Þurfum við alltaf fyrirmæli úr Biblíunni?
Þurfum við alltaf fyrirmæli úr Biblíunni?
ÞEGAR þú varst ungur settu foreldrar þínir þér líklega margar reglur. Með aldrinum varð þér síðan ljóst að þau voru aðeins að hugsa um hvað væri þér fyrir bestu. Og á fullorðins aldri heldurðu kannski áfram að lifa eftir vissum meginreglum sem þau hafa kennt þér þótt þau fari ekki lengur með forræði yfir þér.
Í orði Guðs, Biblíunni, er að finna fjölmörg bein fyrirmæli frá Jehóva, himneskum föður okkar. Hann bannar til dæmis skurðgoðadýrkun, kynferðislegt siðleysi, hjúskaparbrot og þjófnað. (2. Mósebók 20:1–17; Postulasagan 15:28, 29) Þegar við ,þroskumst á allan hátt‘ í trúnni lærum við að Jehóva vill okkur aðeins hið besta og að fyrirmæli hans eru ekki of ströng. – Efesusbréfið 4:15; Jesaja 48:17, 18; 54:13.
En það koma upp ýmsar aðstæður þar sem engin ákveðin lög eða reglur er að finna. Þegar engin bein fyrirmæli úr Biblíunni eru til staðar finnst sumum þess vegna að þeir geti bara gert það sem þeim sýnist. Þeir segja að ef Guði hefði fundist það nauðsynlegt hefði hann gefið okkur skýrari reglur.
Þeir sem hugsa þannig taka oft óviturlegar ákvarðanir sem þeir sjá síðan mjög eftir. Þeir skilja ekki að Biblían inniheldur ekki bara lög og reglur heldur líka viðhorf Guðs. Með því að rannsaka vel Biblíuna og kynnast því hvernig Jehóva hugsar þjálfum við biblíufrædda samvisku okkar og það hjálpar okkur að taka ákvarðanir sem endurspegla viðhorf hans. Þá gleðjum við hjarta hans og finnum hvernig það er okkur til góðs þegar við tökum viturlegar ákvarðanir. – Efesusbréfið 5:1.
Fyrirmyndarfordæmi úr Biblíunni
Þjónar Guðs til forna stóðu stundum frammi fyrir aðstæðum þar sem engin skýr lög frá Jehóva var að finna. En þeir hugsuðu samt um hvaða viðhorf hann hafði til málsins. Jósef er gott dæmi um það. Þegar eiginkona Pótífars reyndi að fá hann til að hafa kynmök við sig voru ekki til skráð lög frá Guði sem bönnuðu hjúskaparbrot. En þrátt fyrir það skildi Jósef að hjúskaparbrot væri ekki aðeins brot gegn eigin samvisku heldur væri hann líka að „syndga á móti Guði“. (1. Mósebók 39:9) Jósef vissi greinilega að hjúskaparbrot væri í andstöðu við viðhorf og fyrirætlun Guðs, eins og kom fram í Eden. – 1. Mósebók 2:24.
Tökum annað dæmi. Í Postulasögunni 16:3 lesum við að Páll hafi umskorið Tímóteus áður en þeir ferðuðust til safnaðanna. Í 4. versi lesum við síðan að þeir hafi farið um borgirnar til að flytja mönnum „úrskurði postulanna og öldunganna í Jerúsalem“. Þar á meðal var sá úrskurður að kristnir menn væru ekki lengur undir lögmálinu og þyrftu því ekki að láta umskerast. (Postulasagan 15:5, 6, 28, 29) Hvers vegna fannst Páli nauðsynlegt að umskera Tímóteus? „Vegna Gyðinganna á þessum slóðum því að þeir vissu allir að faðir [Tímóteusar] var Grikki.“ Páll vildi ekki móðga eða hneyksla nokkurn mann að óþörfu. Honum var mikið í mun um ,að setja öllum mönnum gott fordæmi og höfða til samvisku þeirra frammi fyrir Guði‘. – 2. Korintubréf 4:2; 1. Korintubréf 9:19–23.
Páll og Tímóteus voru þekktir fyrir að hugsa á þennan hátt. Lestu Rómverjabréfið 14:15, 20, 21 og 1. Korintubréf 8:9–13; 10:23–33 og sjáðu hversu umhugað Páli var um að veikja ekki trú annarra, sérstaklega þeirra sem gætu hneykslast yfir því sem strangt til tekið var ekki bannað. Páll skrifaði um Tímóteus: „Ég hef engan honum líkan, engan sem mun láta sér eins einlæglega annt um velferð ykkar. Allir aðrir hugsa um sinn eigin hag en ekki um það sem Jesús Kristur vill. En þið vitið hvernig Tímóteus hefur reynst. Hann hefur þjónað með mér við að efla boðun fagnaðarboðskaparins eins og barn með föður sínum.“ (Filippíbréfið 2:20–22) Þessir trúföstu bræður eru okkur einstaklega gott fordæmi. Í stað þess að taka bara persónulega ákvörðun um mál sem lög Guðs töluðu ekki sérstaklega um, líktu þeir eftir kærleika Jehóva og sonar hans með því að hugsa út í það hvernig ákvarðanir þeirra gætu haft áhrif á trú annarra.
