Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stökkbreytingar – undirstaða þróunar?

Stökkbreytingar – undirstaða þróunar?

8. kafli

Stökkbreytingar – undirstaða þróunar?

1, 2. Hvaða gangvirki er sagt vera undirstaða þróunar?

 ÞRÓUNARKENNINGIN stendur frammi fyrir öðru vandamáli. Hvernig á þróunin að hafa farið fram? Hvers konar gangvirki á að hafa orsakað það að ein lífverutegund þróaðist yfir í aðra? Þróunarfræðingar segja að ýmsar breytingar inni í frumukjarnanum hafi átt þátt í því. Eiga þeir þá sér í lagi við tilviljunarkenndar breytingar sem nefndar eru stökkbreytingar. Álitið er að það séu fyrst og fremst gen og litningar æxlunarfrumnanna sem stökkbreytast, því að slíkar stökkbreytingar geta gengið í arf til afkomendanna.

2 „Stökkbreytingar . . . eru undirstaða þróunarinnar,“ segir The World Book Encyclopedia.1 Steingervingafræðingurinn Steven Stanley tekur í sama streng og kallar stökkbreytingar „hráefni“ þróunar.⁠2 Og erfðafræðingurinn Peo Koller lýsir yfir að stökkbreytingar séu „nauðsynleg forsenda framþróunar.“⁠3

3. Hvers eðlis þurfa stökkbreytingar að vera til að geta valdið þróun?

3 En þróun getur ekki notast við hvers konar stökkbreytingar sem verkast vill. Robert Jastrow bendir á að til hennar þurfi „hægfara uppsöfnun hagstæðra stökkbreytinga.“⁠4 Og Carl Sagan bætir við: „Stökkbreytingar — skyndilegar breytingar á arfgengum eiginleikum — erfast beint. Þær eru hráefni þróunarinnar. Umhverfið velur úr þær fáu stökkbreytingar sem gera einstaklinginn hæfari til að lifa, og veldur þannig röð hægfara breytinga úr einni tegund í aðra, uppruna nýrra tegunda.“⁠5

4. Hvaða vandkvæði koma upp þegar fullyrt er að stökkbreytingar kunni að gegna hlutverki í örum þróunarbreytingum?

4 Því hefur einnig verið haldið fram að stökkbreytingar kunni að vera lykill þeirra öru breytinga sem kenningin um „rykkjótt jafnvægi“ gerir ráð fyrir. John Gliedman ritar í Science Digest: „Endurskoðunarsinnaðir þróunarfræðingar álíta að stökkbreytingar í mikilvægustu stýrigenum kunni að vera þeir lofthamrar erfðanna sem stórstökkvakenning þeirra þarf á að halda.“ Breski dýrafræðingurinn Colin Patterson segir aftur á móti: „Hægt er að geta sér til um hvað sem er. Við vitum ekkert um þessi mikilvægu stýrigen.“⁠6 En að slíkum getgátum undanteknum er almennt viðurkennt að stökkbreytingar, sem taldar eru hafa þýðingu fyrir þróunina, séu smáar breytingar háðar tilviljun sem safnast saman á löngum tíma.

5. Hvað veldur stökkbreytingum?

5 Hvað veldur stökkbreytingum? Álitið er að flestar þeirra eigi sér stað við venjulega frumuskiptingu. En tilraunir hafa sýnt að utanaðkomandi áhrif, svo sem geislun eða efnasambönd, geta einnig framkallað þær. Og hver er tíðni þeirra? Sjálfseftirmyndun erfðaefnis frumunnar er ótrúlega nákvæm. Þegar haft er í huga hve tíðar frumuskiptingar eru í lifandi verum eru stökkbreytingar hlutfallslega sjaldgæfar. Eins og Encyclopedia Americana segir er eftirmyndun „kjarnsýrukeðjanna, sem genin eru gerð úr, einstaklega nákvæm. Villur í afritun eða eftirmyndun eru fátíð slys.“⁠7

Eru þær gagnlegar eða skaðlegar?

6, 7. Hvert er hlutfall skaðlegra stökkbreytinga á móti gagnlegum?

