Dæmisagan um brúðkaupsveisluna
Kafli 107
Dæmisagan um brúðkaupsveisluna
JESÚS hefur afhjúpað fræðimennina og æðstuprestana með tveim dæmisögum og þeir vilja hann feigan. En Jesús er ekki skilinn að skiptum við þá og segir þeim þriðju dæmisöguna:
„Líkt er um himnaríki og konung einn, sem gjörði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla til brúðkaupsins þá, sem boðnir voru, en þeir vildu ekki koma.“
Jehóva Guð er konungurinn sem undirbýr brúðkaupsveislu sonar síns, Jesú Krists. Þegar þar að kemur verður brúður Jesú, 144.000 smurðir fylgjendur hans, sameinuð honum á himnum. Þegnar konungsins eru Ísraelsmenn sem fengu tækifæri til að verða „prestaríki“ með tilkomu lagasáttmálans árið 1513 f.o.t. Þeim var því upphaflega boðið til brúðkaupsins þá.
Fyrra kallið til boðsgestanna kom þó ekki fyrr en haustið 29 þegar Jesús og lærisveinar hans (þjónar konungsins) tóku að prédika Guðsríki. En Ísraelsmenn að holdinu, sem þjónarnir kölluðu frá árinu 29 til 33, vildu ekki koma. Guð gaf hinni boðnu þjóð þá annað tækifæri eins og Jesús greinir frá:
„Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: ‚Segið þeim, sem boðnir voru: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað, og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið.‘“ Þetta síðara kall til boðsgestanna hófst á hvítasunnunni árið 33 þegar heilögum anda var úthellt yfir fylgjendur Jesú og því var fram haldið til ársins 36.
En langflestir Ísraelsmenn skeyttu ekki heldur þessu kalli. „Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns, en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu,“ segir Jesús og heldur áfram: „Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra.“ Það gerðist árið 70 þegar Rómverjar jöfnuðu Jerúsalem við jörðu og drápu þessa morðingja.
Jesús útskýrir hvað gerðist þangað til: „Síðan segir [konungurinn] við þjóna sína: ‚Brúðkaupsveislan er tilbúin, en hinir boðnu voru ekki verðugir. Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið.‘“ Þjónarnir gerðu það „svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.“
Þessi gestasöfnun á vegum úti, utan borgarinnar þar sem boðsgestirnir bjuggu, hófst árið 36. Rómverski liðsforinginn Kornelíus og fjölskylda hans voru fyrstu óumskornu mennirnir utan Gyðingaþjóðarinnar sem safnað var. Samansöfnun þessara annarra þjóða manna í stað upphaflegra boðsgesta, sem skeyttu ekki kallinu, hefur haldið áfram allt fram á 20. öldina.
Það er á 20. öldinni sem brúðkaupssalurinn fyllist. Jesús segir hvað þá gerist: „Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: ‚Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum?‘ Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: ‚Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.‘“
Maðurinn án brúðkaupsklæða táknar gervikristna menn kristna heimsins. Guð hefur aldrei viðurkennt þá sem andlega Ísraelsmenn því að þeir hafa ekki rétt auðkenni. Hann hefur aldrei smurt þá með heilögum anda sem erfingja Guðsríkis. Þeim er því kastað út í ystu myrkur þar sem þeir tortímast.
Jesús lýkur dæmisögunni og segir: „Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir.“ Já, margir voru kallaðir eða boðnir úr Ísraelsþjóðinni til að verða hluti af brúði Krists en aðeins fáeinir útvaldir. Flestir gestanna 144.000, sem hljóta himneska umbun, eru útvaldir úr öðrum þjóðum. Matteus 22:1-14; 2. Mósebók 19:1-6; Opinberunarbókin 14:1-3.
▪ Hverjum var upphaflega boðið til brúðkaupsveislunnar og hvenær?
▪ Hvenær eru boðsgestirnir fyrst kallaðir og hverjir eru þjónarnir sem kalla þá?
▪ Hvenær er kallað öðru sinni og hverjum er síðan boðið?
▪ Hverja táknar maðurinn án brúðkaupsklæða?
▪ Hverjir eru hinir mörgu, sem eru kallaðir, og hinir fáu útvöldu?