Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 107

Stefán grýttur

Stefán grýttur

MAÐURINN, sem liggur þarna á hnjánum, heitir Stefán. Hann er trúfastur lærisveinn Jesú. En sjáðu hvað mennirnir eru að gera! Þeir eru að kasta stórum steinum í hann. Hvers vegna hata þeir Stefán svo mikið að þeir skuli sýna honum slíka grimmd? Við skulum sjá það.

Guð hefur hjálpað Stefáni að gera dásamleg kraftaverk. Þessum mönnum líkar það alls ekki og fara þess vegna til hans og byrja að þræta við hann af því að hann kennir fólki sannleikann. En Guð gefur Stefáni mikla visku og hann sýnir fram á að kenningar þessara manna eru ekki sannar. Þá verða þeir enn reiðari. Þeir grípa hann og leiða fram fólk til að ljúga um hann.

Æðsti presturinn spyr Stefán: ‚Er þetta satt?‘ Stefán svarar með því að halda góða ræðu út frá Biblíunni. Í lok ræðunnar segir hann frá því hvernig vondir menn hötuðu spámenn Jehóva fyrr á tímum. Síðan segir hann: ‚Þið eruð alveg eins og þessir menn. Þið drápuð Jesú, þjón Guðs, og þið hafið ekki hlýtt lögum Guðs.‘

Nú verða trúarleiðtogarnir bálreiðir! Þeir gnísta tönnum af reiði. En Stefán horfir til himins og segir: ‚Sjáið! Ég sé Jesú standa við hægri hönd Guðs á himni.‘ Þegar mennirnir heyra þetta grípa þeir fyrir eyrun og þjóta að Stefáni. Þeir þrífa í hann og draga hann út fyrir borgina.

Þar fara þeir úr yfirhöfnum sínum og láta ungan mann, sem heitir Sál, gæta þeirra. Sérðu Sál? Síðan byrja nokkrir mannanna að kasta steinum í Stefán. Stefán leggst á hnén, eins og þú sérð, og biður til Guðs: ‚Jehóva, láttu þá ekki gjalda fyrir þetta illskuverk.‘ Hann veit að trúarleiðtogarnir hafa blekkt suma þeirra. Að því búnu deyr Stefán.

Reynir þú að borga í sömu mynt þegar einhver gerir þér illt? Biður þú Guð um að refsa þeim? Það gerðu hvorki Stefán né Jesús. Þeir voru góðir jafnvel við fólk sem kom illa fram við þá. Við skulum reyna að líkja eftir fordæmi þeirra.