Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hlýddu ráðum og taktu umvöndun

Hlýddu ráðum og taktu umvöndun

15. kafli

Hlýddu ráðum og taktu umvöndun

1. (a) Af hverju þurfum við öll að fá ráð og umvöndun? (b) Hvaða spurningu þurfum við að velta fyrir okkur?

 „ALLIR hrösum vér margvíslega,“ segir í Jakobsbréfinu 3:2. Við munum eflaust eftir mörgum dæmum þar sem okkur mistókst að vera þess konar manneskjur sem við erum hvött til í Biblíunni. Við erum því sammála Orðskviðunum 19:20 þar sem segir: „Hlýð þú ráðum og tak umvöndun, til þess að þú verðir vitur eftirleiðis.“ Eflaust erum við búin að laga okkur að kenningum Biblíunnar á marga vegu. En hvernig bregst þú við ef trúbróðir veitir þér leiðbeiningar um eitthvað ákveðið?

2. Hvað ættum við að gera þegar einhver vandar um við okkur?

2 Sumir reyna að réttlæta sig og gera sem minnst úr alvöru málsins, eða skella skuldinni á aðra. En það er miklu betra að hlýða á góð ráð og fara eftir þeim. (Hebreabréfið 12:11) Enginn ætti auðvitað að ætlast til fullkomleika af öðrum eða vera sí og æ að gefa leiðbeiningar um smávægilega hluti eða mál þar sem Biblían leyfir okkur að láta eigin smekk ráða. Eins má vera að sá sem vildi ráða okkur heilt hafi ekki hugleitt allar hliðar málsins og þá má benda honum vinsamlega á það. Í umfjöllun okkar í þessum kafla skulum við hins vegar gefa okkur að ráðin eða umvöndunin sé verðskulduð og byggð á Biblíunni. Hvernig ættum við þá að bregðast við?

Dæmi til viðvörunar

3, 4. (a) Hvað er að finna í Biblíunni sem getur hjálpað okkur að líta rétt á ráðleggingar og ögun? (b) Hvernig brást Sál konungur við umvöndun og með hvaða afleiðingum?

3 Í orði Guðs er sagt frá raunsönnum dæmum um einstaklinga sem þurftu að fá ráð og leiðbeiningar. Stundum þurfti líka að aga þá. Einn þessara manna var Sál Ísraelskonungur. Hann hlýddi ekki fyrirmælum Jehóva varðandi Amalekíta. Þeir höfðu staðið á móti Ísraelsmönnum og dómur Guðs var sá að hvorki ætti að þyrma Amalekítum né búpeningi þeirra. Sál konungur þyrmdi hins vegar konunginum og bestu skepnunum. — 1. Samúelsbók 15:1-11.

4 Jehóva sendi þá Samúel spámann til að ávíta Sál. Viðbrögð Sáls voru þau að hann hefði unnið sigur á Amalekítum en hreinlega ákveðið að þyrma konunginum. Það stríddi hins vegar gegn fyrirmælum Jehóva. (1. Samúelsbók 15:20) Sál reyndi að afsaka það að hann skyldi þyrma bestu skepnunum og kenndi fólkinu um. „Ég óttaðist fólkið og lét því að orðum þess,“ sagði hann. (1. Samúelsbók 15:24) Honum virtist mikið í mun að halda virðingu sinni og bað jafnvel Samúel að sýna sér heiður frammi fyrir fólkinu. (1. Samúelsbók 15:30) Að lokum hafnaði Jehóva Sál sem konungi. — 1. Samúelsbók 16:1.

5. Hvað gerðist þegar Ússía konungur vildi ekki fara að ráðum prestanna?

5 Ússía Júdakonungur „aðhafðist óhæfu og braut á móti Drottni, Guði sínum, er hann gekk inn í musteri Drottins til þess að brenna reykelsi“. (2. Kroníkubók 26:16) Engir nema prestarnir máttu þó brenna reykelsi í musterinu. Ússía reiddist þegar yfirprestarnir reyndu að stöðva hann. Biblían segir hvað gerðist þá: „Braust líkþrá út á enni honum . . . því að Drottinn hafði lostið hann. Þannig varð Ússía konungur líkþrár til dauðadags.“ — 2. Kroníkubók 26:19-21.

6. (a) Af hverju vildu hvorki Sál né Ússía taka við ráðleggingum? (b) Af hverju er það alvarlegt mál að þiggja ekki ráð?

