Steingervingaskráin segir frá
5. kafli
Steingervingaskráin segir frá
1. Hvað eru steingervingar?
STEINGERVINGAR eru steingerðar leifar eða menjar dýra og plantna, varðveittar í jarðlögunum. Steingervingar geta verið heilar beinagrindur ellegar einstök bein, tennur eða skeljar, eða þá verksummerki eftir lífveru sem hafa harðnað í stein, svo sem fótspor eða slóð. Margir steingervingar innihalda ekki lengur upprunalegt efni lífverunnar heldur eru útfelling ólífrænna efna sem hafa síast inn í líkamsleifarnar og tekið lögun þeirra.
2, 3. Hvers vegna hafa steingervingar þýðingu fyrir þróunarkenninguna?
2 Hvers vegna eru steingervingar mikilvægir fyrir þróunarkenninguna? Erfðafræðingurinn G. L. Stebbins nefnir eina meginástæðuna: „Enginn líffræðingur hefur séð tegundarhóp lífvera koma fram við þróun.“1 Við sjáum ekki þær tegundir, sem lifa á jörðinni núna, þróast í aðrar tegundir. Þær eru allar fullskapaðar hver í sinni mynd og ólíkar öðrum tegundum. Erfðafræðingurinn Theodosius Dobzhansky segir: „Lífheimurinn er ekki ein, einföld runa . . . samtengd óslitinni röð millitegunda.“2 Og Charles Darwin viðurkenndi: „Það eru mjög augljós vandkvæði að hin sérstöku [lífs]form skuli vera jafnvel aðgreind og raun ber vitni og ekki blandast með óteljandi millihlekkjum.“3
3 Hinar vel aðgreindu og fjölbreyttu tegundir núlifandi vera styðja þar af leiðandi ekki þróunarkenninguna með nokkrum hætti. Þess vegna var steingervingaskránni ætlað svona þýðingarmikið hlutverk. Þróunarsinnar bjuggust við að í það minnsta steingervingarnir myndu veita kenningu þeirra þá staðfestingu sem hana vantaði.
Að hverju skal leita?
4-6. Hvað myndu steingervingarnir sýna ef þróunarkenningin væri sönn?
4 Ef þróunin hefði átt sér stað hlytum við að finna steingervinga er sýndu hægfara breytingu frá einni tegund til annarrar. Og sú þyrfti raunin að vera óháð því hvaða afbrigði kenningarinnar væri miðað við. Jafnvel þeir vísindamenn, sem aðhyllast kenninguna um „rykkjótt jafnvægi“ og þær tiltölulega hröðu breytingar sem hún gerir ráð fyrir, viðurkenna að þær hljóti eigi að síður að hafa tekið þúsundir ára. Ekki er því skynsamlegt að halda að millitegundir þurfi alls ekkert að finnast í steingervingaskránni.
5 Ef þróunarkenningin væri sönn ættu einnig að finnast steingervingar lífvera með nýrri líkamsbyggingu á byrjunarstigi. Að minnsta kosti einhverjir steingervingar ættu að finnast með hálfþróaða handleggi, fótleggi, augu og ýmis bein og önnur líffæri. Við ættum að finna fiskugga hálfummyndaða í frosksfætur með tám, og tálkn hálfummynduð í lungu. Við ættum að finna skriðdýr með framlimi er væru að breytast í fuglsvængi, með afturlimi að breytast í fuglsfætur með klóm, með hreisturflögur að breytast í fjaðrir, með kjaft að breytast í fuglsnef.
6 Með vísan til þessa segir breska tímaritið New Scientist um þróunarkenninguna: „Hún spáir því að heilleg steingervingaskrá muni sýna samfelldar, hægfara breytingar heilla ættleggja á afarlöngum tíma.“4 Eins og Darwin sjálfur staðhæfði „hljóta millitegundirnar, sem til voru fyrrum, að hafa verið gífurlega margar.“5
7. Hvað ætti steingervingaskráin að sýna ef sköpunarsaga Biblíunnar fer með rétt mál?
7 Ef hins vegar sköpunarsaga Biblíunnar er sönn ætti steingervingaskráin ekki að sýna merki þess að ein tegund hafi breyst í aðra. Hún ætti að enduróma þau orð 1. Mósebókar að sérhver tegund lifandi vera tímgist aðeins „eftir sinni tegund.“ (1. Mósebók 1:11, 12, 21, 24, 25) Ef lífverurnar voru skapaðar ættu ekki að finnast steingervingar með hálfmynduðum beinum eða líffærum. Allir steingervingar ættu að sýna fullmyndaðar lífverur, flóknar og margbrotnar að gerð eins og þær sem við þekkjum núna.
8. Hvað annað ætti steingervingaskráin að sýna ef lifandi verur voru skapaðar?
8 Ef lifandi verur voru skapaðar má auk þess búast við að þær birtist skyndilega í jarðlögunum, án tengsla við nokkuð það sem á undan er. Ef sú reyndist raunin, hvað þá? Darwin viðurkenndi hreinskilnislega: „Ef fjölmargar tegundir . . . hafa í raun og veru kviknað til lífs skyndilega, myndi sú staðreynd reka þróunarkenningunni banahögg.“6
Hve heilleg er skráin?
