar sérstakir atburðir áttu sér stað. Það gefur líka möguleika á langtum lengri tímabilum en sólarhring.

6. Hvers vegna þarf það ekki að takmarka „daginn“ við 24 stundir þótt minnst sé á „kveld“ og ‚morgun‘?

6 Í 1. kafla 1. Mósebókar eru notuð orðin „kveld“ og „morgunn“ í sambandi við sköpunartímabilin. Gefur það ekki til kynna að þau hafi verið sólarhringur að lengd? Svo þarf ekki að vera. Stundum segja menn: „Eftir minn dag . . . “ og eiga þá við heila mannsævi sem „dag.“ Þessum ævidegi er síðan skipt niður í tímabil og oft talað um „ævikvöld“ og „morgun lífsins.“ Og oft nota menn orðalagið „í dag“ um nútímann, án nánari skilgreiningar á tímalengdinni. ‚Kveld og morgunn‘ í 1. kafla 1. Mósebókar þarf því ekki að takmarka merkingu orðsins „dagur“ við sólarhring.

7. Af hvaða öðrum dæmum má sjá að „dagur“ getur verið lengri en 24 stundir?

7 Orðið „dagur,“ eins og það er notað í Biblíunni, getur náð yfir sumar og vetur, það er að segja árstíðirnar. (Sakaría 14:8) Í „uppskerudeginum“ eru margir dagar. (Samanber Orðskviðina 25:13 og 1. Mósebók 30:14 samkvæmt New World Translation.) Þúsund árum er líkt við einn dag. (Sálmur 90:4; 2. Pétursbréf 3:8, 10) „Dómsdagur“ nær yfir margra ára tímabil. (Matteus 10:15; 11:22-24) Það er bæði rökrétt og eðlilegt að ætla að „dagarnir“ í 1. Mósebók séu löng tímabil — þúsundir ára. En hvað gerðist á þessum sköpunartímabilum? Er frásaga Biblíunnar af atburðum þeirra vísindalega rétt? Við skulum renna yfir atburði þessara „daga“ eins og 1. Mósebók lýsir þeim.

Fyrsti „dagur“

8, 9. Hvað gerðist á fyrsta „degi“ og ber að skilja það svo að sólin og tunglið hafi verið sköpuð þá?

8 „‚Verði ljós!‘ Og það varð ljós. Og Guð kallaði ljósið dag, en myrkrið kallaði hann nótt. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur.“ — 1. Mósebók 1:3, 5.

9 Að sjálfsögðu voru sólin og tunglið til úti í geimnum löngu áður en þessi fyrsti „dagur“ rann upp, en ljósið frá þeim náði ekki niður til yfirborðs jarðar svo að séð yrði þaðan. En núna, á þessum fyrsta „degi,“ varð ljósið sýnilegt frá jörðu séð þannig að dagur og nótt tóku að skiptast á vegna möndulsnúnings jarðar.

10. Hvernig kann þetta ljós að hafa birst og hvers konar birtu er þar um að ræða?

10 Bersýnilega birtist ljósið smátt og smátt á löngum tíma, ekki á augabragði eins og kveikt væri á ljósaperu. Þýðing J. W. Watts á 1. Mósebók gefur það til kynna en hún orðar versið svo: „Og smám saman varð ljósið til.“ (A Distinctive Translation of Genesis) Þetta ljós kom frá sólinni, þótt sólin sjálf væri enn ósýnileg í gegnum skýjahuluna. Ljósið, sem náði til jarðar, var því „dreift ljós“ eins og gefið er til kynna í athugasemd við 3. versið í þýðingu Rotherhams á Biblíunni, Emphasised Bible. — Sjá neðanmálsathugasemd b við vers 14.

Annar „dagur“

11, 12. (a) Hvað gerðist á öðrum „degi“? (b) Hvað merkir hebreska orðið, sem er notað um það er þá gerðist, og hvernig er það stundum ranglega þýtt?

11 „‚Verði festing milli vatnanna, og hún greini vötn frá vötnum.‘ Þá gjörði Guð festinguna og greindi vötnin, sem voru undir festingunni, frá þeim vötnum, sem voru yfir henni. Og það varð svo. Og Guð kallaði festinguna himin.“ — 1. Mósebók 1:6-8.

