Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Maðurinn – hið mikla kraftaverk

Maðurinn – hið mikla kraftaverk

14. kafli

Maðurinn – hið mikla kraftaverk

1. Hvað gæti virst valda heilanum miklum erfiðleikum?

 AF ÖLLUM undrum veraldar er ekkert eins stórkostlegt og mannsheilinn. Á sekúndu hverri hellast yfir hann um 100 milljónir skynboða frá skilningarvitunum. Hvernig kemst hann hjá því að drukkna í þessu upplýsingaflóði? Ef við getum aðeins hugsað um einn hlut í einu, hvernig ræður heilinn þá við allar þær milljónir boða sem honum berast á sama augnabliki? Augljóst er að hugurinn ræður ekki aðeins við þessa dembu heldur fer létt með.

2, 3. Á hvaða tvo vegu ræður heilinn við álagið?

2 Hvernig heilinn ræður við upplýsingaflóðið er aðeins eitt af hinum mörgu undrum hans. Tvennt á þar hlut að máli. Fyrst er að nefna heilastofninn þar sem er tauganet á stærð við litlafingur. Þetta tauganet er nefnt dreif. Það er eins konar umferðarstjórnstöð sem fylgist með aðkomandi skynboðum, skilur frá hin lítilvægu og velur úr þau mikilvægu sem heilabörkurinn þarf að gefa gaum. Þetta smágerða tauganet hleypir í mesta lagi nokkur hundruð skynboðum inn til vitundarinnar á sekúndu hverri.

3 Í öðru lagi virðast bylgjur, sem fara um heilann 8 til 12 sinnum á sekúndu, fínstilla athygli hans enn frekar. Þessar bylgjur valda því að með vissu millibili eykst næmi heilans og þá gefur hann gaum sterkustu skynboðunum og bregst við þeim. Talið er að með þessum bylgjum skanni eða skimi heilinn sjálfan sig og beini þannig athyglinni að því sem mestu skiptir. Það er ekki lítið sem gengur á í höfði okkar á sekúndu hverri!

Aðdáunarefni

4. Hvað segja menn enn um mannsheilann þrátt fyrir gífurlegar rannsóknir á eðli hans og starfsemi?

4 Á síðustu árum hefur vísindamönnum orðið stórkostlega ágengt í rannsóknum sínum á mannsheilanum. Þó eru uppgötvanir þeirra næsta litlar í samanburði við það sem enn er óþekkt. Haft er eftir rannsóknarmanni að eftir nokkur þúsund ára vangaveltur og miklar vísindarannsóknir síðustu áratuga sé mannsheilinn ásamt alheiminum enn „að mestu leyti ráðgáta.“⁠1 Mannsheilinn er tvímælalaust dularfyllsti hluti þess kraftaverks sem maðurinn er — kraftaverks sem ástæða er til að undrast yfir og dást að.

5. Hvað viðvíkjandi vexti og þroska heilans hjá vaxandi smábarni sýnir glöggt hyldýpið milli heila manna og dýra?

5 Undrið hefst í móðurkviði. Þrem vikum eftir getnað byrja heilafrumurnar að myndast. Þær vaxa í rykkjum, stundum allt að 250.000 á mínútu. Eftir fæðingu heldur heilinn áfram að stækka og mynda tauganet sitt. Hyldýpið, sem skilur milli heilans hjá mönnum og dýrum, kemur fljótt í ljós: „Heili mannsbarnsins þrefaldast að stærð á fyrsta ári, ólíkt öllum öðrum dýrum,“ segir í bókinni The Universe Within.2 Þegar mannsheilinn hefur náð fullum vexti er samþjappað í hann um 100 milljörðum taugafrumna, nefndar taugungar, auk frumna af öðrum gerðum. Heilinn er þó aðeins 2 af hundraði líkamsþungans.

