Hvað lærum við af því að Guð skuli hafa leyft illskuna?
7. kafli
Hvað lærum við af því að Guð skuli hafa leyft illskuna?
1, 2. (a) Hvaða áhrif hefði það haft á okkur ef Jehóva hefði tekið Adam og Evu af lífi strax eftir uppreisnina í Eden? (b) Hvaða ráðstafanir hefur Jehóva gert fyrir okkur?
„FÁIR og illir hafa dagar lífs míns verið,“ sagði ættfaðirinn Jakob. (1. Mósebók 47:9) Job tók í sama streng og hafði á orði að maðurinn ‚lifði stutta stund og mettaðist órósemi‘. (Jobsbók 14:1) Flest höfum við fengið okkar skerf af erfiðleikum og ranglæti eða orðið fyrir þungbærum áföllum, líkt og þeir. Það var hins vegar ekkert ranglæti af hálfu Guðs að láta okkur fæðast. Við erum að vísu ekki fullkomin á huga og líkama eins og Adam og Eva voru upphaflega, og ekki búum við heldur í paradís. En segjum að Jehóva hefði tekið þau af lífi strax eftir að þau gerðu uppreisn. Þá hefðu að vísu ekki verið til sjúkdómar, sorgir eða dauði en það hefði ekki heldur verið til neitt mannkyn. Við hefðum aldrei fæðst. Í miskunn sinni gaf Jehóva þeim Adam og Evu tíma til að eignast börn, þó svo að þau fengju ófullkomleika í vöggugjöf. Og fyrir atbeina Krists hefur Jehóva gert ráðstafanir til að við getum endurheimt það sem Adam glataði — eilíft líf í paradís á jörð. — Jóhannes 10:10; Rómverjabréfið 5:12.
2 Það er ákaflega uppörvandi að geta hlakkað til þess að hljóta eilíft líf í paradís. Hugsa sér að verða laus undan sjúkdómum, sorg, sársauka, dauða og áþján vondra manna! (Orðskviðirnir 2:21, 22; Opinberunarbókin 21:4, 5) Það er afar mikils virði fyrir okkur sjálf og Jehóva að við hljótum hjálpræði. Hins vegar er ljóst af Biblíunni að annað og meira er í húfi.
Vegna nafns síns
3. Af hverju er afar mikilvægt að vilji Jehóva með jörðina og mannkynið nái fram að ganga?
3 Nafn Guðs er nátengt því að vilji hans með jörðina og mannkynið nái fram að ganga. Nafnið Jehóva merkir „hann lætur verða“. Það felur í sér orðstír hans sem Drottinn alheims, Guð sannleikans og Guð sem hrindir alltaf vilja sínum í framkvæmd. Vegna stöðu Jehóva veltur friður og velferð alls alheims á því að allir hlýði honum og að nafni hans og öllu sem það stendur fyrir sé sýnd sú virðing sem það verðskuldar.
4. Hver var vilji Jehóva með jörðina?
4 Eftir að Jehóva skapaði Adam og Evu fékk hann þeim verk að vinna. Hann lét skýrt í ljós að það væri ekki aðeins ætlun sín að þau gerðu sér alla jörðina undirgefna með því að færa út mörk paradísar heldur áttu þau líka að byggja hana afkomendum sínum. (1. Mósebók 1:28) Átti fyrirætlun hans að fara út um þúfur vegna þess að þau syndguðu? Það hefði verið nafni hins alvalda Jehóva til mikillar háðungar ef hann hefði ekki getað látið vilja sinn með jörðina og mannkynið ná fram að ganga.
5. (a) Hvenær áttu Adam og Eva að deyja ef þau borðuðu ávöxtinn af skilningstrénu góðs og ills? (b) Hvernig stóð Jehóva við orð sín í 1. Mósebók 2:17 en lét jafnframt vilja sinn með jörðina ná fram að ganga?