12 Í mörgum þýðingum Biblíunnar (svo sem hinni íslensku) er notað orðið „festing“ eða „hvelfing“ í stað orðsins „víðátta“ sem réttara er. Á því er byggð sú staðhæfing að sköpunarsaga Biblíunnar sæki margt í sköpunargoðsögur fornþjóða, þar sem þessari „festingu“ er lýst sem málmhvelfingu. En jafnvel hin enska King James-þýðing Biblíunnar, sem notar orðið „festing,“ segir „víðátta“ í spássíutexta, enda merkir hebreska orðið raqiaʽ, sem notað er í frumtextanum, að þenja, breiða eða teygja út.

13. Hvernig kann þessi atburður að hafa litið út frá jörðu séð?

13 Sköpunarsaga Biblíunnar segir að Guð hafi gert þetta, en ekki hvernig hann fór að því. En hvernig sem þessi aðskilnaður vatnanna átti sér stað hefur verið svo að sjá sem ‚vötnunum yfir‘ víðáttunni hafi verið lyft upp frá jörðinni. Og fuglar voru síðar sagðir fljúga um „víðáttu himinsins“ eins og segir í 1. Mósebók 1:20, New World Translation.

Þriðji „dagur“

14. Hvernig er þriðja „degi“ lýst?

14 „‚Safnist vötnin undir himninum í einn stað, svo að þurrlendið sjáist.‘ Og það varð svo. Guð kallaði þurrlendið jörð, en safn vatnanna kallaði hann sjó.“ (1. Mósebók 1:9, 10) Sem fyrr er ósagt látið hvernig þetta gerðist, en vafalaust hafa verið miklar hræringar í jarðskorpunni samfara myndun þurrlendis. Jarðfræðingar skýra slík umbrot með einhvers konar hamfarakenningum, en 1. Mósebók segir að skaparinn hafi stýrt og stjórnað þeim breytingum sem urðu.

15, 16. (a) Á hverju var athygli Jobs vakin í sambandi við jörðina? (b) Hve djúpt ná rætur meginlanda og fjalla og hverju má líkja við „hornstein“ jarðar?

15 Í frásögn Biblíunnar af því er Guð spyr Job út úr um þekkingu hans á jörðinni koma fram ýmis fróðleiksatriði tengd jarðsögunni: um mál jarðar, skýjamassa og höf, og að þurrlendið hafi sett hafbylgjunum skorður — ýmis almenn atriði um sköpunina sem spanna langt tímabil. Meðal annars er jörðinni þar líkt við byggingu og segir Biblían Guð hafa spurt Job: „Á hvað var stólpum hennar hleypt niður, eða hver lagði hornstein hennar?“ — Jobsbók 38:6.

16 Athyglisvert er að jarðskorpan er mun þykkri undir meginlöndunum en höfunum, og þá sérstaklega undir fjallgörðum, og teygir sig djúpt niður í jarðmöttulinn líkt og trjárætur í jarðvegi eða líkt og ‚stólpar‘ eða sökklar undir byggingu. „Sú hugmynd að fjöll og meginlönd eigi sér rætur hefur verið sannprófuð aftur og aftur og reynst rétt,“ segir í Putnam’s Geology.2 Undir höfunum er jarðskorpan aðeins um 8 kílómetrar á þykkt, en rætur meginlandanna teygja sig um 30 kílómetra niður í jarðmöttulinn og rætur fjallanna um tvöfalt dýpra. Öll jarðlögin þrýsta úr öllum áttum á jarðkjarnann sem er eins og risastór „hornsteinn“ er allt hvílir á.

17. Hverju er mikilvægt að veita athygli í sambandi við tilkomu þurrlendis?

17 Hvernig svo sem skaparinn fór að því að lyfta upp þurrlendinu er aðalatriðið þetta: Bæði Biblían og vísindin viðurkenna þetta sem einn af atburðum jarðsögunnar.

Landjurtir á þriðja „degi“

18, 19. (a) Hvað annað en þurrlendi birtist á þriðja „degi“? (b) Hvað nefnir frásagan ekki?

18 Frásögn Biblíunnar heldur áfram: „‚Láti jörðin af sér spretta græn grös, sáðjurtir og aldintré, sem hvert beri ávöxt eftir sinni tegund með sæði í á jörðinni.‘ Og það varð svo.“ — 1. Mósebók 1:11.