9. Hvað sagði Darwin um vitnisburð steingervinganna í hans tíð?
9 En er steingervingaskráin nógu heilleg til að unnt sé að dæma um hvort hún styðji sköpun eða þróun? Darwin var ekki þeirrar skoðunar fyrir liðlega einni öld. Hvað var „aðfinnsluvert“ við steingervingaskrána í hans tíð? Hún sýndi ekki hlekkina milli tegundanna, þær millitegundir sem þurfti til að styðja kenningu hans. Hann sagði því: „Hvers vegna eru ekki allar jarðmyndanir og öll jarðlög full af slíkum millitegundum? Jarðfræðin opinberar okkur vissulega ekki neina slíka samfellda lífræna keðju, og það eru kannski augljósustu og alvarlegustu andmælin sem hægt er að bera fram gegn kenningunni.“7
10. Hvaða önnur vonbrigði sín nefndi Darwin?
10 Sú steingervingaskrá, sem þekkt var á dögum Darwins, olli honum vonbrigðum á annan veg. Hann sagði: „Allmargir steingervingafræðingar hafa bent á að það hversu skyndilega heilu tegundarhóparnir birtast í ýmsum jarðmyndunum . . . kollvarpi trúnni á ummyndun tegundanna.“ Hann hélt áfram: „Það er við annan skyldan vanda að glíma sem er mun alvarlegri. Ég á hér við það með hve skyndilegum hætti allmargar af helstu fylkingum dýraríkisins birtast í neðstu þekktu berglögum sem geyma steingerðar leifar. . . . Enn sem komið er verður að líta á það sem óskýranlegt, og má nota það sem gild rök gegn þeim hugmyndum [þ.e.a.s. um þróun] sem hér er gælt við.“8
11. Hvernig reyndi Darwin að skýra þessi vandkvæði?
11 Darwin reyndi að komast fram hjá þessum alvarlegu vandkvæðum með því að finna steingervingaskránni ýmislegt til foráttu. Hann sagði: „Ég lít á jarðsöguna sem mjög illa varðveitta veraldarsögu, . . . gloppótta á hæsta stigi.“9 Hann og fleiri gerðu ráð fyrir að þegar tímar liðu myndu hinir týndu hlekkir steingervingaskrárinnar örugglega finnast.
12. Hve auðugt steingervingasafn er nú til?
12 Núna hefur staðið yfir umfangsmikil leit í ríflega eina öld og geysilegt magn steingervinga fundist. Er saga jarðlaganna enn jafn „gloppótt“? Bókin Processes of Organic Evolution segir: „Nú eru til gríðarmiklar menjar um lífverur fyrri tíma sem verða sífellt meiri að vöxtum eftir því sem steingervingafræðingar finna fleiri steingervinga, flokka þá og bera saman.“10 Og Porter Kier, vísindamaður við Smithsonian-stofnunina, bætir við: „Til eru hundrað milljónir steingervinga, allir skráðir og greindir, í söfnum út um allan heim.“11 Því segir bókin A Guide to Earth History: „Með hjálp steingervinga geta steingervingafræðingar nú gefið okkur afbragðsgóða mynd af lífi fyrri alda.“12
13, 14. Hvers vegna hefur hið vaxandi steingervingasafn brugðist vonum þróunarfræðinga?
13 Hvernig lítur myndin út núna, eftir allan þennan tíma og söfnun steingervinga í milljónatali? Þróunarfræðingurinn Steven Stanley segir að steingervingarnir „veiti nýja og óvænta vitneskju um líffræðilegan uppruna okkar.“13 Bókin A View of Life, sem þrír þróunarfræðingar eru höfundar að, bætir við: „Steingervingaskráin sýnir stefnur sem steingervingafræðingar hafa ekki getað skýrt.“14 Hvað er það sem er svo ‚óvænt‘ fyrir þessa vísindamenn og þeir „hafa ekki getað skýrt“?
14 Vísindamenn eru höggdofa yfir því að hið mikla steingervingasafn, sem þeir hafa nú aðgang að, leiðir í ljós nákvæmlega hið sama og þeir steingervingar sem þekktir voru á dögum Darwins: Megintegundir lifandi vera birtust skyndilega og breyttust ekki að heitið geti á löngum tíma. Engar millitegundir eða „hlekkir“ hafa nokkurn tíma fundist sem tengja eina aðaltegund annarri. Steingervingaskráin segir því hið gagnstæða við það sem vænst var.
