Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 22

Jósef varpað í fangelsi

Jósef varpað í fangelsi

JÓSEF er aðeins 17 ára þegar farið er með hann til Egyptalands. Þar er hann seldur manni sem heitir Pótífar. Pótífar starfar fyrir konung Egyptalands sem kallaður er Faraó.

Jósef vinnur vel fyrir húsbónda sinn. Þegar Jósef eldist setur Pótífar hann því yfir allt hús sitt. Hvers vegna er Jósef þá kominn í fangelsi? Það er vegna eiginkonu Pótífars.

Sem fullorðinn maður er Jósef orðinn mjög myndarlegur og kona Pótífars vill fá hann til að leggjast með sér. En Jósef veit að það er rangt og vill ekki gera það. Kona Pótífars verður mjög reið. Þegar eiginmaður hennar kemur heim skrökvar hún að honum og segir: ‚Þessi slæmi Jósef reyndi að leggjast með mér!‘ Pótífar trúir konu sinni og er afar reiður við Jósef. Hann lætur þess vegna varpa honum í fangelsi.

Yfirmaður fangelsisins uppgötvar fljótt að Jósef er góður maður. Hann lætur hann þar af leiðandi hafa umsjón með öllum hinum föngunum. Seinna reiðist Faraó byrlara sínum og bakara og varpar þeim í fangelsi. Nótt eina dreymir þá hvorn um sig sérstakan draum en þeir vita ekki hvað draumarnir merkja. Næsta dag segir Jósef: ‚Segið mér drauma ykkar.‘ Þeir gera það og með hjálp Guðs útskýrir Jósef hvað draumar þeirra þýða.

Jósef segir við byrlarann: ‚Eftir þrjá daga verður þú leystur úr fangelsi og þú munt aftur verða byrlari Faraós.‘ Síðan bætir hann við: ‚Segðu Faraó frá mér þegar þú kemur út og hjálpaðu mér að losna héðan.‘ En við bakarann segir Jósef: ‚Eftir aðeins þrjá daga mun Faraó láta hálshöggva þig.‘

Að þrem dögum liðnum fer allt eins og Jósef hefur sagt. Faraó lætur hálshöggva bakarann en byrlaranum er sleppt úr fangelsi og hann fer aftur að þjóna konunginum. En byrlarinn steingleymir Jósef! Hann segir Faraó ekki frá honum og Jósef verður að dúsa áfram í fangelsi.