Nafn Guðs í aldanna rás
Nafn Guðs í aldanna rás
JEHÓVA Guð vill að menn þekki nafn hans og noti. Það er ljóst af því að hann opinberaði nafn sitt fyrstu tveim manneskjunum á jörðinni. Við vitum að Adam og Eva þekktu nafn Guðs því að eftir hebreska frumtextanum sagði Eva eftir að hafa fætt Kain: „Ég hef fætt mann með hjálp Jehóva.“—1. Mósebók 4:1.
Síðar lesum við að trúfastir menn eins og Enok og Nói hafi ‚gengið með Guði.‘ (1. Mósebók 5:24; 6:9) Þeir hljóta því líka að hafa þekkt nafn Guðs. Nafnið lifði flóðið mikla með hinum réttláta Nóa og fjölskyldu hans. Þrátt fyrir uppreisnina miklu nokkru síðar í Babel héldu sannir þjónar Guðs áfram að nota nafn hans. Það kemur fyrir mörg hundruð sinnum í lögmálinu sem Guð gaf Ísraelsþjóðinni. Aðeins í 5. Mósebók kemur það fyrir 551 sinni.
Á dögum dómaranna hikuðu Ísraelsmenn bersýnilega ekki við að nota nafn Guðs. Þeir notuðu það jafnvel þegar þeir skiptust á kveðjum. Við lesum (samkvæmt hebreska frumtextanum) að Bóas hafi heilsað kornskurðarmönnum sínum: „Jehóva sé með ykkur.“ Þeir svöruðu kveðju hans svo: „Jehóva blessi þig.“—Rutarbók 2:4.
Í gegnum sögu Ísraelsþjóðarinnar allt til þess er þeir sneru aftur til Júda eftir útlegð sína í Babýlon var nafn Jehóva notað í daglegu máli manna. Davíð konungur, maður sem var þóknanlegur hjarta Guðs, notaði nafn hans mikið því að það stendur mörg hundruð sinnum í sálmunum sem hann orti. (Postulasagan 13:22) Nafn Guðs var einnig fólgið í mörgum ísraelskum mannanöfnum. Við lesum um Adonía („Drottinn minn er Jah“ en „Jah“ er stuttnefni fyrir Jehóva), Jesaja („Hjálpræði Jehóva“), Jónatan („Jehóva hefur gefið“), Míka („Hver er líkur Jah?“) og Jósúa („Jehóva er hjálpræði“).
Utan Biblíunnar
Heimildir utan Biblíunnar bera einnig með sér að nafn Guðs var mikið notað til forna. Árið 1961 fannst ævaforn grafhellir skamman spöl suðvestur af Jerúsalem, samkvæmt skýrslu í Israel Exploration Journal (13. árg., 2. tölubl.) Á veggjunum voru áletranir á hebresku sem taldar eru vera frá síðari helmingi áttundu aldar f.o.t. Áletranirnar hljóða meðal annars: „Jehóva er Guð allrar jarðarinnar.“
Árið 1966 var birt skýrsla í Israel Exploration Journal (16. árg., 1. tölubl.) um leirtöflubrot með hebreskum áletrunum sem fundust í Arad í suðurhluta Ísraels. Þær voru gerðar á síðari helmingi sjöundu aldar f.o.t. Eitt þeirra var hluti einkabréfs til manns að nafni Eljasíb. Bréfið hefst svo: „Til herra míns Eljasíbs: Megi Jehóva óska þér friðar.“ Og því lýkur svo: „Hann býr í húsi Jehóva.“
Á árunum 1975 og 1976 grófu fornleifafræðingar upp í Negeb safn hebreskra og fönikískra áletrana á
múrhúðuðum veggjum, stórum geymslukerjum og steinkerjum. Þar fannst hebreska orðið fyrir Guð, svo og nafn Guðs, JHVH, með hebreskum bókstöfum. Í sjálfri Jerúsalemborg fannst fyrir skömmu lítil, upprúlluð silfurræma sem virðist vera frá því fyrir útlegðina í Babýlon. Rannsóknarvísindamenn segja að á henni hafi fundist nafnið Jehóva á hebresku.—Biblical Archaeology Review, mars/apríl 1983, bls. 18.Annað dæmi um notkun á nafni Guðs er að finna í hinum svokölluðu Lakísbréfum. Þessi bréf, skrifuð á leirbrot, fundust á árabilinu 1935 til 1938 í rústum Lakís, víggirtrar borgar sem gegndi stóru hlutverki í sögu Ísraels. Þau virðast hafa verið skrifuð af liðsforingja í varðstöð í Júdeu til yfirboðara síns að nafni Jaosh í Lakís, að því er virðist meðan stríðið milli Ísraels og Babýlonar var háð undir lok sjöundu aldar f.o.t.
