Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

12. KAFLI

Hann talaði ekki til þeirra án dæmisagna

Hann talaði ekki til þeirra án dæmisagna

1–3. (a) Hvaða einstöku blessunar njóta lærisveinarnir sem ferðast með Jesú og hvernig auðveldar hann þeim að muna það sem hann kennir? (b) Af hverju er auðvelt að muna áhrifaríkar líkingar og dæmisögur?

 LÆRISVEINARNIR sem ferðast með Jesú njóta þeirrar einstöku blessunar að mega læra milliliðalaust af kennaranum mikla. Þeir fá að heyra rödd hans þegar hann lýkur upp fyrir þeim orði Guðs og kennir þeim hrífandi sannindi. Enn sem komið er þurfa þeir að geyma dýrmæt orð hans í huga sér og hjarta því að það er ekki komið að því að færa þau í letur. a En Jesús auðveldar þeim að muna orð sín með því að beita viðeigandi kennsluaðferðum, ekki síst með því að segja dæmisögur.

2 Menn gleyma ógjarnan áhrifaríkum líkingum og dæmisögum. Rithöfundur bendir á að dæmisögur „breyti eyrum í augu“ og „leyfi áheyrendum að hugsa í myndum“. Þar sem við hugsum oft best í myndum geta dæmisögur jafnvel auðveldað okkur að meðtaka óhlutstæðar hugmyndir. Líkingar og dæmisögur geta blásið lífi í orðin þannig að lærdómurinn festist okkur í minni.

3 Enginn kennari hefur beitt líkingum og dæmisögum af meiri snilld en Jesús Kristur. Þær eru fólki minnisstæðar enn þann dag í dag. Af hverju beitti hann þessari kennsluaðferð ríkulega? Hvers vegna voru dæmisögur hans svona áhrifamiklar? Hvernig getum við lært að beita þessari kennsluaðferð?

Af hverju kenndi Jesús með dæmisögum?

4, 5. Af hverju kenndi Jesús með dæmisögum?

4 Í Biblíunni eru nefndar tvær mikilvægar ástæður fyrir því að Jesús kenndi með dæmisögum. Í fyrsta lagi var hann að uppfylla spádóm með því. Við lesum í Matteusi 13:34, 35: „Jesús sagði allt þetta í dæmisögum. Hann talaði reyndar ekki til mannfjöldans án dæmisagna því að það átti að rætast sem spámaðurinn sagði: ‚Ég tala í dæmisögum.‘“ Spámaðurinn sem Matteus nefnir er sá sem færði í letur orðin í Sálmi 78:2. Sálmaskáldið var innblásið af anda Guðs öldum áður en Jesús fæddist. Hugsaðu þér! Jehóva hafði ákveðið mörgum öldum áður en Messías kom fram að hann skyldi kenna með dæmisögum. Jehóva hlýtur að þykja þetta mikilvæg kennsluaðferð.

5 Í öðru lagi benti Jesús á að hann notaði dæmisögur til að skilja frá þá sem voru komnir með ‚ónæm hjörtu‘. (Matteus 13:10–15; Jesaja 6:9, 10) Með hvaða hætti drógu dæmisögurnar fram þær hvatir sem bjuggu innra með fólki? Í sumum tilfellum vildi Jesús fá áheyrendur til að biðja um skýringu til að þeir gætu skilið orð hans að fullu. Auðmjúkt fólk var tilbúið til að spyrja en þeir sem voru stærilátir eða áhugalausir spurðu einskis. (Matteus 13:36; Markús 4:34) Dæmisögur Jesú opinberuðu sannleikann fyrir þeim sem hungraði eftir honum en héldu honum leyndum fyrir þeim sem voru stærilátir.