6 Ef gagnlegar stökkbreytingar eru undirstaða þróunar má spyrja hve stórt hlutfall stökkbreytinga sé gagnlegt. Yfirgnæfandi meirihluti þróunarfræðinga er sammála um það atriði. Til dæmis segir Carl Sagan: „Flestar eru skaðlegar eða banvænar.“⁠8 Peo Koller segir: „Langstærstur hluti stökkbreytinga er skaðlegur þeim einstaklingi sem ber hið stökkbreytta gen. Tilraunir hafa sýnt að á móti hverri hagstæðri eða nothæfri stökkbreytingu eru mörg þúsund skaðvænar.“⁠9

7 Séu „hlutlausar“ stökkbreytingar undanskildar eru hinar skaðlegu nokkur þúsund sinnum fleiri en þær sem álitnar eru til hins betra. „Slíks er að vænta af tilviljunarkenndum breytingum innan sérhverrar flókinnar heildar,“ segir Encyclopædia Britannica.10 Þess vegna eru stökkbreytingar sagðar valda hundruðum sjúkdóma sem eiga sér erfðafræðilegar orsakir.⁠11

8. Hvernig staðfesta rannsóknaniðurstöður orð alfræðibókar?

8 Vegna hins skaðlega eðlis stökkbreytinganna viðurkennir Encyclopedia Americana: „Erfitt virðist að samræma þá staðreynd að flestar stökkbreytingar eru skaðlegar lífverunni, því viðhorfi að stökkbreytingar séu hráefni þróunarinnar. Þau stökkbrigði, sem birtar eru myndir af í líffræðikennslubókum, eru samsafn vanskapninga og skrípilda, og stökkbreytingar virðast fremur brjóta niður en byggja upp.“⁠12 Þegar stökkbreytt skordýr hafa verið látin keppa við eðlileg skordýr er niðurstaðan alltaf sú sama. G. Ledyard Stebbins segir þar um: „Eftir margar eða fáeinar kynslóðir eru stökkbrigðin horfin.“⁠13 Þau eru ekki samkeppnisfær við hin vegna þess að þau eru ekki betur úr garði gerð en þau, heldur úrkynjuð og því eftirbátar þeirra.

9, 10. Hvers vegna er sú staðhæfing ekki réttlætanleg að stökkbreytingar valdi þróun?

9 Vísindarithöfundurinn Isaac Asimov viðurkennir í bók sinni The Wellsprings of Life: „Flestar stökkbreytingar eru til hins verra.“ Eftir það fullyrðir hann eigi að síður: „Til langs tíma litið drífa stökkbreytingar þróunina tvímælalaust fram og upp á við.“⁠14 En gera þær það? Er hægt að ímynda sér að nokkurt það ferli, sem veldur tjóni í 999 tilfellum af 1000, geti talist gagnlegt? Segjum að þú ætlaðir að reisa þér hús. Myndir þú ráða til verksins húsasmið sem skilaði þúsundum gallaðra verka á móti hverju einu nothæfu? Myndir þú vilja sitja í bifreið hjá ökumanni sem tæki þúsundir rangra ákvarðana í umferðinni á móti hverri einni réttri? Myndir þú vilja láta skurðlækni skera þig upp ef hann gerði þúsundir rangra hreyfinga á móti hverri einni réttri?

10 Erfðafræðingurinn Dobzhansky sagði einu sinni: „Tæplega er við því að búast að slys eða handahófskennd breyting á viðkvæmum búnaði bæti hann. Úr eða útvarpstæki vinnur sjaldnast betur eftir að búið er að reka prik inn í það.“⁠15 Hvað finnst þér? Er rökrétt að allar hinar ótrúlega flóknu frumur, líffæri, limir og ferli, sem er að finna í lifandi verum, hafi verið byggðar upp með aðferð sem rífur niður?

Búa stökkbreytingar til eitthvað nýtt?

11-13. Skapa stökkbreytingar nokkurn tíma eitthvað nýtt?

11 En gætu stökkbreytingar búið til eitthvað nýtt, jafnvel þótt þær væru allar hagstæðar? Nei, það gætu þær ekki. Stökkbreyting getur einungis breytt lítillega einkennum sem fyrir eru. Stökkbreyting getur orsakað fjölbreytni en aldrei skapað eitthvað nýtt.

12 The World Book Encyclopedia nefnir dæmi um það sem jákvæð stökkbreyting gæti haft í för með sér: „Planta, sem vex á þurru svæði, gæti haft stökkbreytt gen sem gæfi henni stærri og sterkari rætur en aðrar plöntur sömu tegundar hefðu. Plantan hefði betri möguleika en þær á að lifa af, því að rætur hennar gætu sogið upp meira vatn.“⁠16 En hefur eitthvað nýtt orðið til? Nei, þetta er enn sama plöntutegundin. Hún hefur ekki þróast yfir í eitthvað annað.