15. Hvaða ályktun dró grasafræðingur af rannsókn sinni á steingervingaskránni?
15 Eftir að hafa unnið sjálfur við rannsóknir í 40 ár lýsti sænski grasafræðingurinn Heribert Nilsson stöðu mála svo: „Það er ekki einu sinni hægt að gera skrípamynd af þróunarsögu byggða á fornlíffræðilegum heimildum. Steingervingasafnið er nú svo heillegt að . . . ekki er hægt að skýra skortinn á samfelldri röð millitegunda með því að það sé hörgull á efniviði. Skorturinn er raunverulegur; hann verður aldrei bættur.“15
Lífverur birtast skyndilega
16. (a) Hvaða hugmynd geta menn fengið um steingervingaskrána af orðum vísindamanns? (b) Sýnir steingervingaskráin það sem hann lét menn búast við?
16 Við skulum rýna betur í gögnin. Í bók sinni Red Giants and White Dwarfs segir Robert Jastrow: „Einhvern tíma á fyrsta ármilljarðinum kom lífið fram á yfirborði jarðar. Af steingervingunum sést að lifandi verur klifu hægt upp stigann frá einföldum myndum til háþróaðri.“ Út frá þessari lýsingu mætti ætla að steingervingaskráin segði sögu hægfara þróunar frá fyrstu „einföldu“ lífsmyndunum til hinna flóknu. Þó segir í sömu bók: „Hinn þýðingarmikli fyrsti ármilljarður, þegar lífið hófst, er óskrifaðar blaðsíður í sögu jarðar.“16
17. Er með réttu hægt að kalla fyrstu lífverurnar „einfaldar“?
17 Einnig má spyrja hvort hægt sé með réttu að kalla þessar fyrstu myndir lífs „einfaldar.“ Í bókinni Evolution From Space segir: „Sé farið aftur til þess tíma er elstu berglög urðu til, bera steingerðar leifar fornra lífsmynda ekki vitni um einfalda byrjun lífsins. Enda þótt við kunnum að vilja líta á steingerða gerla og steingerða þörunga og smásæja sveppi sem einfalda í samanburði við hund eða hest er upplýsingainnihaldið gríðarlegt. Lífið var að stærstum hluta komið fram í öllum sínum lífefnafræðilega margbreytileik þegar á þeim tíma er elsta yfirborðsberg jarðar var að myndast.“17
18. Finnast einhverjir steingervingar sem sýna þróun fjölfrumunga af einfrumungum?
18 Er þá hægt, að þessari byrjun lokinni, að finna nokkur sönnunargögn fyrir því að einfrumungar hafi þróast upp í fjölfrumunga? „Steingervingaskráin sýnir ekki minnstu merki þessara fyrstu skrefa í þróun fjölfrumunga,“ segir Jastrow.18 Hann bætir við: „Í sögu berglaganna er sáralítið að finna annað en gerla og einfrumuplöntur þar til stórt stökk varð fram á við fyrir hér um bil einum milljarði ára, eftir ósýnilega þróun um á að giska þriggja ármilljarða skeið. Fyrstu fjölfrumungarnir birtust á jörðinni.“19
19. Hvað gerðist í upphafi hins svonefnda kambríumtímabils?
19 Í byrjun hins svonefnda kambríumtíma verða þannig stórbrotin og óútskýrð þáttaskil í steingervingaskránni. Mikill fjöldi fullmyndaðra, flókinna sjávarlífvera, margar með harðri, ytri skel, birtist svo skyndilega að oft er sagt að þá hafi orðið sem „sprenging“ í fjölbreytni lifandi vera. Bókin A View of Life lýsir henni svo: „Frá byrjun kambríumtímans og á næstu 10 milljónum ára, um það bil, birtast í fyrsta sinn allir helstu meginflokkar hryggleysingja með stoðgrind. Þetta er stórbrotnasta stökk í fjölbreytni sem um getur á reikistjörnu okkar.“ Sniglar, svampar, krossfiskar, þríbrotar (krabbadýr lík humri) og margar aðrar flóknar sjávarlífverur koma fram. Sama bók nefnir athyglisvert atriði: „Sumir útdauðir þríbrotar þróuðu meira að segja flóknari og fjölhæfari augu en nokkur núlifandi liðdýr hafa.“20
20. Finnast steingervingar sem tengja hið fjölskrúðuga líf í upphafi kambríumtímans við það sem á undan var?
20 Finnast steingervingar sem tengja þetta fjölskrúðuga sjávarlíf einhverju því sem á undan var? Á tímum Darwins voru engir slíkir hlekkir þekktir. Hann viðurkenndi: „Ég kann enga viðhlítandi skýringu á því hvers vegna við finnum ekki auðug steingervingalög frá þessum elstu tímum sem við hyggjum hafa verið fyrir kambríumtímann.“21 Er staðan önnur núna? Steingervingafræðingurinn Alfred S. Romer vísar til orða Darwins um það „hversu skyndilega heilu tegundarhóparnir birtast“ og segir svo: „Undir þeim [kambríumlögunum] eru gríðarlega þykk setlög þar sem búast mætti við að finna ættfeður kambríumtegundanna. En við finnum þá ekki. Þessi eldri setlög sýna nánast engin merki lífs, og segja mætti með sanngirni að heildarmyndin komi heim og saman við hugmyndina um sérstaka sköpun í byrjun kambríumtímans. ‚Ég kann enga viðhlítandi skýringu á því hvers vegna við finnum ekki auðug steingervingalög frá þessum elstu tímum sem við hyggjum hafa verið fyrir kambríumtímann,‘ sagði Darwin. Við kunnum hana ekki heldur núna,“ sagði Romer.22