19 Undir lok þessa þriðja sköpunartímabils var því búið að skapa þrjá meginstofna landplantna. Sólarljósið, þótt dreift væri, hlýtur þá að hafa verið orðið nægilega sterkt til að ljóstillífun, sem er nauðsynleg grænu jurtunum, gæti átt sér stað. Því má skjóta hér inn að frásagan lætur ekki getið hverrar einustu ‚tegundar‘ jurta sem kom fram á sjónarsviðið. Örverur, vatnajurtir og aðrar tegundir eru ekki nefndar sérstaklega þótt þær hafi trúlega verið skapaðar á þessum „degi.“

Fjórði „dagur“

20. Hvaða tímaskil var unnt að gera eftir að lýsandi himintungl urðu sýnileg frá jörðu?

20 „‚Verði ljós á festingu himinsins, að þau greini dag frá nóttu og séu til tákns og til að marka tíðir, daga og ár. Og þau séu ljós á festingu himinsins til að lýsa jörðina.‘ Og það varð svo. Guð gjörði tvö stóru ljósin: hið stærra ljósið til að ráða degi og hið minna ljósið til að ráða nóttu, svo og stjörnurnar.“ — 1. Mósebók 1:14-16; Sálmur 136:7-9.

21. Í hverju var ljósið á fjórða „degi“ ólíkt ljósinu á þeim fyrsta?

21 Á fyrsta „deginum“ var sagt: „Verði ljós!“ Þar er notað hebreska orðið ʼohr sem merkir ljós í almennum skilningi. Um fjórða „daginn“ er hins vegar notað hebreska orðið maʼohr sem merkir ljósgjafi. Rotherham segir í neðanmálsathugasemd við orðin „lýsandi himintungl“ sem hann notar í 14. versi í þýðingu sinni, Emphasised Bible: „Í 3. versi ʼôr [ʼohr], dreift ljós.“ Síðan bendir hann á að hebreska orðið maʼohr í 14. versi merki einhvers konar „ljósgjafa.“ Greinilegt er að á fyrsta „degi“ náði birtan að berast til jarðar, en frá jörðu séð hefði ekki verið hægt að sjá sjálfa ljósgjafana vegna skýjaþykknisins sem enn hjúpaði jörðina. Núna, á þessum fjórða „degi,“ átti sér greinilega stað breyting.

22. Hvaða atburðir fjórða „dags“ kunna að hafa greitt fyrir tilkomu dýralífs?

22 Vera kann að andrúmsloftið hafi í byrjun verið auðugt af koldíoxíði og það hafi valdið mjög heitu loftslagi um allan hnöttinn. Gróskumikill gróður á þriðja og fjórða „degi“ sköpunarinnar hefur þá að öllum líkindum tekið til sín hluta þessa koldíoxíðs sem hefur verið eins og hitateppi um jörðina. Gróðurinn hefur þá gefið frá sér súrefni sem er forsenda þess að dýralíf fái þrifist.

23. Hvaða stórar breytingar eru sagðar hafa orðið þá?

23 Frá jörðu séð hefur nú verið hægt að greina sól, tungl og stjörnur sem gátu þaðan í frá verið „til tákns og til að marka tíðir, daga og ár.“ (1. Mósebók 1:14) Tunglið gat nú mælt tunglmánuðina og sólin sólárið. Á fjórða „degi“ tók að gæta árstíðaskipta þótt vafalaust hafi verið mun minni munur á árstíðum þá en síðar varð. — 1. Mósebók 1:15; 8:20-22.

Fimmti „dagur“

24. Hvers konar skepnur eru sagðar hafa komið fram á fimmta „degi,“ og innan hvaða marka áttu þær að tímgast?

24 „‚Vötnin verði kvik af lifandi skepnum, og fuglar fljúgi yfir jörðina undir festingu himinsins.‘ Þá skapaði Guð hin stóru lagardýr og allar hinar lifandi skepnur, sem hrærast og vötnin eru kvik af, eftir þeirra tegund, og alla fleyga fugla eftir þeirra tegund.“ — 1. Mósebók 1:20, 21.

25. Hvað voru skepnurnar, sem komu fram á fimmta „degi,“ kallaðar?

25 Athyglisvert er að skepnurnar, sem vötnin áttu að verða kvik af, skuli á frummálinu vera nefndar „lifandi sálir.“ ‚Fuglarnir, sem flugu yfir jörðina undir festingu himinsins,‘ og aðrar lífverur í lofti og legi, svo sem hin stóru lagardýr er fundist hafa beinagrindur af á okkar tímum, hafa einnig verið nefndar „lifandi sálir.“

Sjötti „dagur“

26-28. Hvað gerðist á sjötta „degi“ og hvað var sérstakt við síðustu sköpunarathöfnina?

26 „‚Jörðin leiði fram lifandi skepnur, hverja eftir sinni tegund: fénað, skriðkvikindi og villidýr, hvert eftir sinni tegund.‘ Og það varð svo.“ — 1. Mósebók 1:24.