13 Stökkbreytingar geta breytt lit eða áferð hárs á manni. En hárið verður alltaf hár. Það breytist aldrei í fjaðrir. Stökkbreyting getur breytt hendi manns. Sumir fingurnir gætu verið óeðlilegir. Stöku sinnum gæti maður jafnvel haft sex fingur á annarri hendinni eða verið með vanskapaða hönd að einhverju öðru leyti. En höndin er alltaf hönd. Hún breytist aldrei í eitthvað annað. Ekkert nýtt er að verða til, og getur það aldrei.

Tilraunir með bananafluguna

14, 15. Hvað hafa áratugalangar tilraunir með bananaflugur leitt í ljós?

14 Fá dýr hafa verið jafnmikið notuð við stökkbreytingatilraunir og bananaflugan, Drosophila melanogaster. Allt frá því snemma á öldinni hafa vísindamenn beint röntgengeislum að milljónum flugna. Við það ríflega hundraðfaldaðist eðlileg stökkbreytingatíðni þeirra.

15 Hverjar eru niðurstöður margra áratuga tilrauna á bananaflugunni? Dobzhansky skýrir frá einni: „Hin greinilegu stökkbrigði Drosophila, sem svo margar hinna hefðbundnu erfðafræðirannsókna voru gerðar á, eru nánast undantekningarlaust eftirbátar villta afbrigðisins í lífvænleika, frjósemi og langlífi.“⁠17 Önnur niðurstaða er sú að stökkbreytingarnar hafa aldrei búið til neitt nýtt. Bananaflugurnar höfðu vanskapaða vængi, fætur eða búk, og ýmsa aðra galla, en þær voru alltaf bananaflugur. Og þegar stökkbreyttar flugur voru látnar tímgast saman kom í ljós að eftir allmargar kynslóðir byrjuðu nokkrar eðlilegar bananaflugur að koma úr eggjunum. Við náttúrlegar aðstæður myndu þessar eðlilegu flugur að lokum hafa vinninginn yfir hin veikari stökkbrigði og viðhalda stofninum í upprunalegri mynd.

16. Hvernig stuðlar erfðalykillinn að varðveislu tegundanna?

16 Erfðalykillinn, kjarnsýran DNA, býr yfir undraverðri hæfni til að gera við skemmdir á sjálfum sér. Það stuðlar að varðveislu þeirrar lífverutegundar sem hann er gerður fyrir. Scientific American skýrir frá því að „líf sérhverrar lífveru og viðhald hennar frá kynslóð til kynslóðar“ varðveitist „með hjálp ensíma sem gera stöðugt við“ skemmdir á erfðalyklinum. Tímaritið segir: „Sérstaklega geta umtalsverðar skemmdir á kjarnsýrusameindinni framkallað neyðarviðbrögð sem birtast í aukinni framleiðslu viðgerðarensíma.“⁠18

17. Hvers vegna ollu stökkbreytingatilraunir Goldschmidt vonbrigðum?

17 Höfundur bókarinnar Darwin Retried segir eftirfarandi um hinn virta erfðafræðing Richard Goldschmidt sem nú er látinn: „Eftir að hafa fylgst með stökkbreytingum bananaflugna í fjöldamörg ár sótti vonleysi að Goldschmidt. Hann harmaði að breytingarnar skyldu vera svo skelfilega litlar að jafnvel þótt þúsund stökkbreytingar sameinuðust í sama einstaklingi yrði samt sem áður ekki til nein ný tegund.“⁠19

Fetarafiðrildið

18, 19. Hvað er fullyrt um fetarafiðrildið og hvers vegna?

18 Í þróunarkenningarritum er enska fetarafiðrildið oft nefnt sem nútímadæmi um þróun að verki. The International Wildlife Encyclopedia segir: „Þetta er athyglisverðasta þróunarbreyting sem menn hafa nokkru sinni orðið vitni að.“⁠20 Eftir að hafa getið þess hve mjög það hrelldi Darwin að geta ekki sýnt fram á þróun einnar einustu tegundar, segir Robert Jastrow í bók sinni Red Giants and White Dwarfs: „Þótt hann vissi ekki af því var dæmi við hendina sem hefði gefið honum þá sönnun sem hann vantaði. Þetta var einkar sjaldgæft tilfelli.“⁠21 Tilfellið var auðvitað fetarafiðrildið.

