Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hafðu dag Jehóva stöðugt í huga

Hafðu dag Jehóva stöðugt í huga

20. kafli

Hafðu dag Jehóva stöðugt í huga

1. Hvernig var þér innanbrjósts þegar þú komst að raun um að erfiðleikar núverandi heims væru brátt á enda?

 EITT það fyrsta sem þú lærðir af biblíunámi þínu var að Jehóva ætlar að breyta allri jörðinni í paradís. Í nýja heiminum verða hvorki stríð, glæpir, fátækt, sjúkdómar, þjáningar né dauði. Hinir dánu verða meira að segja reistir upp. Hvílíkar framtíðarhorfur! Og þess er skammt að bíða að þetta verði að veruleika vegna þess að það er ljóst að Kristur tók við völdum sem ósýnilegur konungur árið 1914 og síðan þá hafa staðið yfir síðustu dagar þessa illa heims. Þegar þeim lýkur eyðir Jehóva núverandi heimi og nýr tekur við.

2. Hvað er „dagur Drottins“?

2 Sá tími þegar núverandi heimi verður eytt er í Biblíunni kallaður „dagur Drottins“. (2. Pétursbréf 3:10) Þetta er ‚reiðidagur Drottins‘ sem beinist gegn heimi Satans eins og hann leggur sig. (Sefanía 2:3) Hann nær hámarki í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda sem er á hebresku kallað Harmagedón‘. Þá verður ‚konungum allrar heimsbyggðarinnar‘ rutt úr vegi. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Lifirðu í samræmi við þá sannfæringu að „dagur Drottins“ sé nálægur? — Sefanía 1:14-18; Jeremía 25:33.

3. (a) Hvenær kemur dagur Jehóva? (b) Af hverju er það til góðs að Jehóva skuli ekki opinbera „þann dag eða stund“?

3 Biblían tiltekur ekki nákvæmlega hvenær Jesús Kristur kemur til að fullnægja dómi Jehóva yfir heimi Satans. „Þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn,“ sagði Jesús. (Markús 13:32) Ef einhver elskar ekki Jehóva í raun og veru hefur hann tilhneigingu til að fresta deginum í huga sér og einbeita sér að veraldlegum viðfangsefnum. En þeir sem elska Jehóva í sannleika þjóna honum af heilum huga óháð því hvenær illur heimur líður undir lok. — Sálmur 37:4; 1. Jóhannesarbréf 5:3.

4. Hvað segir Jesús til viðvörunar?

4 En Jesús segir í varnaðartón við þá sem elska Jehóva: „Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.“ (Markús 13:33-37) Hann hvetur okkur til að láta ekki mat og drykk eða „áhyggjur þessa lífs“ draga svo til sín athygli okkar að við missum sjónar á því á hve alvarlegum tímum við lifum. — Lúkas 21:34-36; Matteus 24:37-42.

5. Hvað hefur dagur Jehóva í för með sér, að sögn Péturs?

5 Pétur ráðleggur okkur einnig að hafa dag Jehóva stöðugt í huga „en vegna hans munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita“. „Himnarnir“ tákna allar stjórnir manna en þær munu líða undir lok. „Jörðin“ táknar óguðlegt mannfélag í heild sem ferst líka. „Frumefnin“ fara sömu leið en þau tákna hugmyndir og starfsemi þessa illa heims, þar á meðal siðleysi hans, efnishyggju og þá stefnu að vera óháður Guði. Í staðinn væntum við „nýs himins [ríkis Guðs á himnum] og nýrrar jarðar [nýs mannfélags á jörð], þar sem réttlæti býr“. (2. Pétursbréf 3:10-13) Þessir stórviðburðir skella á skyndilega og óvænt. — Matteus 24:44.

Verum vakandi fyrir tákninu

6. (a) Að hvaða marki tengdist svar Jesú við spurningu lærisveinanna þjóðskipulagi Gyðinga og endalokum þess? (b) Hvaða hluti af svari Jesú fjallar um atburði og viðhorf manna frá 1914?

6 Í ljósi þess á hvaða tímum við lifum ættum við að kynna okkur vel hið samsetta tákn sem einkennir síðustu daga, tímabilið sem er kallað ‚endalok veraldar‘. Lærisveinar Jesú spurðu hann um þetta eins og fram kemur í Matteusi 24:3. Höfum hugfast að sumt af því sem Jesús sagði í versi 4 til 22 rættist í smáum mæli á þjóðskipulagi Gyðinga á árunum 33 til 70. En spádómurinn hlýtur aðaluppfyllingu á tímabilinu sem hófst árið 1914, á lokakafla núverandi heims eftir að nærvera Jesú hefst. Í Matteusi 24:23-28 segir frá því sem átti að gerst frá árinu 70 fram til nærveru Krists. Það sem lýst er í Matteusi 24:29–25:46 á sér stað á endalokatímanum.

