Farísearnir vilja ekki trúa
Kafli 71
Farísearnir vilja ekki trúa
FORELDRAR betlarans, sem verið hafði blindur, verða skelkaðir þegar þeir eru kallaðir fyrir faríseana. Þeir vita að ákveðið hefur verið að hver sá maður sé gerður samkundurækur sem láti í ljós trú á Jesú. Slík útilokun frá félagsskap við aðra í samfélaginu getur haft gífurlega erfiðleika í för með sér, ekki síst fyrir fátæka fjölskyldu. Foreldrarnir eru því varkárir.
„Er þetta sonur ykkar, sem þið segið að hafi fæðst blindur?“ spyrja farísearnir. „Hvernig er hann þá orðinn sjáandi?“
„Við vitum, að þessi maður er sonur okkar og að hann fæddist blindur,“ svara foreldrarnir. „En hvernig hann er nú orðinn sjáandi, vitum við ekki, né heldur vitum við, hver opnaði augu hans.“ Sonurinn hlýtur að hafa sagt þeim frá öllu sem gerðist, en foreldrarnir eru varkárir og segja: „Spyrjið hann sjálfan. Hann hefur aldur til. Hann getur svarað fyrir sig.“
Farísearnir kalla þá aftur á manninn. Nú reyna þeir að hræða hann með því að gefa í skyn að þeir hafi sannanir fyrir því að Jesús hafi gerst sekur um glæpsamlegt athæfi. „Gef þú Guði dýrðina,“ skipa þeir. „Vér vitum, að þessi maður er syndari.“
Maðurinn, sem verið hafði blindur, mótmælir þeim ekki heldur segir: „Ekki veit ég, hvort hann er syndari. En eitt veit ég, að ég, sem var blindur, er nú sjáandi.“
Farísearnir reyna að finna veilu í vitnisburði mannsins og spyrja aftur: „Hvað gjörði hann við þig? Hvernig opnaði hann augu þín?“
„Ég er búinn að segja yður það, og þér hlustuðuð ekki á það,“ segir hann í kvörtunartón. „Hví viljið þér heyra það aftur?“ Síðan spyr hann hæðnislega: „Viljið þér líka verða lærisveinar hans?“
Farísearnir verða ævareiðir þessu svari. „Þú ert lærisveinn hans, vér erum lærisveinar Móse,“ segja þeir ásakandi. „Vér vitum, að Guð talaði við Móse, en um þennan vitum vér ekki, hvaðan hann er.“
Hinn auðmjúki betlari svarar undrandi: „Þetta er furðulegt, að þér vitið ekki, hvaðan hann er, og þó opnaði hann augu mín.“ Hvaða ályktun ætti að draga af þessu? Betlarinn bendir á viðurkennda forsendu: „Vér vitum, að Guð heyrir ekki syndara. En ef einhver er guðrækinn og gjörir vilja hans, þann heyrir hann. Frá alda öðli hefur ekki heyrst, að nokkur hafi opnað augu þess, sem blindur var borinn.“ Niðurstaðan ætti því að vera augljós: „Ef þessi maður væri ekki frá Guði, gæti hann ekkert gjört.“
Farísearnir kunna ekkert svar við svona einföldum og skýrum rökum. Þeir geta ekki horfst í augu við sannleikann og úthúða manninum: „Þú ert syndum vafinn frá fæðingu og ætlar að kenna oss!“ Síðan reka þeir manninn út, greinilega í þeirri merkingu að þeir gera hann samkundurækan.
Þegar Jesús kemst að raun um hvað þeir hafa gert leitar hann manninn uppi og spyr: „Trúir þú á Mannssoninn?“
Maðurinn svarar: „Herra, hver er sá, að ég megi trúa á hann?“
„Hann er sá sem er nú að tala við þig,“ svarar Jesús.
Maðurinn fellur þá fram fyrir Jesú og segir: „Ég trúi, herra.“
Jesús segir þá: „Til dóms er ég kominn í þennan heim, svo að blindir sjái og hinir sjáandi verði blindir.“
Farísear, sem heyra samtal þeirra, spyrja þá: „Erum vér þá líka blindir?“ Ef þeir viðurkenndu að þeir væru andlega blindir væri andstaða þeirra gegn Jesú afsakanleg, eins og hann segir þeim: „Ef þér væruð blindir, væruð þér án sakar.“ En þeir standa á því fastara en fótunum að þeir séu ekki blindir og þarfnist ekki andlegrar upplýsingar. Jesús segir því: „Nú segist þér vera sjáandi, því varir sök yðar.“ Jóhannes 9:19-41.
▪ Af hverju verða foreldrar betlarans, sem verið hafði blindur, skelkaðir þegar þeir eru kallaðir fyrir faríseana, og hvernig svara þeir varfærnislega?
▪ Hvernig reyna farísearnir að hræða manninn sem verið hafði blindur?
▪ Hvaða skýrum rökum mannsins reiðast farísearnir?
▪ Af hverju er andstaða faríseanna gegn Jesú óafsakanleg?