21. Hvaða rök hafa ekki haldið og hvers vegna?
21 Sumir halda því fram að forkambríumlögin hafi breyst of mikið vegna hita og þrýstings til að steingervingarnir hafi getað varðveist, eða þá að ekki hafi myndast setlög á grunnsævi þar sem steingervingar hafi getað varðveist. „Hvorug þessara raka hafa haldið,“ segja þróunarfræðingarnir Salvador E. Luria, Stephen Jay Gould og Sam Singer. Þeir bæta við: „Jarðfræðingar hafa fundið fjöldamörg óbreytt forkambrísk setlög og þar eru engir steingervingar flókinna lífvera.“23
22. Hvað sagði lífefnafræðingur í ljósi þessara staðreynda?
22 Þessar staðreyndir fengu lífefnafræðinginn D. B. Gower til að segja það sem haft er eftir honum í blaðinu Times í Kent á Englandi: „Ekki var hægt að láta frásögu 1. Mósebókar og þróunarkenninguna koma heim og saman. Önnur hlaut að vera rétt og hin röng. Saga steingervinganna kom heim og saman við frásögu 1. Mósebókar. Í elstu berglögum fundum við ekki samfellda röð steingervinga sem sýndu hægfara breytingu frumstæðustu lífvera í þróaðri, heldur birtust þróaðar tegundir skyndilega í elstu berglögum. Þar vantaði algerlega steingervinga af millitegundum sem tengdu einstakar tegundir.“24
23. Að hvaða niðurstöðu komst dýrafræðingur?
23 Dýrafræðingurinn Harold Coffin dregur þessa ályktun: „Ef kenningin um framþróun lífs frá einföldum lífverum til flókinna er rétt, þá ættu forfeður þessara fullmynduðu lífvera að finnast í kambríumlögunum. En þeir hafa ekki fundist og vísindamenn játa að litlar líkur séu á að þeir finnist. Ef við höldum okkur einungis við staðreyndir, við það sem hefur raunverulega fundist í jarðlögunum, þá er það kenningin um skyndilega sköpun allra meginstofna lifandi vera sem á best við.“25
Gangurinn áfram sá sami: Tegundir birtast skyndilega og breytast lítið
24. Segja steingervingarnir í lögunum fyrir ofan kambríumlögin sömu söguna?
24 Í lögunum ofan á kambríumlaginu endurtaka steingervingarnir sömu söguna: Nýjar tegundir dýra og plantna koma skyndilega fram á sjónarsviðið, án nokkurra tengsla við það sem á undan var. Og þegar lífveran er komin fram á sjónarsviðið er hún þar áfram án mikilla breytinga. The New Evolutionary Timetable segir: „Steingervingarnir sýna nú að tegundir lifa að jafnaði í hundrað þúsund kynslóðir, eða jafnvel eina eða fleiri milljónir, án þess að þróast að nokkru marki. . . . Flestar tegundir þróast mjög lítið frá því þær verða til uns þær deyja út.“26
25. Hvaða athyglisverður stöðugleiki birtist í sögu skordýranna?
25 Skordýrin skjóta til dæmis skyndilega upp kollinum og í mikilli fjölbreytni, án nokkurra forfeðra í þróunarsögunni. Ekki hafa þau heldur breyst mikið fram á þennan dag. Dr. George Poinar yngri sagði um steingerving af flugu sem sagður var 40 milljóna ára: „Innri líkamsbygging þessara skepna er merkilega lík því sem er í nútímaflugum. Vængir, fætur og höfuð, jafnvel hinar innri frumur, eru mjög nútímalegar.“27 Og frásögn í Tórontóblaðinu The Globe and Mail sagði um fluguna: „Á 40 milljóna ára basli upp þróunarstigann hefur hún náð nánast engum merkjanlegum árangri.“28
26. Lýstu því hvernig jurtir og dýr sýna sama stöðugleika.
26 Af plöntum er svipaða sögu að segja. Í berglögunum er að finna steingerð laufblöð fjölda trjáa og runna sem eru harla lík laufblöðum nútímaplantna sömu tegundar: laufblöð af eik, valhnotuviði, hikkoríuviði, vínviði, magnolíuviði, pálmaviði og mörgum öðrum. Dýrategundirnar fylgja sama mynstri. Forfeður núlifandi dýra birtast skyndilega í jarðlögunum og eru undur líkir núlifandi afkomendum sínum. Afbrigðin eru mörg en auðséð að þau eru sömu „tegundar.“ Tímaritið Discover nefnir eitt slíkt dæmi: „Skeifukrabbinn . . . hefur verið til á jörðinni nánast óbreyttur í 200 milljónir ára.“29 Sama er að segja um útdauðar tegundir. Forneðlurnar birtast til dæmis skyndilega í jarðlögunum, án minnstu tengsla við nokkra forfeður. Þeim fjölgaði stórum en dóu svo út.