6. Hvernig berast taugaboð milli taugunga?

6 Mikilvægustu frumur heilans — taugungarnir — snertast ekki beint. Milli taugungaendanna eru bil sem nema um 1/50.000 úr millimetra og nefnast taugamót. Þessi bil eru brúuð með efnum sem nefnd eru boðefni eða efnaboðberar. Þekkt eru 30 slík efni og mörg fleiri kunna að leynast í heilanum. Á móttökuenda taugungs er skúfur smárra þráða, nefndir taugagriplur, sem taka við boðefnunum. Boðin eru síðan flutt yfir í hinn enda taugungsins eftir taugaþræði sem nefndur er taugasími. Boðin ganga eftir taugungunum sem rafboð en milli taugunga sem efnaboð. Má því segja að taugaboð séu rafefnafræðileg í eðli sínu. Öll taugaboð eru jafnsterk en styrkleiki boðanna ræðst af tíðninni sem getur orðið allt að þúsund á sekúndu.

7. Hvaða eiginleika heilans er vikið að í Biblíunni og hvað hafa vísindamenn uppgötvað sem kemur heim og saman við það?

7 Ekki er vitað með vissu hvaða lífeðlisfræðilegar breytingar verða í heilanum þegar við lærum. Tilraunir benda þó til að þegar við lærum, einkum snemma á ævinni, myndist betri tengsl milli taugunga og meira losni úr læðingi af þeim efnum sem brúa taugamótin. Áframhaldandi notkun styrkir tengslin og þannig festist betur í minni það sem menn hafa lært. „Taugabrautir, sem oft eru notaðar saman, styrkjast með einhverjum hætti,“ segir tímaritið Scientific American.3 Í þessu sambandi eru athyglisverð þau orð Biblíunnar að þroskaðir menn, „sem [hafa] jafnt og þétt tamið skilningarvitin,“ eigi auðveldara með að skilja djúptæka lærdóma. (Hebreabréfið 5:14) Rannsóknir hafa leitt í ljós að hæfileikar hugans, sem eru látnir ónotaðir, dofna smám saman. Heilinn er því eins og vöðvi; hann styrkist við notkun en slaknar við vannotkun.

8. Nefndu eina af stærstu, óráðnu gátunum viðvíkjandi heilanum.

8 Hinu mikla neti smásærra taugaþráða, sem mynda þessi tengsl í heilanum, er oft líkt við raflögn. Þeir eru lagðir af nákvæmni og natni um völundarhús sem er flóknara en við fáum skilið. En hvernig þeim er komið fyrir nákvæmlega þar sem „raflagnateikningin“ mælir fyrir um er ráðgáta. „Vafalaust,“ segir vísindamaður, „er mikilvægasta, óleysta gátan varðandi þroska heilans sú, hvernig taugungarnir mynda sérhæft tengslamynstur. . . . Flestar tengingarnar virðast nákvæmlega ákveðnar snemma á þroskaskeiðinu.“⁠4 Annar rannsóknarmaður bætir við að þessi sérstöku tengslamynstur heilans séu „algeng út um allt taugakerfið og það sé ein af hinum stóru, óráðnu gátum hvernig þessum nákvæmu tengslum sé komið á.“⁠5

9. Hve margar tengingar telja vísindamenn finnast í heilanum og hvað segir heimildarmaður um getu hans?

9 Fjöldi þessara tenginga er með ólíkindum! Hver taugungur getur myndað þúsundir tengsla við aðra taugunga. Ekki er aðeins um að ræða beinar tengingar milli taugunganna heldur líka dvergrásir beint milli taugagriplanna sjálfra. „Þessar ‚dvergrásir,‘“ segir taugasérfræðingur, „bæta alveg nýrri vídd við hugmyndir okkar um það hvernig heilinn starfar sem gerði okkur þó nógu agndofa fyrir.“⁠6 Sumir rannsóknarmenn álíta að þeir „milljarðar og aftur milljarðar taugafrumna, sem eru í mannsheilanum, myndi allt að þúsund billjónir tenginga.“⁠7 Hvað segir það um getu heilans? Carl Sagan heldur því fram að heilinn gæti geymt upplýsingar sem „myndu fylla um tuttugu milljónir bóka, álíka margar og eru í stærstu bókasöfnum heims.“⁠8

10. (a) Hvað er ólíkt með heilaberki manna og dýra og hvaða yfirburði gefur það manninum? (b) Hvað sagði rannsóknarmaður um þetta?