5 Jehóva hafði varað Adam og Evu við því að óhlýðnast og borða ávöxtinn af skilningstrénu góðs og ills. Þau myndu deyja „jafnskjótt“ eða „á þeim degi“ sem þau gerðu það. (1. Mósebók 2:17, Biblían 1981, New World Translation) Jehóva stóð við orð sín. Hann lét þau svara til saka sama dag og þau syndguðu og dæmdi þau til dauða. Frá hans sjónarhóli dóu Adam og Eva á þeim degi. En til að láta vilja sinn með jörðina ná fram að ganga leyfði Jehóva þeim að eignast börn áður en þau dóu í bókstaflegri merkingu. Þar sem 1000 ár geta verið eins og einn dagur í augum Jehóva dó Adam samt innan eins ‚dags‘, 930 ára að aldri. (2. Pétursbréf 3:8; 1. Mósebók 5:3-5) Jehóva reyndist sannorður. Dómi var fullnægt innan þeirra tímamarka sem hann hafði sett og vilji hans með jörðina rann ekki út í sandinn þótt þau dæju. Það þýddi hins vegar að ófullkomnir menn, þar á meðal hinir illu, fengju að lifa um tíma.
6, 7. (a) Hvers vegna leyfir Jehóva hinum illu að vera til um tíma, samkvæmt 2. Mósebók 9:15, 16? (b) Hvernig sýndi Jehóva fram á mátt sinn og kunngerði nafn sitt á dögum faraós? (c) Hverju áorkar Jehóva með því að eyða illum heimi nútímans?
6 Orðsending Jehóva til faraós á dögum Móse gefur nánari vísbendingu um það hvers vegna hann hefur leyft hinum illu að vera til um tíma. Jehóva gerði ekki strax út af við faraó þegar faraó neitaði Ísraelsmönnum um fararleyfi frá Egyptalandi. Tíu plágur komu yfir landið og þær sýndu fram á mátt Jehóva á undraverðan hátt. Þegar hann varaði við sjöundu plágunni sagði hann faraó að hann hefði hæglega getað afmáð hann og þjóð hans af jörðinni. „En þess vegna hefi ég þig standa látið,“ sagði Jehóva, „til þess að ég sýndi þér mátt minn og til þess að nafn mitt yrði kunngjört um alla veröld.“ — 2. Mósebók 9:15, 16.
7 Nafn Jehóva varð víðkunnugt þegar hann frelsaði Ísraelsmenn frá Egyptalandi. (Jósúabók 2:1, 9-11) Þetta verk hans er enn í minnum haft núna, meira en 3500 árum síðar. Nafnið Jehóva var kunngert og sömuleiðis sannleikurinn um hann sem ber þetta nafn. Jehóva sýndi fram á að hann er Guð sem stendur við orð sín og lætur til sín taka í þágu þjóna sinna. (Jósúabók 23:14) Hann sýndi fram á að ekkert getur staðið í vegi fyrir vilja hans vegna þess að hann er almáttugur. (Jesaja 14:24, 27) Við getum þess vegna treyst að hann láti bráðlega til sín taka í þágu dyggra þjóna sinna með því að útrýma illum heimi Satans að fullu og öllu. Hann sýnir þá fram á almætti sitt og upphefur nafn sitt með ógleymanlegum hætti. Blessunin, sem fylgir í kjölfarið, verður eilíf. — Esekíel 38:23; Opinberunarbókin 19:1, 2.
‚Hvílíkt djúp speki Guðs!‘
8. Hvað hvetur Páll okkur til að íhuga?
8 Í Rómverjabréfinu varpar Páll postuli fram spurningunni: „Er Guð óréttvís?“ Hann svarar með áhersluþunga: „Fjarri fer því.“ Í framhaldinu bendir hann á miskunn Guðs og rifjar upp hvers vegna Guð leyfði faraó að halda velli um tíma. Páll minnir einnig á að við mennirnir séum eins og leir í höndum leirkerasmiðs. Síðan segir hann: „Ef nú Guð, sem vildi sýna reiði sína og auglýsa mátt sinn, hefur með miklu langlyndi umborið ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar, og ef hann hefur gjört það til þess að auglýsa ríkdóm dýrðar sinnar á kerum miskunnarinnar, sem hann hafði fyrirfram búið til dýrðar? Slík ker erum vér, sem hann hefur kallað, ekki aðeins úr flokki Gyðinga, heldur og úr flokki heiðingja.“ — Rómverjabréfið 9:14-24.
9. (a) Hverjir eru „ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar“? (b) Hvers vegna hefur Jehóva sýnt mikið langlundargeð og hvernig mun það leiða til góðs fyrir þá sem elska hann?
