Hjálpfús Samverji
Kafli 73
Hjálpfús Samverji
JESÚS er ef til vill staddur í námunda við Betaníu, þorp sem er um þriggja kílómetra leið frá Jerúsalem. Sérfræðingur í lögmáli Móse kemur að máli við hann og spyr: „Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“
Jesús gerir sér grein fyrir að lögvitringurinn er ekki að spyrja aðeins til fróðleiks heldur til að reyna hann. Kannski ætlar hann að fá Jesú til að svara þannig að hann móðgi Gyðinga. Jesús fær hann því til að segja álit sitt og spyr: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“
Lögvitringurinn sýnir óvenjulegt innsæi er hann vitnar í lögmál Guðs í 5. Mósebók 6:5 og 3. Mósebók 19:18 og segir: „Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig.“
„Þú svaraðir rétt,“ segir Jesús. „Gjör þú þetta, og þú munt lifa.“
En lögvitringurinn er ekki ánægður. Svar Jesú er ekki nógu hnitmiðað fyrir hann. Hann vill fá staðfestingu Jesú á því að sjónarmið sín séu rétt og að hann sé réttlátur í framkomu við aðra. Þess vegna spyr hann: „Hver er þá náungi minn?“
Gyðingar álíta að hugtakið „náungi“ nái aðeins yfir Gyðinga eins og ætla mætti af samhenginu í 3. Mósebók 19:18. Pétur postuli sagði meira að segja síðar: „Þér vitið, að Gyðingi er bannað að eiga samneyti við annarrar þjóðar mann eða koma til hans.“ Lögvitringurinn, og kannski einnig lærisveinar Jesú, telja nóg að koma vel fram við aðra Gyðinga til að kallast réttlátir, þar sem þeir álíta menn af öðrum þjóðum ekki náunga sína.
Hvernig getur Jesús leiðrétt viðhorf áheyrenda sinna án þess að hneyksla þá? Hann segir þeim sögu, ef til vill byggða á raunverulegum atburði. „[Gyðingur] nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum,“ segir hann. „Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona.“
„Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá,“ heldur Jesús áfram. „Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann.“
Margir prestar og levítar, sem voru aðstoðarmenn þeirra í musterinu, búa í Jeríkó. Til að komast heim frá Jerúsalem þurfa þeir að fara hættulegan veg sem lækkar um 900 metra á 23 kílómetra kafla. Presturinn og levítinn eiga að koma nauðstöddum Gyðingi til hjálpar en gera ekki. Hins vegar verður Samverji nokkur honum að liði. Slíkt er hatur Gyðinga á Samverjum að skömmu áður höfðu þeir kallað Jesú ‚Samverja‘ sem var eitt grófasta skammaryrði sem þeir gátu notað.
Hvað gerir Samverjinn fyrir Gyðinginn? Hann „gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara [um tvenn daglaun], fékk gestgjafanum og mælti: ‚Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.‘“
Eftir að hafa sagt söguna spyr Jesús lögvitringinn: „Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?“
Lögvitringnum þykir óþægilegt að segja eitthvað gott um Samverja og svarar því einfaldlega: „Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum.“
„Far þú og gjör hið sama,“ segir Jesús.
Hefði Jesús sagt lögvitringnum beint að annarrar þjóðar menn væru náungar hans, þá hefði maðurinn ekki viðurkennt það og flestir áheyrendanna hefðu líklega staðið með honum í orðaskiptum hans við Jesú. Þessi raunsæja saga sýndi hins vegar fram á með óhrekjandi hætti að náungi okkar getur verið af annarri þjóð og öðrum kynstofni en við. Jesús er sannarlega framúrskarandi kennari! Lúkas 10:25-37; Postulasagan 10:28; Jóhannes 4:9; 8:48.
▪ Hvað spyr lögvitringur Jesú um og hvers vegna er hann greinilega að spyrja?
▪ Hver er náungi manns að mati Gyðinga, og hvaða ástæða er til að ætla að lærisveinarnir séu jafnvel þeirrar skoðunar?
▪ Hvernig kemur Jesús réttum viðhorfum á framfæri þannig að lögvitringurinn geti ekki hrakið þau?