10 Það er heilabörkurinn sem skilur svona mjög á milli mannsins og dýranna. Hann er aðeins um hálfur sentimetri á þykkt, þakinn skorum eða fellingum og liggur þétt að höfuðkúpunni. Ef breitt væri úr honum myndi hann mælast um fjórðungur úr fermetra að flatarmáli, með um 1000 kílómetra af tengiþráðum í hverjum rúmsentimetra. Bæði er heilabörkur mannsins stærri en í nokkru dýri og auk þess er miklu stærri hluti hans óháður því að stýra athöfnum líkamans og því laus til að sinna hinum æðri hugarferlum sem greina mennina frá dýrunum. „Við erum ekki bara snjallari apar,“ segir rannsóknarmaður einn. Hugur okkar „gerir okkur að eðli til ólíka öllum öðrum lífsformum.“⁠9

Við erum þeim langtum fremri

11. Hvernig gefur heilinn okkur sveigjanlega námshæfni sem dýrin ekki hafa?

11 „Það er sérstakt við mannsheilann hversu fjölbreytta, sérhæfða starfsemi hann getur tileinkað sér,“ segir vísindamaður.⁠10 Í tölvutækni er greint á milli innbyggðra eiginleika byggða á fasttengdum rökrásum og verka sem hægt er að láta tölvu inna af hendi með breytilegum skipunum eða forritum. „Sé sama orðfæri notað um manninn,“ segir heimildarmaður, „eru fasttengdu rökrásirnar hinir meðfæddu hæfileikar eða að minnsta kosti tilhneigingar.“⁠11 Mennirnir hafa margvíslega, innbyggða hæfni til að læra en ekki lærdóminn sjálfan. Dýrin hafa aftur á móti innbyggða, eðlislæga visku en takmarkaða hæfni til að læra eitthvað nýtt.

12. Hvaða hæfni er mannsheilanum ásköpuð ólíkt dýrunum og hvaða frelsi gefur það okkur?

12 Í bókinni The Universe Within er nefnt að gáfaðasta dýrið „þroski aldrei hugann í líkingu við manninn. Það vantar nefnilega það sem við höfum: Þá forritun taugabúnaðarins sem gerir okkur kleift að mynda hugtök af því sem við sjáum, tungumál af því sem við heyrum og hugsanir af því sem við reynum.“ En við verðum að forrita heilann og nota til þess upplýsingar og áhrif frá umhverfi okkar, annars, eins og segir í bókinni, „myndi ekkert sem líkist mannshuganum þroskast. Án hins óhemjumikla reynsluinnstreymis myndi naumast vottur af vitsmunum koma fram.“⁠12 Sú geta, sem er innbyggð í mannsheilann, gerir okkur því kleift að byggja upp mannlega vitsmuni. Og ólíkt dýrunum höfum við frjálsan vilja til að móta vitsmuni okkar að eigin vild, byggða á eigin þekkingu, gildismati, tækifærum og markmiðum.

Tungumál — einstætt fyrir manninn

13, 14. (a) Hvaða ásköpuð hæfni býður mönnum upp á mjög mikinn sveigjanleika í notkun vitsmuna sinna? (b) Hvað sagði kunnur málvísindamaður um dýr og tungumál?

