Hoppa beint í efnið

Að biðjast afsökunar – mikilvægt til að semja frið

Að biðjast afsökunar – mikilvægt til að semja frið

Að biðjast afsökunar – mikilvægt til að semja frið

„AÐ BIÐJAST afsökunar er áhrifaríkt. Það hjálpar til við að koma á sáttum án þess að gripið sé til ofbeldis, jafnar ágreining milli þjóða, gefur ríkisstjórnum tækifæri til að viðurkenna þjáningar borgara sinna og hjálpar til við að koma aftur á góðum samskiptum milli fólks.“ Þannig skrifaði Deborah Tannen, metsölurithöfundur og málvísindakona við Georgetown University í Washington D.C. sem hefur rannsakað félagsleg og menningarleg áhrif í samskiptum fólks.

Biblían staðfestir að einlæg afsökunarbeiðni er oft áhrifarík leið til að endurheimta gott samband. Í dæmisögu Jesú um týnda soninn var faðirinn meira en tilbúinn til að taka á móti honum í fjölskylduna þegar hann sneri aftur heim og baðst af hjarta afsökunar. (Lúkas 15:17–24) Maður ætti aldrei að vera of stoltur til að kyngja stoltinu, biðjast afsökunar og leitast við að vera fyrirgefið. Þeir sem eru einlæglega auðmjúkir eiga ekki erfitt með að biðjast afsökunar.

Afsökunarbeiðni er áhrifarík

Abígail var vitur kona í Ísrael til forna sem sýndi hvað það getur verið áhrifaríkt að biðjast afsökunar þótt hún hafi gert það fyrir hönd mannsins síns. Davíð sem varð síðar konungur Ísraels dvaldi í eyðimörkinni ásamt mönnum sínum og verndaði hjörð Nabals, eiginmanns Abígail. En þegar ungu mennirnir sem Davíð sendi báðu Nabal um brauð og vatn neitaði hann þeim og hellti svívirðingum yfir þá. Þetta vakti reiði Davíðs sem ásamt 400 mönnum sínum hélt af stað gegn Nabal og húsi hans. Þegar Abígail frétti það fór hún af stað að hitta Davíð. Þegar hún hitti hann féll hún á grúfu frammi fyrir honum. Síðan sagði hún: „Herra, sökin er mín. Leyfðu ambátt þinni að tala við þig og hlustaðu á það sem ambátt þín hefur að segja.“ Abígail útskýrði síðan aðstæður og gaf Davíð mat og drykk að gjöf. Þá sagði hann: „Farðu heim til þín í friði. Ég hef hlustað á mál þitt og ætla að gera eins og þú biður um.“ – 1. Samúelsbók 25:2–35.

Auðmjúkt hugarfar Abígail og afsökunarbeiðni fyrir ruddalega hegðun eiginmanns hennar bjargaði heimafólki hennar. Davíð þakkaði henni jafnvel fyrir að koma í veg fyrir að hann bakaði sér blóðskuld. Þótt Abígail hefði ekki komið illa fram við Davíð og menn hans tók hún á sig sökina fyrir fjölskyldu sína og samdi frið við Davíð.

Páll postuli er annað dæmi um einhvern sem vissi hvenær hann átti að biðjast afsökunar. Eitt sinn þurfti hann að verja sig frammi fyrir Æðstaráði Gyðinga. Einlæg orð Páls fengu Ananías æðstaprest til að fyrirskipa að hann yrði sleginn á munninn. Þá sagði Páll: „Guð mun slá þig, þú hvítkalkaði veggur. Situr þú og dæmir mig samkvæmt lögunum en brýtur jafnframt lögin með því að skipa að ég skuli sleginn?“ Þegar áheyrendur sökuðu Pál um að smána æðstaprestinn játaði hann samstundis mistök sín og sagði: „Bræður, ég vissi ekki að hann væri æðstiprestur. Skrifað stendur: ,Þú skalt ekki tala niðrandi um leiðtoga þjóðar þinnar.‘“ – Postulasagan 23:1–5.