19 Hvað gerðist eiginlega hjá fetarafiðrildinu? Í fyrstu voru ljós afbrigði þess algengari en hin dökku. Ljósa fiðrildið sást síður á ljósum trjástofnum og varð því síður fuglamatur. En áralöng mengun í iðnaðarhéruðum Englands dekkti trjástofnana. Ljósi liturinn var nú orðinn fiðrildinu í óhag því að fuglar komu frekar auga á það og átu. Hið dökka afbrigði, sem sagt er vera stökkbrigði, bjargaði sér nú betur því að fuglar komu síður auga á það á sótsvörtum trjástofnunum. Dökka afbrigðið varð því fljótlega ríkjandi.

20. Hvernig bendir enskt læknatímarit á að fetarafiðrildið hefur ekki þróast?

20 En var fetarafiðrildið að þróast yfir í einhverja aðra skordýrategund? Nei, það var enn nákvæmlega sama fetarafiðrildið, einungis með breyttum lit. Þess vegna kallaði enska læknatímaritið On Call notkun þessa dæmis, til að reyna að færa sönnur á lífþróun, „fræga að endemum.“ Blaðið sagði: „Þetta er afbragðsdæmi um notkun felulitar, en úr því að það byrjar og endar með fetarafiðrildinu, og engin ný tegund verður til, hefur það alls ekkert sönnunargildi fyrir þróunarkenninguna.“⁠22

21. Hvað má segja um staðhæfingar þess efnis að sýklar geti myndað ónæmi fyrir fúkalyfjum?

21 Sú staðhæfing að fetarafiðrildið sé að þróast á sér nokkrar áþekkar hliðstæður. Til dæmis hafa sumir sýklar reynst þolnir gegn fúkalyfjum og þá hefur því verið haldið fram að þeir séu að þróast. En þolnu sýklarnir eru eftir sem áður sömu tegundar og eru ekki að þróast yfir í aðra. Það er jafnvel viðurkennt að breytingin kunni að stafa af því að sýklarnir hafi verið þolnir allt frá byrjun en ekki stökkbreyst. Þegar lyfin drápu hina sýklana urðu þolnu sýklarnir eftir, margfölduðust og urðu ríkjandi. Eins og bókin Evolution From Space segir: „Við drögum þó í efa að hér sé um nokkuð annað að ræða en það að valið sé úr genum sem fyrir eru.“⁠23

22. Má ætla að skordýr séu að þróast þegar vissir einstaklingar reynast eiturþolnir?

22 Hið sama kann að vera uppi á teningnum í sambandi við sum skordýr sem eru ónæm fyrir eitri sem notað er gegn þeim. Annaðhvort drepur eitrið þau skordýr, sem því er beitt gegn, eða það hrífur ekki. Dauðu skordýrin geta ekki þróað með sér viðnámsþrótt því að þau eru dauð. Þau sem eitrið hrífur ekki á kunna að hafa verið ónæm fyrir því frá byrjun. Slíkt ónæmi er arfbundið einkenni sem sum skordýr hafa en önnur ekki. Að minnsta kosti eru skordýrin áfram sömu tegundar. Þau hafa ekki þróast í nýja tegund.

„Eftir sinni tegund“

23. Hvaða reglu Biblíunnar hafa stökkbreytingar einnig staðfest?

23 Enn á ný er staðfestur sá boðskapur sem 1. kafli 1. Mósebókar flytur okkur: Lifandi verur tímgast aðeins „eftir sinni tegund.“ Orsökin er sú að erfðalykillinn hindrar jurt eða dýr í að víkja of langt frá meðaltalinu. Mikil fjölbreytni rúmast innan tegundarmarkanna (eins og sjá má til dæmis meðal manna, katta eða hunda), en ekki svo mikil að ein lífvera geti breyst í aðra. Allar stökkbreytingatilraunir staðfesta það. Það lögmál að líf spretti einungis af lífi sem fyrir er hefur einnig sannast, svo og að afkomendur eru sömu „tegundar“ og foreldrarnir.