Skoðum besta fordæmið, Jesú Krist. Í fjallræðu sinni segir hann að sá sem skilur andann í lögum Guðs eigi eftir að hlýða þeim, jafnvel fram yfir bein boð eða bönn. (Matteus 5:21, 22, 27, 28) Jesús, Páll, Tímóteus og Jósef hugsuðu ekki sem svo að þar sem engin bein fyrirmæli frá Guði væri að finna mættu þeir gera það sem þeim sýndist. Með því að líta sömu augum og Guð á málin fylgdu þeir því sem Jesús kallaði tvö æðstu boðorðin – að elska Guð og elska náungann. – Matteus 22:36–40.
Hvað um þjóna Guðs nú á tímum?
Það er greinilegt að við ættum ekki að líta á Biblíuna sem lagabók og ætlast til að hvert einasta ákvæði sé tíundað í smáatriðum. Það gleður Jehóva mjög mikið þegar við veljum að gera það sem endurspeglar viðhorf hans jafnvel þó að engin ákveðin fyrirmæli finnist sem segja okkur hvað við eigum að gera. Við ættum því að reyna að ,átta okkur á hver sé vilji Jehóva‘ í stað þess að bíða alltaf eftir að hann segi okkur hvað við eigum að gera. (Efesusbréfið 5:17; Rómverjabréfið 12:2) Hvers vegna gleður það Jehóva? Það sýnir að okkur er meira umhugað um að gleðja hann en að standa fast á eigin rétti eða skoðunum. Þannig sýnum við líka þakklæti fyrir kærleika Jehóva og við leitumst við að kærleikur sé hvötin á bak við allt sem við gerum. (Orðskviðirnir 23:15; 27:11) Þar að auki styrkir það samband okkar við Jehóva að fara eftir leiðbeiningum Biblíunnar og það er jafnvel gott fyrir heilsuna.
Skoðum hvernig þessi meginregla getur gagnast okkur þegar við tökum ákvarðanir.
Val á skemmtiefni
Tökum sem dæmi ungan mann sem langar til að kaupa ákveðna hljómplötu. Honum líkar vel við þau lög sem hann hefur heyrt af plötunni en hefur áhyggjur af því sem stendur á bakhliðinni að textarnir gætu verið grófir eða klámfengnir. Og hann veit að tónlistin sem þessi tónlistarmaður gerir einkennist að stórum hluta af reiði og árásargirni. Þar sem þessi ungi maður elskar Jehóva þá vill hann vita hvað Jehóva finnst um málið. Hvernig getur hann komist að því?
Í Galatabréfinu skrifar Páll postuli um verk holdsins og ávöxt andans. Þú veist vel að ávöxtur andans er kærleikur, gleði, friður, þolinmæði, góðvild, gæska, trú, mildi og sjálfstjórn. En hver eru verk holdsins? Páll skrifar: „Verk holdsins eru augljós. Þau eru kynferðislegt siðleysi, óhreinleiki, blygðunarlaus hegðun, skurðgoðadýrkun, dulspeki, fjandskapur, deilur, afbrýði, reiðiköst, ágreiningur, sundrung, sértrúarklofningur, öfund, ofdrykkja, svallveislur og annað þessu líkt. Ég vara ykkur við, eins og ég hef áður gert, að þeir sem stunda slíkt erfa ekki ríki Guðs.“ – Galatabréfið 5:19–23.
Taktu eftir því síðasta í upptalningunni – „annað þessu líkt“. Páll gaf okkur ekki tæmandi lista yfir allt sem gæti hugsanlega talist til verka holdsins. Við gætum ekki sagt sem svo: ,Samkvæmt Biblíunni get ég gert allt það sem Páll nefnir ekki í upptalningunni yfir verk holdsins.‘ Við verðum öllu heldur að nota skynsemina og koma auga á það sem ekki er nefnt en er „þessu líkt“. Þeir sem skammarlaust stunda það sem er ekki á listanum en er „þessu líkt“ erfa ekki ríki Guðs.