Það sem Páll sagði varðandi lögin, að sá sem væri dreginn fyrir dómara ætti ekki að sæta ofbeldi, var rétt. En hann baðst samt afsökunar fyrir að tala óafvitandi við æðstaprestinn á þann hátt sem gat virst sýna óvirðingu. a Afsökunarbeiðni Páls opnaði möguleikann á að Æðstaráðið hlustaði á það sem hann hafði að segja. Páll þekkti ágreininginn milli þeirra sem voru í ráðinu og sagðist vera fyrir rétti vegna trúar sinnar á upprisuna. Þetta varð til þess að menn rifust heiftarlega þar sem farísearnir stóðu með Páli. – Postulasagan 23:6–10.

Hvað getum við lært af þessum tveim frásögum Biblíunnar? Í báðum tilfellum opnaði auðmjúk tjáning eftirsjár leiðina til frekari samskipta. Afsökunarbeiðni getur hjálpað manni að semja frið. Að viðurkenna mistök og biðjast afsökunar á skaða sem hefur orðið getur skapað grundvöll fyrir uppbyggilegar samræður.

En ég hef ekki gert neitt rangt

Þegar við komumst að því að einhver móðgaðist vegna þess sem við sögðum eða gerðum finnst okkur ef til vill að viðkomandi sé ósanngjarn eða of viðkvæmur. En Jesús sagði við lærisveina sína: „Sértu því að koma með fórn þína að altarinu og manst þá að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér skaltu skilja fórnina eftir fyrir framan altarið. Farðu fyrst og sæstu við bróður þinn. Komdu síðan aftur og færðu fórnina.“ – Matteus 5:23, 24.

Bróður gæti fundist þú hafa syndgað gegn honum. Í slíku tilfelli segir Jesús að þú eigir að fara og ,sættast við bróður þinn‘ hvort sem þér finnst þú hafa gert á hlut hans eða ekki. Samkvæmt gríska textanum endurspegla orð Jesú ,gagnkvæma tilslökun eftir ósætti‘. (Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words) Þegar tveir einstaklingar eru ósammála geta báðir átt hlut að máli þar sem þeir eru báðir ófullkomnir og hneigjast til að gera rangt. Þetta útheimtir venjulega að báðir aðilar gefi eftir.

Það skiptir ekki mestu máli hver hefur rétt fyrir sér og hver rangt heldur að einhver eigi frumkvæðið að því að semja frið. Þegar Páll postuli komst að því að kristnir menn í Korintu drógu trúsystkini fyrir dómstóla vegna ósætta eins og í sambandi við peningamál leiðrétti hann þá: „Hvers vegna látið þið ekki heldur beita ykkur órétti? Hvers vegna látið þið ekki heldur hafa eitthvað af ykkur?“ (1. Korintubréf 6:7) Þótt Páll hafi sagt þetta til að letja trúsystkini sín í að viðra persónuleg ágreiningsmál sín fyrir dómstólum er eitt ljóst: Friður meðal trúsystkina er mikilvægari en að sanna hver hefur rétt fyrir sér og hver rangt. Ef við höfum þetta í huga eigum við auðveldara með að biðjast afsökunar á því sem einhver heldur að við höfum gert á hlut sinn.

Einlægni er nauðsynleg

Sumt fólk ofnotar orð sem tjá afsökun. Í Japan til dæmis er orðið sumimasen, algengt orð til að tjá afsökun, notað í tíma og ótíma. Það er jafnvel notað til að tjá þakklæti ef fólki finnst það ekki geta endurgoldið greiða. Sumum finnst þess vegna að orðið sé ofnotað og velta því fyrir sér hvort þeir sem segja það séu í raun einlægir. Þetta getur átt við í öðrum menningarsamfélögum líka.

Það er mikilvægt að vera einlægur þegar maður biðst afsökunar, hvaða tungumál sem maður talar. Orðaval og raddblær ætti að endurspegla iðrun. Jesús Kristur sagði lærisveinum sínum í Fjallræðunni: „Láttu bara ,já‘ þitt merkja já og ,nei‘ þitt nei því að allt þar fyrir utan er frá hinum vonda.“ (Matteus 5:37) Ef þú biðst afsökunar skaltu meina það! Tökum dæmi: Maður bíður á flugvelli til að skrá sig í flug og biðst afsökunar þegar farangur hans rekst í konu sem er á eftir honum í röðinni. Nokkrum mínútum síðar þegar röðin mjakast áfram rekst ferðataskan hans aftur í konuna. Maðurinn biður aftur kurteislega afsökunar. En þegar þetta gerist enn og aftur segir ferðafélagi konunnar að ef hann meinti það sem hann segði myndi hann passa að farangurinn rækist ekki aftur í konuna. Einlæg afsökunbeiðni felur í sér að vera staðráðinn í að endurtaka ekki mistökin.

