Hvernig get ég sigrað í baráttunni við sjálfsfróun?
KAFLI 25
Hvernig get ég sigrað í baráttunni við sjálfsfróun?
„Ég var átta ára gamall þegar ég byrjaði að stunda sjálfsfróun. Síðar komst ég að því hvernig Guð lítur á það. Mér leið hræðilega í hvert skipti sem ég lét undan. Ég spurði sjálfan mig: ,Hvernig gæti Guð elskað einhvern eins og mig?‘“– Luiz.
ÞEGAR þú kemst á kynþroskaaldurinn geta kynferðislegar langanir orðið einstaklega sterkar. Þess vegna er hætta á því að þú byrjir að stunda sjálfsfróun. * Margir myndu segja að það sé nú ekkert stórmál. „Það skaðar engan,“ segja þeir. En það er góð ástæða fyrir því að forðast þennan ávana. Páll postuli skrifaði: „Deyðið þess vegna … tilhneigingar sem búa í líkama ykkar: … taumlausan losta.“ (Kólossubréfið 3:5) Með sjálfsfróun er ekki verið að deyða lostann heldur kveikja í honum. Hugleiddu líka eftirfarandi:
• Sjálfsfróun ýtir undir sjálfselsku eða eigingirni. Á meðan á sjálfsfróun stendur er viðkomandi upptekinn af því að svala eigin löngunum.
• Sjálfsfróun fær fólk til að líta á hitt kynið aðeins sem hlut eða kynlífstæki til að fullnægja sjálfum sér.
• Þessi ávani fær fólk til að tileinka sér eigingjarnt viðhorf en það getur skapað vandamál og vonbrigði þegar hjón hafa kynmök.
Í stað þess að láta undan þessum ávana til að svala niðurbældum kynferðislegum hvötum skaltu temja þér sjálfstjórn. (1. Þessaloníkubréf 4:4, 5) Biblían hvetur okkur til dæmis til að forðast allar aðstæður sem gætu örvað okkur kynferðislega. (Orðskviðirnir 5:8, 9) En hvað ef sjálfsfróun er orðin að rótgrónum vana? Kannski hefurðu reynt að hætta en án árangurs. Það gæti verið auðvelt að hugsa sem svo að þú sért alveg glataður og að það sé engin leið fyrir þig að lifa eftir meginreglum Guðs. Strák að nafni Pedro leið þannig og hann segir: „Þegar ég lét undan leið mér hræðilega. Ég hélt að ég gæti aldrei bætt fyrir það sem ég hafði gert. Það var erfitt að biðja til Guðs.“
Ekki missa kjarkinn ef þér líður þannig. Þú ert ekki glataður. Margt ungt fólk – og fullorðnir – hafa sigrast á sjálfsfróun. Þú getur það líka!
Að takast á við sektarkennd
Eins og hefur komið fram eru þeir sem stunda sjálfsfróun oft þjakaðir af sektarkennd. Það að „hryggjast Guði að skapi“ getur vissulega verið hvatning til að sigrast á þessum ávana. (2. Korintubréf 7:11) En óhófleg sektarkennd getur gert illt verra. Hún getur gert þig svo niðurdreginn að þú vilt bara gefast upp. – Orðskviðirnir 24:10.
Reyndu því að skoða málið í réttu ljósi. Sjálfsfróun er óhreinn ávani. Hann getur gert þig að ,þræli ýmissa langana og nautna‘ og ýtir undir óheilbrigt viðhorf. (Títusarbréfið 3:3) En sjálfsfróun er ekki flokkuð með grófu kynferðislegu siðleysi eins og til dæmis kynlíf utan hjónabands. (Júdasarbréfið 7) Ef þú ert að berjast við þetta vandamál skaltu ekki halda að þú hafir framið ófyrirgefanlega synd. Lausnin er að berjast á móti lönguninni og gefast aldrei upp.
Þegar maður hrasar er auðvelt að missa móðinn. En mundu þá eftir því sem segir í Orðskviðunum 24:16: „Þótt hinn réttláti falli sjö sinnum stendur hann aftur upp en hinir vondu hrasa þegar ógæfa kemur yfir þá.“ Þú ert ekki ,vond‘ manneskja ef þú fellur í sama farið um tíma. Ekki gefast upp. Skoðaðu heldur hvað varð til þess að þú féllst og forðastu að falla aftur í sama farið.