27. Hvað segir nýlegt vísindarit um þróunarlegar „framfarir“?
27 Um þetta segir blaðið Bulletin sem Náttúrusögusafn Chicago gefur út: „Tegundir birtast í röðinni mjög skyndilega, taka litlum sem engum breytingum meðan þær er að finna í jarðsögunni, og hverfa síðan fyrirvaralaust úr henni. Og það er ekki alltaf ljóst, í rauninni sjaldan ljóst, hvort afkomendur þeirra eru betur aðhæfðir en forverar þeirra. Það er, með öðrum orðum, erfitt að finna líffræðilegar framfarir.“30
Engin millistig
28. Hafa einhvern tíma fundist bein eða líffæri sem eru að breytast úr einu í annað?
28 Önnur vandkvæði þróunarkenningarinnar felast í því að hvergi er í steingervingaskránni að finna hálfmynduð bein eða líffæri sem telja mætti byrjun nýs einkennis. Til dæmis eru til steingervingar af ýmsum fljúgandi verum — fuglum, leðurblökum og útdauðum flugeðlum. Samkvæmt þróunarkenningunni hljóta þær að hafa þróast af einhverjum millitegundum. En engar slíkar millitegundir hafa fundist, ekki snefill af þeim. Eru til steingervingar af gíraffa með háls sem er tveir þriðju eða þrír fjórðu af hálslengd nútímagíraffa? Eru til steingervingar sem sýna þróun goggs af skriðdýrsskoltum? Eru til steingervingar af fiskum sem eru að mynda mjaðmargrind froskdýra eða með ugga sem eru að umbreytast í fótleggi, fætur og tær froskdýra? Leitin að slíkum steingervingum hefur reynst árangurslaus með öllu.
29. Hvað viðurkenna þróunarfræðingar nú um millitegundirnar sem menn ætla að hafi verið til?
29 Tímaritið New Scientist getur þess að þróunarkenningin ‚spái því að heilleg steingervingaskrá muni sýna samfelldar, hægfara breytingar heilla ættleggja lífvera á afarlöngum tíma.‘ En það viðurkennir: „Því miður hefur steingervingaskráin ekki uppfyllt þessar vonir því að einstakar, steingerðar tegundir eru sjaldan tengdar hver annarri með þekktum millitegundum. . . . þekktar, steingerðar tegundir virðast satt að segja ekki þróast, jafnvel á milljónum ára.“31 Og erfðafræðingurinn Stebbins skrifar: „Engar millitegundir eru þekktar er tengja nokkrar aðalfylkingar dýra- eða jurtaríkisins.“ Hann talar um „stóru gjárnar sem aðskilja margar aðaltegundir lifandi vera.“32The New Evolutionary Timetable viðurkennir: „Steingervingaskráin skjalfestir meira að segja ekki með sannfærandi hætti eina einustu umbreytingu einnar tegundar til annarrar. Enn fremur entust tegundirnar ótrúlega lengi.“33 — Leturbreyting okkar.
30. Hvað staðfestir umfangsmikil rannsókn?
30 Þetta kemur heim og saman við umfangsmikla rannsókn sem gerð var á vegum Jarðfræðifélags Lundúna og Enska steingervingafræðifélagsins. John N. Moore, prófessor í náttúruvísindum, segir um niðurstöðurnar: „Um það bil 120 vísindamenn, allir sérfræðingar, unnu að gerð 30 kafla þessa rismikla verks, sem er yfir 800 blaðsíður, til að gera grein fyrir því sem steingervingarnir segja um plöntur og dýr er skiptast niður í um það bil 2500 flokka. . . . Fram kemur að hvert aðalform eða tegund plantna og dýra á sér sérstæða sögu sem er ólík sögu allra annarra tegunda! Tegundarhópar bæði plantna og dýra birtast skyndilega í steingervingasögunni. . . . Hvalir, leðurblökur, hestar, fremdardýr, fílar, hérar, íkornar o.s.frv. eru öll jafnólík og aðgreind þegar þau fyrst birtast eins og þau eru núna. Það eru ekki minnstu merki um sameiginlegan forföður, og þaðan af síður um hlekk er tengi þau einhverju skriðdýri sem á að vera forfaðir þeirra.“ Moore bætir við: „Engar millitegundir hafa fundist í steingervingaskránni. Það er mjög sennilega vegna þess að alls engar steingerðar millitegundir er að finna. Að öllum líkindum hefur ein dýrategund og/eða plöntutegund aldrei breyst í aðra.“34
31. Segir steingervingaskráin aðra sögu núna en á dögum Darwins?
31 Staðan er því óbreytt frá dögum Darwins. Steingervingarnir segja sömu sögu núna og dýrafræðingurinn D’Arcy Thompson sagði fyrir nokkrum árum í bók sinni On Growth and Form: „Darwinsk þróunarkenning hefur ekki kennt okkur hvernig fuglar þróast af skriðdýrum, spendýr af eldri ferfætlingum, ferfætlingar af fiskum eða hryggdýr af hryggleysingjum. . . . leitin að staksteinum yfir gjárnar er vonlaus leit, að eilífu.“35
Hvað um hestinn?