7. (a) Af hverju ættum við að vera vakandi fyrir atburðum sem eru uppfylling táknsins? (b) Svaraðu spurningunum í lok greinarinnar og skýrðu hvernig táknið hefur uppfyllst frá 1914.

7 Við ættum að fylgjast vel með þeim atburðum og viðhorfum sem eru uppfylling táknsins. Ef við setjum þetta í samband við spádóma Biblíunnar hjálpar það okkur að hafa dag Jehóva stöðugt í huga. Þá getum við líka verið sannfærandi þegar við vörum aðra við því að dagurinn sé nálægur. (Jesaja 61:1, 2) Við skulum hafa þessi markmið í huga þegar við rennum yfir eftirfarandi spurningar varðandi ákveðna þætti táknsins en þær byggjast á Matteusi 24:7 og Lúkasi 21:10, 11.

 Hvernig byrjaði spádómurinn um að ‚þjóð myndi rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki‘ að rætast með áberandi hætti árið 1914? Hvað má segja um styrjaldir síðan þá?

 Hvaða drepsótt lagði fleiri að velli árið 1918 en fyrri heimsstyrjöldin? Hvaða sjúkdómar verða milljónum manna enn þá að aldurtila þrátt fyrir framfarir í læknavísindum?

 Í hvaða mæli hefur matvælaskortur hrjáð jarðarbúa þrátt fyrir vísindaframfarir síðustu aldar?

 Hvað sannfærir þig um að lífið hafi ekki alltaf verið eins og lýst er í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5, 13 heldur hafi ástandið versnað eftir því sem liðið hefur á endalokatímann?

Fólk aðgreint

8. (a) Hvað annað átti að gerast á endalokatíma heimsins samkvæmt lýsingunni í Matteusi 13:24-30, 36-43? (b) Útskýrðu dæmisöguna.

8 Jesús setti fleiri mikilvæga atburði í samband við endalokatíma heimsins. Einn þeirra var að „börn ríkisins“ og „börn hins vonda“ yrðu aðgreind. Jesús talaði um þetta í dæmisögunni um hveiti á akri og óvin sem sáði illgresi meðal þess. „Hveitið“ í dæmisögunni táknar sannkristna menn sem eru andasmurðir. „Illgresið“ táknar þá sem segjast vera kristnir en reynast vera „börn hins vonda“ af því að þeir fylgja heiminum sem Satan ræður yfir. Þeir eru aðgreindir frá ‚börnum Guðsríkis‘ og dæmdir til eyðingar. (Matteus 13:24-30, 36-43) Hefur það sem lýst er í dæmisögunni átt sér stað?

9. (a) Hvaða aðgreining átti sér stað eftir fyrri heimsstyrjöldina meðal allra sem kölluðu sig kristna? (b) Hvernig sýndu andasmurðir kristnir menn að þeir voru sannir þjónar Guðsríkis?

9 Að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni var öllum, sem sögðust vera kristnir, skipt í tvo hópa: Annars vegar voru prestar kristna heimsins og fylgjendur þeirra sem studdu dyggilega Þjóðabandalagið (nú Sameinuðu þjóðirnar) en drógu jafnframt taum sinnar eigin þjóðar. Hins vegar voru sannkristnir menn sem studdu heilshugar Messíasarríki Guðs en ekki þjóðir þessa heims. (Jóhannes 17:16) Hinir síðarnefndu reyndust vera sannir þjónar Guðsríkis því að þeir tóku til óspilltra málanna að boða „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ út um allan heim. (Matteus 24:14) Hvaða árangri skilaði það?

10. Hverjum var fyrst safnað saman með boðun fagnaðarerindisins?

10 Byrjað var á því að safna þeim sem eftir voru af hinum andasmurðu, þeim sem eiga von um að vera með Kristi og tilheyra ríkinu á himnum. Þeir voru sameinaðir í einn söfnuð þó að þeir væru dreifðir meðal þjóðanna. Áður en langt um líður verður lokið við að innsigla hina andasmurðu. — Opinberunarbókin 7:3, 4.

