Matteus kallaður
Kafli 27
Matteus kallaður
SKÖMMU eftir að Jesús læknar lamaða manninn yfirgefur hann Kapernaum og heldur til Galíleuvatns. Mannfjöldinn eltir hann eins og áður og hann tekur að kenna. Hann heldur göngunni áfram og sér þá Matteus, sem einnig er kallaður Leví, sitja hjá tollbúðinni. „Fylg þú mér!“ segir Jesús.
Matteus þekkir líklega til kenninga Jesú eins og þeir Pétur, Andrés, Jakob og Jóhannes gerðu þegar þeir voru kallaðir. Og Matteus þiggur boð Jesú þegar í stað eins og þeir. Hann stendur upp, segir skilið við skattheimtustörfin og fylgir Jesú.
Síðar heldur Matteus fjölmenna veislu í húsi sínu, kannski til að halda upp á köllun sína. Auk Jesú og lærisveina hans eru fyrrverandi starfsbræður Matteusar viðstaddir. Þessir menn eru yfirleitt fyrirlitnir af samlöndum sínum vegna þess að þeir innheimta skatta fyrir hin hötuðu, rómversku yfirvöld. Oft eru þeir óheiðarlegir og heimta meira en eðlilegan skatt af fólki.
Þegar farísearnir sjá Jesú sitja að veisluborði með slíkum mönnum spyrja þeir lærisveina hans: „Hvers vegna etur meistari yðar með tollheimtumönnum og bersyndugum?“ Jesús heyrir spurningu faríseanna og svarar þeim: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru. Farið og nemið, hvað þetta merkir: ‚Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.‘ Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.“
Matteus hefur greinilega boðið þessum tollheimtumönnum heim til sín til að hlýða á Jesú og hljóta andlega lækningu. Jesús umgengst þá í þeim tilgangi að hjálpa þeim að eignast heilbrigt samband við Guð. Hann fyrirlítur þá ekki eins og hinir sjálfumglöðu farísear, heldur hefur meðaumkun með þeim og þjónar þeim eins og andlegur læknir.
Þótt Jesús sýni syndurum miskunn er hann ekki að leiða syndir þeirra hjá sér heldur sýnir þeim sömu umhyggju og blíðu og líkamlega sjúkum. Þú manst til dæmis hvað hann sagði þegar hann rétti út höndina fullur meðaumkunar og snerti holdsveika manninn: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Megum við líka sýna miskunn með því að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi, einkum andlega. Matteus 8:3; 9:9-13; Markús 2:13-17; Lúkas 5:27-32.
▪ Hvar er Matteus þegar Jesús sér hann?
▪ Hvað starfar Matteus og hvers vegna fyrirlíta Gyðingar slíkt fólk?
▪ Hvað er Jesús sakaður um og hverju svarar hann?
▪ Hvers vegna umgengst Jesús syndara?