24. Hvernig hafa kynblöndunartilraunir sýnt að lifandi verur tímgast aðeins „eftir sinni tegund“?

24 Kynblöndunartilraunir staðfesta sömu söguna. Vísindamenn hafa reynt að breyta ýmsum dýrum og jurtum óendanlega með kynblöndun. Þeir hafa viljað kanna hvort þeir gætu með tímanum búið til nýjar tegundir. Hver er niðurstaðan? Tímaritið On Call segir: „Venjulega kemur í ljós, eftir fáeinar kynslóðir, að kjörstigi er náð og frekari kynbætur ógerlegar, og að ekki hefur orðið til nein ný tegund . . . Kynblöndunartilraunir virðast því hrekja þróunarkenninguna frekar en styðja.“⁠24

25, 26. Hvað segja vísindarit um tímgunarmörk lifandi vera?

25 Mjög svo svipað kemur fram í tímaritinu Science: „Tegundirnar geta vissulega tekið smávægilegum breytingum í útliti og öðrum sérkennum, en þær eru takmarkaðar og birtast, til langs tíma litið, sem sveifla um meðaltal.“⁠25 Það sem lífverurnar erfa er því ekki hæfileikinn til stöðugra, nýrra breytinga, heldur í staðinn (1) stöðugleiki og (2) takmörkuð frávik innan tegundarmarkanna.

26 Bókin Molecules to Living Cells segir því: „Frumur úr gulrót eða músarlifur halda alltaf vefjar- og tegundareinkennum sínum eftir ótal æxlunarhringi.“⁠26 Og í bókinni Symbiosis in Cell Evolution segir: „Allar lífverur . . . tímgast af ótrúlegri nákvæmni.“⁠27Scientific American tekur í sama streng: „Lifandi verur eru gríðarlega fjölbreyttar að gerð, en gerðin er einstaklega stöðug innan hverrar tegundar: svín halda áfram að vera svín og eikartré eru eikartré kynslóð eftir kynslóð.“⁠28 Og blaðamaður, sem skrifar um vísindi, segir: „Rósarunnar bera alltaf rósir, ekki kamelíublóm, og geitur eignast alltaf kiðlinga, aldrei lömb.“ Hann lýkur máli sínu með því að „stökkbreytingar geti ekki skýrt þróunina í heild — það hvers vegna til eru fiskar, skriðdýr, fuglar og spendýr.“⁠29

27. Hvað mistúlkaði Darwin í sambandi við finkurnar á Galapagoseyjum?

27 Sú staðreynd að rúm skuli vera fyrir frávik innan tegundanna skýrir fyrirbæri sem Darwin veitti athygli og átti þátt í að móta þróunarhugmyndir hans. Þegar hann var á Galapagoseyjum skoðaði hann þar fugla sem nefnast finkur. Þessir fuglar voru sömu tegundar og ættfeður þeirra á meginlandi Suður-Ameríku, þaðan sem þeir höfðu sýnilega komið. Þó var forvitnilegur munur á þeim og hinum, til dæmis lögun nefsins. Darwin túlkaði þennan mun svo að þarna væri þróunin að verki. Í rauninni var þó ekki um annað að ræða en frávik innan tegundarmarkanna sem arfgengi fuglsins bauð upp á. Finkurnar voru eftir sem áður finkur. Þær voru ekki að breytast í aðra tegund og myndu aldrei gera það.

28. Hvernig má því segja að vísindalegar staðreyndir séu í fullu samræmi við reglu 1. Mósebókar um að lifandi verur tímgist „eftir sinni tegund“?

28 Reglan, sem sköpunarsaga Biblíunnar gefur, er því í fullu samræmi við þekktar, vísindalegar staðreyndir. Þegar sáð er fræi sprettur af því jurt aðeins „eftir sinni tegund,“ og hægt er að skipuleggja garðinn sinn í fullu trausti þess að þetta lögmál haldi. Kettir gjóta alltaf kettlingum. Menn fæða alltaf mannabörn. Fjölbreytni gætir í litarhætti, lögun og stærð, en alltaf innan tegundarmarka. Hefur þú nokkurn tíma orðið vitni að undantekningu frá þeirri reglu? Það hafa aðrir ekki heldur.

