14. KAFLI
Fólk kom til hans hópum saman
1–3. Hvað gerist þegar foreldrar koma með börn sín til Jesú og hvað segir þetta atvik um hann?
JESÚS veit að hann á skammt eftir ólifað hér á jörð. Hann á aðeins fáeinar vikur eftir og enn er margt ógert. Hann er að prédika með postulunum í Pereu sem er svæði austan Jórdanar. Þeir eru á leið suður til Jerúsalem þar sem Jesús sækir síðustu páskahátíðina og jafnframt þá markverðustu.
2 Jesús hefur átt í alvarlegum orðaskiptum við nokkra trúarleiðtoga en þá verða þeir fyrir smá truflun. Fólk hópast að honum með börn sín til að sjá hann. Börnin eru greinilega á mismunandi aldri því að Markús notar sama orð og hann notaði áður um 12 ára barn en Lúkas notar orð sem þýða má „ungbörn“. (Lúkas 18:15; Markús 5:41, 42; 10:13) Og börnum fylgir yfirleitt líf og fjör. Lærisveinar Jesú ávíta foreldrana. Þeir ímynda sér ef til vill að meistarinn eigi of annríkt til að sinna börnum. Hvernig bregst Jesús við?
3 Jesú sárnar þegar hann sér þetta. Út í hverja er hann sár? Börnin? Foreldrana? Nei, hann er sár út í lærisveinana. Hann segir: „Leyfið börnunum að koma til mín. Reynið ekki að hindra þau því að ríki Guðs tilheyrir þeim sem eru eins og þau. Trúið mér, sá sem tekur ekki við ríki Guðs eins og lítið barn kemst alls ekki inn í það.“ Síðan tekur hann börnin „í faðm sér“ og blessar þau. (Markús 10:13–16) Orðalag Markúsar bendir til þess að Jesús hafi faðmað þau ástúðlega og jafnvel vaggað ungbörnum „í örmum sér“ eins og einn þýðandi orðar það. Jesús er greinilega hrifinn af börnum. En við kynnumst líka öðru í fari hans af þessari frásögu – fólk laðast að honum.
4, 5. (a) Af hverju er ljóst að Jesús var alúðlegur í viðmóti? (b) Hvaða spurningar verða skoðaðar í þessum kafla?
4 Ólíklegt er að börnin hefðu laðast að Jesú ef hann hefði verið strangur, kuldalegur eða stærilátur, og varla hefði foreldrunum þótt auðvelt að nálgast hann. Reyndu að sjá þennan atburð fyrir þér. Sérðu ekki hvernig foreldrarnir ljóma af gleði þegar þessi vingjarnlegi maður sýnir hve vænt honum þykir um börn þeirra, lætur í ljós hve dýrmæt þau séu í augum Guðs og blessar þau? Enda þótt mikið hafi hvílt á Jesú á þessum tíma var hann alúðlegastur allra manna.
5 Hverjir aðrir löðuðust að Jesú? Af hverju var svona auðvelt að leita til hans? Og hvernig getum við líkt eftir Jesú að þessu leyti? Könnum málið.
Hvers konar fólk laðaðist að Jesú?
6–8. Hverja umgekkst Jesús mikið og hvaða munur var á afstöðu hans og trúarleiðtoganna til fólks?
6 Þegar þú lest guðspjöllin tekurðu eflaust eftir því að fólk hikaði ekki við að koma til Jesú hópum saman. Oft lesum við til dæmis að „mikill mannfjöldi“ hafi hópast að honum. ‚Mikill fjöldi fylgdi honum frá Galíleu.‘ „Mikill mannfjöldi safnaðist að honum.“ ‚Fólk kom til hans hópum saman.‘ „Mikill fjöldi fólks var í för með honum.“ (Matteus 4:25; 13:2; 15:30; Lúkas 14:25) Já, Jesús var oft umkringdur fjölda fólks.
