Biblían breytir lífi fólks
Biblían breytir lífi fólks
HVAÐ fékk mann sem var í rastafari-hreyfingunni til að klippa flétturnar úr hárinu og losa sig við fordóma gagnvart hvítu fólki? Og hvað gerði ofbeldisfullum ungum manni sem var rukkari fyrir fíkniefnasala kleift að breyta um lífsstíl? Sjáðu hvað þeir hafa að segja.
„Ég losaði mig jafnvel við fordóma.“ – HAFENI NGAMA
ALDUR: 34
FÖÐURLAND: SAMBÍA
FORSAGA: VAR Í RASTAFARI-HREYFINGUNNI
FORTÍÐ MÍN: Ég fæddist í flóttamannabúðum í Sambíu. Móðir mín hafði flúið frá Namibíu á stríðstímum og gengið til liðs við samtök fólks í Suðvestur-Afríku (SWAPO) sem börðust á móti ríkistjórn Namibíu á þeim tíma.
Ég bjó í nokkrum flóttamannabúðum fyrstu 15 ár ævi minnar. Ungu fólki í samtökunum var kennt að taka forystuna í samtökunum en við álitum að þau gætu frelsað okkur. Okkur voru innrættar ákveðnar stjórnmálaskoðanir og kennt að hata hvítt fólk.
Þegar ég var 11 ára langaði mig að fermast inn í kirkju í flóttamannabúðunum sem var sambræðingur úr rómversk-kaþólskri trú, lúterstrú, biskupakirkjunni og fleirum. Presturinn sem ég talaði við réð mér frá því að gera það. Þaðan í frá var ég trúlaus. Þegar ég var 15 ára varð þó áhugi minn á reggítónlist og löngun til að leiðrétta eitthvað af óréttlætinu gagnvart svörtum afríkubúum til þess að ég gekk til liðs við rastafari-hreyfinguna. Ég lét hárið vaxa og setti fléttur í það, reykti maríjúana, hætti að borða kjöt og fór að berjast fyrir frelsi svartra. En ég hætti ekki siðlausu líferni eða að horfa á ofbeldisfullar kvikmyndir. Og ég hélt áfram að nota gróft málfar.
HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU: Árið 1995 þegar ég var um 20 ára byrjaði ég að hugsa alvarlega um hvert líf mitt stefndi. Ég las allt efni rastafari-hreyfingarinnar sem ég fann. Sumt tengdist Biblíunni en mér fannst útskýringarnar ekki rökréttar. Ég ákvað því að lesa Biblíuna sjálfur.
Seinna gaf vinur í hreyfingunni mér biblíunámsbók sem Vottar Jehóva gáfu út. Ég las hana sjálfur ásamt Biblíunni. Síðar hitti ég votta Jehóva og hélt áfram að rannsaka Biblíuna með þeim.
Ég þurfti að leggja hart að mér til að hætta að reykja og misnota áfengi. (2. Korintubréf 7:1) Ég hressti upp á útlitið, klippti flétturnar, hætti að horfa á klám og ofbeldisfullar kvikmyndir og notaði ekki lengur gróft tal. (Efesusbréfið 5:3, 4) Á endanum sigraðist ég jafnvel á fordómunum gegn hvítu fólki. (Postulasagan 10:34, 35) Til að geta gert þessar breytingar þurfti ég að losa mig við tónlist sem kyndir undir kynþáttafordóma og slíta tengslin við vini sem reyndu að fá mig til að snúa til fyrra lífs.
Eftir að hafa gert þessar breytingar leitaði ég að ríkissal Votta Jehóva og bað um að fá að ganga í söfnuðinn. Ég fékk aðstoð við biblíunám. Fjölskyldan mín var ekki hrifin þegar ég ákvað að skírast sem vottur Jehóva. Móðir mín sagði mér að velja hvaða „kristna“ söfnuð sem væri nema Votta Jehóva. Frændi minn sem var háttsettur í ríkisstjórninni gagnrýndi mig stöðugt fyrir að umgangast vottana.
En þegar ég lærði um það hvernig Jesús kom fram við fólk og fór síðan eftir því hjálpaði það mér að þola andstöðu og háð. Þegar ég bar það sem vottarnir kenndu saman við það sem segir í Biblíunni var ég sannfærður um að ég hefði fundið hina sönnu trú. Þeir fylgja til dæmis boði Biblíunnar um að boða öðrum trúna. (Matteus 28:19, 20; Postulasagan 15:14) Og þeir blanda sér ekki í stjórnmál. – Sálmur 146:3, 4; Jóhannes 15:17, 18.
HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS: Það hefur hjálpað mér á marga vegu að læra að lifa eftir meginreglum Biblíunnar. Það hefur sparað mér hundruð dollara í hverjum mánuði að hætta að reykja maríjúana. Ég fæ ekki lengur ofskynjanir og líkamleg og andleg heilsa hefur batnað.