Ekki undirstaða þróunar

29. Hvað sagði franskur líffræðingur um stökkbreytingar?

29 Niðurstaðan er augljós. Engar tilviljunarbreytingar á arfberunum geta breytt einni lífverutegund í aðra. Eins og franski líffræðingurinn Jean Rostand sagði einu sinni: „Nei, ég get alls ekki fengið mig til að trúa að þessi ‚mistök‘ erfðanna hafi, jafnvel í samvinnu við náttúruval, jafnvel með hjálp þess gífurlega langa tíma sem þróunin hefur haft til að vinna úr lífinu, getað byggt upp allan heiminn sem er óspar á byggingarform, hugkvæmni og undraverða ‚aðlögun.‘“⁠30

30. Hvað sagði erfðafræðingur um stökkbreytingar?

30 Erfðafræðingurinn C. H. Waddington sagði eitthvað svipað um trúna á stökkbreytingar: „Kenningin er í raun og veru sú að við gætum hafist handa með fjórtán línur á skiljanlegu, ensku máli, óháð því hvað þar stendur, og breytt einum staf í einu og haldið eftir aðeins því sem enn þá hefur einhverja merkingu, og myndum þá að lokum hafa í höndunum eina af sonnettum Shakespeares. . . . mér finnst þetta vera geðveikisleg rökfræði og mér finnst við eiga að geta gert betur.“⁠31

31. Hvað kallaði vísindamaður þá trú að stökkbreytingar séu hráefni þróunar?

31 Sannleikurinn er sá sem prófessor John Moore lætur í ljós: „Við strangnákvæma rannsókn og greiningu sýnir það sig að með sérhverri kreddukenndri fullyrðingu . . . þess efnis að stökkbreytingar genanna séu hráefni einhvers þróunarferlis sem tengist náttúruvali, er verið að segja goðsögu.“⁠32

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 99]

„Stökkbreytingar . . . eru undirstaða þróunarinnar.“

[Rammi á blaðsíðu 100]

Stökkbreytingum er líkt við „slys“ í gangvirki arfberanna. En slys eru til tjóns, ekki gagns.

[Rammi á blaðsíðu 101]

„Stökkbreytingar virðast fremur brjóta niður en byggja upp.“

[Rammi á blaðsíðu 105]

„Þótt þúsund stökkbreytingar sameinuðust í sama einstaklingi yrði samt sem áður ekki til nein ný tegund.“

[Rammi á blaðsíðu 107]

„Það [hefur] alls ekkert sönnunargildi fyrir þróunarkenninguna.“

[Rammi á blaðsíðu 107]

Stökkbreytingar staðfesta regluna: Lifandi verur tímgast aðeins „eftir sinni tegund.“

[Rammi á blaðsíðu 108]

„Kynblöndunartilraunir virðast . . . hrekja þróunarkenninguna frekar en styðja.“

[Rammi á blaðsíðu 109]

„Svín halda áfram að vera svín og eikartré eru eikartré kynslóð eftir kynslóð.“

[Rammi á blaðsíðu 110]

Stökkbreytingar ‚geta ekki skýrt þróunina í heild.‘

[Rammi á blaðsíðu 110]

„Mér finnst þetta vera geðveikisleg rökfræði og mér finnst við eiga að geta gert betur.“

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 112, 113]

Hvor samrýmist staðreyndum?

Eftir lestur kaflanna á undan er við hæfi að spyrja: Hvor samrýmist staðreyndunum — þróunarkenningin eða sköpunarkenningin? Í dálkunum hér að neðan er yfirlit yfir þróunarlíkanið, sköpunarlíkanið og staðreyndirnar eins og þær liggja fyrir.

Spá þróunar- Spá sköpunar- Staðreyndirnar

líkansins líkansins sýna

Lífið þróaðist af Líf sprettur aðeins (l) Líf sprettur

lífvana efni af lífi sem fyrir er; aðeins af lífi; (2)

við tilviljunarkennda, í upphafi verk engin leið er að búa

efnafræðilega þróun viturs til flókinn erfða-

(sjálfkviknun lífs). skapara lykil af tilviljun

Steingervingar eiga Steingervingarnir eiga Steingervingarnir

að sýna: að sýna: sýna:

(1) einfaldar lífverur (1) flóknar lífverur (1) margbrotið og

koma smám saman birtast skyndilega í mjög fjölbreytt

fram; (2) millitegundir mikilli fjölbreytni; líf birtist skyndi-

tengja yngri (2) eyður á milli lega; (2) sérhver ný

lífverur þeim tegundanna; tegund er aðgreind frá

eldri. enga tengihlekki. fyrri tegundum; enga

tengihlekki.