32. Hverju er oft slegið fram sem sígildu dæmi um þróun einnar tegundar af annarri?
32 Því hefur þó oft verið haldið fram að þróun hestsins sé að minnsta kosti sígilt dæmi er lesa megi af steingervingunum. The World Book Encyclopedia segir: „Hesturinn er eitt af best staðfestu dæmunum um þróun.“36 Myndir, sem eiga að lýsa þessu þróunarferli, byrja með mjög smáu dýri og enda með hinum stóra nútímahesti. En á slíkt þróunarferli sér í raun og veru stoð í steingervingaskránni?
33. Styður steingervingaskráin í raun „þróunarsögu“ hestsins?
33 Alfræðibókin Encyclopædia Britannica segir: „Þróunarferli hestsins hefur aldrei legið í beina línu.“37 Með öðrum orðum er hvergi hægt að lesa út úr steingervingaskránni hægfara breytingu þessa litla dýrs í hest. Þróunarfræðingurinn Hitching segir um þetta þróunarlíkan sem svo mjög hefur verið haldið á lofti: „Eitt sinn var það sett fram sem einfalt og afdráttarlaust en er núna svo flókið að það er meira trúaratriði en rökrétt val að taka eina útgáfuna fram yfir aðra. Árhestur, Eohippus, sem álitinn var fyrsti hesturinn og sérfræðingar höfðu talið löngu útdauðan og var þekktur aðeins sem steingervingur, kann í raun að vera ljóslifandi, í fullu fjöri og alls enginn hestur — fælið dýr á stærð við ref, nefnt hnubbur eða klettagreifingi, sem skýst um í kjarrlendi Afríku.“38
34, 35. (a) Hvers vegna draga sumir nú í efa að árhestur sé settur á réttan stað í „þróunarsögunni“? (b) Hafa fundist einhverjir þróunarlegir forfeður hinna ýmsu afbrigða steingerðra hesta?
34 Það þarf ekki lítið ímyndunarafl til að stilla árhesti (einnig nefndur greifill) upp sem forföður hestsins, einkanlega í ljósi þess sem segir í The Evolutionary Timetable: „Almennt var gert ráð fyrir að [árhestur] hefði hægt en ákveðið þróast yfir í dýr sem líktist meira hesti.“ En styðja staðreyndir þessa ályktun? „Hin steingerða tegund [árhestur] sýnir lítil merki um þróunarbreytingar,“ svarar bókin. Hún viðurkennir því að steingervingarnir „skrái ekki alla sögu hestaættarinnar.“39
35 Sumir vísindamenn eru nú komnir á þá skoðun að hinn litli árhestur hafi aldrei verið hestategund eða forfaðir hestsins. Auk þess hafa allar hinar steingerðu tegundir, sem raðað hefur verið í þróunarlínu hestsins, sýnt eftirtektarverðan stöðugleika. Engar millitegundir hafa fundist er tengja þær öðrum tegundum sem álitnar voru þróunarfeður hestsins. Það ætti heldur engum að koma á óvart að til skuli vera steingervingar af hestum sem eru ólíkir að stærð og lögun. Enn þann dag í dag eru til hestar allt frá smáhestum upp í stóra dráttarhesta. Þeir eru allir mismunandi afbrigði innan hestaættarinnar.
Það sem steingervingaskráin raunverulega segir
36. Hvaða sögu segir steingervingaskráin í raun?
36 Þegar steingervingaskránni er leyft að flytja mál sitt er vitnisburður hennar ekki þróunarkenningunni í vil. Hún talar þvert á móti máli beinnar sköpunar. Hún sýnir að fjölmargar tegundir lifandi vera komu skyndilega fram á sjónarsviðið. Enda þótt mikillar fjölbreytni hafi gætt innan hverrar tegundar sjást engir hlekkir er tengja þær forfeðrum neðar í einhverjum þróunarstiga. Og engir þróunarhlekkir tengja þær heldur ólíkum lífverum sem á eftir koma. Hinar ýmsu tegundir lifandi vera héldust svo til óbreyttar um langan tíma þar til sumar þeirra dóu út, en aðrar hafa haldið velli fram á okkar dag.