Ef maður er einlægur fylgir afsökunarbeiðninni viðurkenning á því að hafa gert rangt, bón um fyrirgefningu og viðleitni til að bæta fyrir skaða eins og mögulegt er. Þolandinn ætti í staðinn að fyrirgefa honum. (Matteus 18:21, 22; Markús 11:25; Efesusbréfið 4:32; Kólossubréfið 3:13) Þar sem báðir eru ófullkomnir gengur þetta ekki alltaf smurt fyrir sig. Afsökunarbeiðni er samt sem áður áhrifarík til að semja frið.

Þegar afsökun er óviðeigandi

Þótt það hafi græðandi áhrif að tjá iðrun og stuðli að friði forðast hygginn maður að biðjast afsökunar þegar það á ekki við. Gerum ráð fyrir að ágreiningsmál snúist um hollustu við Guð. Þegar Jesús Kristur var á jörð ,auðmýkti hann sjálfan sig þegar hann kom sem maður og var hlýðinn allt til dauða, já, dauða á kvalastaur‘. (Filippíbréfið 2:8) En hann afsakaði ekki trú sína til að komast hjá þjáningum. Og hann baðst ekki afsökunar þegar æðstipresturinn krafði hann: „Sverðu mér eið við hinn lifandi Guð og segðu okkur hvort þú sért Kristur, sonur Guðs.“ Í stað þess að sýna hugleysi og afsaka sig sagði Jesús hugrakkur: „Þú sagðir það sjálfur. En ég segi ykkur: Héðan í frá munuð þið sjá Mannssoninn sitja við hægri hönd máttarins og koma á skýjum himins.“ (Matteus 26:63, 64) Það hvarflaði aldrei að Jesú að taka frið við æðstaprestinn fram yfir að vera ráðvandur föður sínum, Jehóva Guði.

Kristnir menn sýna fólki í valdastöðum virðingu og heiður. En þeir þurfa ekki að afsaka sig fyrir að hlýða Guði og elska trúsystkini sín. – Matteus 28:19, 20; Rómverjabréfið 13:5–7.

Engin fyrirstaða til að halda frið

Við gerum mistök vegna þess að við fengum ófullkomleika og synd í arf frá forföður okkar, Adam. (Rómverjabréfið 5:12; 1. Jóhannesarbréf 1:10) Syndugt ástand Adams kom til vegna uppreisnar hans gegn skaparanum. Upphaflega voru Adam og Eva fullkomin og syndlaus og Guð hefur lofað að veita mannkyninu fullkomleika aftur. Hann mun þurrka syndina út og öll áhrif hennar. – 1. Korintubréf 15:56, 57.

Ímyndaðu þér hvað það merkir! Þegar Jakob hálfbróðir Jesú gaf leiðbeiningar varðandi notkun tungunnar sagði hann líka: „Ef einhver hrasar ekki í orði er hann fullkominn maður og fær um að hafa taumhald á öllum líkama sínum.“ (Jakobsbréfið 3:2) Fullkominn maður getur haft stjórn á tungu sinni þannig að hann þarf ekki að afsaka sig því að hann notar hana ekki á rangan hátt. Hann getur haft „taumhald á öllum líkama sínum“. Það verður dásamlegt þegar við verðum fullkomin! Þá verður ekkert sem ógnar framar friði milli einstaklinga. En þangað til hjálpar það mjög mikið til að koma á friði að biðjast einlæglega afsökunar á því sem maður hefur gert rangt.

[Neðanmáls]

a Hugsanlega þekkti Páll ekki æðstaprestinn vegna þess að hann hafði slæma sjón.

[Mynd]

Hvað getum við lært af Páli?

[Mynd]

Þegar allir verða fullkomnir verður ekkert sem ógnar friðinum.