6. Hvaða jákvæðu áhrif höfðu líkingar og dæmisögur Jesú?

6 Dæmisögur Jesú höfðu ýmis önnur jákvæð áhrif. Þær vöktu áhuga þannig að fólk hlustaði með athygli. Þær drógu upp skýrar og auðskildar myndir í huga fólks. Eins og fram kom í byrjun kaflans voru dæmisögur og líkingar Jesú góð hjálp til að muna það sem hann sagði. Fjallræðan, sem er skráð í Matteusi 5:3–7:27, er prýðisdæmi um það hve ríkulega Jesús notaði þessa kennslutækni. Þar má finna meira en 50 dæmi um myndmál. Til að sjá þessa tölu í réttu ljósi má nefna að hægt er að lesa ræðuna upphátt á um það bil 20 mínútum. Miðað við þann hraða rekumst við að meðaltali á myndmál á næstum 20 sekúndna fresti! Ljóst er að Jesús taldi mikilvægt að nota myndmál.

7. Hvers vegna ættum við að nota líkingar og dæmisögur að fyrirmynd Jesú?

7 Sem fylgjendur Krists viljum við líkja eftir kennsluaðferðum hans, til dæmis þeirri aðferð að beita líkingum og dæmisögum. Viðeigandi myndmál getur haft þau áhrif að við náum betur til fólks þegar við kennum, rétt eins og hægt er að gera mat lystugri með því að krydda hann. Vel valið myndmál getur einnig auðveldað fólki að meðtaka mikilvæg sannindi. Við skulum nú líta nánar á sumt af því sem gerir líkingar og dæmisögur Jesú jafn áhrifaríkar og raun ber vitni. Þá áttum við okkur á því hvernig við getum beitt þessari ágætu kennsluaðferð sem best.

Einfaldur samanburður

Hvernig notaði Jesús fuglana og blómin til að sýna fram á að Guð lætur sér annt um okkur?

8, 9. Hvernig notaði Jesús einfaldan samanburð og af hverju var það áhrifaríkt?

8 Jesús gerði oft samanburð með fáeinum vel völdum orðum. Með einföldu máli dró hann upp skýrar myndir í hugum fólks til að kenna mikilvæg andleg sannindi. Þegar hann hvatti lærisveinana til að hafa ekki áhyggjur af daglegum nauðsynjum benti hann til dæmis á „fugla himinsins“ og vakti athygli á „liljum vallarins“. Fuglarnir sá hvorki né uppskera og liljurnar vinna ekki eða spinna. Guð annast þau engu að síður. Lærdómurinn er augljós – fyrst Guð lætur sér annt um fuglana og blómin hlýtur hann að annast mennina sem einbeita sér fyrst og fremst að ríki hans. – Matteus 6:26, 28–33.

9 Jesús greip einnig oft til þess að nota myndhvörf. Þau fela í sér enn sterkari samanburð og byggjast á því að tala eins og einn hlutur sé annar. Jesús gætti þess einnig að samlíkingarnar væru einfaldar. Einu sinni sagði hann við lærisveinana: „Þið eruð ljós heimsins.“ Það fór varla hjá því að þeir skildu samlíkinguna. Með orðum sínum og verkum gátu þeir látið ljós sannleikans skína og hjálpað öðrum að lofa Guð. (Matteus 5:14–16) Af öðrum myndhvörfum sem Jesús notaði má nefna: „Þið eruð salt jarðar“ og „Ég er vínviðurinn og þið eruð greinarnar.“ (Matteus 5:13; Jóhannes 15:5) Myndmál sem þetta er kröftugt í einfaldleika sínum.

10. Nefndu dæmi um líkingar sem hægt er að nota við kennslu.

10 Hvernig geturðu notað líkingar þegar þú kennir? Þú þarft ekki að upphugsa langar og flóknar sögur. Reyndu að láta þér detta í hug einfaldan samanburð. Segjum að þú sért að ræða um upprisuna og þig langi til að sýna fram á að það sé vandalaust fyrir Jehóva að reisa upp dána. Hvaða samlíking kemur upp í hugann? Í Biblíunni er dauðanum líkt við svefn. Þú gætir sagt: „Það er jafn auðvelt fyrir Guð að vekja fólk upp frá dauðum eins og fyrir okkur að vekja mann af svefni.“ (Jóhannes 11:11–14) Segjum að þig langi til að sýna fram á að börn þurfi að fá ást og umhyggju til að dafna. Hvaða dæmi gætirðu notað? Í Biblíunni er brugðið upp þessari samlíkingu: Börn eru „eins og angar ólívutrésins“. (Sálmur 128:3) Þú gætir sagt: „Börn þurfa að fá ást og umhyggju líkt og tré þarf sólskin og vatn.“ Því einfaldari sem samlíkingin er, þeim mun auðveldara eiga áheyrendur með að skilja kjarna málsins.