27 Það var því á sjötta „degi“ sem landdýrin komu fram, þau er við almennt flokkum sem villt dýr og húsdýr. En þessi síðasti „dagur“ var ekki á enda. Síðasta og merkilegasta „tegundin“ var ókomin:

28 „‚Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni.‘ Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.“ — 1. Mósebók 1:26, 27.

29, 30. Hvernig má skýra mismuninn á frásögu 1. og 2. kafla 1. Mósebókar?

29 Annar kafli 1. Mósebókar bætir nokkrum smáatriðum við þessa frásögu. Hann segir hins vegar ekki aðra sköpunarsögu er stangast á við þá sem 1. kaflinn segir, eins og sumir hafa haldið fram. Hann tekur þráðinn einfaldlega upp á þriðja „degi,“ eftir að þurrlendið var komið fram en áður en landjurtir voru skapaðar, og bætir við ýmsum smáatriðum varðandi tilurð Adams sem var lifandi sál, aldingarðsins Eden sem var heimili hans, og eiginkonunnar Evu. — 1. Mósebók 2:5-9, 15-18, 21, 22.

30 Það sem á undan er komið er sett hér fram til að við getum glöggvað okkur betur á því hvað 1. Mósebók segir. Og þessi mjög svo raunsæja frásaga gefur til kynna að sköpunin hafi tekið yfir tímabil sem ekki var aðeins 144 (6 × 24) stundir heldur margar árþúsundir.

Hvernig vissi Móse þetta?

31. (a) Hverju halda sumir fram um sköpunarsögu Biblíunnar? (b) Hvað sýnir að staðhæfingar þeirra eru rangar?

31 Mörgum þykir erfitt að viðurkenna þessa sköpunarsögu. Sumir staðhæfa að hún sé byggð á sköpunargoðsögum ýmissa fornþjóða, einkanlega goðsögum frá Forn-Babýlon. En nýleg biblíuorðabók segir: „Engin goðsaga hefur enn fundist sem fjallar skilmerkilega um sköpun alheimsins“ og allar goðsögurnar „einkennast af fjölgyðistrú og baráttu guðanna um æðstu yfirráð, sem er áberandi ólíkt hebresku eingyðistrúnni í [1. Mósebók, kafla] 1-2.“⁠3 Í riti gefnu út af stjórn Breska þjóðminjasafnsins (British Museum) í Lundúnum segir um babýlonsku sköpunargoðsögurnar: „Grundvallarhugmyndir hinna babýlonsku og hebresku frásagna eru í meginatriðum ólíkar.“⁠4

32. Hvernig hefur sannast að sköpunarsaga Biblíunnar er vísindalega nákvæm?

32 Af því sem skoðað hefur verið er ljóst að sköpunarsaga Biblíunnar er vísindalega rétt og nákvæm. Hún lætur í ljós að megintegundir jurta- og dýraríkisins, með öllum sínum mörgu afbrigðum, tímgist aðeins „eftir sinni tegund.“ Steingervingaskráin staðfestir það og sýnir meira að segja að hver „tegund“ birtist skyndilega í jarðsögunni. Engin merki finnast um millitegundir er tengja þær öðrum fyrri „tegundum“ en svo ætti að vera ef þróunarkenningin væri sönn.

33. Hvaðan hlýtur vitneskjan í sköpunarsögu Biblíunnar að vera komin?

33 Öll speki vitringa Egyptalands hefði ekki getað gefið Móse, sem skrifaði 1. Mósebók, minnstu vísbendingar um sköpunarferlið. Sköpunargoðsögur fornþjóðanna eru ekki hið minnsta keimlíkar þeirri sem Móse skráði. Hvar gat þá Móse fengið alla þessa vitneskju? Bersýnilega frá aðila sem var á sjónarsviðinu þegar sköpunin fór fram.

34. Hvaða önnur rök skjóta stoðum undir áreiðanleika frásögunnar í 1. Mósebók?

34 Auðvelt er að sýna fram á með líkindareikningi að sköpunarsaga Biblíunnar sé komin frá aðila sem þekkti atburðarásina. Hún nefnir tíu meginatriði í eftirfarandi röð. Þau eru: (1) upphaf; (2) frumjörð hulin myrkri og hjúpuð þungum lofttegundum og vatni; (3) ljós; (4) víðátta eða andrúmsloft; (5) stór þurrlendissvæði; (6) landjurtir; (7) sól, tungl og stjörnur sýnileg frá jörðu, árstíðaskipti byrja; (8) lagardýr og fuglar; (9) villidýr og fénaður, spendýr; (10) maðurinn. Vísindunum og sköpunarsögunni ber saman um þessa röð. Hvaða líkur eru á að ritara 1. Mósebókar hefði tekist að geta sér til um röðina? Þær hinar sömu og þér tækist að draga tölurnar 1 til 10 af handahófi í réttri röð úr kassa með tíu númeruðum kubbum í. Líkurnar á því að þér tækist það í fyrstu tilraun eru 1 á móti 3.628.800! Það er því fráleitt að láta sér detta í hug að ritara bókarinnar hafi af hreinni tilviljun heppnast að greina frá atburðunum í réttri röð, án þess að fá vitneskju annars staðar frá.