11. Hvaða samansöfnun á sér stað og í samræmi við hvaða spádóm?

11 Síðan var byrjað, undir handleiðslu Krists, að safna saman miklum múgi af „alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum“. Þetta eru ‚aðrir sauðir‘ sem eiga að lifa af ‚þrenginguna miklu‘ og fá að ganga inn í nýjan heim Guðs. (Opinberunarbókin 7:9, 14; Jóhannes 10:16) Fagnaðarerindið um ríki Guðs hefur verið boðað allt fram á þennan dag. Hinn mikli múgur annarra sauða, sem telst nú í milljónum, aðstoðar þá sem eftir eru af hinum andasmurðu við að boða boðskapinn um ríki Guðs. Allar þjóðir heyra boðskapinn.

Hvað er fram undan?

12. Hve mikið á eftir að prédika áður en dagur Jehóva rennur upp?

12 Af framansögðu er ljóst að stutt er eftir af hinum síðustu dögum og dagur Jehóva er nærri. En eiga einhverjir spádómar enn eftir að rætast áður en hinn óttalegi dagur rennur upp? Já, til dæmis er enn þá verið að aðgreina fólk eftir afstöðu þess til deilumálsins um ríki Guðs. Nýjum lærisveinum fjölgar sums staðar þar sem starf okkar sætti mikilli andstöðu árum saman. Jafnvel á svæðum þar sem fólk hafnar fagnaðarerindinu sýnir Jehóva miskunn sína með því að láta okkur prédika. Höldum því áfram að boða ríki Guðs. Jesús fullvissar okkur um að endirinn komi þegar boðuninni verði lokið.

13. Hvað á enn eftir að gerast samkvæmt 1. Þessaloníkubréfi 5:2, 3 og hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur?

13 Í öðrum þýðingarmiklum biblíuspádómi segir: „Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.“ (1. Þessaloníkubréf 5:2, 3) Við vitum ekki enn í hvaða formi þessi yfirlýsing um frið og enga hættu verður. Eitt er þó víst: Hún merkir ekki að leiðtogum veraldar hafi tekist að leysa vandamál mannkyns. Þeir sem hafa dag Jehóva stöðugt í huga láta ekki þessa yfirlýsingu villa um fyrir sér. Þeir vita að tortíming kemur snögglega í kjölfar hennar.

14. Hvaða atburðir eiga sér stað í þrengingunni miklu og í hvaða röð?

14 Þegar þrengingin mikla brestur á snúast valdhafar heims gegn Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða, og eyða henni. (Matteus 24:21; Opinberunarbókin 17:15, 16) Síðan beina þjóðirnar spjótum sínum að þeim sem styðja drottinvald Jehóva. Það vekur reiði Jehóva og hann gengur fram gegn hinum pólitísku stjórnum og stuðningsmönnum þeirra og útrýmir þeim. Þrengingin mikla nær þá hámarki sínu með Harmagedónstríðinu. Satan og illu öndunum verður síðan varpað í undirdjúp svo að þeir geta ekki haft nein áhrif á mannkynið. Nafn Jehóva verður þá hátt upp hafið. — Esekíel 38:18, 22, 23; Opinberunarbókin 19:11–20:3.

15. Af hverju er óviturlegt að hugsa sem svo að dagur Jehóva sé langt fram undan?

15 Núverandi heimur líður undir lok nákvæmlega á þeim tíma sem Guð hefur ákveðið. Það dregst ekki á langinn. (Habakkuk 2:3) Gleymum ekki að eyðing Jerúsalem árið 70 kom snögglega. Hún kom Gyðingum að óvörum því að þeir héldu að hættan væri liðin hjá. Og hvað um Babýlon fortíðar? Hún var voldug, umkringd gríðarlegum múrum og talin óvinnandi. En hún féll á einni nóttu. Eins fer fyrir illum heimi nútímans — hann líður skyndilega undir lok. Við skulum einsetja okkur að vera sameinuð í sannri tilbeiðslu þegar það gerist og hafa dag Jehóva stöðugt í huga.

Til upprifjunar

• Hvers vegna er mikilvægt að hafa dag Jehóva stöðugt í huga? Hvernig getum við gert það?

• Hvaða áhrif hefur aðgreiningin, sem nú stendur yfir, á okkur hvert og eitt?

• Hvað á eftir að gerast áður en dagur Jehóva rennur upp? Hvað ættum við því að gera núna?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 180, 181]

Síðustu dagar enda bráðlega þegar heimi Satans verður eytt.