Líf mitt hefur öðlast stefnu og tilgang sem ég hef þráð síðan ég var unglingur. Og það sem skiptir mestu máli, ég hef getað nálgast Guð. – Jakobsbréfið 4:8.
„Ég hef lært að hafa stjórn á reiðinni.“ – MARTINO PEDRETTI
ALDUR: 43
FÖÐURLAND: ÁSTRALÍA
FORSAGA: FÍKNIEFNASALI
FORTÍÐ MÍN: Fjölskyldan mín fluttist oft meðan ég ólst upp. Við bjuggum í litlum bæjum, stórborg og um tíma með frumbyggjum á einangruðu svæði í Ástralíu. Ég á góðar minningar frá þeim tíma með frændum og frænkum við veiðar, að búa til bjúgverpil eða skera út hluti.
Faðir minn var hnefaleikari og byrjaði að kenna mér að boxa þegar ég var mjög ungur. Ég varð mjög ofbeldisfullur. Á unglinsárunum eyddi ég miklum tíma við drykkju á börum. Við vinir mínir leituðum að slagsmálum. Við réðumst á 20 manna hópa eða stærri með hnífum og hafnarboltakylfum.
Ég aflaði fjár með því að selja fíkniefni og stolinn varning. Ég rukkaði líka fyrir fíkniefnasala og hótaði fólki með skotvopnum. Takmarkið var að verða launmorðingi. Einkunnarorð mitt var: Drepa eða verða drepinn.
HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU: Ég hafði heyrt um votta Jehóva þegar ég ólst upp. Þegar ég var rúmlega tvítugur spurði ég móður mína hvort hún þekkti einhvern þeirra. Tveim dögum síðar bankaði vottur að nafni Dixon upp á hjá mér. Við töluðum saman um stund og síðan bauð hann mér á samkomu Votta Jehóva. Ég fór á þessa samkomu og hef síðan þá sótt samkomur í meira en 20 ár. Vottarnir gátu svarað öllum spurningum sem ég var með út frá Biblíunni.
Ég var ánægður þegar ég skildi að Jehóva hefur áhuga á einstaklingum, jafnvel þeim sem eru óguðlegir. (2. Pétursbréf 3:9) Ég komst að því að hann er kærleiksríkur faðir sem fylgist með mér jafnvel þegar enginn annar gerir það. Mér létti líka mikið þegar ég skildi að hann myndi fyrirgefa syndir mínar ef ég breytti um lífsstefnu. Það sem segir í Efesusbréfinu 4:22–24 hafði mikil áhrif á mig. Það hvatti mig til að „afklæðast hinum gamla manni“ og „íklæðast hinum nýja manni sem er skapaður samkvæmt vilja Guðs“.
Það tók tíma að breyta um lífsstíl. Ég hélt út alla vikuna án þess að snerta fíkniefni en lét undan um helgar þegar ég var með vinum mínum. Ég áttaði mig á því að ég þyrfti að flytja burt frá félögunum ef ég vildi hreinsa til í lífi mínu svo að ég ákvað að flytja til annars landshluta. Sumir vina minna buðust til að koma með mér og ég þáði það. Á ferðalaginu fóru þeir að reykja maríjúana og buðu mér. Ég sagði þeim að ég ætlaði að breyta um lífsstíl. Leiðir skildu og ég hélt einn áfram. Ég frétti síðar að þeir hefðu rænt banka með afsagaðri byssu.
HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS: Þegar ég hætti að umgangast þessa félaga var miklu auðveldara að gera breytingar á lífinu. Ég skírðist sem vottur Jehóva árið 1989. Eftir að ég skírðist byrjuðu systir mín, móðir og faðir að þjóna Jehóva líka.
Ég hef verið giftur í 17 ár og á þrjú yndisleg börn. Ég hef lært að hafa stjórn á reiðinni, jafnvel þegar mér er ögrað. Og ég hef lært að elska fólk af öllum „ættflokkum, kynþáttum og tungum“. (Opinberunarbókin 7:9) Orð Jesú hafa reynst sönn. Hann sagði: „Ef þið fylgið orðum mínum staðfastlega eruð þið sannir lærisveinar mínir og þið munuð þekkja sannleikann og sannleikurinn veitir ykkur frelsi.“ – Jóhannes 8:31, 32.
[Innskot]
Til að geta gert þessar breytingar þurfti ég að losa mig við tónlist sem kyndir undir kynþáttafordóma.
[Innskot]
Við vinir mínir leituðum að slagsmálum. Við réðumst á 20 manna hópa eða stærri með hnífum og hafnarboltakylfum.