Nýjar tegundir Engar nýjar Engar nýjar tegundir

verða til smám tegundir koma fram koma smám saman

saman; ófullmynduð smám saman; engin þótt mörg afbrigði

bein og líffæri ófullmynduð bein eða séu innan tegundar;

á ýmsum líffæri heldur allir engin ófullmynduð

millistigum. líkamshlutar fullmyndaðir. bein eða líffæri.

Stökkbreytingar Stökkbreytingar Smáar stökkbreytingar

skila í heild skaðlegar margbrotnum skaðlegar, stórar

jákvæðum breytingum; lífverum; búa ekki banvænar; mynda

búa til ný einkenni. til neitt nýtt. aldrei neitt nýtt.

Siðmenning þróast Siðmenning jafngömul Siðmenning birtist

smám saman af manninum; margbrotin samtímis manninum;

frumstæðri, dýrslegri allt frá hellabúar voru

byrjun upphafi. samtíða siðmenningunni.

Einföld hljóð dýranna Tungumál jafngömul Tungumál jafngömul

þróast upp í manninum; forn manninum; forn tungumál

flókin tungumál tungumál flókin oft flóknari en

nútímams. og heilsteypt. nútímamál.

Maðurinn birtist Maðurinn birtist Elstu ritaðar

fyrir milljónum fyrir um það bil heimildir aðeins um

ára. 6000 árum. 5000 ára.

. . . hin rökrétta ályktun

Þegar við berum spá þróunarlíkansins og spá sköpunarlíkansins saman við þekktar staðreyndir, er þá ekki augljóst hvort líkanið er í samræmi við staðreyndirnar og hvort ekki? Vitnisburður lífheimsins umhverfis okkur og vitnisburður steingerðra lífvera fortíðar er á sömu lund: Lífið var skapað; það þróaðist ekki.

Nei, lífið kviknaði ekki í einhverri óþekktri „frumsúpu.“ Menn eiga sér ekki forfeður sem líktust öpum. Lifandi verur voru þess í stað skapaðar í ríkulegri fjölbreytni sem aðskildar ættir. Hver um sig gat aukið kyn sitt aðeins innan sinnar „tegundar,“ þótt í ýmsum afbrigðum væri, en gat ekki brotist gegnum tegundarmörkin. Þau mörk eru tryggð með ófrjósemi eins og glöggt má sjá í ríki lifandi vera. Og sérstakur erfðabúnaður hverrar tegundar heldur þeim aðgreindum og ólíkum.

Margt fleira ber þó vitni um tilvist skapara en þær staðreyndir einar sem samrýmast sköpunarlíkaninu. Leiddu hugann að hinni undraverðu hugkvæmni og skipulagsgáfu sem einkennir jörðina og reyndar alheiminn allan. Hún ber einnig vitni um tilvist æðri vitsmunaveru. Í nokkrum næstu köflum verður athyglinni beint að hinni stórfenglegu gerð umheimsins, allt frá hinum mikla alheimi niður til hins smásæja.

[Myndir á blaðsíðu 102]

Myndir þú ráða til þín húsasmið sem skilaði þúsundum gallaðra verka á móti hverju einu nothæfu?

Myndir þú vilja sitja í bifreið hjá ökumanni sem tæki þúsundir rangra ákvarðana í umferðinni á móti hverri einni réttri?

Myndir þú vilja láta skurðlækni skera þig upp ef hann gerði þúsundir rangra hreyfinga á móti hverri einni réttri?

[Mynd á blaðsíðu 103]

Dobzhansky: „Útvarpstæki vinnur sjaldnast betur eftir að búið er að reka prik inn í það.“

[Mynd á blaðsíðu 104]

Í tilraunum með bananaflugur hafa orðið til mörg vansköpuð stökkbrigði, en þau voru alltaf bananaflugur.

Eðlileg bananafluga

Stökkbreyttar flugur

[Myndir á blaðsíðu 106]

Litarbreyting fetarafiðrildisins er ekki þróun heldur einungis frávik innan sömu tegundar.

[Mynd á blaðsíðu 108]

Hundar eru til í mörgum afbrigðum, en hundar eru þó alltaf hundar.

[Mynd á blaðsíðu 109]

Mikillar fjölbreytni gætir meðal manna, en menn fjölga sér þó aðeins „eftir sinni tegund.“

[Mynd á blaðsíðu 111]

Finkurnar, sem Darwin sá á Galapagoseyjum, halda alltaf áfram að vera finkur. Það sem hann sá var frávik innan tegundar, ekki þróun.