35. Hvaða spurningum er varpað hér fram og hvar verður fjallað um þær?

35 Þróunarkenningin gerir hins vegar ekki ráð fyrir að til sé skapari sem hafi verið viðstaddur sköpunina, þekkt öll málsatvik og getað opinberað þau mönnum. Þess í stað ætlar hún lífinu og lifandi verum að hafa kviknað af sjálfu sér af lífvana efnasamböndum. Er hugsanlegt að tilviljunarkenndar efnabreytingar hafi getað skapað líf án þess að einhver stjórnaði ferli þeirra? Eru vísindamenn sjálfir sannfærðir um að það geti gerst? Um það verður fjallað í næsta kafla.

Spurningar

[Rammi á blaðsíðu 25]

Sköpunarsaga Biblíunnar lýsir atburðunum eins og þeir litu út frá jörðu.

[Rammi á blaðsíðu 36]

Steingervingaskráin staðfestir að lifandi verur tímgast aðeins „eftir sinni tegund.“

[Rammi á blaðsíðu 35]

Babýlonska sköpunargoðsagan sem sumir halda fram að sköpunarsaga Biblíunnar sé byggð á:

Guðinn Apsú og gyðjan Tíamat mynduðu aðra guði.

Síðar þjörmuðu þessir guðir að Apsú og reyndi hann að drepa þá, en féll sjálfur fyrir guðinum Ea.

Tíamat hugði á hefndir og reyndi að drepa Ea en í staðinn réði Mardúk, sonur Ea, niðurlögum hennar.

Mardúk klauf líkama hennar í tvennt og gerði himininn úr öðrum helmingnum en jörðina úr hinum.

Síðan myndaði Mardúk, með hjálp Ea, mannkynið úr blóði annars guðs er Kingu hét.⁠a

Finnst þér eitthvað líkt með þessari goðsögn og sköpunarsögu Biblíunnar?

[Rammi á blaðsíðu 36]

Kunnur jarðfræðingur lét þessi orð falla um sköpunarsögu Biblíunnar:

„Ef ég sem jarðfræðingur fengi það verkefni að greina óbreyttum hirðingjum, eins og ættbálkunum sem 1. Mósebók var skrifuð fyrir, í stuttu máli frá nútímahugmyndum um uppruna jarðar og tilurð lífs á henni, gæti ég tæplega gert betur en að halda mig í stórum dráttum við orðfæri fyrsta kaflans í 1. Mósebók.“⁠b Þessi jarðfræðingur, Wallace Pratt, getur þess einnig að atburðaröðin sé í meginatriðum samstíga þeim tímabilum sem jarðfræðingar skipta jarðsögunni í — höfin komu fyrst, síðan kom þurrlendið í ljós, þar næst kom lífið fram í hafinu og síðan fuglar og spendýr.

[Mynd á blaðsíðu 27]

1. dagur: „Verði ljós!“

[Mynd á blaðsíðu 28]

2. dagur: ‚Verði víðátta.‘

[Mynd á blaðsíðu 29]

3. dagur: „Þurrlendið sjáist.“

[Mynd á blaðsíðu 30]

3. dagur: „Láti jörðin af sér spretta græn grös.“

[Mynd á blaðsíðu 31]

4. dagur: ‚Verði lýsandi himintungl á víðáttu himinsins, hið stærra til að ráða degi og hið minna til að ráða nóttu.‘

[Mynd á blaðsíðu 32]

5. dagur: „Vötnin verði kvik af lifandi skepnum, og fuglar fljúgi yfir jörðina.“

[Mynd á blaðsíðu 33]

6. dagur: ‚Fénaður og villidýr hvert eftir sinni tegund.‘

[Mynd á blaðsíðu 34]

6. dagur: „Hann skapaði þau karl og konu.“

[Mynd á blaðsíðu 37]

Líkurnar á að þetta takist í fyrstu tilraun eru 1 á móti 3.628.800.