37. Hvernig viðurkennir þróunarfræðingur einn það?
37 „Ekki er hægt að líta á þróunarhugmyndina sem sannfærandi vísindalega skýringu á tilvist hinna fjölbreyttu lífsforma,“ segir þróunarfræðingurinn Edmund Samuel í bók sinni Order: In Life. Hvers vegna ekki? „Engin nákvæmnisgreining á landfræðilegri dreifingu lifandi vera eða steingervingunum getur stutt þróunarkenninguna beinlínis.“40
38. Að hvaða niðurstöðu myndi óhlutdrægur athugandi komast?
38 Óhlutdrægur athugandi hlýtur því að komast að þeirri niðurstöðu að steingervingaskráin styðji ekki þróunarkenninguna. Steingervingarnir eru hins vegar þungt lóð á vogarskál þeirra sem halda fram sköpun. Dýrafræðingurinn Coffin segir: „Fyrir vísindamenn, sem eru óbundnir trúarskoðunum, eru steingervingarnir, vitnisburður um líf liðinna tíma, hinn æðsti og endanlegi áfrýjunardómstóll, því að steingervingasagan er eina, áreiðanlega saga lífsins sem vísindin hafa aðgang að. Ef þessi steingervingasaga samrýmist ekki þróunarkenningunni — og við höfum komist að raun um að hún gerir það ekki — hvað kennir hún okkur þá? Hún segir frá því að jurtir og dýr hafi verið sköpuð í sinni grunnmynd. Meginstaðreyndir steingervingasögunnar styðja hugmyndina um sköpun, ekki þróun.“41 Stjörnufræðingurinn Carl Sagan viðurkenndi hreinskilnislega í bók sinni Cosmos: „Vitnisburður steingervinganna gæti samrýmst hugmyndinni um mikinn hönnuð.“42
Spurningar
[Rammi á blaðsíðu 54]
„Enginn líffræðingur hefur séð tegundarhóp lífvera koma fram við þróun.“
[Rammi á blaðsíðu 57]
Darwin: „Ef fjölmargar tegundir . . . hafa í raun og veru kviknað til lífs skyndilega, myndi sú staðreynd reka þróunarkenningunni banahögg.“
[Rammi á blaðsíðu 59]
Steingervingarnir segja gagnstæða sögu við það sem þróunarkenningin hafði spáð.
[Rammi á blaðsíðu 60]
„Sé farið aftur til þess tíma er elstu berglög urðu til, bera steingerðar leifar fornra lífsmynda ekki vitni um einfalda byrjun lífsins.“
[Rammi á blaðsíðu 61]
Darwin: ‚Heilu tegundarhóparnir birtast skyndilega.‘
[Rammi á blaðsíðu 62]
„Segja mætti með sanngirni að heildarmyndin komi heim og saman við hugmyndina um sérstaka sköpun.“
[Rammi á blaðsíðu 62]
„Þar vantaði algerlega steingervinga af millitegundum sem tengdu einstakar tegundir.“
[Rammi á blaðsíðu 66]
„Þróunarferli hestsins hefur aldrei legið í beina línu.“
[Rammi á blaðsíðu 67]
„Equus-tegundarhópurinn, sem allir núlifandi hestar tilheyra, . . . birtist skyndilega í steingervingaskránni . . . engir þekktir steingervingar sýna fram á uppruna hans.“b
[Rammi á blaðsíðu 70]
„Ekki er hægt að líta á þróunarhugmyndina sem sannfærandi vísindalega skýringu á tilvist hinna fjölbreyttu lífsforma.“
[Rammi á blaðsíðu 55]
Hin hefðbundna þróunarkenning Trúin á sköpun gerði ráð
gerði ráð fyrir að steingervinga- fyrir að steingervingaskráin
skráin myndi sýna: myndi sýna:
1. Afar einföld lífsform er 1. Flókin lífsform er kæmu
kæmu fram smám saman. skyndilega fram.
2. Einföld lífsform er 2. Flókin lífsform er tímguðust
breyttust smám saman í flóknari. ‚eftir sinni tegund‘ (innan
líffræðilegra tegundarmarka),
þótt rúm væri fyrir allmikla
fjölbreytni.
3. Marga millihlekki er 3. Engar millitegundir milli
tengdu ólíkar tegundir. ólíkra tegunda.
