Hvers vegna á ég að ‚heiðra föður minn og móður‘?
1. kafli
Hvers vegna á ég að ‚heiðra föður minn og móður‘?
„HEIÐRA föður þinn og móður.“ Mörgum unglingum þykja þessi orð hljóma eins og þau séu sótt aftur í myrkustu miðaldir.
Það fannst ungri stúlku sem heitir Veda og hún gerði uppreisn gegn föður sínum með því að vera með strák sem drakk og neytti fíkniefna. Þrjóskufull var hún úti að skemmta sér langt fram á nætur. „Mér fannst pabbi allt of strangur,“ segir hún. „Ég var 18 ára og fannst ég vita allt. Mér fannst pabbi vera kvikindislegur og bara vilja koma í veg fyrir að ég skemmti mér, svo ég fór út og gerði bara það sem mér sýndist.“
Flestir unglingar telja sennilega að Veda hefði ekki átt að gera þetta. Þó myndi gremjan sjóða í mörgum ef þeim væri skipað að taka til í herberginu sínu, gera heimaverkefnin sín eða vera komnir heim fyrir ákveðinn tíma. Sumir myndu jafnvel ganga skrefi lengra og bjóða foreldrum sínum birginn! Viðhorf unglinga til foreldra sinna geta þó að lokum haft áhrif á fleira en stríð eða frið á heimilinu; þau geta skipt sköpum um líf eða dauða. Fyrirmælin um að ‚heiðra foreldra sína‘ eru nefnilega frá Guði komin og hann lætur þessa jákvæðu hvatningu fylgja: „Til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni.“ (Efesusbréfið 6:2, 3) Það er mikið í húfi. Við skulum því skoða fordómalaust hvað það felur í sér í raun og veru að heiðra föður og móður.
Hvað merkir það að „heiðra“ þau?
Að „heiðra“ annan mann felur í sér að viðurkenna réttmætt vald hans. Kristnum mönnum er til dæmis sagt 1. Pétursbréf 2:17) Þótt menn séu ekki alltaf sammála yfirvöldum eiga þeir samt sem áður að virða stöðu þeirra eða embætti. Guð hefur á svipaðan hátt falið foreldrum ákveðið vald í fjölskyldunni. Það hefur í för með sér að þér ber að viðurkenna þann rétt sem Guð hefur gefið þeim til að setja þér reglur. Foreldrar kunningja þinna eru kannski ekki jafnstrangir og þínir, en það eru samt þínir foreldrar sem hafa það hlutverk að ákveða hvað sé best fyrir þig — og það hafa ekki allar fjölskyldur sömu lífsreglur.
að ‚heiðra keisarann.‘ (Jafnvel bestu foreldrar geta líka stundum verið sjálfum sér ósamkvæmir — jafnvel ósanngjarnir. En í Orðskviðunum 7:1, 2 sagði vitur faðir: „Son minn [eða dóttir], . . . varðveit þú boðorð mín, og þá munt þú lifa.“ Eins eru reglur eða „boðorð“ foreldra þinna yfirleitt sett þér til góðs og bera vitni um ósvikinn kærleika þeirra og umhyggju fyrir þér.
Jón hafði oft fengið að heyra hjá móður sinni að hann ætti alltaf að nota göngubrúna yfir sex akreina þjóðveginn í grennd við heimilið. Dag einn reyndu tvær skólasystur hans að mana hann til að stytta sér leið með því að hlaupa yfir sjálfa akbrautina. Jón valdi göngubrúna þótt þær kölluðu háðslega á eftir honum: „Heigull!“ Hann var kominn hálfa leið yfir brúna er hann heyrði hemlavæl. Hann leit niður á akbrautina og sá sér til hryllings hvernig bifreið lenti á stúlkunum tveim svo að þær köstuðust upp í loftið! Hlýðni við foreldra þína skiptir að vísu sjaldan sköpum um líf eða dauða, eins og var í þessu tilviki, en eigi að síður er það yfirleitt til góðs fyrir þig að hlýða þeim.
Að heiðra foreldra sína felur einnig í sér að taka við leiðréttingu og aga og fara ekki í fýlu eða fá bræðiskast þegar aga er beitt. Það er einungis afglapi sem „smáir aga föður síns,“ eins og Orðskviðirnir 15:5 segja.