7 Yfirleitt var þetta almúgafólk sem trúarleiðtogarnir kölluðu með fyrirlitningu „landslýð“. Farísear og prestar sögðu opinskátt: „Þessi almúgi sem kann ekkert í lögunum, hann er bölvaður.“ (Jóhannes 7:49) Rit rabbína á síðari tímum staðfesta að þeir hafi hugsað þannig. Margir trúarleiðtogar fyrirlitu þetta fólk, neituðu að matast með því, versla við það eða umgangast það. Sumir héldu því meira að segja fram að þetta fólk, sem kunni ekki hin munnlegu lög, ætti sér enga upprisuvon. Margt almúgafólk hlýtur að hafa veigrað sér við að leita aðstoðar eða leiðsagnar hjá þessum trúarleiðtogum. En Jesús var gerólíkur þeim.
8 Jesús blandaði óhikað geði við almúgafólk. Hann mataðist með því, læknaði það, kenndi því og veitti því von. Jesús var auðvitað raunsær og vissi að meirihluti fólks myndi ekki nota tækifærið sem bauðst til að þjóna Jehóva. (Matteus 7:13, 14) Hann var hins vegar jákvæður í garð allra og vissi að margir voru færir um að gera hið rétta. Hann var harla ólíkur hinum harðsvíruðu prestum og faríseum. En þótt ótrúlegt sé komu jafnvel prestar og farísear til Jesú og margir þeirra söðluðu um og fylgdu honum. (Postulasagan 6:7; 15:5) Sumir hinna ríku og voldugu löðuðust meira að segja að Jesú. – Markús 10:17, 22.
9. Af hverju hikuðu konur ekki við að leita til Jesú?
9 Konur hikuðu ekki við að koma til Jesú. Oft hljóta þær að hafa fundið fyrir kulda og fyrirlitningu trúarleiðtoganna. Rabbínar höfðu megnustu vanþóknun á því að konur fengju kennslu. Konur máttu ekki einu sinni bera vitni fyrir rétti; þær voru álitnar óáreiðanleg vitni. Rabbínar fóru jafnvel með bæn þar sem þeir þökkuðu Guði að þeir skyldu ekki vera konur. En konur skynjuðu enga slíka fyrirlitningu í fari Jesú. Margar leituðu til hans til að fá kennslu. Til dæmis er sagt frá því að María systir Lasarusar hafi setið við fætur hans og hlustað hugfangin á hann á meðan Marta systir hennar var á þönum við að matbúa. Jesús hrósaði Maríu fyrir að einbeita sér að því sem mestu máli skipti. – Lúkas 10:39–42.
10. Hvaða munur var á framkomu Jesú og framkomu trúarleiðtoganna við sjúka?
10 Sjúkir hópuðust sömuleiðis til Jesú þó að trúarleiðtogarnir litu oft á þá sem óalandi og óferjandi. Í Móselögunum voru ákvæði um að holdsveikir væru settir í sóttkví til að þeir smituðu ekki aðra en auðvitað átti ekki að sýna þeim óvild. (3. Mósebók, 13. kafli) Í síðari tíma reglum rabbína sagði hins vegar að holdsveikir væru jafn ógeðfelldir og saur. Sumir trúarleiðtogar gengu jafnvel svo langt að kasta grjóti að holdsveikum í þeim tilgangi að halda þeim í hæfilegri fjarlægð! Það er erfitt að gera sér í hugarlund að menn hafi getað tekið í sig kjark til að leita til einhvers kennara eftir að hafa sætt slíkri meðferð, en holdsveikir leituðu samt til Jesú. Einn lýsti yfir trú sinni með eftirminnilegum hætti og sagði: „Drottinn, þú getur hreinsað mig ef þú bara vilt!“ (Lúkas 5:12) Í næsta kafla fjöllum við um viðbrögð Jesú við því en þetta dæmi sýnir betur en margt annað að Jesús var viðmótsgóður maður sem fólk átti auðvelt með að leita til.