Við verðum því að skilja eða koma auga á það sem er slæmt í augum Jehóva. Er það erfitt? Segjum sem svo að læknirinn þinn segi að þú eigir að borða meira af ávöxtum og grænmeti og forðast nammi, ís og þvíumlíkt. Er erfitt að áætla á hvaða lista kökur heyra til? Lítum aftur á ávöxt andans og verk holdsins. Á hvaða lista ætti hljómplatan heima? Hún á svo sannarlega ekkert sameiginlegt með kærleika, góðvild, sjálfstjórn eða öðrum góðum eiginleikum ávaxtar andans. Það þarf ekki sérstakt lagaákvæði til að koma auga á að þessi tónlist samræmist ekki viðhorfi Guðs. Sama meginregla gildir um lesefni, kvikmyndir, sjónvarpsþætti, tölvuleiki, vefsíður og svo framvegis.
Viðeigandi útlit
Biblían gefur okkur meginreglur sem hafa áhrif á klæðaburð okkar og snyrtingu. Þær hjálpa þjónum Guðs að vera alltaf sómasamlega og vel til fara. Sá sem elskar Jehóva leitast við að gera það sem gleður hann í stað þess að uppfylla bara eigin óskir. Það að Jehóva hafi ekki gefið sérstök lög í ákveðnum málum þýðir ekki að honum sé sama um hvað þjónar hans gera, eins og við höfum lært. Klæðaburður er mismunandi frá einum stað til annars og hann á það líka til að breytast með tímanum. En Guð gefur okkur meginreglur sem eru sígildar hvar og hvenær sem er.
Í 1. Tímóteusarbréfi 2:9, 10 segir til dæmis: „Og konurnar eiga að prýða sig viðeigandi klæðnaði, með hógværð og skynsemi, ekki með íburðarmiklum hárgreiðslum, gulli, perlum eða rándýrum fötum heldur með góðum verkum eins og sæmir konum sem segjast elska Guð.“ Þjónar Guðs – bæði konur og karlar – ættu því að hugsa um hvernig fólk á svæðinu ætlast til að þeir „sem segjast elska Guð“ séu til fara. Það er sérstaklega mikilvægt að velta því fyrir sér hvað útlit okkar fær fólk til að hugsa um boðskap Biblíunnar. (2. Korintubréf 6:3) Þjónn Guðs er til fyrirmyndar ef hann er ekki of upptekinn af eigin smekk eða valfrelsi heldur hugsar um að draga ekki of mikla athygli að sjálfum sér eða verða öðrum til hrösunar. – Matteus 18:6; Filippíbréfið 1:10.
Þjónn Guðs getur líkt eftir Páli postula með því að taka tillit til annarra í stað þess að standa fast á sínu þegar það er augljóst að ákveðin tíska truflar eða hneykslar aðra. Páll sagði: „Líkið eftir mér eins og ég líki eftir Kristi.“ (1. Korintubréf 11:1) Og hann skrifaði um Jesú: „Kristur hugsaði ekki um eigin hag.“ Leiðbeiningar Páls til allra þjóna Guðs eru mjög skýrar: „Við sem erum sterk eigum að bera veikleika þeirra sem eru óstyrkir í trúnni og hugsa ekki aðeins um eigin hag. Við skulum öll gera það sem er náunganum til góðs og styrkir hann.“ – Rómverjabréfið 15:1–3.
Skerpum á dómgreindinni
Hvernig getum við haldið áfram að þroska með okkur góða dómgreind til að vita hvernig við eigum að gleðja Jehóva þegar hann hefur ekki gefið okkur ákveðin fyrirmæli? Ef við lesum daglega í orði hans, rannsökum það og hugleiðum það sem við lesum munum við fljótt finna hvernig dómgreindin skerpist. Það gerist ekki á einum degi. Líkt og barn sem þroskast líkamlega tekur það sinn tíma að styrkjast í trúnni og það er ekki alltaf hægt að koma auga á það strax. Við þurfum því að vera þolinmóð og forðast að vera vonsvikin ef framförin er ekki strax sýnileg. Hins vegar skerpist ekki á dómgreindinni bara með því einu að láta tímann líða. Við verðum að nýta tímann vel með því að hugleiða reglulega orð Guðs og gera okkar besta til að fara eftir því sem við lærum. – Hebreabréfið 5:14.
Við getum sagt að fyrirmæli Guðs reyni á hlýðni okkar en meginreglur hans segi til um hversu sterk við erum í trúnni og hversu sterk löngun okkar er til að gleðja Jehóva. Þegar við styrkjumst í trúnni einbeitum við okkur enn meira að því að líkja eftir Jehóva og syni hans. Við lærum frá Biblíunni hvert viðhorf Jehóva er og reynum alltaf að hafa það í huga þegar við tökum ákvarðanir. Og við verðum sjálf ánægðari þegar við gerum okkar besta til að gleðja himneskan föður okkar í öllu sem við gerum.
[Myndir]
Klæðaburður og tíska er mismunandi frá einum stað til annars en meginreglur Biblíunnar ættu að hafa áhrif á val okkar.