13 Málið, hæfileikinn til að tala, er áberandi dæmi um innbyggða hæfni með stórkostlegan sveigjanleika hvað varðar „forritun.“ Sérfræðingar eru á einu máli um að „mannsheilinn sé með erfðavísunum forritaður til málþroska“⁠13 og að mælt mál sé „aðeins hægt að skýra með eðlislægri hæfni heilans til að meðhöndla tungumál.“⁠14 Ólíkt þeim ósveigjanleika, sem birtist í eðlisbundinni hegðun dýra, er þessi innbyggði hæfileiki mannsins til að tjá sig með mæltu máli ótrúlega sveigjanlegur.

14 Ekkert sérstakt tungumál er innbyggt í heilann heldur er okkur ásköpuð hæfni til að læra tungumál. Ef tvö tungumál eru töluð á heimilinu getur barn lært þau bæði. Ef það heyrir þriðja tungumálið getur það lært það líka. Lítil stúlka vandist því að heyra fjölmörg tungumál allt frá bernsku. Fimm ára gömul talaði hún reiprennandi átta tungumál. Í ljósi þessara eðlisbundnu eiginleika vekur ekki furðu að málvísindamaður skyldi komast svo að orði um tilraunir til að kenna simpönsum táknmál, að þær ‚hreinlega sönnuðu að simpansar geti ekki einu sinni lært einföldustu undirstöðuatriði mannlegs máls.‘⁠15

15. Hvað sýna rannsóknir í sambandi við elstu tungumál mannkyns?

15 Getur hugsast að slíkur sérhæfileiki hafi þróast upp úr skrækjum og urri dýra? Rannsóknir á elstu tungumálum mannkyns útiloka að mannlegt mál hafi þróast með þeim hætti. Haft er eftir sérfræðingi að ,engin frumstæð tungumál séu til.‘⁠16 Mannfræðingurinn Ashley Montagu fellst á að hin svonefndu frumstæðu tungumál séu „oft miklum mun flóknari og kjarnyrtari en tungumál hinna svonefndu æðri menningarsamfélaga.“⁠17

16. Hvað segja sumir rannsóknarmenn um uppruna mannlegs máls, en fyrir hverja er hann enginn leyndardómur?

16 Taugasérfræðingur segir: „Því meir sem við reynum að rannsaka gangvirki tungumálsins, þeim mun dularfyllra verður það.“⁠18 Annar rannsóknarmaður segir: „Sem stendur er uppruni setningafræðilegs máls ráðgáta.“⁠19 Og sá þriðji segir: „Hæfileikinn til að tala, sem hefur sterkari áhrif á menn og þjóðir en nokkurt annað afl, aðgreinir manninn á einstæðan hátt frá dýrunum. Uppruni tungumáls er þó einn af torráðnustu leyndardómum heilans.“⁠20 Þetta er þó enginn leyndardómur þeim sem sér í því handbragð skapara er innbyggði í heilann hæfileikann til að læra tungumál og beita þeim.

Það sem aðeins sköpun fær skýrt

17. (a) Hvað er það við mannsheilann sem þróunarkenningin kann enga skýringu á? (b) Miðað við hvaða forsendu er rökrétt að mannsheilinn búi yfir svona stórkostlegum hæfileika?

17 Alfræðibókin Encyclopædia Britannica lætur þess getið að mannsheilinn „ráði yfir töluvert meiri getu en hægt sé að nýta á einni mannsævi.“⁠21 Því hefur einnig verið haldið fram að mannsheilinn gæti ráðið við hvert það lærdóms- og minnisálag, sem mögulegt sé að leggja á hann núna, og þúsund milljón sinnum meira! En hvers vegna ætti þróun að gefa af sér slíka ofgnótt? „Þetta er satt að segja eina dæmið sem fyrirfinnst um að tegund hafi verið gefið líffæri sem hún hefur enn ekki lært að nota,“ viðurkennir vísindamaður. Síðan spyr hann: „Hvernig er hægt að samræma þetta þeirri gefnu forsendu sem meira en nokkuð annað er lögð þróunarkenningunni til grundvallar: Náttúruval á sér stað í smáum skrefum sem hvert þarf að færa einstaklingnum örlitla en þó mælanlega yfirburði?“ Hann bætir við að þroski mannsheilans sé enn þá „óskýranlegasti þáttur þróunarinnar.“⁠22 Úr því að þróun hefði aldrei getað gefið heilanum slíka hæfni, sem hann myndi aldrei þurfa að nota, er sú niðurstaða þá ekki rökréttari að maðurinn, með takmarkalausri lærdómshæfni sinni, hafi verið gerður til að lifa endalaust?