6 Af hverju ætli þeir Sál og Ússía hafi átt erfitt með að þiggja ráð? Meginástæðan var dramb. Þeir litu of stórt á sjálfa sig. Margir valda sjálfum sér miklum erfiðleikum af þessari sömu ástæðu. Þeir virðast halda að þeir séu að viðurkenna einhvern veikleika með því að þiggja ráðleggingar og hugsa sem svo að þeir falli í áliti við það. En dramb er veikleiki. Dramb ruglar dómgreind manna svo að þeir hafa tilhneigingu til að spyrna við fótum ef Jehóva býður þeim hjálp fyrir atbeina Biblíunnar eða safnaðarins. Þess vegna fáum við eftirfarandi viðvörun frá Jehóva: „Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall.“ — Orðskviðirnir 16:18; Rómverjabréfið 12:3.

Að þiggja ráð

7. Hvernig brást Móse við ráðleggingum og hvað má læra af því?

7 Í Biblíunni segir einnig frá dæmum um fólk sem fór að ráðum annarra og við getum lært af því. Móse er dæmi um slíkan mann en tengdafaðir hans benti honum á hvernig hann gæti risið undir miklu vinnuálagi. Móse hlýddi á hann og fór tafarlaust að ráðum hans. (2. Mósebók 18:13-24) Móse var valdamikill maður. Af hverju skyldi hann hafa verið móttækilegur fyrir ráðum annarra? Af því að hann var auðmjúkur. „Móse var einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.“ (4. Mósebók 12:3) Hve mikilvægt er að vera hógvær? Samkvæmt Sefanía 2:3 er um líf og dauða að tefla.

8. (a) Hvaða syndir drýgði Davíð? (b) Hvernig brást Davíð við ávítum Natans? (c) Hvaða afleiðingar höfðu syndir Davíðs?

8 Davíð konungur drýgði hór með Batsebu og reyndi að breiða yfir það með því að láta drepa Úría, eiginmann hennar. Jehóva sendi Natan spámann til að ávíta Davíð sem iðraðist og viðurkenndi þegar í stað að hann hefði syndgað gegn Jehóva. (2. Samúelsbók 12:13) Jehóva tók iðrun Davíðs góða og gilda en Davíð varð þó að taka afleiðingum gerða sinna. Jehóva sagði honum að ‚sverðið myndi aldrei víkja burt frá húsi hans‘, konur hans yrðu gefnar „öðrum manni“ og sonurinn, sem hjúskaparbrotið leiddi af sér, myndi „vissulega deyja“. — 2. Samúelsbók 12:10, 11, 14.

9. Hverju skulum við ekki gleyma ef við fáum ráðleggingar eða ögun?

9 Davíð vissi hvaða gildi það hafði að hlýða góðum ráðum. Einu sinni þakkaði hann Guði fyrir að senda til sín konu sem réð honum heilt. (1. Samúelsbók 25:32-35) Hugsum við þannig? Það dregur úr líkunum á því að við segjum eða gerum ýmislegt sem við myndum sjá eftir. En hvað nú ef við lendum í aðstæðum sem verða þess valdandi að við fáum ráðleggingar eða jafnvel ögun? Gleymum þá ekki að það er merki þess að Jehóva elski okkur og beri eilífan hag okkar fyrir brjósti. — Orðskviðirnir 3:11, 12; 4:13.

Eiginleikar sem við ættum að temja okkur

10. Hvaða eiginleiki sagði Jesús að væri nauðsynlegur til að komast inn í ríki Guðs?

10 Til að eiga gott samband við Jehóva og trúsystkini okkar þurfum við að temja okkur vissa eiginleika. Jesús minntist á einn þeirra þegar hann setti barn á meðal lærisveinanna og sagði: „Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki. Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki.“ (Matteus 18:3, 4) Lærisveinar Jesú þurftu greinilega að temja sér auðmýkt enda höfðu þeir þráttað um það hver þeirra væri talinn mestur. — Lúkas 22:24-27.

11. (a) Gagnvart hverjum þurfum við að vera auðmjúk og hvers vegna? (b) Hvernig tökum við ráðleggingum ef við erum auðmjúk?

11 Pétur postuli skrifaði: „Skrýðist allir lítillætinu hver gagnvart öðrum, því að ‚Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð‘.“ (1. Pétursbréf 5:5) Við vitum að við þurfum að vera auðmjúk frammi fyrir Guði en í þessu versi kemur fram að við þurfum líka að vera auðmjúk gagnvart trúsystkinum. Ef við erum það tökum við því ekki illa þegar aðrir koma með uppástungur heldur lærum af þeim. — Orðskviðirnir 12:15.