Sóttar í daglegt líf

11. Hvernig endurspegla dæmisögur Jesú daglegt líf á uppvaxtarárum hans í Galíleu? Nefndu dæmi.

11 Jesús var snillingur í að segja dæmisögur og líkingar sem tengdust daglegu lífi fólks. Margar þeirra endurspegla daglegar aðstæður sem hann hafði trúlega kynnst á uppvaxtarárunum í Galíleu. Hugsum eitt augnablik til æskuára hans. Hversu oft ætli hann hafi ekki séð móður sína mala korn, bæta súrdeigi í nýtt deig, kveikja á lampa eða sópa gólf? (Matteus 13:33; 24:41; Lúkas 15:8) Hversu oft ætli hann hafi ekki horft á fiskimenn leggja net sín í Galíleuvatn? (Matteus 13:47) Og hversu oft ætli hann hafi ekki séð börn að leik á markaðstorginu? (Matteus 11:16) Jesús hefur eflaust gefið gaum að mörgu öðru úr daglegu lífi sem hann nefnir í dæmisögum sínum – sáningu, ánægjulegum brúðkaupsveislum og korni á ökrum sem þroskast í sólinni. – Matteus 13:3–8; 25:1–12; Markús 4:26–29.

12, 13. Af hverju vekur athygli að Jesús skuli tala um veginn sem lá „frá Jerúsalem niður til Jeríkó“ í dæmisögunni um miskunnsama Samverjann?

12 Í dæmisögum sínum nefnir Jesús ýmislegt sem áheyrendur hans þekktu mætavel. Dæmisagan um miskunnsama Samverjann hefst til dæmis þannig: „Maður var á leið frá Jerúsalem niður til Jeríkó þegar ræningjar réðust á hann, afklæddu hann og börðu. Þeir fóru síðan og skildu hann eftir nær dauða en lífi.“ (Lúkas 10:30) Við tökum eftir að Jesús talar um veginn „frá Jerúsalem niður til Jeríkó“. Þegar hann sagði dæmisöguna var hann staddur í Júdeu, ekki langt frá Jerúsalem, þannig að áheyrendur hans þekktu eflaust veginn sem hann talaði um. Vegurinn var álitinn hættulegur, einkum fyrir þá sem voru einir á ferð. Hann hlykkjaðist um óbyggðir þar sem ræningjar áttu auðvelt með að felast.

13 Jesús nefnir annað kunnuglegt atriði varðandi veginn „frá Jerúsalem niður til Jeríkó“. Í dæmisögunni fór prestur og síðan Levíti þessa sömu leið en hvorugur nam staðar til að liðsinna hinum særða. (Lúkas 10:31, 32) Prestarnir þjónuðu í musterinu í Jerúsalem og Levítarnir voru þeim til aðstoðar. Margir prestar og Levítar bjuggu í Jeríkó milli þess sem þeir voru við störf í musterinu, enda voru ekki nema 23 kílómetrar milli borganna. Þar af leiðandi sáust þeir oft þar á ferð. Og við tökum líka eftir að ferðalangurinn fór „niður“ veginn „frá Jerúsalem“ en ekki upp hann. Áheyrendur hafa skilið þetta mætavel. Jerúsalem stóð hærra en Jeríkó þannig að ferðalangur fór „niður til Jeríkó“ þegar hann fór „frá Jerúsalem“. b Ljóst er að Jesús tók mið af þekkingu áheyrenda.