18. Hvað sagði vísindamaður einn um mannsheilann og hvað sýnir greinilega getu hans?

18 Carl Sagan er forviða yfir því að mannsheilinn skuli geta geymt upplýsingar sem „myndu fylla um tuttugu milljónir bóka“ og segir: „Heilinn er mjög stór en tekur afarlítið pláss.“⁠23 Og það sem gerist í þessu afarlitla plássi er mannlegum skilningi ofvaxið. Reyndu til dæmis að gera þér í hugarlund hvað hlýtur að ganga á í heila píanóleikara þegar allir tíu fingur hans þjóta fram og aftur um nótnaborðið í erfiðu tónverki. Heili hans hlýtur að búa yfir undraverðu hreyfiskyni til að geta skipað fingrunum að slá á réttar nótur af réttu afli á réttu augnabliki, til að þær samsvari nótunum í minni hans eða á nótnablaðinu! Og ef hann slær á ranga nótu gerir heilinn honum viðvart um það þegar í stað! Allar þessar ótrúlega flóknu aðgerðir eru skráðar í heila hans í gegnum áralanga æfingu og þjálfun. Þær voru mögulegar aðeins fyrir það að tónlistargáfan er mannsheilanum ásköpuð.

19. Hvað skýrir vitsmuni mannsheilans og aðra stórkostlega hæfileika hans?

19 Aldrei hefur heili nokkurs dýrs getað upphugsað slíkt og þaðan af síður gert nokkuð af því. Engin þróunarkenning hefur getað gefið viðhlítandi skýringu. Er ekki ljóst að vitsmunir mannsins endurspegla eiginleika æðri vitsmunaveru? Það kemur heim og saman við 1. Mósebók 1:27 sem segir: „Guð skapaði manninn eftir sinni mynd.“ Dýrin voru ekki sköpuð eftir Guðs mynd. Þess vegna hafa þau ekki sömu hæfni og maðurinn. Þótt dýrin vinni undraverð afrek vegna innbyggðrar, ósveigjanlegrar eðlishneigðar komast þau hvergi nærri í jafnkvisti við manninn sem hefur þvílíkan sveigjanleika í hugsun og verki og hæfni til að byggja á fyrri þekkingu.

20. Hvernig stingur óeigingirni mannsins í stúf við þróunarkenninguna?

20 Hæfni mannsins til að sýna óeigingirni, bera umhyggju fyrir hag annarra, er þróunarkenningunni líka þrándur í götu. Þróunarsinni orðar það þannig: „Allt sem þróast hefur vegna náttúruvals ætti að vera eigingjarnt.“ Margir menn eru auðvitað eigingjarnir, en sami þróunarsinni viðurkennir síðar: „Hugsast getur að enn einn einstæður eiginleiki mannsins sé hæfileikinn til að sýna einlæga fórnfýsi, ósvikna óeigingirni.“⁠24 Annar vísindamaður bætir við: „Náungakærleikur er innbyggður í okkur.“⁠25 Aðeins hjá mönnum er þessi eiginleiki samfara vitund um þann kostnað eða fórnir sem honum geta fylgt.

