Hvað velur þú?
20. kafli
Hvað velur þú?
1, 2. (a) Hvernig snertir ‚fagnaðarerindið‘ milljónir nútímamanna? (b) Hvernig var þessi samansöfnun fólks um allan heim sögð fyrir?
ÞEGAR Guðsríki hefur tekið völd verður jörðinni breytt í paradís. Það eru góðar fréttir sem allir menn þurfa að heyra. Jesús spáði því að tímabilið rétt áður en ‚endirinn kæmi‘ myndi meðal annars einkennast af því að „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ yrði prédikað fyrir fólki um gjörvalla jörðina. (Matteus 24:14) Núna eru vottar Jehóva að því í milljónatali. Þeir segja öðrum milljónum frá þessum fagnaðartíðindum, sem taka þá að kynna sér Biblíuna vandlega og slást síðan í lið með þeim.
2 Biblían sagði fyrir þetta mikla fræðslustarf sem nú fer fram um allan heim, en með því er safnað saman fólki úr öllum þjóðum. Spádómur Jesaja sagði um hina síðustu daga: ‚Tilbeiðslan á Jehóva mun verða tryggilega grundvölluð og menn úr öllum þjóðum streyma til hennar. Jehóva mun kenna þeim sína vegu og þeir munu ganga á hans stigum.‘ — Jesaja 2:2-4; sjá einnig Jesaja 60:22; Sakaría 8:20-23.
3. Hvaða aðgreiningu veldur boðskapurinn um Guðsríki?
3 Boðun Guðsríkis um víða veröld hefur í för með sér mjög skýra aðgreiningu manna. Á táknmáli sagði Jesús fyrir það sem gerast myndi á okkar dögum. „Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.“ Þeim sem verða samstíga tilgangi skaparans er líkt við sauði. Þeim sem halda áfram að fara eigin leiðir er líkt við hafra. Jesús sagði að örlög ‚sauðanna‘ yrðu ‚eilíft líf‘ en ‚hafrarnir‘ myndu fara til „eilífrar refsingar“ eða afnáms. — Matteus 25:32-46.
Skiptu ekki á sannleikanum fyrir lygi
4. (a) Hvað er bráðnauðsynlegt ef við viljum halda áfram að lifa? (b) Í flokk með hverju verður að skipa þróunarkenningunni samkvæmt Biblíunni?
4 Það hefur úrslitaþýðingu fyrir framtíð okkar hvort við samræmum líf okkar tilgangi Guðs eða gerum það ekki, því að hjá honum er „uppspretta lífsins.“ (Sálmur 36:10) Við ættum því ekki að ánetjast heimspeki eða kenningum sem eru gagnstæðar veruleikanum. Rómverjabréfið 1:25 talar um þá sem „hafa skipt á sannleika Guðs og lyginni og göfgað og dýrkað hið skapaða í stað skaparans.“ Eins og við höfum séð gengur þróunarkenningin í berhögg við veruleikann, já, hún er í reynd ‚lygi.‘ Í ljósi fyrirliggjandi gagna eru þeir menn því „án afsökunar“ sem skipta á sannleikanum um skaparann og slíkri ‚lygi,‘ eins og það er orðað í Rómverjabréfinu 1:20.
5, 6. (a) Hvernig er trú manna á þróunarkenninguna til komin? (b) Hvers vegna hefur hún náð slíkri útbreiðslu á okkar tímum? (c) Hvaða augum ættum við að líta málið?
5 Þú þarft ekki að vera hissa á því að þróunarkenningin skuli njóta jafnalmennrar viðurkenningar nú á tímum og raun ber vitni, þrátt fyrir allt það sem afsannar hana. Kjarni boðskaparins í þessari kenningu er sá að enginn Guð sé til, hann sé óþarfur. Hvaðan getur slík foráttulygi verið komin? Jesús benti á frumkvöðul hennar er hann sagði: ‚Djöfullinn er lygari og lyginnar faðir.‘ — Jóhannes 8:44.
6 Við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd að þróunarkenningin þjónar tilgangi Satans. Hann vill að fólk líki eftir sér, og Adam og Evu, í uppreisn gegn Guði. Einkum sækir hann það fast núna því að hann hefur aðeins „nauman tíma“ eftir. (Opinberunarbókin 12:9-12) Með því að trúa á þróunarkenninguna eru menn að þjóna hagsmunum hans og blinda sjálfa sig fyrir stórkostlegum tilgangi skaparans. Hvaða augum ættum við þá að líta málið? Við verðum réttilega sárreið hverjum þeim sem reynir að svíkja út úr okkur fé eða jafnvel fáeinar efnislegar eigur. Við ættum að finna til enn magnaðri gremju gagnvart þróunarkenningunni og frumkvöðli hennar, því að markmiðið er að svíkja okkur um eilíft líf. — 1. Pétursbréf 5:8.
Allir skulu vita það
7. Hvað segist skaparinn munu gera varðandi sjálfan sig og nafn sitt?
7 Bráðlega munu allir menn vita að til er skapari. Hann lýsir yfir: „Ég mun helga mitt hið mikla nafn, sem vanhelgað var meðal þjóðanna, . . . til þess að þjóðirnar viðurkenni að ég er [Jehóva].“ (Esekíel 36:23) Já, allir munu viðurkenna að „Jehóva er Guð. Það er hann sem hefur skapað okkur en ekki við sjálfir.“ — Sálmur 100:3, New World Translation.