14. Hvernig getum við haft áheyrendur í huga þegar við bregðum upp líkingum og dæmisögum?

14 Þegar við bregðum upp líkingum og dæmisögum þurfum við líka að taka mið af áheyrendum. Hvað gæti haft áhrif á það hvers konar dæmi við tökum? Hugsanlega aldur áheyrenda, atvinna, menning eða uppruni. Líking sem er dregin af búskap skilst sennilega betur í sveitum en í fjölmennri borg. Við gætum líka sótt viðeigandi dæmi og líkingar í daglegt líf áheyrenda, dæmi tengd börnum þeirra, heimili, áhugamálum eða mataræði.

Sóttar í sköpunarverkið

15. Af hverju kemur ekki á óvart að Jesús skyldi þekkja sköpunarverkið vel?

15 Margar af dæmisögum Jesú vitna um þekkingu hans á náttúrunni, þar á meðal jurtum, dýrum og náttúruöflunum. (Matteus 16:2, 3; Lúkas 12:24, 27) Hvaðan hafði hann þessa þekkingu? Eflaust hefur hann haft gott tækifæri til að virða sköpunarverkið fyrir sér meðan hann var að alast upp í Galíleu. En eflaust vegur þyngra að Jesús er „frumburður alls sem er skapað“ og Jehóva notaði hann sem ‚listasmið‘ þegar hann skapaði alla hluti. (Kólossubréfið 1:15, 16; Orðskviðirnir 8:30, 31) Er þá nokkur furða að Jesús skyldi kunna góð skil á sköpunarverkinu? Könnum hvernig hann nýtti sér þessa þekkingu.

16, 17. (a) Hvað bendir til þess að Jesús hafi þekkt vel hvernig sauðfé hegðar sér? (b) Hvaða dæmi sýnir að sauðir hlusta í raun og veru á rödd fjárhirðisins?

16 Við munum að Jesús kallaði sjálfan sig ‚góða hirðinn‘ og fylgjendur sína „sauðina“. Af orðum hans má ráða að hann hafi verið vel kunnugur hvernig sauðfé hegðaði sér. Hann vissi hve náin tengsl voru milli fjárhirðis og sauðanna. Hann veitti því athygli að sauðir voru tryggar og auðsveipar skepnur og fylgdu fjárhirðinum dyggilega. Af hverju fylgja sauðir fjárhirðinum? „Því að þeir þekkja rödd hans,“ sagði Jesús. (Jóhannes 10:2–4, 11) Þekkja sauðir í raun og veru rödd fjárhirðisins?

17 George A. Smith segir frá eigin reynslu í bókinni The Historical Geography of the Holy Land: „Stundum tókum við okkur síðdegishvíld við einn af brunnunum í Júdeu þar sem þrír eða fjórir fjárhirðar komu með hjarðir sínar. Hjarðirnar blönduðust og okkur var spurn hvernig hirðunum myndi ganga að finna sína eigin sauði aftur. En þegar búið var að brynna fénu og það hafði leikið sér um stund gengu hirðarnir hver í sína áttina og kölluðu hver sitt sérkennandi kall. Féð dró sig þá út úr kösinni og elti þá jafn skipulega og það hafði komið.“ Jesús gat tæplega valið betri samlíkingu til að koma kennslu sinni til skila, það er að segja að við njótum gæslu ‚góða hirðisins‘ ef við þekkjum kenningar hans, hlýðum þeim og fylgjum leiðsögn hans.

18. Hvar getum við fundið upplýsingar um sköpunarverk Jehóva?

18 Hvernig getum við lært að nota líkingar og dæmisögur sóttar í sköpunarverkið? Einkenni dýra geta verið efniviður í einfaldar en áhrifaríkar samlíkingar. Hvar getum við fundið upplýsingar um sköpunarverk Jehóva? Í Biblíunni er mikill sjóður upplýsinga um alls konar dýr, og stundum eru einkenni dýra notuð þar til kennslu. Þar er til dæmis minnst á að vera frár á fæti eins og gasella eða hlébarði, varkár eins og höggormur og saklaus eins og dúfa. c (1. Kroníkubók 12:8; Habakkuk 1:8; Matteus 10:16) Einnig er hægt að leita fanga í Varðturninum og Vaknið! og enn fremur í greinum og myndböndum í flokknum „Býr hönnun að baki?“ á jw.org. Hægt er að læra heilmikið af því hvernig undur sköpunarverksins eru notuð í þessum heimildum til að gera einfaldan samanburð.