12. (a) Hvaða eiginleiki er nátengdur auðmýkt? (b) Af hverju ættum við að hugsa um þau áhrif sem við getum haft á aðra?

12 Umhyggja fyrir velferð annarra er nátengd auðmýkt. Páll postuli skrifaði: „Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra. . . . Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar. Verið hvorki Gyðingum né Grikkjum né kirkju Guðs til ásteytingar.“ (1. Korintubréf 10:24-33) Páll sagði ekki að við mættum aldrei láta okkar eigin smekk ráða heldur hvatti til þess að við gerðum ekkert sem gæti fengið aðra til að brjóta gegn samvisku sinni.

13. Nefndu dæmi sem gæti gefið þér vísbendingu um hvort þú hafir tamið þér að fara eftir leiðbeiningum Biblíunnar.

13 Tekurðu velferð annarra fram yfir eigin smekk? Við ættum öll að gera það og við getum gert það á marga vegu. Tökum klæðnað og útlit sem dæmi. Það er töluvert svigrúm fyrir ólíkan smekk innan þess ramma sem Biblían setur, það er að segja að vera hrein, snyrtileg og látlaus. En segjum sem svo að þú komist að raun um að klæðnaður þinn eða útlit geri að verkum að sumir á starfssvæðinu vilji ekki hlusta á boðskapinn um ríkið. Myndirðu þá gera einhverjar breytingar þeirra vegna? Það er auðvitað mikilvægara að hjálpa fólki að öðlast eilíft líf en að þóknast sjálfum sér.

14. Af hverju er mikilvægt að vera auðmjúkur og umhyggjusamur?

14 Jesús var auðmjúkur og umhyggjusamur og er okkur góð fyrirmynd. Einu sinni þvoði hann meira að segja fætur lærisveinanna. (Jóhannes 13:12-15) Biblían segir um hann: „Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var. Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða.“ — Filippíbréfið 2:5-8; Rómverjabréfið 15:2, 3.

Hafnaðu ekki umvöndun Jehóva

15. (a) Hvaða breytingar þurfum við að gera til að þóknast Guði? (b) Hvernig fáum við ráð og umvöndun frá Jehóva?

15 Þar sem við erum öll syndug þurfum við að breyta hugsunarhætti okkar og hegðun til að geta endurspeglað persónuleika Guðs. Við þurfum að íklæðast ‚hinum nýja manni‘. (Kólossubréfið 3:5-14) Ráð og umvöndun, sem við fáum, auðvelda okkur að koma auga á hverju við þurfum að breyta og hvernig við getum gert það. Fyrst og fremst þurfum við að sækja fræðslu til Biblíunnar. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Biblíutengd rit og safnaðarsamkomur eru okkur hjálp til að fara eftir orði Guðs. Við höfum kannski heyrt þessar ráðleggingar áður en gerum við okkur grein fyrir að við þurfum á þeim að halda og reynum við að bæta okkur?

16. Hvernig hjálpar Jehóva okkur hverju og einu?

16 Jehóva sýnir okkur ást og umhyggju og hjálpar okkur að takast á við vandamálin. Biblíunámskeið hafa hjálpað milljónum manna. Foreldrar leiðbeina börnum sínum og aga þau til að forða þeim frá hegðun sem gæti orðið þeim til tjóns. (Orðskviðirnir 6:20-23) Margir í söfnuðinum leita ráða hjá reyndari trúsystkinum til að bæta sig í boðunarstarfinu. Öldungar geta leitað ráða hver hjá öðrum eða hjá trúsystkinum sem hafa mikla reynslu í boðun fagnaðarerindisins. Þeir sem eru reyndir í trúnni nota Biblíuna til að leiðbeina þeim sem eru leiðbeiningarþurfi en gæta þess að gera það alltaf með hógværð. Ef þú leiðbeinir öðrum skaltu ‚hafa gát á sjálfum þér að þú freistist ekki líka‘. (Galatabréfið 6:1, 2) Já, við þurfum öll að fá ráð og umvöndun til að tilbiðja hinn eina sanna Guð í einingu.

Til upprifjunar

• Hvernig bendir Jehóva okkur á þau svið sem við þurfum að bæta okkur á?

• Af hverju eiga margir erfitt með að þiggja nauðsynleg ráð og af hverju er það alvarlegt mál?

• Hvaða eiginleikar hjálpa okkur að vera móttækileg fyrir ráðleggingum og hvernig er Jesús góð fyrirmynd um það?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 142]

Ússía hafnaði leiðréttingu og var sleginn holdsveiki.

[Mynd á blaðsíðu 142]

Það var Móse til góðs að fara að ráðum Jetrós.