Undrið metið að verðleikum

21. Hvaða hæfileikar og eiginleikar mannsins gera hann dýrunum langtum fremri?

21 Hugsaðu þér: Maðurinn hugsar óhlutlægt, setur sér meðvituð markmið, gerir áætlanir til að ná þeim, vinnur að framkvæmd þeirra og hefur ánægju af að sjá þau verða að veruleika. Hann er skapaður með auga fyrir fegurð, eyra fyrir tónlist, næmi fyrir listum, hvöt til að læra, óseðjandi forvitni og hugarflug sem gerir honum fært að finna upp og skapa. Það veitir honum gleði og lífsfyllingu að nota þessar gáfur. Vandamál eru spennandi og storkandi viðfangsefni fyrir hann og hann hefur yndi af því að beita huga og kröftum til að leysa þau. Siðferðisvitund til að dæma um rétt og rangt og samvisku til að stinga hann þegar hann stígur víxlspor — þetta hefur maðurinn einnig. Að gefa öðrum veitir honum hamingju; hann hefur yndi af því að elska og vera elskaður. Allt þetta eykur lífsnautn hans og gefur lífi hans tilgang og stefnu.

22. Hvaða hugleiðingar og athuganir láta manninn finna til smæðar sinnar og leita svara við áleitnum spurningum?

22 Maðurinn getur virt fyrir sér jurtirnar og dýrin, tign fjallanna og sjávarins, óravídd stjörnuhiminsins og fundið til smæðar sinnar. Hann er sér meðvitandi um tíma og eilífð, veltir fyrir sér hvaðan hann sé kominn og hvert hann fari og reynir að skilja hvað búi að baki þessu öllu. Ekkert dýr hugsar þannig. En maðurinn leitar að orsökum og eðli hlutanna. Allt stafar þetta af því að honum er gefinn stórkostlegur heili og hann er gerður eftir „mynd“ skapara síns.

23. Hverjum þakkaði Davíð tilvist sína og hvað sagði hann um tilurð sína í móðurkviði?

23 Af undraverðu innsæi gaf sálmaritarinn Davíð honum heiðurinn sem skapaði mannsheilann og hann áleit standa á bak við það undur sem vöxtur barns í móðurkviði og fæðing er. Hann sagði: „Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel. Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar. Augu þín sáu mig jafnvel sem fóstur, og í bók þinni voru allir hlutar þess skráðir.“ — Sálmur 139:14-16, vers 16 samkvæmt New World Translation.

24. Hvaða uppgötvanir vísindanna gera orð Davíðs enn undraverðari?

24 Með sanni má segja að frjóvgað eggið í móðurkviði geymi allar upplýsingar um þann mannslíkama, sem á eftir að verða, eins og séu þær ‚skráðar í bók.‘ Hjarta, lungu, nýru, augu og eyru, hendur, fætur og hinn stórkostlegi heili — jafnt þetta sem allir aðrir líkamshlutar var ‚skráð‘ með erfðalykli hins frjóvgaða eggs í móðurkviði. Innbyggð í þennan erfðalykil er tímaáætlun fyrir það hvenær þessir líkamshlutar skuli verða til, hver í sinni röð. Sú staðreynd stóð í Biblíunni nálega 3000 árum áður en vísindamenn okkar tíma uppgötvuðu tilvist erfðalykilsins!

25. Að hvaða niðurstöðu leiðir allt þetta okkur?

25 Er ekki tilvist mannsins með sínum furðulega heila hreint kraftaverk? Er það ekki einnig augljóst að slíkt kraftaverk verður aðeins skýrt með sköpun, ekki þróun?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 168]

Hvernig ræður heilinn við 100 milljónir skynboða sem streyma til hans á hverri sekúndu?

[Rammi á blaðsíðu 169]

Heilinn skannar sjálfan sig um tíu sinnum á sekúndu til að einbeita sér að því mikilvægasta.