9 Allir sem hafa staðið á móti Jehóva og lögum hans frá uppreisninni í Eden hafa verið „ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar“. Allt frá þeim tíma hefur Jehóva sýnt langlundargeð. Hinir illu hafa gert gys að verkum hans, ofsótt þjóna hans og meira að segja drepið son hans. Með því að halda aftur af sér hefur Jehóva gefið öllu sköpunarverkinu nægan tíma til að sjá hve hrikalegar afleiðingar það hefur haft fyrir mennina að gera uppreisn gegn honum og reyna að stjórna sér sjálfir óháð honum. Og með dauða Jesú opnaðist leið til að frelsa hlýðna menn og „brjóta niður verk djöfulsins“. — 1. Jóhannesarbréf 3:8; Hebreabréfið 2:14, 15.
10. Af hverju hefur Jehóva umborið hina illu síðastliðin 1900 ár?
10 Á þeim rúmlega 1900 árum, sem eru liðin frá upprisu Jesú, hefur Jehóva haldið áfram að umbera „ker reiðinnar“ og beðið með að útrýma þeim. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að hann hefur verið að undirbúa þá sem eiga að vera með Jesú Kristi í ríki hans á himnum. Þeir eru 144.000 talsins og eru ‚ker miskunnarinnar‘ sem Páll postuli talaði um. Í fyrstu var Gyðingum boðið að mynda þennan himneska hóp. Síðar bauð Jehóva fólki af öðrum þjóðum í hópinn. Hann hefur ekki neytt nokkurn mann til að þjóna sér. Hann valdi hins vegar suma af þeim sem kunnu að meta ráðstafanir hans, til að ríkja með syni sínum á himnum. Þessi himneski hópur er nú næstum því fullskipaður. — Lúkas 22:29; Opinberunarbókin 14:1-4.
11. (a) Hvaða hópur nýtur góðs af langlyndi Jehóva núna? (b) Hvaða tækifæri bíður hinna dánu?
11 En hvað um jörðina? Langlyndi Jehóva hefur einnig gert að verkum að hægt hefur verið að safna saman ‚miklum múgi‘ af öllum þjóðum til að byggja jörðina. Þessi hópur telst nú í milljónum. Jehóva hefur heitið því að hann komist lífs af þegar illur heimur nútímans líður undir lok og að hann eigi fyrir sér að lifa að eilífu í paradís á jörð. (Opinberunarbókin 7:9, 10; Sálmur 37:29; Jóhannes 10:16) Þegar fram líða stundir verða dánir reistir upp og þeim verður gefið tækifæri til að verða jarðneskir þegnar ríkisins á himnum. Í Postulasögunni 24:15 segir að „upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir“. — Jóhannes 5:28, 29.
12. (a) Hvað höfum við lært um Jehóva í ljósi þess að hann hefur umborið illskuna? (b) Hvernig finnst þér Jehóva hafa tekið á málunum?
12 Hefur Jehóva sýnt af sér eitthvert ranglæti? Nei, með því að bíða með að afmá hina illu, „ker reiðinnar“, sýnir hann öðrum miskunn í samræmi við fyrirætlun sína. Þetta vitnar um það hve miskunnsamur og kærleiksríkur hann er. Og með því að sjá hvernig fyrirætlun Jehóva vindur fram lærum við margt um hann sjálfan. Við dáumst að persónueinkennum hans — réttlæti, miskunn, langlyndi og margþættri visku. Jehóva hefur tekið viturlega á deilunni um drottinvald sitt, það er að segja um réttinn til að stjórna, svo að nú liggur fyrir eilíf sönnun þess að hann sé besti stjórnandinn. Við tökum undir með Páli postula: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!“ — Rómverjabréfið 11:33.
Tækifæri til að sýna hollustu okkar
13. Hvaða tækifæri gefst okkur þegar við þjáumst og hvað hjálpar okkur til að breyta viturlega?
13 Margir af þjónum Guðs búa við erfiðar aðstæður sem valda þeim þjáningum. Og þjáningarnar halda áfram vegna þess að Guð hefur ekki enn þá útrýmt hinum illu og endurreist mannkyn. Ættum við að fyllast beiskju út af því? Eða getum við litið á erfiðleikana sem tækifæri til að eiga þátt í að sanna að Satan sé lygari? Hvatningin í Orðskviðunum 27:11 getur styrkt okkur til þess. Þar stendur: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ Satan smánar Jehóva og hann fullyrðir að fólk ásaki Jehóva og formæli honum jafnvel ef það verður fyrir fjárhagslegum eða líkamlegum áföllum. (Jobsbók 1:9-11; 2:4, 5) Með því að vera Jehóva trú þótt móti blási sýnum við að Satan hefur rangt fyrir sér hvað okkur varðar. Þannig gleðjum við hjarta Jehóva.
