Dæmisagan um pundin
Kafli 100
Dæmisagan um pundin
VERA má að Jesús sé enn heima hjá Sakkeusi þar sem hann kom við á leiðinni til Jerúsalem. Lærisveinar hans halda að þegar þeir komi til Jerúsalem muni hann lýsa yfir að hann sé Messías og stofnsetja ríki sitt. Hann segir því dæmisögu til að leiðrétta þá og sýna þeim fram á að Guðsríki sé enn fjarri.
„Maður nokkur tiginborinn fór í fjarlægt land til þess að taka við konungdómi og koma síðan aftur,“ segir hann. Jesús er ‚tiginborni maðurinn‘ og himinninn er ‚fjarlæga landið.‘ Þegar Jesús kemur þangað mun faðir hans veita honum konungdóm.
En áður en tiginborni maðurinn fer kallar hann til sín tíu þjóna og fær hverjum um sig silfurpund og segir: „Verslið með þetta, þangað til ég kem.“ Í byrjunaruppfyllingunni tákna þjónarnir tíu fyrstu lærisveina Jesú. Í víðtækara samhengi tákna þeir alla væntanlega samerfingja hans að ríkinu á himnum.
Silfurpund er býsna verðmætt því að það svarar til þriggja mánaða launa landbúnaðarverkamanns. En hvað tákna pundin og hvers konar verslun eiga þjónarnir að stunda með þau?
Pundin tákna eigur sem andagetnir lærisveinar gátu notað til að safna fleiri erfingjum að hinu fyrirheitna, himneska ríki uns Jesús kæmi sem konungur þess. Eftir að hann var upprisinn og birtist lærisveinunum fékk hann þeim hin táknrænu pund til að gera fleiri menn að lærisveinum og bæta við himnaríkishópinn.
„En landar [tiginborna mannsins] hötuðu hann,“ heldur Jesús áfram, „og gerðu sendimann á eftir honum til að segja: ‚Vér viljum ekki, að þessi maður verði konungur yfir oss.‘“ Landarnir eru Ísraelsmenn eða Gyðingar aðrir en lærisveinar hans. Eftir burtför Jesú til himna ofsækja þessir Gyðingar lærisveina hans og láta þar með í ljós að þeir vilji hann ekki sem konung. Þannig voru þeir eins og samlandar tiginborna mannsins sem gerðu út sendimanninn á eftir honum.
Hvernig nota þessir tíu þjónar pundin? Jesús segir: „Nú kom hann aftur og hafði tekið konungdóm. Þá lét hann kalla fyrir sig þjóna þá er hann hafði selt féð í hendur, til þess að vita, hvað hver hefði grætt. Hinn fyrsti kom og sagði: ‚Herra, pund þitt hefur ávaxtast um tíu pund.‘ Konungur sagði við hann: ‚Gott, þú góði þjónn, þú varst trúr í mjög litlu og því skaltu ráða fyrir tíu borgum.‘ Annar kom og sagði: ‚Pund þitt, herra, hefur gefið af sér fimm pund.‘ Hann sagði eins við hann: ‚Þú skalt og vera yfir fimm borgum.‘“
Þjónninn með tíu pundin táknar hóp lærisveina frá og með hvítasunnunni árið 33 fram til okkar daga, þeirra á meðal postulana. Þjónninn með fimm pundin táknar líka hóp á sama tímabili sem eykur eigur konungsins á jörð í samræmi við hæfni sína og aðstæður. Báðir hóparnir prédika fagnaðarerindið um ríkið kostgæfilega með þeim árangri að margir með rétt hjartalag gerast kristnir. Níu þjónar versluðu með það sem þeim var fengið og ávöxtuðu það.
„Enn kom einn,“ heldur Jesús áfram, „og sagði: ‚Herra, hér er pund þitt. Ég hef haft það geymt í dúki, því að ég var hræddur við þig, en þú ert maður strangur og tekur það út, sem þú lagðir ekki inn, og uppsker það, sem þú sáðir ekki.‘ Hann segir við hann: ‚Illi þjónn, eftir orðum þínum dæmi ég þig. Þú vissir, að ég er maður strangur, sem tek það út, sem ég lagði ekki inn, og uppsker það, sem ég sáði ekki. Hvers vegna léstu þá ekki fé mitt í banka? Þá hefði ég fengið það með vöxtum, er ég kom heim.‘ Og hann sagði við þá er hjá voru: ‚Takið af honum pundið, og fáið þeim, sem hefur tíu pundin.‘“
Missir hins táknræna punds merkir að illi þjónninn missir af því að vera í ríkinu á himnum. Hann missir þau sérréttindi að ríkja yfir tíu borgum eða fimm borgum ef svo má segja. Og við tökum eftir að þjónninn er ekki dæmdur illur vegna neinna illskuverka heldur fyrir að vinna ekki að því að auka ríkisfé húsbónda síns.
Menn hreyfa mótmælum þegar pund illa þjónsins er fengið fyrsta þjóninum: „Herra, hann hefur tíu pund.“ En Jesús svarar: „Hverjum sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur. En þessa óvini mína, sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér, færið þá hingað og höggvið þá frammi fyrir mér.“ Lúkas 19:11-27; Matteus 28:19, 20.
▪ Hvert er tilefnið að dæmisögu Jesú um pundin?
▪ Hver er tiginborni maðurinn og hvert er landið sem hann fer til?
▪ Hverjir eru þjónarnir og hvað tákna pundin?
▪ Hverjir eru landar mannsins og hvernig sýna þeir hatur sitt?
▪ Af hverju er einn þjónninn kallaður illur og hvað merkir það að pundið skuli tekið af honum?