Sóttar í atburði sem áheyrendur þekkja

19, 20. (a) Hvernig notaði Jesús nýlegan atburð til að afhjúpa ranga kenningu? (b) Hvernig getum við notað raunsönn dæmi þegar við kennum?

19 Hægt er að byggja áhrifaríkar líkingar á raunsönnum atburðum og dæmum. Einu sinni notaði Jesús nýlegan atburð til að hrekja þá ranghugmynd að þeir sem verðskulda ógæfu verði fyrir henni. Hann sagði: „Þeir 18 sem dóu þegar turninn í Sílóam féll á þá – haldið þið að þeir hafi verið sekari en allir aðrir Jerúsalembúar?“ (Lúkas 13:4) Þessir 18 menn dóu ekki vegna þess að þeir hefðu syndgað og kallað yfir sig vanþóknun Guðs heldur var það „tími og tilviljun“ sem olli þessu hörmulega banaslysi. (Prédikarinn 9:11) Jesús hrakti ranga kenningu með því að vitna til atburðar sem áheyrendur þekktu vel.

20 Hvernig getum við notað raunsönn dæmi og atburði þegar við kennum? Segjum að þú sért að ræða uppfyllingu spádóms Jesú um tákn nærveru hans. (Matteus 24:3–14) Þá gætirðu vitnað til nýlegra frétta af styrjöldum, hungursneyð eða jarðskjálftum til að sýna fram á að ákveðnir þættir táknsins séu að rætast. Eða segjum að þú viljir nota nýlegt dæmi til að lýsa þeim breytingum sem fólk þarf að gera til að íklæðast hinum nýja manni. (Efesusbréfið 4:20–24) Hvar geturðu fundið dæmi af þessu tagi? Þú gætir ef til vill notað fjölbreytta reynslusögu trúsystkina þinna eða vitnað í frásögu sem birst hefur í einhverju af ritum Votta Jehóva. Einnig er hægt að finna frásögur í flokknum „Biblían breytir lífi fólks“ á jw.org.

21. Hvaða laun hefur það í för með sér að vera góður biblíukennari?

21 Það er óhætt að segja að Jesús hafi verið framúrskarandi kennari. Hann helgaði sig því að kenna og boða fagnaðarboðskapinn eins og fram hefur komið í þessum hluta bókarinnar. (Matteus 4:23) Við höfum helgað okkur því sama. Það hefur mikil laun í för með sér að vera góður kennari. Með því að kenna erum við að gefa og það er gleðigjafi. (Postulasagan 20:35) Gleðin og hamingjan er fólgin í þeirri vitneskju að við erum að miðla sannleikanum um Jehóva og það hefur raunverulegt og varanlegt gildi. Við njótum einnig þeirrar gleði sem fylgir því að vita að við erum að líkja eftir Jesú, mesta kennara sem verið hefur hér á jörð.

a Fyrsta innblásna heimildin um ævi Jesú hér á jörð mun hafa verið Matteusarguðspjall sem var skrifað um átta árum eftir dauða Jesú.

b Jesús sagði einnig að presturinn og Levítínn hefðu verið á leið „frá Jerúsalem“ þannig að þeir voru á leið frá musterinu. Það var því ekki hægt að afsaka skeytingarleysi þeirra með því að þeir hefðu forðast manninn sem virtist látinn af því að þeir vildu ekki verða óhæfir um tíma til að þjóna í musterinu. – 3. Mósebók 21:1; 4. Mósebók 19:16.

c Í Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 268, 270–271, er að finna ítarlegt yfirlit yfir það hvernig eiginleikar dýra eru notaðir í táknrænni merkingu í Biblíunni. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.