11. Hvaða dæmi sýnir að þeir sem voru haldnir sektarkennd leituðu óhikað til Jesú og af hverju skiptir það máli?
11 Þeir sem voru haldnir sektarkennd leituðu óhikað til Jesú. Rifjum upp atvik sem átti sér stað þegar Jesús mataðist einu sinni á heimili farísea. Kona sem var þekkt fyrir syndugt líferni kom þangað inn, kraup við fætur Jesú og grét yfir sekt sinni. Hún baðaði fætur hans með tárum sínum og þerraði með hári sínu. Gestgjafann hryllti við þessari sjón og dæmdi Jesú harðlega fyrir að leyfa konunni að koma nærri sér, en Jesús hrósaði henni hlýlega fyrir einlæga iðrun hennar og fullvissaði hana um að Jehóva hefði fyrirgefið henni. (Lúkas 7:36–50) Núna, meira en nokkru sinni fyrr, þurfa þeir sem eru þjakaðir sektarkennd að finna að þeir geti óhikað leitað til annarra sem eru í aðstöðu til að hjálpa þeim að endurheimta gott samband við Guð. Af hverju átti fólk svona auðvelt með að leita til Jesú?
Af hverju laðaðist fólk að Jesú?
12. Af hverju er það engin furða að fólk skyldi eiga auðvelt með að leita til Jesú?
12 Höfum hugfast að Jesús var fullkomin eftirmynd föður síns á himnum. (Jóhannes 14:9) Í Biblíunni erum við minnt á að Jehóva sé „ekki langt frá neinum okkar“. (Postulasagan 17:27) Hann „heyrir bænir“ og er alltaf aðgengilegur fyrir trúa þjóna sína og hvern þann sem þráir í einlægni að finna hann og þjóna honum. (Sálmur 65:2) Hugsaðu þér! Voldugasta og mikilvægasta tignarpersóna alheimsins er sömuleiðis aðgengilegust allra! Jesús elskar fólk líkt og faðir hans. Í köflunum á eftir verður fjallað um kærleikann sem átti sér djúpar rætur í hjarta hans. En fyrst og fremst átti fólk auðvelt með að leita til Jesú vegna þess að það var augljóst að hann elskaði fólk. Könnum nánar hvernig kærleikur Jesú birtist í fari hans.
13. Hvernig geta foreldrar líkt eftir Jesú?
13 Fólk fann að Jesús hafði áhuga á því persónulega. Áhugi hans gufaði ekki upp þegar hann var undir álagi. Eins og rætt var í byrjun kaflans gat fólk komið til hans með börn sín jafnvel þegar hann var önnum kafinn og mikið hvíldi á honum. Þetta er frábært fordæmi fyrir foreldra. Það er engan veginn auðvelt að ala upp börn í heimi nútímans. Engu að síður er afar mikilvægt að börnin finni að þau geti alltaf leitað til foreldra sinna. Ef þú ert foreldri veistu mætavel að stundum ertu of upptekinn til að sinna barninu þínu þegar það þarf á því að halda. Geturðu þá fullvissað barnið um að þú munir taka þér tíma til þess eins fljótt og hægt er? Þegar þú stendur við orð þín lærir barnið að þolinmæði borgar sig. Það lærir einnig að það getur alltaf leitað til þín og borið upp áhyggjur sínar eða vandamál.
14–16. (a) Hvaða aðstæður leiddu til þess að Jesús vann fyrsta kraftaverkið og hvers vegna var það mikils virði? (b) Hvað segir kraftaverkið í Kana um Jesú og hvað geta foreldrar lært af því?
14 Jesús lét fólk finna að áhyggjur þess skiptu hann máli. Lítum til dæmis á fyrsta kraftaverkið sem hann vann. Hann var þá staddur í brúðkaupsveislu í borginni Kana í Galíleu. Þá kom upp vandræðaleg staða – vínið gekk til þurrðar. María móðir Jesú sagði honum frá því. Og hvað gerði Jesús? Hann lét þjónana fylla sex stór steinker með vatni. Þegar veislustjórinn var látinn bragða á því hafði vatnið breyst í úrvalsvín! Var þetta einhver snjöll brella eða blekking hjá Jesú? Nei ‚vatnið var nú orðið að víni‘. (Jóhannes 2:1–11) Menn hefur löngum dreymt um að geta breytt einu efni í annað. Öldum saman reyndu svonefndir gullgerðarmenn að breyta blýi í gull. Þeim tókst það aldrei þó svo að blý og gull séu býsna lík frumefni. a Hvað um vatn og vín? Efnafræðileg gerð vatns er einföld; það er samsett úr tveim frumefnum. Í víni eru næstum þúsund efnasambönd og mörg þeirra flókin. Af hverju ætli Jesús hafi unnið þetta kraftaverk til að leysa jafn ómerkilegt vandamál eins og skort á víni í brúðkaupsveislu?