4. Dæmi um þróun nýrra 4. Enga hálfmyndaða
líkamshluta á byrjunarstigi, líkamshluta;
svo sem lima beina og líffæra. aðeins fullmyndaða.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 56]
Í bók um þróunarkenninguna er að finna teikningu sem þessa með textanum: „FRÁ FISKI TIL MANNS.“ Bókin segir að myndin „sýni hvernig beinin í ugga fisksins þróuðust upp í hönd og handlegg mannsins.“ Hún segir einnig: „Steingervingarnir sýna okkur mörg millistig í þessari umbreytingu.“ En gera þeir það?a
Skyringarmynd
(Sjá uppraðaðan texta í bókinni)
Úlnliður
Framhandleggur
Olnbogi
Upphandleggur
Öxl
[Rammi/Myndir á blaðsíðu 68, 69]
Það sem steingervingarnir segja . . . um uppruna lifandi vera
Um uppruna lífsins:
„Að minnsta kosti þrír fjórðu hlutar jarðsögunnar, sem eru greyptir í jarðskorpuna, eru óskrifað blað.“ — The World We Live Inc
„Fyrstu skrefin . . . eru óþekkt, . . . engin spor eru eftir.“ — Red Giants and White Dwarfsd
Um fjölfrumunga:
„Það er erfið spurning og endalaust deiluefni hvernig fjölfrumungar urðu til, og hvort þetta skref átti sér stað einu sinni eða oftar og á einn eða fleiri vegu . . . ‚Þegar öll kurl koma til grafar er ógerlegt að svara því.‘“ — Sciencee
„Steingervingaskráin sýnir engin minnstu merki um þessi undirbúningsskref að þróun fjölfrumunga.“ — Red Giants and White Dwarfsf
Um jurtalíf:
„Flestir grasafræðingar líta á steingervingaskrána sem upplýsingalind. En . . . ekkert hefur fundist sem getur hjálpað þeim. . . . Engin merki finnast um upprunann.“ — The Natural History of Palmsg
Um skordýr:
„Steingervingaskráin veitir enga vitneskju um uppruna skordýra.“ — Encyclopædia Britannicah
„Engir steingervingar hafa fundist er sýna hvernig frumstæðir forfeður skordýranna litu út.“ — The Insectsi
Um hryggdýr:
„Steingervingar veita okkur hins vegar engar upplýsingar um uppruna hryggdýra.“ — Encyclopædia Britannicaj
Um fiska:
„Að því er við best vitum var enginn ‚hlekkur‘ milli þessarar nýju skepnu og nokkurrar fyrri lífveru. Fiskarnir hreinlega birtust.“ — Marvels & Mysteries of Our Animal Worldk
Um þróun froskdýra af fiskum:
„Við munum sennilega aldrei vita hvernig og hvers vegna þeir gerðu það.“ — The Fishesl
Um þróun skriðdýra af froskdýrum:
„Eitt af því sem veldur vonbrigðum, þegar saga hryggdýra er skoðuð í steingervingaskránni, er að hún segir svo lítið um þróun skriðdýra á frumskeiði þeirra þegar egg með skurn var að þróast.“ — The Reptilesm
Um þróun spendýra af skriðdýrum:
„Enginn týndur hlekkur er til sem tengir spendýr og skriðdýr.“ — The Reptilesn
„Því miður gefa steingervingar litla vísbendingu um þær skepnur sem við köllum fyrstu raunverulegu spendýrin.“ — The Mammalso
Um þróun fugla af skriðdýrum:
„Enn minni upplýsingar er að finna um umbreytinguna frá skriðdýrum til fugla.“ — Processes of Organic Evolutionp
„Engir steingervingar hafa enn fundist af nokkru slíku skriðdýri er líkist fugli.“ — The World Book Encyclopediaq
Um apa:
„Því miður er sú steingervingaskrá, sem myndi gera okkur kleift að rekja tilurð apanna, enn þá raunalega gloppótt.“ — The Primatesr
„Nútímaapar virðast til dæmis hafa sprottið upp úr engu. Þeir eiga sér enga fortíð, enga steingerða forfeður.“ — Science Digests
Frá apa til manns:
„Engir steingervingar eða önnur áþreifanleg gögn tengja manninn beint við apana.“ — Science Digestt
„Mannkynið er ekki ein stök ættarlína frá tegund, er líktist apa, til okkar tegundar.“ — The New Evolutionary Timetableu
[Mynd á blaðsíðu 58]
Fundist hafa milljónir steingervinga sem geymdir eru í söfnum og á rannsóknarstofum víða um heim.
[Myndir á blaðsíðu 61]
Snemma á hinum svonefnda kambríumtíma birtast skyndilega steingervingar allra helstu hópa hryggleysingja í mikilli fjölbreytni, án tengsla við nokkra forfeður á þróunarbrautinn.
Svampur
Þríbroti
Marglytta
[Myndir á blaðsíðu 63]
Ólíkar og afar flóknar lífverutegundir birtast skyndilega og fullmyndaðar.
Hestur
Jarðíkorni
Fiðrildi
Burkni
Rós
Fiskur
[Myndir á blaðsíðu 64]
Þróunarkenningin ætlar fljúgandi verum að hafa þróast af millitegundum milli þeirra og forfeðra þeirra, en engar hafa fundist.
Kría
Kólibrífugl
Örn
[Mynd á blaðsíðu 65]
Engir steingerðir gíraffar hafa fundist með háls sem er tveir þriðju eða þrír fjórðu af núverandi hálslengd gíraffans.
[Mynd á blaðsíðu 67]
Þetta dýr, sem líkist nagdýri, er sagt vera líkt árhesti, Eohippus, hinum meinta forföður hestsins. Engar sannanir finnast þó fyrir því að árhestur hafi þróast upp í neitt sem líkist meira hesti.