Að heiðra foreldra sína er meira en formsatriði eða ólundarleg hlýðni. Gríska sagnorðið, sem er þýtt að „heiðra“ í Biblíunni, hefur þá grunnmerkingu að meta einhvern sem mjög verðmætan. Þú ættir því að líta á foreldra þína sem dýrmæta, hafa þá í miklum metum og elska þá. Það felur í sér hlýjar tilfinningar og ástúð í þeirra garð. En sumum unglingum er allt annað en hlýtt til foreldra sinna.
Er hægt að heiðra erfiða foreldra?
Ung stúlka að nafni Gina skrifar: „Pabbi drakk mikið og ég gat ekki sofið fyrir hávaða og rifrildi foreldra minna. Ég lá bara í rúminu og grét. Ég gat ekki sagt þeim hvernig mér leið því mamma hefði sennilega lamið mig. Biblían segir að maður eigi að ‚heiðra föður sinn‘ en ég get það ekki.“
Á virkilega að heiðra foreldra sem eru uppstökkir, drykkfelldir, siðlausir eða eru sífellt að rífast? Já, því að Orðskviðirnir 30:17) Og Orðskviðirnir 23:22 minna okkur líka á að það eru foreldrar okkar sem hafa fætt okkur í heiminn. Það eitt er ástæða til að heiðra þá. Gregory, sem sýndi foreldrum sínum afar litla virðingu á tímabili, segir núna: „Ég þakka Jehóva Guði fyrir að mamma skyldi ekki láta eyða fóstri eða kasta mér í öskutunnu eftir að ég fæddist. Hún var einstæð móðir og við börnin vorum sex. Ég veit að hún átti mjög erfitt.“
Biblían fordæmir þann sem „gjörir gys að“ foreldrum sínum, óháð því hvers konar foreldrar það eru. (Foreldrar þínir eru ekki fullkomnir en þeir hafa eigi að síður fært margar fórnir fyrir þig. Gregory heldur áfram: „Einu sinni var ekkert til að borða nema dós af
maís og svolítið af grjónum. Mamma matreiddi þetta handa okkur krökkunum en borðaði ekkert sjálf. Ég háttaði saddur en skildi ekki hvers vegna mamma borðaði ekkert. Núna er ég sjálfur fjölskyldufaðir og veit að hún var að fórna sér fyrir okkur.“ (Samkvæmt kanadískum rannsóknum er uppeldiskostnaður barns til 18 ára aldurs metinn á um 4 milljónir króna.)Hafðu líka hugfast að jafnvel þótt foreldrar þínir setji ekki besta fordæmið er ekki allt rangt sem þeir segja þér. Trúarleiðtogarnir á dögum Jesú voru spilltir. Eigi að síður sagði Jesús fólki: „[Þér] skuluð . . . gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara.“ (Matteus 23:1-3, 25, 26) Ætli þessi sama regla geti ekki átt við suma foreldra?
Þegar þér gremst
Hvað áttu að gera ef þér finnst annað foreldra þinna misbeita valdi sínu? * Haltu stillingu þinni. Uppreisn, hatur eða fyrirlitning gerir ekkert gagn. (Prédikarinn 8:3, 4; sjá einnig Prédikarann 10:4.) Sautján ára stúlku sárnaði mjög við foreldra sína þegar henni fannst þeir uppteknir af því að þrefa og þrátta hvort við annað en sýna sér ekki áhuga. Hún gaf gremjunni síðan útrás með því að setja sig upp á móti þeim meginreglum Biblíunnar sem foreldrar hennar höfðu reynt að kenna henni. Af einskærri heift kastaði hún sér út í siðleysi og fíkniefnanotkun. „Mér fannst foreldrar mínir eiga það skilið,“ sagði hún til skýringar. En í rauninni var hún einungis að gera sjálfri sér illt.
Biblían varar við: „Lát . . . eigi reiðina ginna þig til spotts . . . Gæt þín, snú þér eigi að ranglæti.“ (Jobsbók 36:18-21) Gerðu þér ljóst að foreldrar þínir eru ábyrgir gagnvart Jehóva og þurfa að standa honum reikningsskap fyrir sérhver alvarleg rangindi sem þeir hafa í frammi. — Kólossubréfið 3:25.