15 Þetta var ekkert ómerkilegt vandamál fyrir brúðhjónin. Í Mið-Austurlöndum til forna þótti afar mikilvægt að gera vel við boðsgesti. Ef vín hefði gengið til þurrðar í brúðkaupsveislu hefði það orðið brúðhjónunum til mikillar skammar og hneisu. Það hefði varpað skugga á brúðkaupsdaginn og minningar þeirra um hann. Þetta var heilmikill vandi í þeirra augum og þetta skipti Jesú líka máli þannig að hann tók til sinna ráða. Áttarðu þig nú á því hvers vegna fólk leitaði til hans og bar áhyggjur sínar upp við hann?
16 Foreldrar geta einnig dregið lærdóm af þessu. Segjum að barnið þitt komi til þín og því liggi eitthvað þungt á hjarta. Þú gætir freistast til að gera lítið úr áhyggjum þess. Kannski geturðu ekki stillt þig um að hlæja að því. Vandamál barnsins virðist ef til vill harla ómerkilegt í samanburði við það sem hvílir á þér. En mundu samt að þetta er ekkert ómerkilegt í augum barnsins. Ef það skiptir miklu máli fyrir barnið sem þú elskar, ætti það þá ekki að skipta miklu máli fyrir þig líka? Ef barnið finnur að þú hlustar á áhyggjur þess sýnirðu að þú ert foreldri sem er auðvelt að leita til.
17. Hvernig sýndi Jesús mildi og af hverju er hún styrkleikamerki?
17 Jesús var mildur og lítillátur eins og fjallað var um í 3. kafla. (Matteus 11:29) Mildi er góður eiginleiki og skýrt merki um að manneskja sé lítillát í hjarta sér. Mildi er einn af ávöxtum heilags anda Guðs og hún er nátengd viskunni sem hann lætur í té. (Galatabréfið 5:22, 23; Jakobsbréfið 3:13, neðanmáls) Jesús hélt ró sinni jafnvel þegar honum var ögrað hvað mest. Mildi hans var sannarlega enginn veikleiki. Fræðimaður segir um þennan eiginleika: „Að baki ljúfmennskunni býr styrkur stálsins.“ Það þarf styrk til að halda stillingu sinni og vera mildur í framkomu við aðra. En Jehóva blessar viðleitni okkar þegar við leggjum okkur fram. Við getum þá líkt eftir mildi Jesú og verðum fyrir vikið þægilegri í viðmóti.
18. Hvaða dæmi lýsir vel að Jesús var sanngjarn og af hverju heldurðu að það sé auðvelt að leita til fólks með þennan eiginleika?
18 Jesús var sanngjarn. Í Týrus leitaði kona ásjár hjá honum vegna þess að dóttir hennar var „sárþjáð af illum anda“. Jesús lét í ljós á þrjá vegu að hann hygðist ekki gera það sem hún fór fram á. Fyrst svaraði hann henni ekki, síðan sagði hann henni hvers vegna hann ætti ekki að verða við ósk hennar og að síðustu brá hann upp líkingu til að ítreka afstöðu sína. En var hann kuldalegur og ósveigjanlegur í fasi? Gaf hann í skyn að hún væri komin út á hálan ís að voga sér að andmæla svona miklum manni eins og hann væri? Nei, konan hikaði greinilega ekki við að leita til hans. Hún bað hann ekki aðeins um hjálp heldur hélt því áfram þó að hann virtist ekki ætla að verða við bón hennar. Jesús sá að þrautseigja konunnar var merki um einstaka trú og læknaði dóttur hennar. (Matteus 15:22–28) Fólk var greinilega ófeimið að leita til Jesú vegna þess að hann var sanngjarn, hlustaði og var tilbúinn til að gefa eftir þegar það átti við.