Gefðu þér tíma til að hugleiða kærleika og miskunn Guðs. Sálmaritarinn Davíð þekkti vel baráttuna við eigin veikleika, en hann sagði: „Eins og faðir sýnir börnum sínum miskunn hefur Jehóva miskunnað þeim sem óttast hann því að hann veit vel hvernig við erum sköpuð, hann minnist þess að við erum mold.“ (Sálmur 103:13, 14) Já, Jehóva tekur til greina að við erum ófullkomin og hann er „fús til að fyrirgefa“. (Sálmur 86:5) En hann vill að við vinnum að því að bæta okkur. Hvað geturðu gert til að sigrast á þessum ávana?
Endurskoðaðu skemmtiefnið sem þú velur þér. Horfirðu á kvikmyndir eða sjónvarpsþætti eða heimsækir vefsíður sem örva þig kynferðislega? Það væri viturlegt að biðja eins og sálmaritarinn: „Snúðu augum mínum frá því sem er einskis virði.“ * – Sálmur 119:37.
Einbeittu þér að einhverju öðru. Bróðir að nafni William segir: „Lestu eitthvað efni tengt Biblíunni áður en þú ferð að sofa. Það er mjög mikilvægt að það síðasta sem þú hugsar um á kvöldin sé andleg hugsun.“ – Filippíbréfið 4:8.
Talaðu við einhvern um vandamálið. Skömm gæti hindrað þig í að segja einhverjum í trúnaði frá þessum ávana. En það getur hjálpað þér að sigrast á honum. Það upplifði bróðir að nafni David. Hann segir: „Ég talaði við pabba í einrúmi. Ég gleymi því aldrei hvað hann sagði. Hann brosti og sagði við mig: ,Ég er svo stoltur af þér.‘ Hann vissi hversu erfitt það var fyrir mig að tala við hann um þetta. Ekkert hefði getað glatt mig og hvatt mig meira.
Pabbi sýndi mér nokkur biblíuvers til að hjálpa mér að skilja að ég væri ekki slæm manneskja, og síðan sýndi hann mér nokkur vers til að vera viss um að ég skyldi alvarleikann í málinu. Hann hvatti mig til að ,hafa hreinan skjöld‘ í ákveðinn tíma og síðan gætum við rætt málin aftur. Hann sagði mér að missa ekki móðinn ef ég myndi falla í sama farið heldur ætti ég bara að reyna að halda út lengur í næsta skipti.“ Hver var svo niðurstaðan? David segir: „Það hjálpaði mér mjög mikið að einhver annar vissi af vandamálinu.“ *
[Neðanmáls]
^ Það ætti ekki að rugla sjálfsfróun saman við ósjálfráða kynferðislega örvun. Til dæmis gæti strákur vaknað kynferðislega örvaður eða hann orðið fyrir sáðláti í svefni. Sumar stelpur gætu á sama hátt fundið fyrir aukinni kynhvöt rétt fyrir eða eftir tíðablæðingar. Ólíkt þessum ósjálfráðu viðbrögðum er sjálfsfróun meðvituð ákvörðun til að framkalla kynferðislega örvun.
^ Frekari upplýsingar er að finna í 2. bindi, 33. kafla.
^ Frekari upplýsingar er að finna í 2. bindi, bls. 239–241.
LYKILRITNINGARSTAÐUR
„Þú skalt því flýja girndir æskunnar og keppa eftir réttlæti, trú, kærleika og friði ásamt þeim sem ákalla Drottin af hreinu hjarta.“ – 2. Tímóteusarbréf 2:22.
RÁÐ
Biddu til Jehóva áður en löngunin verður of sterk. Biddu hann um að gefa þér ,kraftinn sem er ofar mannlegum mætti‘ svo að þú getir staðist freistinguna. – 2. Korintubréf 4:7.
VISSIR ÞÚ …?
Það krefst einskis af þér að láta undan kynferðislegum löngunum. En það krefst mikils styrks að sýna sjálfstjórn, sérstaklega þegar maður er einn.
HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?
Ég get hugsað um það sem er hreint ef ég ․․․․․
Í staðinn fyrir að láta undan lönguninni ætla ég að ․․․․․
Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․
HVAÐ FINNST ÞÉR?
• Hvers vegna er mikilvægt að gleyma því ekki að Jehóva er „fús til að fyrirgefa“? – Sálmur 86:5.
• Hvaða traust ber Guð til þín þar sem hann skapaði kynferðislegar langanir en segir líka að þú eigir að rækta með þér sjálfstjórn?
[Innskot]
„Eftir að hafa sigrast á þessu vandamáli get ég staðið frammi fyrir Jehóva með hreina samvisku og ég myndi aldrei vilja skipta því út fyrir neitt annað!“– Sarah
[Innskot]
Þegar þú hrasar þegar þú ert að hlaupa þarftu ekki að byrja á byrjunarreit. Þær framfarir sem þú hefur þegar náð hverfa heldur ekki ef þú hrasar í baráttunni við sjálfsfróun.