Orðskviðirnir 19:11 segja: „Hyggni mannsins gjörir hann seinan til reiði, og það er honum til frægðar að ganga fram hjá mótgjörðum.“ Stundum er best að reyna að fyrirgefa og gleyma því sem foreldrar okkar gera á hlut okkar. Hugsaðu um kosti þeirra í stað þess að einblína á gallana. Dody átti til dæmis kaldlynda móður og drykkjusjúkan stjúpföður. Taktu eftir hvernig innsæi hennar gagnvart veikleikum foreldranna kom í veg fyrir beiskju í þeirra garð. Hún segir: „Kannski lærði mamma aldrei að vera ástrík af því að hún sætti illri meðferð sjálf í bernsku. Stjúpi minn sýndi áhuga á því sem við vorum að gera þegar hann var allsgáður, sem var að vísu ekki oft. Samt höfðum við systurnar alltaf þak yfir höfuðið og mat í kæliskápnum.“
Til allrar hamingju vanrækja fæstir foreldrar börnin sín eða fara illa með þau. Að öllum líkindum eru foreldrar þínir umhyggjusamir og reyna að setja gott fordæmi. Þrátt fyrir það getur þér stundum gramist við þá. „Stundum, þegar ég var að ræða eitthvert vandamál við mömmu og hún skildi mig ekki, þá reiddist ég og sagði eitthvað í heift til að særa hana. Þannig hefndi ég mín,“ viðurkennir ungur maður sem Roger heitir. „En eftir á leið mér illa og ég vissi að mömmu leið ekki vel heldur.“
Vanhugsuð orð geta sært og verið „meiðandi,“ en þau leysa engan vanda. „Tunga hinna vitru græðir“ aftur á móti. (Orðskviðirnir 12:18; 15:1) „Þótt það væri ekki auðvelt fór ég aftur til mömmu og bað hana afsökunar,“ segir Roger. „Síðan gátum við rætt vandann af meiri ró og leyst hann.“
‚Pabbi hafði samt rétt fyrir sér‘
Sumir unglingar slíta sjálfum sér og foreldrum sínum út með því að þrjóskast gegn fyrirmælum þeirra, en komast svo síðar að raun um að foreldrarnir höfðu rétt fyrir sér frá upphafi. Þannig fór fyrir Vedu sem nefnd var í byrjun kaflans. Dag einn fór hún í bílferð með vini sínum sem var undir áhrifum maríúana og bjórs. Hann missti stjórn á bifreiðinni og ók á ljósastaur á um það bil 100 kílómetra hraða. Veda lifði slysið af — með stórt, gapandi sár á enninu. Vinur hennar stakk af og kom ekki einu sinni á spítalann til að hjálpa henni.
„Þegar foreldrar mínir komu á spítalann sagði ég þeim að pabbi hefði haft rétt fyrir sér í öllu og að ég hefði átt að hlusta á hann fyrir löngu,“ viðurkennir Veda. „Ég hafði gert stórt glappaskot sem hafði næstum kostað mig lífið.“ Eftir þetta gerbreytti Veda um afstöðu til foreldra sinna.
Kannski þarft þú líka að leiðrétta viðhorf þín til foreldra þinna að einhverju leyti. Það hljómar ef til vill gamaldags að ‚heiðra föður sinn og móður‘ en það er ekki bara skynsamlegt — heldur hið eina rétta í augum Guðs. En hvað getur þú gripið til bragðs ef þig langar til að sýna foreldrum þínum virðingu en þér finnst þú misskilinn eða rígbundinn af reglum? Í næsta kafla skulum við skoða hvernig þú getur bætt hlutskipti þitt ef svo er.
[Neðanmáls]
^ gr. 18 Hér er ekki átt við misþyrmingar eða kynferðislega misnotkun. Í slíkum tilfellum getur unglingur þurft að leita faglegrar aðstoðar utan heimilis.
Spurningar til umræðu
◻ Hvað merkir það að heiðra foreldra sína?
◻ Hvers vegna setja foreldrar svo margar reglur? Geta þær verið þér til góðs?
◻ Þarftu að heiðra foreldra þína ef hegðun þeirra er til skammar? Rökstyddu svarið.
◻ Hvernig geturðu brugðist skynsamlega við gremju eða beiskju sem getur stundum vaknað hjá þér gagnvart foreldrum þínum? Hvernig væri heimskulegt að bregðast við?
[Innskot á blaðsíðu 16]
‚Mér fannst pabbi kvikindislegur og ekki vilja að ég skemmti mér, þannig að ég gerði bara það sem mér sýndist.‘
[Mynd á blaðsíðu 12]
Hvernig áttu að líta á þær reglur sem foreldrarnir setja þér?
[Mynd á blaðsíðu 14]
Þarftu líka að heiðra foreldra þína ef hegðun þeirra er til skammar?