Ert þú þægilegur í viðmóti?
19. Hvernig getum við kannað hvort við séum í alvöru þægileg í viðmóti?
19 Flestir vilja trúa að þeir séu þægilegir í viðmóti. Sumir valdamenn og yfirboðarar segja gjarnan að undirmenn þeirra eigi alltaf greiðan aðgang að þeim og geti leitað til þeirra hvenær sem er. En í Biblíunni er að finna alvarlega viðvörun: „Margir segjast vera kærleiksríkir en hver getur fundið tryggan vin?“ (Orðskviðirnir 20:6) Það er ósköp auðvelt að segja að við séum þægileg í viðmóti en líkjum við í raun og veru dyggilega eftir þessum þætti í fari Jesú? Málið snýst ekki um það hvernig við lítum á sjálf okkur heldur hvaða augum aðrir sjá okkur. Páll sagði: „Verið þekkt fyrir að vera sanngjörn.“ (Filippíbréfið 4:5) Hver og einn ætti því að spyrja sjálfan sig: „Hvernig líta aðrir á mig? Hvaða orð fer af mér?“
20. (a) Af hverju er mikilvægt að safnaðaröldungar séu þægilegir í viðmóti? (b) Hvers vegna ættum við ekki að gera nema sanngjarnar kröfur til öldunga safnaðarins?
20 Safnaðaröldungar leggja sig sérstaklega fram um að vera viðmótsgóðir svo að öðrum finnist auðvelt að leita til þeirra. Þeim er mikið í mun að vera eins og lýst er í Jesaja 32:1, 2: „Hver og einn verður eins og skjól fyrir vindi og skýli í slagviðri, eins og lækir í vatnslausu landi, eins og skuggi af stórum hamri í skrælnuðu landi.“ Öldungur getur því aðeins veitt slíka vernd, endurnæringu og skjól að hann sé viðmótsgóður. Vissulega er þetta ekki alltaf auðvelt vegna þess að öldungar hafa margt á sinni könnu á þeim erfiðu tímum sem við lifum. Þeir reyna engu að síður að gefa ekki öðrum þá hugmynd að þeir séu of uppteknir til að annast sauði Jehóva. (1. Pétursbréf 5:2) Aðrir í söfnuðinum reyna að gera ekki nema sanngjarnar kröfur til þessara dyggu manna og gæta þess að vera bæði hógværir og samvinnuþýðir. – Hebreabréfið 13:17.
21. Hvernig geta foreldrar verið tiltækir til að sinna þörfum barnanna og um hvað er fjallað í næsta kafla?
21 Foreldrar reyna alltaf að vera tiltækir til að sinna þörfum barnanna. Það er mikið í húfi. Börnin þurfa að vita að þeim sé óhætt að trúa foreldrunum fyrir hverju sem er. Kristnir foreldrar gæta þess að vera mildir og sanngjarnir og bregðast ekki harkalega við þegar barn játar einhver mistök eða sýnir af sér rangan hugsunarhátt. Foreldrarnir reyna hvað þeir geta til að viðhalda góðum tjáskiptum við börnin meðan á uppeldinu stendur. Öll viljum við vera viðmótsgóð eins og Jesús. Í næsta kafla verður fjallað um það hve umhyggjusamur Jesús var, en það var eitt af því sem gerði að verkum að fólk leitaði óhikað til hans.
a Þeir sem þekkja til efnafræði vita að blý og gull standa nærri hvort öðru í lotukerfinu. Blýatóm hefur einfaldlega þrjár róteindir umfram gull. Eðlisfræðingum okkar tíma hefur jafnvel tekist að breyta örlitlu af blýi í gull en það er svo orkufrekt að það borgar sig ekki.