8. Hvernig ætlar Jehóva að snúa sér gegn þjóðunum innan skamms?
8 Þjóðirnar munu fá að kynnast því að Jehóva er skaparinn þegar hann snýr sér gegn þeim innan skamms. Það mun gerast þegar hann bindur enda á hina stórlega misheppnuðu tilraun manna til að spjara sig óháðir Guði. Þá mun eftirfarandi gerast: „Fyrir reiði hans nötrar jörðin, og þjóðirnar fá eigi þolað gremi hans.“ „Þeir guðir, sem ekki hafa skapað himin og jörð, munu hverfa af jörðinni og undan himninum.“ — Jeremía 10:10, 11; sjá einnig Opinberunarbókina 19:11-21.
9. (a) Hvers vegna verður þróunarkenningin ekki kennd í paradís? (b) Hvaða stórfengleg sýning á hæfni Jehóva mun sanna að hann skapaði manninn?
9 Í hinni komandi paradís verða þjóðirnar, menntakerfi þeirra og fjölmiðlar ekki til lengur. Engum manni verður því kennd þróunarkenningin þá. Þess í stað, eins og Jesaja 11:9 sýnir, verður „jörðin . . . full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ Sérhver maður fær þá slíka menntun að hann kynnist skapara sínum náið. Menn munu dást að því hvernig hann hefur látið tilgangi sínum vinda fram í fortíðinni. Þeir munu sjá framtíðarverk hans í paradís og hrífast af þeim. Eitt hinna stórkostlegu verka hans verður upprisan. Hún mun endanlega sýna svo ekki verður um villst að Guð skapaði manninn. Hvernig þá? Á þann hátt að hæfni hans til að endurskapa milljarða látinna manna sannar að hann gat skapað fyrstu mannlegu hjónin.
Þitt er valið
10. Hvaða spurningum verðum við að svara í ljósi þess að Jehóva hefur þegar ákveðið framtíðina?
10 Framtíðin mun ekki ráðast af einhverju tilviljunarkenndu þróunarferli. Hún hefur nú þegar verið ákveðin af skaparanum. Það er hans tilgangur sem verður að veruleika, ekki tilgangur manna eða djöfulsins. (Jesaja 46:9-11) Í ljósi þess þarf hvert okkar að svara eftirfarandi spurningum: Hvar stend ég? Langar mig til að lifa að eilífu í réttlátri paradís? Sé svo, uppfylli ég þá kröfur Guðs til þess?
11. Fordæmi hverra verðum við að fylgja ef við viljum lifa í paradís?
11 Ef við viljum lifa að eilífu í paradís þá þurfum við að fylgja fordæmi þeirra sem virða skaparann, tilgang hans og lög. Það sýnir Biblían. Hún hvetur: „Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum, en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst.“ — Sálmur 37:37, 38.
12. (a) Hvað mun Guð ekki láta halda áfram enda þótt menn hafi frjálst val um hvað þeir gera? (b) Hvað bíður þeirra sem nota frjálsan vilja sinn til að þjóna Guði?
12 Guð hefur gefið okkur valfrelsi um það hvort við viljum þjóna honum eða ekki. Þótt hann þvingi engan til að hlýða sér mun hann heldur ekki láta illsku, þjáningar og óréttlæti halda áfram endalaust. Hann mun ekki heldur leyfa nokkrum þeim að lifa sem myndi spilla friði og hamingju hinnar komandi paradísar. Þess vegna hvetur hann menn núna til að nota frjálsan vilja sinn til að kjósa að þjóna honum. Þeir sem gera það munu sjá þennan óviðunandi heim líða undir lok og hljóta síðan þá miklu gleði að eiga þátt í að breyta jörðinni í paradís. — Sálmur 37:34.
13. Hvað ættum við að gera ef við viljum hljóta „hið sanna líf“?
13 Margir vilja að vísu ekki uppfylla kröfur Jehóva. Það er þeirra mál og þeir munu gjalda þess dýru verði. (Esekíel 33:9) En langar þig til að ‚höndla hið sanna líf‘ sem framundan er? (1. Tímóteusarbréf 6:19) Jesús benti á hvað til þyrfti er hann sagði í bæn til Guðs: „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3.
14. Hvað er hyggilegt og áríðandi að gera?
14 Það sem er því skynsamlegast og mest áríðandi að gera núna, meðan enn er tími til, er að kynna sér vilja skaparans og reyna í einlægni að lifa eftir honum. Innblásið orð hans hvetur: ‚Áður en reiðidagur Jehóva kemur yfir yður, leitið Jehóva, allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi Jehóva.‘ — Sefanía 2:2, 3.
15. Hvaða dýrleg framtíð bíður auðmjúkra manna?
15 Megir þú reynast auðmjúkur maður og beygja þig fúslega undir vilja Guðs. Hvaða framtíð átt þú þá í vændum? „Heimurinn fyrirferst,“ segir Biblían, „en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:17) Það er dýrleg framtíðarsýn — að lifa eilíflega á jörð sem verður paradís — ef þú velur rétt!
[Spurningar]
[Rammi á blaðsíðu 247]
Milljónir manna safnast til sannrar tilbeiðslu á Jehóva.
[Rammi á blaðsíðu 248]
Hvar á hugmyndin um þróun lífsins í raun upptök sín?
[Rammi á blaðsíðu 249]
Bráðlega munu allir vita að til er skapari.
[Rammi á blaðsíðu 249]
Upprisan mun sanna að Guð skapaði manninn.
[Rammi á blaðsíðu 250]
Framtíðin er nú þegar afráðin.
[Rammi á blaðsíðu 250]
Hvernig munum við nota frjálsan vilja okkar?
[Mynd á blaðsíðu 251]
Dýrleg framtíð bíður þeirra sem velja rétt.