[Rammi á blaðsíðu 169]

Mannsheilinn er enn „að mestu leyti ráðgáta.“

[Rammi á blaðsíðu 173]

„Við erum ekki bara snjallari apar.“ Hugur okkar „gerir okkur að eðli til ólíka öllum öðrum lífsformum.“

[Rammi á blaðsíðu 175]

‚Uppruni tungumáls er ein af torráðnustu gátum heilans.‘

[Rammi á blaðsíðu 175]

Þroski mannsheilans er enn þá „óskýranlegasti þáttur þróunarinnar.“

[Rammi á blaðsíðu 177]

Hinn stórkostlegi heili mannsins ber „mynd“ skapara síns.

[Rammi/Mynd á blaðsiðu 171]

MANNSHEILINN — ‚Óráðinn leyndardómur‘?

„Mannsheilinn er stórkostlegasti og dularfyllsti hluturinn í öllum alheiminum.“ — Mannfræðingurinn Henry F. Osborn⁠a

„Hvernig myndar heilinn hugsanir? Það er aðalspurningin og við kunnum enn ekkert svar við henni.“ — Lífeðlisfræðingurinn Charles Sherrington⁠b

„Þrátt fyrir stöðuga söfnun ítarlegrar vitneskju er starfsemi mannsheilans enn mikill leyndardómur.“ — Líffræðingurinn Francis Crick⁠c

„Sá sem kallar tölvu ‚rafeindaheila‘ hefur aldrei séð heila.“ — Dr. Irving S. Bengelsdorf, ritstjóri vísindalegra fræða⁠d

„Hið virka minni okkar geymir nokkur þúsund milljón sinnum meiri upplýsingar en stór rannsóknartölva.“ — Morton Hunt sem skrifar um vísindi⁠e

„Með því að heilinn er ólíkur og ómælanlega flóknari öllu öðru í hinum þekkta alheimi, neyðumst við kannski til að breyta eftirlætishugmyndum okkar áður en við getum skilið til fullnustu hina dularfullu byggingu hans.“ — Taugasérfræðingurinn Richard M. Restak⁠f

Alfred R. Wallace, stundum nefndur annar ‚upphafsmaður þróunarkenningarinnar,‘ skrifaði Darwin um hið gífurlega hyldýpi milli manna og dýra: „Náttúruval hefði aðeins getað gefið villimanninum heila örlítið æðri apanum, en í reynd er hann litlu síðri heila meðalmannsins í okkar lærða þjóðfélagi.“ Darwin svaraði, órólegur yfir þessari játningu: „Ég vona að þú hafir ekki myrt gjörsamlega þitt eigið barn og mitt.“⁠g

Það að segja mannsheilann hafa þróast af einhverju dýri gengur í berhögg við heilbrigða skynsemi og staðreyndir. Eftirfarandi niðurstaða er miklu rökréttari: „Ég á einskis annars úrkosti en að viðurkenna tilvist æðri vitsmunaveru sem er ábyrg fyrir hönnun og mótun þessa ótrúlega sambands heila og huga — sem er algerlega ofvaxið skilningi mannsins. . . . Ég verð að trúa að einhvers konar vitsmunir séu frumkvöðull alls þessa, að til sé einhver sem lét það verða til.“ — Taugaskurðlæknirinn dr. Robert J. White⁠h

[Skyringarmynd á blaðsíðu 170]

(Sjá uppraðaðan texta í bókinni)

Heilinn er eins og vöðvi — styrkist við notkun en slaknar við vannotkun.

Taugagriplur

Taugungur

Taugasími

Taugamót

Taugungur

Taugasími

[Mynd á blaðsíðu 172]

Heilinn getur geymt upplýsingar sem „myndu fylla um tuttugu milljónir bóka.“

[Mynd á blaðsíðu 174]

Barnsheilanum er ásköpuð hæfni til að læra flókin tungumál á skömmum tíma en „simpansar geta ekki einu sinni lært einföldustu undirstöðuatriði mannlegs máls.“

[Mynd á blaðsíðu 176]

Mannsheilinn býr yfir hæfni langt umfram það sem er hjá nokkru dýri.

[Mynd á blaðsíðu 178]

„Í bók þinni voru allir hlutar þess skráðir.“