Við hægri hönd Guðs
Kafli 132
Við hægri hönd Guðs
ÚTHELLING heilags anda á hvítasunnunni er merki þess að Jesús sé kominn aftur til himna. Sýn, sem lærisveinninn Stefán fær að sjá skömmu síðar, sannar einnig að hann sé þangað kominn. Rétt áður en Stefán er grýttur fyrir trúfastan vitnisburð sinn segir hann: „Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði.“
Við hægri hönd Guðs bíður Jesús fyrirskipunar frá föður sínum: „Drottna þú mitt á meðal óvina þinna!“ En hvað gerir Jesús þangað til, uns hann lætur til skarar skríða gegn óvinum sínum? Hann ríkir yfir smurðum lærisveinum sínum, leiðir þá í prédikunarstarfi þeirra og býr þá undir að verða meðkonungar sínir í ríki föðurins sem gerist eftir að þeir fá upprisu.
Til dæmis velur Jesús Sál (síðar þekktari undir rómverska nafninu Páll) til að vera fremstur í fylkingu í boðunarstarfinu erlendis. Sál er kostgæfinn gagnvart lögmáli Guðs en trúarleiðtogar Gyðinga hafa leitt hann á villigötur. Þar af leiðandi lætur hann sér vel líka morðið á Stefáni og fer auk þess til Damaskus með umboð frá Kaífasi æðstapresti til að handtaka og flytja til Jerúsalem alla karla og konur sem fylgja Jesú. En þegar Sál er á leið þangað leiftrar skyndilega skært ljós kringum hann og hann fellur til jarðar.
„Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?“ spyr rödd ein. „Hver ert þú, herra?“ spyr Sál.
„Ég er Jesús, sem þú ofsækir,“ svarar röddin.
Jesús segir Sál, sem missir sjónina í þessu undraljósi, að fara til Damaskus og bíða nánari fyrirmæla. Síðan birtist Jesús Ananíasi, einum af lærisveinunum, í sýn og segir honum um Sál: „Þennan mann hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels.“
Með stuðningi Jesú sjá Sál (nú þekktur sem Páll) og aðrir trúboðar frábæran árangur af prédikun sinni og kennslu. Um 25 árum eftir að Jesús birtist Páli á veginum til Damaskus skrifar Páll að ‚fagnaðarerindið hafi verið prédikað fyrir öllu sem skapað er undir himninum.‘
Mörgum árum síðar veitir Jesús ástkærum postula sínum, Jóhannesi, margar sýnir. Í þessum sýnum, sem Jóhannes lýsir í Opinberunarbókinni, lifir hann það nánast að sjá Jesú snúa aftur sem konung Guðsríkis. Jóhannes segir að „í anda“ hafi hann verið fluttur fram í tímann til ‚Drottins dags.‘ Hvaða ‚dagur‘ er það?
Nákvæm rannsókn á biblíuspádómunum, þeirra á meðal spádómi Jesú sjálfs um hina síðustu daga, leiðir í ljós að ‚Drottins dagur‘ hófst merkisárið 1914! Það var því árið 1914 sem Jesús sneri aftur ósýnilegur svo lítið bar á og engir urðu varir við endurkomu hans nema trúfastir þjónar hans. Það ár fyrirskipaði Jehóva Jesú að drottna mitt á meðal óvina sinna.
Jesús hlýddi fyrirmælum föður síns og úthýsti Satan og illum öndum hans af himnum og varpaði þeim niður til jarðar. Eftir að Jóhannes sér þetta í sýn heyrir hann rödd á himni lýsa yfir: „Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða.“ Já, Kristur tók að ríkja sem konungur árið 1914!
Þetta eru gleðitíðindi fyrir dýrkendur Jehóva á himnum. Þeir eru hvattir: „Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið.“ En hvað um jarðarbúa? „Vei sé jörðunni og hafinu,“ segir röddin á himni, „því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“
Þessi naumi tími stendur yfir núna. Nú er fólk að sýna hvort það sé hæft til inngöngu í nýjan heim Guðs eða eigi að farast. Sannleikurinn er sá að örlög þín ráðast af viðbrögðum þínum við fagnaðarerindinu um ríki Guðs sem verið er að prédika um alla jörðina undir stjórn Krists.
Þegar prédikunarstarfinu er lokið gengur Jesús Kristur fram sem fulltrúi Guðs og losar jörðina við allt heimskerfi Satans og alla þá sem styðja það. Hann eyðir allri illsku í stríði sem Biblían kallar Harmagedón. Jesús, mesta tignarpersóna alheimsins að Jehóva Guði undanskildum, tekur síðan Satan og illa anda hans og fjötrar þá um þúsund ár í ‚undirdjúpi,‘ það er að segja í dauðadái athafnaleysis. Postulasagan 7:55-60; 8:1-3; 9:1-19; 16:6-10; Sálmur 110:1, 2; Hebreabréfið 10:12, 13; 1. Pétursbréf 3:22; Lúkas 22:28-30; Kólossubréfið 1:13, 23; Opinberunarbókin 1:1, 10; 12:7-12; 16:14-16; 20:1-3; Matteus 24:14.
▪ Hvar er Jesús eftir að hann stígur upp til himna og eftir hverju bíður hann?
▪ Yfir hverjum ríkir Jesús eftir uppstigningu sína til himna og hvað sýnir að hann stjórnar?
▪ Hvenær hófst ‚dagur Drottins‘ og hvað gerðist við upphaf hans?
▪ Hvaða áhrif hefur prédikunarstarf nútímans á okkur öll persónulega?
▪ Hvað gerist eftir að þessu prédikunarstarfi er lokið?