Af átta læsilegum töflubrotum hefjast sjö með kveðjuorðum svo sem: „Megi Jehóva láta herra minn njóta góðrar heilsu á þessari árstíð!“ Alls stendur nafn Guðs 11 sinnum í bréfunum sjö sem gefur ljóslega til kynna að nafn Jehóva hafi verið notað í daglegu tali undir lok sjöundu aldar f.o.t.
Jafnvel heiðnir valdhafar þekktu nafn Guðs og notuðu þegar þeir töluðu um Guð Ísraelsmanna. Á Móabítasteininum gortar Mesa konungur í Móab af sigurvinningum sínum yfir Ísraelsmönnum. Meðal annars segir hann: „Kamos sagði við mig: ‚Farðu, taktu Nebó frá Ísrael!‘ Ég fór því um nótt og barðist gegn henni frá dögun til hádegis, tók hana og lagði alla að velli . . . Og ég tók úr henni [ker] Jehóva, dró þau fyrir Kamos.“
Um þessa notkun á nafni Guðs utan Biblíunnar segir Theologisches Wörterbuch zum Alten Testament (Guðfræðileg orðabók fyrir Gamlatestamentið) í 3. bindi, 538. dálki: „Um 19 skjallegar heimildir um fjórstafanafnið í myndinni jhvh bera því að þessu leyti vitni um áreiðanleika MT [masoretatextans]; búast má við meiru, einkum frá skjalageymslunni í Arad.“
Nafn Guðs ekki gleymt
Menn þekktu nafn Guðs og notuðu enn á dögum Malakís sem var uppi um 400 árum fyrir daga Jesú. Í biblíubókinni, sem ber nafn hans, skipar Malakí nafni Guðs í öndvegi og notar það alls 48 sinnum.
Tímar liðu og margt Gyðinga settist að fjarri Ísraelslandi og sumir hættu að geta lesið Biblíuna á hebresku. Því var á þriðju öld f.o.t. byrjað að þýða þann hluta Biblíunnar, sem þá var til („Gamlatestamentið“), á grísku, hið nýja alþjóðatungumál. En nafn Guðs var ekki látið niður falla. Þýðendurnir létu það standa í textanum með hebreskum bókstöfum. Forn eintök hinnar grísku „Sjötíumannaþýðingar“ (Septuaginta), sem hafa varðveist fram á okkar dag, bera því vitni.
En hvernig var staðan þegar Jesús gekk hér á jörð? Hvernig getum við vitað hvort hann og postular hans notuðu nafn Guðs?
[Mynd á blaðsíðu 12]
Í þessu bréfi frá síðari helmingi sjöundu aldar f.o.t., sem skrifað er á leirtöflu, stendur nafn Guðs tvisvar.
[Credit Line]
(Myndin er birt með leyfi ísraelska safna- og fornminjaráðuneytisins.)
[Mynd á blaðsíðu 13]
Nafn Guðs stendur einnig í Lakísbréfunum og á Móabítasteininum.