14. Hvernig er það okkur til góðs að reiða okkur á Jehóva í prófraunum?
14 Ef við reiðum okkur á Jehóva þegar við lendum í prófraunum getum við þroskað með okkur góða eiginleika. Til dæmis er sagt um Jesú að vegna þjáninga sinna hafi hann ‚lært hlýðni‘ með öðrum hætti en hann hafði kynnst áður. Við getum líka lært af erfiðleikum og þroskað með okkur langlyndi og þolgæði og fengið meiri mætur á réttlátum vilja Jehóva. — Hebreabréfið 5:8, 9; 12:11; Jakobsbréfið 1:2-4.
15. Hvernig getum við gert öðrum gott með þolgæði okkar?
15 Aðrir sjá líka hvað við þurfum að þola vegna þess að við elskum réttlætið. Og sumir þeirra átta sig ef til vill á því með tímanum hverjir það eru sem stunda sanna kristni nú á dögum. Með því að sameinast okkur í tilbeiðslu geta þeir átt eilíft líf í vændum. (Matteus 25:34-36, 40, 46) Jehóva og sonur hans vilja að fólk fái þetta tækifæri.
16. Hvernig er afstaða okkar til erfiðleika tengd einingu?
16 Það er hrósvert að líta á erfiðleika sem tækifæri til að styðja fyrirætlun Jehóva og til að sýna honum ást og hollustu. Þannig sýnum við að við leggjum okkur fram um að vera sameinuð Guði og Kristi. Jesús bað fyrir öllum sannkristnum mönnum: „Ég bið ekki einungis fyrir þessum [lærisveinunum sem stóðu honum næst], heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra, að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur.“ — Jóhannes 17:20, 21.
17. Hverju getum við treyst ef við erum Jehóva trú?
17 Jehóva umbunar okkur ríkulega ef við erum honum trú. Í orði hans segir: „Verið staðfastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins. Þér vitið að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.“ (1. Korintubréf 15:58) Þar segir einnig: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans.“ (Hebreabréfið 6:10) Í Jakobsbréfinu 5:11 stendur: „Vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið. Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir Drottinn gjörði á högum hans. Drottinn er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ Hvernig farnaðist Job? „Drottinn blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri.“ (Jobsbók 42:10-16) Já, Jehóva ‚umbunar þeim er hans leita‘. (Hebreabréfið 11:6) Og það er ekki lítil umbun sem við getum hlakkað til — að hljóta eilíft líf í paradís á jörð.
18. Hvað verður um sársaukafullar minningar?
18 Ríki Guðs mun bæta allt það tjón sem mannkynið hefur orðið fyrir síðustu árþúsundir. Gleðin, sem við fáum að njóta á þeim tíma, mun vega margfalt upp á móti þeim þjáningum sem við þurfum að þola núna. Óþægilegar minningar um þjáningar liðins tíma munu ekki sækja á okkur. Lífið í nýja heiminum verður uppfullt af uppbyggilegum verkum og hugsunum svo að sársaukafullar endurminningar hverfa smám saman. Jehóva segir: „Ég skapa nýjan himin [nýja himneska stjórn yfir mannkyni] og nýja jörð [nýtt réttlátt samfélag manna], og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma. Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa.“ Í nýjum heimi Jehóva geta hinir réttlátu sagt: „Öll jörðin nýtur nú hvíldar og friðar, fagnaðarópin kveða við.“ — Jesaja 14:7; 65:17, 18.
Til upprifjunar
• Hvernig hefur Jehóva sýnt nafni sínu mikla virðingu þó svo að hann hafi leyft illskuna?
• Hvernig hefur langlyndi Jehóva við „ker reiðinnar“ orðið til þess að við getum notið miskunnar hans?
• Hvernig ættum við að reyna að líta á aðstæður sem valda okkur þjáningum?
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 67]
Jehóva „blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri“.