Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 15

Kona Lots horfði um öxl

Kona Lots horfði um öxl

LOT og fjölskylda hans bjuggu ásamt Abraham í Kanaanlandi. Dag einn sagði Abraham við Lot: ‚Það er ekki nægilegt landrými hér fyrir allar skepnurnar okkar. Við skulum þess vegna fara hvor frá öðrum. Ef þú ferð í aðra áttina þá mun ég fara í hina.‘

Lot leit út yfir landið. Hann sá mjög fallegt landsvæði þar sem var vatn og nóg af grasi handa skepnunum hans. Þetta var svæðið í kringum Jórdan. Þess vegna fluttist Lot þangað með fjölskyldu sína og fénað. Að lokum settust þau að í borginni Sódómu.

Fólkið í Sódómu var mjög slæmt. Lot gramdist það af því að hann var góður maður. Guði gramdist það líka. Að lokum sendi Guð tvo engla til að vara Lot við því að hann ætlaði að eyða Sódómu og nærliggjandi borg, Gómorru, vegna illsku íbúanna í þessum borgum.

Englarnir sögðu við Lot: ‚Flýttu þér! Taktu konu þína og dætur þínar tvær og farðu burt héðan!‘ Lot og fjölskylda hans voru svolítið sein að koma sér af stað og þess vegna tóku englarnir í hendur þeirra og leiddu þau út úr borginni. Síðan sagði annar engillinn: ‚Forðið ykkur! Líf ykkar liggur við! Lítið ekki aftur fyrir ykkur. Hlaupið til fjallanna til þess að þið farist ekki.‘

Lot og dætur hans hlýddu og hlupu burt frá Sódómu. Þau stönsuðu ekki eitt augnablik og litu ekki aftur fyrir sig. En kona Lots óhlýðnaðist. Eftir að þau voru komin nokkurn spöl frá Sódómu staðnæmdist hún og leit við. Varð hún þá að saltstöpli. Sérðu hana á myndinni?

Við getum lært góða lexíu af þessu atviki. Það sýnir að Guð bjargar þeim sem hlýða honum en þeir sem hlýða honum ekki munu týna lífinu.